Mánudagur 03.12.2012 - 10:01 - FB ummæli ()

Fjarar undan frjálshyggju?

Það eru tímamót þegar tímaritið Economist kallar eftir miðjupólitík, eins og gerist fyrir skömmu (sjá hér).

Tímaritið hefur lengi verið langt til hægri í pólitík og mikill málsvari frjálshyggju og markaðshyggju, en andvígt velferðarríki og launþegahreyfingu.

Það sem vekur sérstaka athygli við stefnubreytingu Economist er að þeir segja að ójöfnuður í heiminum sé að aukast of hratt. Þeir viðurkenna sem sagt það sem talnagögn og fræðimenn hafa verið að segja, að frjálshyggjusveiflan frá um 1980 hafi leitt til of mikils ójafnaðar í skiptingu tekna og eigna.

Ég sýndi í grein fyrir nokkru hvernig þessi umskipti urðu í Bandaríkjunum eftir að Ronald Reagan komst til valda up 1980, með frjálshyggjupólitík að leiðarljósi. Þá tók ójöfnuður að aukast verulega og alveg fram að fjármálakreppunni (sjá hér).

Um hríð var það partur af röksemdum frjálshyggjuhagfræðinga að ójöfnuður væri góður fyrir hagvöxt. Aukinn ójöfnuður skapaði meiri hvata til framtaks og vinnu sem leiddi til meiri hagvaxtar.

Þetta hefur ekki reynst traust kenning. Hagvöxtur var meiri á áratugunum frá 1950 til 1980 á Vesturlöndum þegar tekjuskiptingin var mun jafnari og hagur millistéttarinnar ört batnandi. Ójöfnuður eykur heldur ekki vinnusemi. Norrænu þjóðirnar sem eru með meiri jöfnuð en Bandaríkin hafa lengi verið með stærri hluta fólks í launaðri vinnu.

OECD (Efnahags- og framfarastofnunin í París) var lengi höll undir kenninguna um að ójöfnuður væri góður fyrir hagvöxt. Meira að segja þeir hafa nú sölsað um eins og tímaritið Economist. Nú talar OECD um mikilvægi hagvaxtar án aukins ójafnaðar (sjá hér).

Þannig eru sífellt fleiri málsmetandi aðilar að draga frjálshyggjuna í efa.

Í Bandaríkjunum sér hins vegar lítið til slíkra efasemda. Þar er róttæk frjálshyggja og markaðshyggja svo rótgróin að fátt fær henni þokað.

Áhrif frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum liggja í því, að auðmenn leggja gríðarlegt fé til að viðhalda henni, enda er frjálshyggjan pólitík sem hleður undir hagsmuni auðmanna – og ójöfnuð. Auðmenn kaupa sér pólitísk áhrif með kosningaframlögum sínum og rekstri áróðursveita (t.d. Cato Institute). Þess vegna er frjálshyggja áhrifamikil í báðum stóru flokkunum í Bandaríkjunum.

Fólki er víða að verða ljósara en áður að róttæk frjálshyggja leiðir til ójafnaðar, með fordæmalausu ríkidæmi um leið og hagur millistéttarinnar rýrnar og lágtekjufólki lokast leiðir til að komast áfram í samfélaginu.

Frjálshyggjan leiddi líka til ofurvalds fjármálageirans á kostnað framleiðslugeira samfélagsins á síðustu árum. Flestir fræðimenn kenna frjálshyggjunni að auki um fjármálakreppuna, verstu kreppu heimsins síðan Kreppan mikla reið húsum á fjórða áratug síðustu aldar.

Það er sérstaklega athyglisvert í þessu ljósi, að þrátt fyrir að frjálshyggjan hafi leitt miklar hörmungar yfir íslenskt samfélag með hruninu þá gefa talsmenn hennar ekkert eftir og ætla engu að breyta.

Sjálfstæðismenn voru helstu talsmenn frjálshyggju fram að hruni og þeir eru enn með sömu pólitíkina. Skyldi það vera vegna þess að auðmenn flokksins græddu svona mikið á árunum fram að hruni?

Bíða þeir einungis eftir að hefja leikinn að nýju?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar