Mánudagur 07.01.2013 - 10:17 - FB ummæli ()

Lífskjör lágtekjufólks í OECD-ríkjum

Mjög villandi getur verið að draga ályktanir um lífskjör þjóða út frá þjóðarframleiðslu á mann einni saman, eins og frjálshyggjumenn gjarnan gera. Það er vegna þess að mjög misjafnt er milli þjóða hvernig þjóðarkökunni er skipt milli þegnanna.

Ef hátekjufólk tekur mjög stóran hluta þjóðarkökunnar til sín er minna eftir handa milli og lægri tekjuhópum. Þess vegna þurfa menn að skoða jöfnum höndum hagsældarstig, afkomu lágtekjuhópa og fátækt.

Bandaríkin eru til dæmis með háa þjóðarframleiðslu á mann. Þýðir það að þeir séu með bestu lífskjörin fyrir alla?

Ekki sjálfkrafa.

Skoðum til dæmis raunverulega afkomu lágtekjufólks á myndinni hér að neðan. Hún sýnir ráðstöfunartekjur þeirra 10% íbúanna sem hafa lægstu tekjurnar. Tölurnar koma frá OECD.

Mynd: Ráðstöfunartekjur á mann hjá þeim 10% íbúa sem lægstar tekjur hafa, í jafngildum Bandaríkjadölum, árið 2005.

Þarna sjáum við að Bandaríkin eru vel fyrir neðan meðallag OECD-ríkjanna, með þjóðum eins og Grikklandi og Tékklandi, sem eru miklu fátækari ef miðað er við þjóðarframleiðslu á mann.

Best er afkoma lágtekjufólks í Lúxemborg, á Norðurlöndum og í öðrum farsælum ríkjum á meginlandi Evrópu, eins og Hollandi, Austurríki, Bretlandi, Sviss, Belgíu og Frakklandi.

Þær þjóðir sem hafa hæstar ráðstöfunartekjur lágtekjufólks hafa allar öflug velferðarríki sem beina umtalsverðum tekjutilfærslum til lágtekjufólks.

Mjög hátt hagsældarstig getur líka hjálpað við að bæta afkomu lágtekjufólks, eins og í Lúxemborg – en það dugir þó ekki eitt og sér, eins og Bandaríkin sanna. Bandaríkin eru sannarlega með hátt hagsældarstig (háa þjóðarframleiðslu á mann) en þau gera afar illa við lágtekjufólk. Þar er mikil fátækt í miðju ríkidæminu.

Í evrópsku löndunum sem eru með háar ráðstöfunartekjur nýtur lágtekjufólk að auki mun meiri velferðarþjónustu en er í Bandaríkjunum. Þetta á t.d. við um sjúkratryggingar, niðurgreidda leikskóla, gjaldfrjálsa skóla, niðurgreiddar almenningssamgöngur og félagslega þjónustu.

Þegar allt þetta er tekið með í dæmið verður munurinn á Bandaríkjunum og ensku-mælandi þjóðunum annars vegar og velferðarríkjum Norðurlanda og Vestur Evrópu hins vegar enn meiri en fram kemur á myndinni, velferðarríkjunum í hag. (Bretland sker sig þó úr í hópi ensku-mælandi þjóðanna, vegna þess að þar eru umtalsverðar láglaunabætur og einnig ríkisspítalakerfi sem býður öllum ódýra heilbrigisþjónustu).

Lágtekjufólk á Íslandi er með lægri ráðstöfunartekjur en samsvarandi hópur í hinum norrænu ríkjunum. Það mætti nota sem rök fyrir því að fátækt eða fjárhagsþrengingar geti verið meiri hér á landi en hjá norrænu frændþjóðunum.

Almennt er dýrara að búa í hagsælli löndunum. Þar er verðlag allt hærra en í fátækari löndum. Þess vegna er notuð önnur mæling á fátækt, þ.e. hlutfall heimila sem eru með minna en 50% af miðtekjum á mann. Það gefur þó oftast svipaða niðurstöðu og raunverulegu ráðstöfunartekjurnar sem hér eru sýndar (fylgni er nálægt 0,7).

Ef það er rétt að lífskjör þjóða séu best mæld með því að skoða stöðu þeirra sem minnst hafa, þá er niðurstaðan á myndinni skýr.

Velferðarríkin í Vestur Evrópu og á Norðurlöndum hafa mikla yfirburði yfir frjálshyggjuþjóðirnar, eins og Bandaríkin og flestar aðrar enskumælandi-þjóðir.

En hátekjufólk í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur afar góð lífskjör. Það skoða ég í næsta pistli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar