Miðvikudagur 17.10.2012 - 17:33 - FB ummæli ()

Óreiðuskuld Davíðs Oddssonar

Frægt varð þegar Davíð Oddsson, þá aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands, sagði í Kastljósi í miðju bankahruninu að við myndum “ekki greiða skuldir óreiðumanna”.

Nú fjórum árum síðar er þetta allt að verða skýrara – á annan veg.

Ríkisendurskoðun skilaði fyrir nokkru skýrslu um fjárhagstjón skattgreiðenda vegna fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Það er beinn kostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins sem hrundi. Stærsti hlutinn var vegna gjaldþrots Seðlabankans.

Niðurstaðan er sú, að Seðlabankinn hafði lánað um fjórðung af landsframleiðslu til fjármálafyrirtækja á árinu 2008, þ.e. fram að hruni. Tryggingar vegna þessara lána voru afleitar. Alls töpuðu Seðlabankinn og ríkissjóður um 267 milljörðum vegna þessa.

Tjónið er um 800 þúsund krónur á hvern Íslending, eða um 3,2 miljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta má telja óreiðuskuld Davíðs Oddssonar vegna þess að hann hefur sagt eftir hrun, að hann hafi vitað snemma í febrúar 2008 að bankarnir væru dauðadæmdir. Hann ítrekaði það í vitnisburði fyrir Landsdómi fyrr á þessu ári.

Samt lánaði hann þeim gríðarlegar upphæðir gegn ófullnægjandi veðum. Síðasta lánið, um 80 milljarðar, fór til Kaupþings eftir að bankahrunið var hafið.

En þetta er fjarri því að vera allt tjónið sem hlaust af frjálshyggjutilrauninni sem Davíð Oddsson stýrði okkur inn í. Hrun krónunnar, sem seðlabankastjórarnir áttu að verja, kostaði samfélagið einnig gríðarlegt fé í hækkuðum skuldum heimila, fyrirtækja og hins opinbera.

Ýmislegt annað mætti tína til, svo sem hugsanlegan kostnað ríkisins af Icesave-máli Landsbankans o.m.fl.

Tjón íslensku þjóðarinnar vegna þessarar ógæfulegu tilraunar er því ekki nærri allt fram komið á þessu stigi.

En ofangreindur hluti af óreiðuskuld Davíðs Oddssonar, sem þegar liggur fyrir, er þó ærinn. Þetta eru skuldir sem munu fylgja þjóðinni langt inn í framtíðina.

Dýr verður Davíð allur – þegar upp verður staðið.

Svo mikið er víst.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar