Fimmtudagur 03.01.2013 - 12:30 - FB ummæli ()

Fátækt á Íslandi 1991 til 2011

Algengt hefur verið að meta fátækt á Íslandi með tekjugögnum og mæla svokallaða afstæða fátækt, þ.e. hlutfall heimila sem eru með minna en 50% eða 60% af miðtekjum á mann.

Slík gögn sýna yfir tíma hvort lágtekjuhópurinn sé að dragast afturúr miðhópnum eða saxa á hann. Erfitt getur þó verið að túlka slík gögn sem vísbendingu um alvöru fátæktaraðstæður, því aðferðin gengur út á að meta stöðu fólks með hliðsjón af miðju tekjustigans, sem sjálf hreyfist yfir tíma.

Önnur leið til að meta fátækt er að mörgu leyti markvissari og gagnsærri. Hún er sú að telja þann fjölda fólks sem sækir um og fær fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum vegna eigin þrenginga. Þetta er skyldara því sem á ensku er kallað “absolute poverty”, eða algild fátækt. Það má þó einnig mæla með öðrum hætti.

Þeir sem leita þannig til sveitarfélaganna fara í skoðun hjá fagfólki félagsþjónustunnar og ef aðstæður þeirra eru sannarlega fátæktaraðstæður þá fá þeir fjárhagsaðstoð. Því má fullyrða að þeir sem fá slíka aðstoð séu sannarlega fátækir.

Hins vegar er ekki víst að allir sem eru þurfandi snúi sér til sveitarfélaga. Að því leyti má búast við að einhverjir fátækir séu vantaldir með þessari aðferð, t.d. þeir sem fá stuðning frá fjölskyldu og ættingjum eða einfaldlega þrauka í fátæktaraðstæðum sínum án aðstoðar. Fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar gefur þó mikilvægar vísbendingar um umfang fátæktar og breytingu hennar yfir tíma.

Á mynd 1 má sjá hvernig fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga (sem hlutfall af fjölda heimila í landinu) hefur þróast frá 1991 til 2011.

Þróun fátæktar yfir tíma. Fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar, sem hlutfall af fjölda heimila, 1991 til 2011. Heimildir: Hagstofa Íslands og Ríkisskattstjóri.

Öll vitum við að fjárhagsþrengingar hafa aukist eftir hrunið 2008. Enda sýna þessar tölur að þiggjendur fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar nærri tvöfölduðust, fóru úr um 1,7% heimila landsins upp í 3,0%. En fátæktarþrengingar jukust einnig áður, bæði 2002 til 2003 og 1993 til 1995.

Athyglisvert er einnig að árið 1995 var sama hlutfall þiggjenda fjárhagsaðstoðar og nú í miðri fjármálakreppunni 2011, eða um 3% heimila í bæði skiptin. Toppurinn árið 2003 var ekki mikið lægri en nú, eða um 2,8%.

Veturinn 2002 til 2003 sagði ég í útvarpsviðtali að vísbendingar væru um að fátækt væri að aukast um þær mundir. Það fór mjög fyrir brjóstið á Hannesi Hólmsteini og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Hannes hefur skrifað tugi greina um þá firru mína að nefna þetta og tók málið á dagskrá síðast í fyrradag (sjá hér). Það mátti ekki segja að fátækt fyrirfyndist á Íslandi á valdatíma Davíðs, hvað þá að fátækt væri að aukast!

En þessi ummæli mín, jafn sakleysisleg og þau voru, byggðu einmitt á tölum um fjölgun atvinnulausra. Atvinnuleysisbætur voru undir fátæktarmörkum á þeim tíma þannig að ljóst var að fjölgun atvinnulausra þýddi í reynd fjölgun fátækra.

 

Fátæktin ræðst af hagsveiflunni og velferðarstefnu stjórnvalda

Á mynd 2 má sjá samband milli atvinnuleysis og fjölda þiggjenda fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar. Þar kemur þetta skýrlega fram.

Mynd 2: Samband fátæktar (fjölda þiggjenda fjárhagsaðstoðar) og atvinnuleysis, 1991 til 2011. Heimild: Hagstofa Íslands og Ríkisskattstjóri.

Þarna má sjá að atvinnuleysi var að aukast frá 2002 til 2003 og samhliða því fjölgaði þiggjendum fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar. Það sama gerðist með enn skýrari hætti frá 1993 til 1995, en þá varð atvinnuleysið enn meira.

Samkvæmt þessum tölum hefur umfang fátæktar á Íslandi á síðustu 20 árum sveiflast upp og niður með hagsveiflunni, þ.e. með atvinnuleysinu. Þegar dregur saman í þjóðarbúskapnum og atvinnuleysi eykst þá fjölgar fólki í fátækt (fylgnin hagsveiflunnar og fjölda fátækra er mikil, eða um 0,7).

Ef fólk er spurt í könnunum um erfiðleika við að láta enda ná saman í heimilisrekstrinum þá kemur hið sama í ljós: fleiri eiga í fjárhagsþrengingum þegar atvinnuleysi eykst – og fleiri leita þá til sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð.

Það sem er sérstaklega athyglisvert við þessa mynd er þó hvernig þessu hefur háttað í núverandi kreppu eftir 2008.

Þá rauk atvinnuleysið upp í fordæmalausar hæðir árin 2009 til 2011. Fjöldi heimila sem þáðu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum vegna fátæktar jókst samhliða, en ekki nærri jafn mikið og ætla hefði mátt út frá fjölgun atvinnulausra.

Miðað við regluna í sambandi milli fjölda fátækra og fjölda atvinnulausra fyrir fjármálakreppuna þá hefði fátækum þiggjendum fjárhagsaðstoðar átt að fjölga mun meira frá 2009 til 2011 en raun varð á. Þarna gætir einmitt þess að stjórnvöld beittu mótvægisaðgerðum til að milda áhrif kreppunnar á lágtekjufólk. Lífeyrislágmark almannatrygginga, atvinnuleysisbætur og lægstu laun voru hækkuð og skattbyrði lægri tekna var lækkuð (sjá nánar um mótvægisaðgerðirnar hér).

Raunar var upphæð fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna líka hækkuð í kreppunni, þannig að hvati til að sækja um slíka aðstoð var aukinn. Samt varð fjölgunin 2009 til 2011 ekki meiri en verið hafði á tímabilinu 1993 til 1995.

Þetta bendir til að mótvægisaðgerðirnar hafi unnið gegn fjölgun fátækra eftir hrun með árangursríkum hætti.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er sem sagt sú, að umfang fátæktar á Íslandi hefur að miklu leyti fylgt hagsveiflunni. Hægt er að beita velferðaraðgerðum til að draga úr þeim áhrifum og halda aftur af fjölgun fátækra, t.d. með bættum kjörum almannatrygginga (hækkun lífeyris og bóta), hækkun atvinnuleysisbóta og lægstu launa og með lækkaðri skattbyrði lægri tekjuhópa.

Undrun vekur að fátækum skuli ekki hafa fjölgað mun meira en raun varð á í núverandi kreppu. Met í lækkun ráðstöfunartekna þjóðarbúsins, verulega aukið umfang atvinnuleysis og skuldaþrenginga gáfu tilefni til mun meiri fjölgunar fólks í fátæktarþrengingum, ef miðað er við reynslu síðustu 20 ára.

Vissulega hafa allir fundið fyrir auknum þrengingum, en að falla í fátækt er annað og stærra mál. Hlutfall fátækra samkvæmt þeirri mælingu sem hér er kynnt varð þrátt fyrir allt ekki meira en á árinu 1995 og lítillega meira en á árinu 2003. Í mörgum grannríkjanna, t.d. Írlandi, hefur fátækum fjölgað mun meira en á Íslandi í núverandi kreppu.

Það er mikilvægur árangur – þrátt fyrir allt.

Tölur um afstæða fátækt sýna hins vegar að fátækum hafi fækkað í núverandi kreppu (úr um 10% niður í 9,2%). Tölurnar sem hér eru sýndar gefa raunsærri mynd af þróuninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar