Sunnudagur 09.09.2012 - 08:56 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan fíflar alla

Forlagið  hefur nýlega gefið út bók hagfræðingsins Ha-Joon Chang, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Höfundurinn er virtur fræðimaður við Cambridge háskóla í Englandi. Þessi bók á sérstaklega mikið erindi við Íslendinga.

Bókin fjallar um mörg mikilvæg atriði samtímans á sviði efnahags- og stjórnmála, en er skýr og aðgengileg í framsetningu, fróðleg og skemmtileg í senn, þó hún sé byggð á margvíslegum fræðilegum rannsóknum.

Dæmisögurnar 23 eru í reynd fjölbreytt tilbrigði við grunnstef bókarinnar, sem er gagnrýni á frjálshyggjuboðskapinn um yfirburði óheftra markaðshátta.

Þetta er ekki bók gegn kapítalisma og því síður er þetta bók sem mælir með gamaldags sósíalisma. Þetta er bók um það að fá betri kapítalisma, en þann sem tíðkast hefur síðustu áratugina og nær eingöngu þjónar hagsmunum auðmanna, atvinnurekenda, bankamanna og braskara. Steypti heiminum svo í fjármálakreppu af stærstu gerð.

Þetta er bók sem sýnir hvernig frjálshyggjuhagfræðin hefur fíflað almenning í vestrænum löndum, í vaxandi mæli frá því um 1980.

Ha-Joon Chang tekur fyrir margar af grunn hugmyndum óheftrar markaðshyggju sem tröllriðið hafa hagfræði og stjórnmálum á þessum tíma og kryfur þær til mergjar. Hann sýnir á skýran hátt hvernig þær eru ýmist verulega villandi eða fá ekki staðist. Flestar eru í reynd skaðlegar almenningi.

Goðsagnir óheftar markaðshyggju falla þannig hver á fætur annarri á þessum blaðsíðum.

Frá upphafi nýfrjálshyggjutímans um 1980 hefur hagur almennings í vaxandi mæli verið fyrir borð borinn í mörgum vestrænum samfélögum, ekki síst í Bandaríkjunum. Hagvöxturinn tók þá að renna að stærstum hluta til yfirstéttarinnar, en mun minna til millistéttarinnar og lágtekjufólks. Ójöfnuður tók að aukast mikið.

Blandaða hagkerfið hafði skilað mun meiri lífskjarabata til almennings frá 1950 til um 1975, án þess að auka ójöfnuð. Það var mesta framfaraskeið vestrænna þjóða fyrr og síðar.

Ósýnilega höndin, guðsmynd frjálshyggjunnar, er ósýnileg einmitt vegna þess að hún er einfaldlega ekki til, eins og Nóbelsverðlaunaði hagfræðingurinn Joseph Stiglitz sagði á sínum tíma!

Gráðugir einkaaðilar sem þjóna eigin sérhyggju þjóna ekki almannahag í leiðinni (eins og frjálshyggjumenn þó fullyrða, einmitt með tilvísun í draugasöguna um “ósýnilegu höndina”). Þvert á móti er aragrúi dæma um að óhófleg gróðasókn einstaklinga skaði samfélagið. Bankamenn og útrásarvíkingar á Íslandi voru talandi dæmi um slíkt. Þeir græddu vel sjálfir um leið og þeir rústuðu samfélaginu!

Sagan sem Chang segir af langtíma hnignun bandaríska risafyrirtækisins General Motors, vegna þess að eigendur og stjórnendur höfðu smám saman sogið um of úr því blóðið, er af sama toga. Það endaði í gjaldþroti 2009. Um þá gildir svipað og William Black sagði um bankamenn: “Einfaldasta leiðin til að ræna banka er að eiga hann”! Á Íslandi var þetta kallað að tæma banka eða fyrirtæki innan frá.

Útvegsmenn á Íslandi sem sugu fé út úr fyrirtækjum og kvótaverðmætum og skildu eftir 500 milljarða skuldir á fyrirtækjum sínum, gerðu það sama og amerískir hluthafar. Þeir voru bara að hugsa um eigendagróða til skemmri tíma. Bröskuðu líka í eigin þágu með auðlind þjóðarinnar.

Var slíkt gróðabrask einkaaðila í þágu almannahagsmuna? Nei – öðru nær, segir Ha-Joon Chang.

Þannig tekur Chang hverja ranghugmynd frjálshyggjunnar á fætur annarri og sýnir hvernig þær ýmist eru blekkingar eða beinlínis hugsaðar til að þjóna yfirstétt auðmanna – gegn hagsmunum almennings.

Hvergi voru villur frjálshyggjunnar dýrari fyrir almenning en á Íslandi. Afleiðingarnar hér voru stærsta bóluhagkerfi sögunnar og dýrasta hrunið.

Bók Ha-Joon Changs er kærkomin lesning fyrir alla þá sem vilja skilja hvernig hugmyndir frjálshyggju-hagfræðinnar voru notaðar til að fífla almenning – í nafni “frelsis”.

Frelsi frjálshyggjunnar var í reynd einungis frelsi fyrir auðmenn – en á kostnað almennings.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar