Laugardagur 01.12.2012 - 14:06 - FB ummæli ()

Auðmaður heimtar skjaldborg!

Málefni fyrirtækisins B.M. Vallár vöktu mikla furðu er fyrrum eigandi þess boðaði til blaðamannafundar fyrir nokkrum vikum og bar þungar sakir á Arion banka fyrir að hafa sett fyrirtækið í gjaldþrot. Eigandinn fyrrverandi, Víglundur Þorsteinsson, sakaði einnig ríkisstjórnina um að hafa haft afskipti af málinu og þar með átt þátt í gjaldþrotinu. Sagði fyrirtækið hafa án tilefnis verið sett á “aftökulista”.

Þetta var vægast sagt furðulegur málatilbúnaður.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins voru skuldir B.M. Vallár um 10 milljarðar fyrir gjaldþrot og eiginfjárstaðan neiðkvæð um 2,5 milljarða, eða um 35%. Eigendur vildu fá helming skulda afskrifaðan – þar á meðal 2 milljarða frá lífeyrissjóðum – og halda fyrirtækinu áfram. Bankinn hafnaði þessu og héraðsdómur úrskurðaði það gjaldþrota.

Það er erfitt að skilja hvernig steypustöð getur komið út úr ofþensluhagkerfinu með slíkar skuldir. Verkefni við steypusölu voru gríðarleg á árunum fram að hruni, enda var byggt langt umfram þarfir í landinu, auk verkefna við stærstu virkjun landsins. Þetta var einstakt “góðæri” fyrir steypustöðvar!

Flest bendir til að eigendur fyrirtækisins hafi, eins og svo margir aðrir í atvinnulífinu, farið á bólakaf í skuldsett brask og drekkt fyrirtæki sínu með því.

En í málsvörn fyrrum eigandans örlar ekki á neinni sýn á eigin ábyrgð á óförunum. Hann kennir öllum öðrum um, þar með talið ríkisstjórninni, sem hefur enga stjórn á þeim erlendu vogunarsjóðum er eiga Arion banka. Ríkisstjórnin skiptir sér ekki einu sinni af rekstri þess banka sem ríkið þó á, Landsbankanum, en Víglundur taldi að sá banki hefði unnið faglega í málinu!

Nú hefur Fjármálaeftirlitið úrskurðað að ekkert óeðlilegt hafi verið við málsmeðferð og niðurstöðu bankans í máli B.M. Vallár, eftir sérstaka athugun á málinu (sjá hér).

En eigandinn fyrrverandi boðar nú annan blaðamannafund og heldur uppteknum hætti. Gerir ekkert með niðurstöðu FME og ber áfram sakir á aðra.

Honum finnst að hann eigi að fá skjaldborg um sig, þó hann hafi sjálfur rekið fyrirtækið í þrot, á þann hátt sem Viðskiptablaðið greindi frá.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar