Fimmtudagur 06.09.2012 - 21:22 - FB ummæli ()

Ísland og Írland – Ólíkar leiðir í kreppunni

Ísland vekur mikla athygli erlendis fyrir góðan árangur í að klifra upp úr kreppunni. En það vekur líka athygli að Ísland hefur farið aðra leið en flestar aðrar kreppuþjóðirnar.

Hér var lægri og milli tekjuhópum hlíft við afleiðingum kreppunnar en þyngri byrðar lagðar á hærri tekjuhópa, sem meiri greiðslugetu hafa.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að tekjuskiptingin hefur orðið mun jafnari eftir hrun en áður var. Með hækkun skatta á hærri tekjuhópa var einnig haldið aftur af þörf fyrir niðurskurð, sem dró úr þrýstingi til aukins atvinnuleysis.

Mikil hækkun lægstu bóta almannatrygginga og vaxtabóta veitti viðnám gegn samdrætti einkaneyslu, sem einnig hélt fleiri störfum gangandi. Atvinnuleysi varð m.a. þess vegna ekki jafn mikið og hjá öðrum kreppuþjóðum, auk jákvæðra áhrifa af ýmsum átaksverkefnum. Írar lækkuðu hins vegar bætur og lágmarkslaun og hækkuðu skattbyrði lágtekjufólks.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig leiðir Íslands og Írlands eru alveg öndverðar, hvað snertir það hvernig kreppan lagðist á ólíka tekjuhópa. Á Íslandi var þeim tekjulægri hlíft en á Írlandi fengu lágtekjuhópar mestu kjaraskerðinguna um leið og tekjuhærri hópum þar var hlíft.

Myndin sýnir lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna fjölskyldna (í %), eftir tíu tekjuhópum, frá þeim tekjulægstu (vinstra megin á myndinni) til hinna tekjuhæstu (hægra megin á myndinni). Í hverjum tekjuhópi eru 10% fjölskyldna.

Lægsti tekjuhópurinn (þau 10% fjölskyldna sem lægstu tekjurnar höfðu) fékk 9% kjaraskerðingu á Íslandi en um 26% skerðingu á Írlandi. Tekjuhæsti hópurinn á Íslandi missti hins vegar 38% af ráðstöfunartekjum sínum en samsvarandi hópur á Írlandi fékk um 8% hækkun tekna sinna á þessum tíma.

Bæði í Englandi og Bandarikjunum var mynstrið svipað og á Írlandi, þ.e. kreppan lagðist þar með mestum þunga á lægri tekjuhópana.

Íslenska leiðin virðist þannig vera að skila betri árangri en orðið hefur hjá flestum þeim þjóðum sem hvað lengst fóru afvega á áratugnum fyrir kreppu. Ísland náði botni á árinu 2010 og hefur nú hafið kröftugan vöxt kaupmáttar, einkaneyslu og hagvaxtar, um leið og atvinnuleysi dregst saman.

Sumar kreppuþjóðir eru hins vegar enn á leiðinni niður, t.d. Írar, Spánverjar, Grikkir og Portúgalir (sjá nánar um það hér).

Írlandi miðar hægt við að ná sér á strik, því þar er atvinnuleysi enn mikið og hagvaxtarspá fyrir 2012 er miklu lakari en fyrir Ísland. Írlandi er spáð 0,5% hagvexti á þessu ári en Íslandi frá 2,5 til 3%. Írland fór að miklu leyti niðurskurðarleið, sem er skyld þeirri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað hér á landi (sjá líka hér).

Íslenska leiðin er þannig öndverð írsku leiðinni og virðist íslenska leiðin vera að skila mun betri árangri í glímunni við kreppuna – þó hrun Íslands hafi verið stærra en írska hrunið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar