Miðvikudagur 05.09.2012 - 08:45 - FB ummæli ()

Jafnréttið og ráðningamálin

Ásta Bjarnadóttir, vinnu- og skipuagssálfræðingur, skrifar afar athyglisverða grein um ráðningamál hjá ríkinu og starfshætti Úrskurðarnefndar jafnréttismála (ÚJ) í Fréttablaðið í gær. Hún segir meðal annars þetta:

“Kærunefnd jafnréttismála er áhrifamikill úrskurðaraðili í deilumálum um opinberar ráðningar hér á landi. Þegar kærunefndin tekur mál til umfjöllunar leggur hún almennt til hliðar fyrra mat sem gert hefur verið og framkvæmir sitt eigið sjálfstæða mat á kæranda og þeim sem var ráðinn. Kærunefndin úrskurðar svo um hæfni þeirra, oft með mjög afgerandi hætti.”

Gallinn við þetta er sá, að ÚJ gerir alla jafna frekar frumstætt mat á hæfni umsækjenda, útskýrir Ásta. Hún er einn helsti sérfræðingur landsins á þessu sviði og hefur farið fyrir mörgum farsælum matsnefndum í ráðningarmálum.

Úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur þannig alltaf síðasta orð um hæfni umsækjenda um topp stöður hjá ríkinu á grundvelli jafnréttislaga – jafnvel þó mat hennar sé ófullkomið og verra en það mat sem ráðherrar láta gera.

Í reynd þýðir þetta að Úrskurðarnefnd jafnréttismála, skipuð þremur lögfræðingum sem hæstiréttur tilnefnir, er eins konar yfirmatsnefnd varðandi hæfni fólks til að gegna öllum æðstu störfum hjá ríkinu. Þetta er æðsta ráðningarnefnd ríkisins – það er að segja ef menn kæra til hennar.

Sjá ekki allir að þetta er fráleitt fyrirkomulag?

Þetta er nefndin sem sakfelldi Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það að hafa ekki ráðið flokkssystur sína í stjórnunarstöðu í forsætisráðuneytinu, þó viðkomandi hafi lent í 5. sæti í mati óháðrar matsnefndar. ÚJ einfaldlega snéri við mati hinna óháðu matsaðila (færði umsækjandann í 5. sæti upp í það fyrsta) og setti þar með ráðherrann á sakamannabekk. Samt er Jóhanna þekkt fyrir einlægan stuðning við jafnrétti kynjanna til lengri tíma. Hún var sett í vonlausa og ósanngjarna stöðu, með vafasömum vinnubrögðum ÚJ.

Nú síðast tók ÚJ snúning á Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. ÚJ gerði sitt eigið einfalda mat, sem Ásta Bjarnadóttir bendir á að er ófullnægjandi frá sjónarmiði jafnréttislaganna. Það er raunar einnig ófullnægjandi ef mið er tekið af auglýsingunni um viðkomandi starf. Þörf var m.a. á mati huglægra þátta skv. auglýsingunni. Mér skilst að ráðuneytið og ráðherrann hafi framkvæmt slíkt mat, en í endanlegu mati ÚJ er bara stuðst við lýsingar í starfsferilsskrá og menntun.

Þar með tókst að setja annan einlægan jafnréttissinna á sakamannabekk, með kúnstum lögfræðinganna í ÚJ! Það er þó ekki eins og Ögmundur sé sakaður um að hafa verið að hygla flokksbróður, ættingja eða vini og klíkubróður, né að hann hafi haft hag af þessari niðurstöðu. Hann svaraði þó klaufalega fyrir þetta í fyrstu og fékk hörð viðbrögð.

Úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur þannig sett þessa tvo nafntoguðu jafnréttissinna og femínista að ósekju á sakamannabekk jafnréttismálanna. Þetta er auðvitað mikil skemmtun fyrir Skrattann! Ójafnaðarsinnar stjórnarandstöðunnar kætast og sjá í þessu réttlætingu á eigin klíkuráðningum.

Það var ekki að ástæðulausu að ég kallaði þessa úrskurðarnefnd í fyrri pistil “súrrealíska úrskurðarnefnd”.

Nú er mál að linni og lögum og starfsháttum á þessu sviði verði breytt. Skylda þarf að faglegar og óháðar matsnefndir meti umsækjendur um allar stjórnunarstöður hjá hinu opinbera. Ef kært er til ÚJ og hún hefur rökstuddan grun um að matið sé ósanngjarnt þá á hún að fara fram á að nýtt mat verði gert af öðrum óháðum fagaðilum, en ekki gera sjálf sitt handarbaksmat með alræðisvaldi.

Að öðrum kosti munum við sjá viðvarandi furðuúrskurði sem í reynd þjóna hvorki markmiðum jafnréttis né fagmennsku hjá ríkinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar