Föstudagur 04.01.2013 - 13:06 - FB ummæli ()

Þjóðin þarf kauphækkun – núna

Hagstofa Íslands birti í desember sl. nýja könnun á launum fyrir árið 2010 með samanburði við þjóðir Evrópusambandsins.

Samanburðurinn miðast við jafnvirðisgildi, þ.e. tekið er tillit til mismunandi verðlags í löndunum. Þetta er því samanburður á raunlaunum.

Niðurstaðan er sú, að árslaun á Íslandi voru um 95% af meðaltali ESB-ríkja árið 2010, en ef við skoðum raunverulegt tímakaup þá var Ísland með um 82% af meðaltali ESB-ríkjanna. Árslaunin eru nær meðaltalinu í Evrópu en tímakaupið, vegna þess að Íslendingar vinna mun lengri vinnutíma en Evrópumenn almennt gera.

Tímakaupið er eðlilegasti mælikvarðinn á kjör vinnandi fólks. Tímakaup á Íslandi er óeðlilega lágt og hefur lengi verið svo. Það sjáum við með samanburði tímakaupsins og þjóðarframleiðslu á mann.

Hvernig var þjóðarkakan á Íslandi í samanburði við Evrópuríkin á sama ári? Þjóðarframleiðsla á mann, að teknu tilliti til mismunandi verðlags, sýnir hversu mikið er til skiptanna fyrir vinnandi fólk.

Tölur Eurostat (Evrópsku Hagstofunnar) sýna að þjóðarframleiðslan á mann var 12% hærri á Íslandi en að meðaltali í ESB-ríkjum á árinu 2010. Þetta er sýnt á myndinni hér að neðan, í samanburði við tímakaupið.

Mynd 1: Landsframleiðsla á mann og tímakaup: Ísland og ESB samanborin (Heimild: Hagstofa Íslands 2012)

Tímakaupið á Íslandi var sem sagt 82% af meðaltali ESB-ríkja árið 2010 en landsframleiðsla okkar var þá 12% hærri en meðaltalið. Tímakaupið var því óeðlilega lágt hér á landi.

Svona var þetta einnig fyrir hrun (sjá hér). Tímakaup var of lágt miðað við ríkidæmi þjóðarinnar, eins og það mælist í landsframleiðslu á mann. Ráðstöfunartekjurnar lækkuðu svo helmingi meira í hruninu en þjóðarframleiðslan.

Kjaraskerðingin á Íslandi varð meiri en í öðrum Evrópuríkjum í kreppunni (sjá hér). Árið 2010 náðum við botni kreppunnar, en kaupmátturinn hefur hækkað aftur, einkum á árinu 2011 – en ekki nærri nóg. Verðlagið veður upp.

Nú er hagvöxtur annað árið í röð og spár fyrir 2013 eru ágætar. Kaupmáttur launa hefur hins vegar hækkað of rólega það sem af er.

Þess vegna þarf þjóðin meiri kauphækkun núna.

Hér að neðan má svo sjá röðun þjóðanna í Evrópu, annars vegar eftir kaupmætti landsframleiðslu á mann en hins vegar eftir kaupmætti tímakaupsins.

Íslendingar hafa raunkaup á svipuðu róli og Spánverjar, Möltubúar og Slóvenar, þjóðir sem eru mun fátækari en Íslendingar.

Samanburður á röðun Evrópuþjóða með tilliti til landsframleiðslu á mann og tímakaups. Tölur einstakra landa eru hlutfall af meðaltali ESB-ríkjanna. Heimild: Eurostat 2012.

Kaupið á Íslandi er þannig talsvert of lágt miðað við ríkidæmi þjóðarinnar.

ASÍ forystan hefur því verk að vinna. Kaupið þarf að hækka í fleiri og stærri skrefum en verið hefur, um leið og harðasta aðhaldi gegn verðhækkunum er beitt.

Kauphækkun eykur einkaneysluna sem skapar fyrirtækjunum meiri sölufæri, fleiri störf verða þá til og skatttekjur hins opinbera hækka, sem gerir aftur mögulega hækkun lífeyris og launa opinberra starfsmanna, í sama takti.

Hagvöxturinn verður einnig meiri með þeirri örvun sem launahækkunin veitir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar