Föstudagur 07.09.2012 - 19:59 - FB ummæli ()

Skuggahlið þingmanns?

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri á DV, hefur slegið öðrum fjölmiðlamönnum á Íslandi við með viðamiklum og víðtækum skrifum sínum um hinar ýmsu hliðar fjármálabrasksins sem setti Ísland á hausinn. Ingi Freyr skilur fjármálaheiminn vel og hefur fyrir því að kafa ofan í gögn og draga upp á yfirborðið aragrúa af upplýsingum sem eiga mikið erindi við almenning.

Mér finnst raunar undrunarefni að aðrir fjölmiðlar skuli ekki miklu oftar vísa til sláandi upplýsinga sem hann hefur komið fram með. Vonandi heldur hann mikilvægu starfi sínu áfram.

Í dag skrifar Ingi Freyr um vafasamar hliðar þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Sjálfstæðisflokki, sem m.a. var aðili að undarlegum málarekstri gegn Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Pistill Inga Freys er hér í heild sinni:

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem hefur verið ákærður fyrir brot á bankaleynd og þagnarskyldu, hefur haldið því fram opinberlega að þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson hafi lekið gögnum um sig í Kastljósið. „Það er fullyrt í mín eyru, af mönnum sem ég treysti og trúi, að Guðlaugur Þór hafi komið gögnunum til Kastljóss sem umfjöllun þáttarins um mig byggði á,“ sagði Gunnar Andersen í viðtali við Fréttablaðið í mars. Guðlaugur Þór hefur ekki einu sinni neitað þessari staðhæfingu Gunnars.

Veit fólk þetta ekki? Finnst engum neitt bogið við það að þjóðkjörinn þingmaður, sem á að starfa með almannahag að leiðarljósi, reyni að koma höggi á forstjóra ríkisstofnunar með þessum hætti? Sérstaklega þegar litið er til þess að umrædd ríkisstofnun rannsakar efnahagsbrot í samfélaginu á árunum fyrir og í kjölfar efnahagshrunsins og hlýtur þar af leiðandi að teljast mikilvæg. Aðgerð Guðlaugs Þórs var því ekki bara persónuleg atlaga að Gunnari sjálfum heldur að þeirri stofnun sem hann stýrði og verkum hennar: Uppgjöri opinberra aðila við hrunið 2008. Það uppgjör þjónar almannahag og er kostað af skattgreiðendum, líkt og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og annað sem ætlað er að varpa ljósi á hrun bankanna. Af hverju ætli Guðlaugur Þór Þórðarson hafi viljað koma höggi á Gunnar, Fjármálaeftirlitið og þar með áðurnefnt uppgjör?

Skósveinar djöflast
Margir þeirra manna sem eru til skoðunar og rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu og sérstökum saksóknara hafa persónulega hagsmuni af því að gera þessar rannsóknir sem tortryggilegastar og hjákátlegastar. Til þess beita þeir alls kyns brögðum. Skósveinar þeirra og léttadrengir beita sér í fjölmiðlum og bak við tjöldin fyrir dúsu, mylsnu af kökunni sem þeir luma á eftir ruplið. Ólafur Arnarson, leigupenni Exista, Pálma Haraldssonar og örugglega fleiri, og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Pálma, Sigurjóns Árnasonar og fleiri Landsbankamanna, fóru mikinn í fjölmiðlum gegn Gunnari og Fjármálaeftirlitinu um svipað leyti og Guðlaugur Þór plantaði gögnunum í Kastljósið, ef marka má orð Gunnars. Umfjöllunin virkaði eins og samantekin aðgerð til að koma Gunnari frá.

Aðskilin mál en þó tengd
Hafa verður í huga að þessi tvö mál eru í reynd aðskilin: Framferði Guðlaugs Þórs gegn almannahagsmunum og ákæran gegn Gunnari sem snýst um að hann hafi aflað bankagagna um þingmanninn og komið þeim til ritstjórnar DV. Guðlaugur Þór gerði það sem hann gerði til að koma höggi á Gunnar löngu áður en Gunnar á að hafa gert það sem hann er ákærður fyrir. Fólk getur á sama tíma haft þá skoðun að hátterni þingmannsins gegn forstjóra ríkisstofnunar sem vinnur að almannahag sé ólíðandi en jafnframt litið svo á að Gunnar hefði ekki átt að gera það sem hann er ákærður fyrir.

Gjörðir Gunnars verða þó hugsanlega skiljanlegri í huga margra þegar túlkun hans sjálfs er skoðuð; hann kann að hafa viljað gjalda Guðlaugi líku líkt, launa honum lambið gráa og á sama tíma afhjúpa spillingu og „eitraða þræði stjórnmála og stórauðvalds“. Sá maður kann að vera dyggðugur og göfugur sem býður hinn vangann, sár eftir atlögu, en Gunnar gerði það ekki í þessu tilfelli – lái honum hver sem vill eftir allar árásirnar frá samverkamönnum þeirra sem hann vann við að rannsaka. Bráðræði Gunnars, sem átti þátt í að kosta hann starfið í Fjármálaeftirlitinu, fríar Guðlaug þó ekki ábyrgð á tilræðinu.

Þó málin tvö séu í reynd aðskilin þá tengjast þau einnig með nokkuð mikilvægum hætti. Gögnin um Guðlaug Þór sem ákæran gegn Gunnari snýst um sýna hvernig þingmaðurinn hagnaðist persónulega um 33 milljónir króna – margföld árslaun flestra venjulegra launþega í landinu – þegar hann seldi vini sínum og fyrrverandi kollega Sigurjóni Árnasyni, nýjum bankastjóra Landsbankans, tryggingamiðlun fyrir svissneskt tryggingafyrirtæki vorið 2003. Guðlaugur Þór hafði unnið að því að ná umboðinu til Búnaðarbankans þegar hann starfaði þar ásamt Sigurjóni. Þegar Sigurjón var fenginn yfir til Landsbankans eftir kaup Björgólfsfeðga á bankanum var það eitt af hans fyrstu verkum að kaupa umboðið af Guðlaugi.

Minni um 33 milljónir
Þegar DV ræddi við Guðlaug um málið á sínum tíma mundi hann hvorki almennilega hvernig hann fjármagnaði kaupin á umboðinu af Búnaðarbankanum né af hverju hin 33 milljóna króna greiðsla kom ekki fram í ársreikningi eignarhaldsfélags hans, Bogmannsins, fyrir árið 2003. „Ég man það ekki alveg en ég held að ég hafi fengið skammtímalán, væntanlega frá Búnaðarbankanum […] „Ég bara hef ekki hugmynd um það. Var þetta ekki 2003? Er ársreikningurinn ekki undirritaður af endurskoðanda? Ég man ekki nákvæmlega allt sem ég gerði árið 2003. Ég kann ekki að segja frá þessu.“
33 milljónir eru hins vegar ágætis búbót fyrir flesta og líklegu myndu margir muna nákvæmlega hvernig þeir eignuðust slíka upphæð – þó ekki Guðlaugur í þessu tilfelli.

Ályktun um spillingu
Á næstu árum eftir einkavæðingu bankanna voru sagðar allnokkrar fréttir um tengsl og aðkomu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að íslensku viðskiptalífi. Þekktasta frásögnin snýst um hvernig hann kom að því, vegna persónulegra tengsla sinna við hluthafa og stjórnendur Landsbankans og bólufyrirtækisins FL Group, að afla Sjálfstæðisflokknum 55 milljóna króna styrkja í árslok 2006.

Einnig var Guðlaugur Þór lykilmaður í því sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur að stofna REI, útrásarverkefni borgarinnar og einkaaðila, sem hefði fært alræmdum auðmönnum yfirráð yfir hluta af Orkuveitu Reykvíkinga ef borgarráð hefði ekki gripið í taumana.

Þá ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sumarið 2010, að Guðlaugur Þór ætti að hætta þingmennsku vegna þess að hann hefði þegið svo háa prófkjörsstyrki frá einkafyrirtækjum. Guðlaugur Þór situr hins vegar enn á Alþingi þrátt fyrir þessa ályktun – þingmaðurinn virðist eiga sér fleiri líf en kötturinn – sem sýnir að flokkurinn vildi helst hreinsa sig af for hans.

Mikilvægi málsins
Mál Gunnars Andersen þarf nú að skoða í samhengi við þessa persónulegu sögu Guðlaugs Þórs. Sömu menn og Gunnar og Fjármálaeftirlitið rannsökuðu veittu Guðlaugi Þór þessa milljóna styrki og aðra fyrirgreiðslu á árunum fyrir hrunið. Málsvörn hans fyrir dómi hlýtur að snúast að hluta til um hvernig það vildi til að þingmaðurinn fékk 33 milljónir króna í vasann fyrir tryggingamiðlun sem annað fjármálafyrirtæki hafði lítinn áhuga á. Þannig kann málareksturinn gegn Gunnari Andersen að varpa ljósi á enn eitt, og kannski áhugaverðara, mál sem tengist Guðlaugi Þór Þórðarsyni og óeðlilegum aðgangi hans að fjárhirslum einkafyrirtækja á þingmannsferli hans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar