Eygló Harðardóttir, þingkona í Framsóknarflokki, er oft mjög málefnaleg í þingstörfum sínum. Nú hefur hún lagt fram á Alþingi tillögu um að stofnuð verði Þjóðhagsstofa, er starfi í anda Þjóðhagsstofnunar sálugu og heyri undir Alþingi.
Þetta er mikilvægt mál. Stjórnarmeirihlutinn ætti að taka það til alvarlegrar athugunar.
Davíð Oddsson lét leggja Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að honum líkaði ekki við sjálfstæði hennar og fagleg vinnubrögð. Hann vildi hafa meiri pólitíska stjórn á upplýsingamiðlun um þjóðmálin.
Mikilvægasta hlutverk Þjóðhagsstofnunar var að leggja óháð mat á þróun þjóðarbúskaparins og helstu þjóðfélagsmála (vinnumarkaðsmál, velferðarmál o.fl.). Þingmenn gátu beint fyrirspurnum til stofnunarinnar og fengið úttektir á staðreyndum deilumála, sem treysti og bætti umræðu og ákvarðanatöku.
Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður jókst frelsi óprúttinna áróðursmanna og hagsmunaaðila til að bera á borð ósannindi um mikilvæg mál.
Hér deila menn t.d. um það sem samkomulag er um í öðrum löndum, eins og hvernig skattbyrði og tekjudreifing þróast frá ári til árs. Hvort afkoma sjávarútvegs sé góð eða slæm. Ástæða þessa er sú, að án traustrar faglegrar stofnunar sem úrskurðar í slíkum málum er svigrúm til að ljúga og afbaka of mikið.
Greiningardeildir bankanna, sem voru eins konar auglýsingadeildir útrásarinnar, reyndu að fylla tómarúmið sem skapaðist. Það voru slæm býtti.
Á áratugnum fram að hruni sárvantaði vitræna viðspyrnu fagmanna gegn bulli og vúdú-hagfræði gróðapunga, sem á endanum stýrðu þjóðarbúinu fyrir björg. Reynt var að þagga niður í efasemdaröddum og gagnrýnendum.
Vonandi fær málflutningur Eyglóar Harðardóttur um endurreisn Þjóðhagsstofnunar hljómgrunn að þessu sinni.
Það væri mikið framfaramál.
Mikilvægt er einnig að slík stofnun heyri undir Alþingi, en ekki undir ráðuneyti eins og áður var. Það eflir aðhaldshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu og er vel til þess fallið að bæta þjóðmálaumræðuna í samfélaginu – og á þingi.
Fyrri pistlar