Miðvikudagur 09.01.2013 - 09:37 - FB ummæli ()

Lífskjör ríka fólksins í OECD-ríkjum

Mjög villandi getur verið að nota þjóðartekjur á mann sem vísbendingu um lífskjör þjóða. Það er vegna þess að mjög misjafnt er hvernig þjóðartekjum er skipt milli þjóðfélagshópa. Einnig er misjafnt hvernig þjóðarkökunni er varið til velferðarmála almennings.

Bandaríkin eru með einna hæstu þjóðartekjurnar á mann að meðaltali. Ríka fólkið tekur hins vegar óvenju stóran hluta þjóðarteknanna þar í landi (sjá myndina hér að neðan).

Ríka fólkið í Bandaríkjunum er ríkara en ríka fólkið í öðrum vestrænum samfélögum (svörtu súlurnar á myndinni hér að neðan). Fátæka fólkið í Bandaríkjunum er hins vegar mun fátækara (bláu súlurnar) en ætla mætti af meðaltekjum þjóðarinnar.

Raunverulegar ráðstöfunartekjur hátekjufólks (tekjuhæstu 10% íbúa) og lágtekjufólks (lægstu 10%), í US$ með kaupmáttarsamræmingu. (Gögn frá OECD)

 

Tekjur lágtekjufólks í þessu hagsæla ríki ná einungis 19. sæti í hópi OECD-ríkjanna 30. Raunar er afkoma lágtekjufólks í Bandaríkjunum talsvert verri en það, því lágtekjufólk þar nýtur lítillar velferðarþjónustu sem almennt bætir mjög hag lágtekjufólks á Norðurlöndum og í mörgum ESB-ríkjum.

Lúxemborg er með næsthæstu hátekjurnar, en ráðstöfunartekjur lágtekjufólks (lægstu 10% íbúanna) eru samt meira en tvisvar sinnum hærri þar en í Bandaríkjunum. Meira að segja Bretland er með betri afkomu lágtekjufólks en Bandaríkin.

Þetta þýðir að tölur um þjóðartekjur á mann (meðaltalið) í Bandaríkjunum segja lítið um lífskjör þess hluta þjóðarinnar sem lægri tekjurnar hefur. Þar er fólk sem oft lifir eins og íbúar fátækra þróunarlanda, mitt innan um ríkidæmið sem hátekjufólk býr við.

Bandaríska þjóðin er nú á dögum meira klofin af stéttaskiptingu en flestar aðrar vestrænar þjóðir (sjá hér og hér).

Bilið milli ríkra og fátækra er meira í Bandaríkjunum en almennt í hagsældarríkjunum. Ójöfnuðurinn er meiri þar.

Frjálshyggjumenn á Íslandi flagga oft Bandaríkjunum sem fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar og segja það mikið hagsældarríki, vegna þess að það sé svo “frjálst”.

Það er hins vegar mjög villandi framsetning. Það er fyrst og fremst ríka fólkið sem er frjálst í Bandaríkjunum (sjá hér).

Rétt er að menn sem mikið tala um frelsi spyrji að því, hvort fátæka fólkið í Bandaríkjunum sé sérstaklega frjálst, ekki síst í samanburði við fátækt fólk í velferðarríkjum Evrópu og Norðurlanda.

Þeir sem hafa hærri ráðstöfunartekjur hafa almennt meira valfrelsi í markaðsþjóðfélaginu. Lágtekjufólk er því almennt með minnsta valfrelsið.

Lágtekjufólk Bandaríkjanna er mun ófrjálsara en lágtekjufólk á Norðurlöndum og í mörgum hagsælli ríkjunum í Evrópusambandinu. Það er vegna þess að tækifæri og afkoma fátækra í Bandaríkjunum eru verri. Hér erum við auðvitað að tala um valfrelsi á markaði.

Frjálshyggjumenn hafa hins vegar lítinn áhuga á að auka frelsi fátækra, láta sig hag þeirra yfirleitt litlu varða. Enda kennir nýjasti hugmyndafræðingur þeirra, Ayn Rand, að fátækir séu ónytjungar og afætur á breiðum bökum ríka fólksins.

Enda er boðskapur dagsins hjá frjálshyggjumönnum að lækka skatta á ríka fólkið og leggja niður velferðarríkið sem gagnast milli og lægri tekjuhópum mest.

 

Aths. Tölur OECD um tekjur hátekjufólks undanskilja hluta eignatekna (capital gains) og tekjur sem flæða í erlend skattaskjól. Því er ljóst að tekjur hátekjufólks á myndinni eru í mörgum tilvikum vantaldar sem þessum þáttum nemur, enda snerta þessir þættir ekki tekjur lægri og milli hópanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar