Það er fróðlegt að skoða þróun tekjuójafnaðar í Bandaríkjunum yfir lengri tíma.
Ójöfnuður tekna náði hámarki þar á árinu 1928 og síðan aftur á árinu 2007. Í bæði skiptin fylgdi stór fjármálakreppa í kjölfarið.
Þetta er athyglisvert samband, sem margir fræðimenn erlendis hafa tekið eftir. En ójöfnuður og fjármálakreppur virðast einnig vera nátengdar frjálshyggjupólitík.
Áratuginn frá um 1920 til upphafs Kreppunnar miklu haustið 1929 var ójöfnuður að aukast mjög hratt (sjá myndina). Það var einnig tímabil vaxandi frjálshyggjuáhrifa. Forsetarnir þrír sem sátu á þessum tíma voru allir hallir undir frjálshyggju og hægri pólitík (Harding, Coolidge og Hoover).
Eftir hrunið á Wall Street haustið 1929 tók við Kreppan mikla með 32% samdrætti þjóðarframleiðslu og um 25% atvinnuleysi þegar mest varð. Ójöfnuður hélst áfram mikill, þó úr honum hafi dregið. Eftir seinni heimsstyrjöldin rann hins vegar upp nýtt tímabil, með breyttri pólitík og breyttri skipan efnahags- og samfélagsmála.
Það var gullöld blandaða hagkerfisins, sem stóð fram á áttunda áratuginn. Þetta varð eitt allra mesta góðærið í sögu Bandaríkjanna, og reyndar flestra þjóða á Vesturlöndum. Hagvöxtur var mikill, kaupmáttur almennings jókst mikið og jöfnuður tekna var þá mun meiri en fyrir heimsstyrjöldina. Lífskjör alls þorra almennings bötnuðu sem aldrei fyrr. Neysluþjóðfélag millistéttarinnar kom til sögunnar.
Síðan tók við nýtt tímabil vaxandi frjálshyggjuáhrifa upp úr árinu 1980, með ríkisstjórn Ronald Reagans. Þá tók ójöfnuður að aukast hratt á ný, eins og sjá má á myndinni sem hér fylgir.
Mynd 1: Samband milli tekjuójafnaðar og frjálshyggjuáhrifa í Bandaríkjunum, 1917 til 2010. Svörtu línurnar á myndinni sýna hlutdeild tekjuhæstu 10% fjölskyldna af heildartekjum allra. Því hærra sem þær fara, þeim mun meiri var ójöfnuðurinn. (Heimild: E. Saez; http://elsa.berkeley.edu/~saez/).
Myndin sýnir hvernig ójöfnuðurinn jókst nær stöðugt frá stjórnartíma Reagans upp úr 1980 og fram að fjármálakreppu. Aðeins gætir frávika á skemmri tímabilum.
Frjálshyggjan leiddi til aukins ójafnaðar, bæði með því að réttlæta verulega hækkaðar tekjur til atvinnurekenda og fjármálamanna, með auknu frelsi á fjármálamarkaði og með skattafríðindum til hátekju- og stóreignafólks. Á sama tíma var þrengt að lágtekjufólki – lægri laun og bætur rýrnuðu.
Frjálshyggjan hafði einnig þau áhrif að auka stórlega hættu á fjármálakreppu, sem varð reyndin í bæði skiptin eftir að ójöfnuður hafði náð hámarki.
Samband frjálshyggju og aukins ójafnaðar var alla jafna mest í enskumælandi löndunum í þróaða heiminum. Þeirra gætti þó á svipaðan hátt víðar, t.d. í sumum löndum Suður-Ameríku, Asíu og í Austur-Evrópu eftir 1990.
Frjálshyggja og ójöfnuður virðast nátengd.
Á Íslandi var óvenju sterkt samband milli frjálshyggjuáhrifa og aukins ójafnaðar frá 1995 til 2007. Meira um það síðar.
Sjá meira um þetta efni í bók Anthony B. Atkinson og Thomas Piketty, Top Incomes: A Global Perspective. Oxford and New York: Oxford University Press.
Einnig nýja grein eftir Atkinson, Piketty og Saez (2011), Top Incomes in the Long Run of History
Einnig grein mína og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Þróun tekjuskiptingarinnar á Íslandi frá 1992 til 2010.
Fyrri pistlar