Föstudagur 12.10.2012 - 00:42 - FB ummæli ()

Þjóðin eigi Þingvelli – og fiskimiðin líka

Ég hef verið að lesa nýju stjórnarskrána, sem hið geðþekka stjórnlagaráð setti saman. Mér lýst afar vel á hana.

Hún er öll nútímalegri og skýrari en sú gamla. Ég er ánægður með mörg nýju ákvæðin, til dæmis um mannréttindi, svo sem um upplýsingarétt, félagsleg réttindi, frelsi fjölmiðla og menntun. Í öllum þessum þáttum eru nýmæli sem skerpa á og skýra í þágu almannahags.

Það helsta sem ég hef efasemdir um er ákvæðið um aukið persónukjör. Ég þarf þó að skoða það betur.

Hrifnastur er ég af náttúruauðlindaákvæðinu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir almannahag. Við sjáum það best af því hverjir eru andvígir því: kvótagreifar, auðmenn og braskarar, sem fyrir hrun ásældust kvóta, hálendið, orkulindirnar – og jafnvel vatnið.

Dapurlegast finnst mér þegar lögfræðingar yfirstéttarinnar reyna að telja mér trú um að hugtakið “þjóðareign” hafi enga meiningu!

Efast nokkur um að þjóðin eigi Þingvelli? Þarf eitthvað að velta fyrir sér hvað það þýðir? Nei, ég held ekki.

Hið sama á að gilda um fiskimiðin, orkulindir og aðrar náttúruauðlindir sem ekki eru þegar í einkaeigu. Það allt á að vera eins og Þingvellir – í eigu þjóðarinnar.

Fyrir hrun voru kvótagreifar og stjórnmálamenn frjálshyggjunnar búnir að slá einkaeign sinni á fiskimiðin og vildu allt hitt líka.

Þeir vilja ekki einu sinni að þjóðin fái auðlindarentu af sjávarauðlindinni heldur renni arðurinn óskiptur í einkavasa greifanna. Hugsið ykkur ef Norðmenn hefðu farið þannig að og gefið einkaaðilum olíuauðlind sína!

Fátt er mikilvægara en að stoppa allt slíkt. Það gerir nýja stjórnarskráin.

Kjósum því öll og segjum örugglega  við fyrstu tveimur spurningunum. Skoðum hinar síðar.

Hér er hið nýja ákvæði um náttúruauðlindirnar:

 

Náttúruauðlindir.

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar