Sunnudagur 06.01.2013 - 09:21 - FB ummæli ()

VG – Sundurlyndið rýrir fylgið

Að stjórna Íslandi í gegnum kreppuna hefur reynt á stjórnarflokkana. Sýnu meira þó á VG en Samfylkinguna. Samfylkingin hefur leitt ríkisstjórnarsamstarfið og staðið saman en VG hafa glímt við síendurtekna sundrungu og innbyrðis átök.

Samt hafa ríkisstjórnarflokkarnir staðið sig ótrúlega vel. Náð árangri sem hælt er í öllum heimshornum.

Nú nýlega hefur fylgi VG orðið minna en fylgi hins nýja framboðs Bjartrar framtíðar. Kannanir sýna að fylgi hefur m.a. tapast frá VG til Bjartrar framtíðar. Það eru laun sundurlyndisins! Tapið er ekki vegna ESB-málsins, eins og Jón Bjarnason fullyrðir, því BF er hlynt aðildarviðræðum.

Raunar hefur sundurlyndi VG manna, villikattanna svokölluðu, ekki einungis skemmt fyrir VG. Það hefur einnig skemmt fyrir ríkisstjórninni í heild. Almenningur spyr sig, hvers vegna skyldi maður styðja ríkisstjórn sem ekki styður sig sjálf?

Eiga sundurlyndir VG-menn svar við því?

Og hver er svo uppskera sundurlyndisins? Hvað vannst með þessu öllu?

Lilja Mósesdóttir sigldi stjórnmálaferli sínum í öngstræti. Atli Gíslason sömuleiðis. Ásmundur Einar Daðason reynir að framlengja feril sinn á lekum fleka Framsóknar. Ögmundur er búinn að rýra bakland sitt og situr eftir veikari innan flokksins.

Vann Ögmundur einhverja sigra sem voru átakanna virði? Ég held ekki. Hefði hann unnið með Steingrími og liði hans hefði hann orðið sjálfkjörinn og sterkur leiðtogi VG í fyllingu tímans.

Standa almennt einhverjir málefnasigrar eftir sem voru sundrungarinnar virði? Ég held ekki. Meira að segja Icesave málið sýnir sig að hafa verið hæpinn leikur, þegar gætt er að því hversu stóran hluta kostnaðarins hinn fallni banki greiðir. Það lá fyrir strax eftir annan samninginn (sjá hér).

Er ekki tímabært að vinstri menn læri þá lexíu að samstaða út á við er lykilatriði fyrir líf ríkisstjórna? Traust almennings á stjórnvöldum rofnar ella. Leysa á ágreining innandyra.

Menn vinna sumt og tapa öðru í samstarfi – en standa svo saman út á við, allir sem einn gegn andstæðingum, sem sitja á svikráðum. Það er forskriftin að farsælum stjórnarháttum – auk skynsamlegrar stefnu.

Þetta hefðu allir vinstri menn átt að vera búnir að læra fyrir mörgum áratugum. En sumir þeirra virðast enn eiga erfitt með að læra af stjórnmálasögunni! Sundurlyndi vinstri manna hefur tryggt Sjálfstæðisflokknum, atvinnurekendum og fjármálamönnum ofurvald á Íslandi til lengri tíma.

Ég tel þó að bæði VG og Samfylkingin muni fá meira fylgi í kosningum í vor en í núverandi könnunum. Árangur ríkisstjórnarinnar er einfaldlega það góður að vandað fólk sér það og veitir viðurkenningu þegar á hólminn er komið.

Vinstri flokkar fá líka oftast meira fylgi í kosningum en könnunum. Ekki sama fylgi og síðast, en þokkalegt fylgi engu að síður.

Áframhaldandi sundrung væri þó leið til að gera slíka spá að engu…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar