Í hádeginu í dag fór ég á fyrirlestur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um fátækt á Íslandi á stjórnartíma Davíðs Oddssonar (1991 til 2004).
Í dæmigerðum stíl Hannesar hefur hann nú skrifað bloggfærslu um fund þennan (sjá hér). Fyrirsögnin er “Fjörugar umræður: Stefán í uppnámi”.
Þetta er það sem maður myndi jafnvel kalla skemmtilega ósatt! Hvorki voru umræðurnar fjörugar né ég í uppnámi!
Fundurinn var þannig að Hannes flutti erindi sitt, sem var grautarleg blanda af frjálshyggjuáróðri og molum um fátækt og ójöfnuð, en þó mest um að ég hefði haft uppi áróður og reiknivillur um fátækt og ójöfnuð í aðdraganda kosninganna 2003 og 2007.
Þetta var fátækleg umfjöllun um fátækt.
Eftir erindi Hannesar var orðið laust. Eftir smá þögn bað ég um orðið og fékk. Ég gerði athugasemdir við fjögur grundvallaratriði í málflutningi Hannesar. Leiðrétti misskilning og fákunnáttu hans, leiðrétti rangfærslur um tölur sem hann eignaði mér og útskýrði hvernig hann hafði rangt fyrir sér um það sem hann sagði um fátækt og tekjuójöfnuð.
Eftir að ég hafði gert þessar athugasemdir svaraði Hannes með þunnum og fálmkenndum útúrsnúningi. Síðan var orðið aftur laust – en enginn annar tók til máls.
Það kallar Hannes sem sagt “fjörugar umræður”!
Mun nákvæmari lýsing hefði verið: “Þögn sló á salinn”! Þetta var hin vandræðalegasta stund fyrir Hannes.
Hannes hefur skrifað meira en eitt hundrað áróðurs- og ófrægingagreinar um mig og verk mín á síðustu fjórum árum. Ég hef engu svarað þeim skrifum. Í erindinu í dag stillti hann enn einu sinni upp því sem hann telur bitastæðast í þeim skrifum sínum. Það var alveg jafn þunnt og ómerkilegt og í öll hin hundrað skiptin.
Ég mun ekki elta ólar við fúsk, afbakanir og ósannindi Hannesar hér.
Hins vegar mun ég skrifa um ójafnaðarþróunina og ýmislegt fleira sem tengist kjaraþróun á árunum bæði fyrir og eftir hrun hér á Eyjunni á næstu vikum, í bland við ýmislegt áhugavert sem uppá kemur.
Í millitíðinni bendi ég áhugasömum á ítarlega nýja rannsóknargrein mína og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, um þróun tekjuskiptingarinnar á Íslandi frá 1992 til 2010, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.
Fyrri pistlar