Mánudagur 14.01.2013 - 20:45 - FB ummæli ()

Frjálshyggjumenn vilja sænskar kjötbollur!

Í hádeginu hlustaði ég á frjálshyggjumann frá Svíþjóð tala um það sem hann kallar “nýju sænsku leiðina”. Það var bráðskemmtilegt.

Í erindinu og umræðunum kom fram að flest það sem hann talaði um er í senn gamla og nýja sænska leiðin. Sama súpan!

Svíþjóð er enn þann dag í dag eitt mesta jafnaðarríkið á Vesturlöndum, með velferðarútgjöld í hæstu hæðum og skattbyrði meiri en flest önnur OECD-ríki. Einnig með ágæta hagsæld og eina hæstu atvinnuþátttöku í heiminum.

Þannig var það líka árin 2008, 2000, 1988, 1980 og 1970 – og flest árin á milli.

Svíþjóð lenti að vísu í djúpri fjármálakreppu upp úr 1990, eftir að fjármálageiri þeirra hafði verið afreglaður og frelsi aukið upp úr 1980. Þeir fóru afvega vegna of mikilla frjálshyggjuáhrifa í fjármálageiranum. Af því varð mikið bóluhagkerfi sem sprakk um 1990. Þá fór allt úr skorðum í nokkur ár, rétt eins og við höfum reynt í okkar fjármálakreppu frá 2008.

En svo snéri allt meira og minna í sama farið eftir 1995. Jú, skattkerfinu hefur verið breytt aðeins, lífeyriskerfinu líka, hærri tekjur hafa hækkað aðeins meira en áður og ójöfnuður aukist eins og víða annars staðar. Þetta eru þó bara smá fínessur, eins og sænsk stjórnvöld hafa alla tíð verið opin fyrir. Varla fréttnæmt. Helsta fréttin er hversu litlu borgaralegu flokkarnir hafa breytt í velferðarmálunum. Þeir eru bara furðu líkir krötunum!

Svíar hafa alltaf viljað hafa þróttmikinn markað og hagkvæmni við hliðina á öflugu velferðarkerfi og jöfnuði í skiptingu lífskjaranna. Þannig er það enn.

Það skemmtilegasta við fyrirlesturinn var þó það, að hann var í boði hugveitu Hannesar Hólmsteins og frjálshyggjukóna hans. Þeir vilja nýju sænsku leiðina!

Ef Ísland færi hana þyrfti að hækka velferðarútgjöld hér á landi úr um 22% af VLF í um 28%. Skattbyrðin þyrfti að hækka úr um 35% af VLF í um 45%. Álagning á hæstu tekjur einstaklinga þyrfti að hækka úr um 46% í um 56% og álagning á fjármagnstekjur og fyrirtæki þyrfti að hækka stórlega. Annað er eftir þessu. Svíar eru okkur fremri í mörgum velferðarmálum.

Hannes Hólmsteinn er alla jafna mjög öflugur í áróðursbaráttunni. En í dag skaut hann sig í fótinn!

Mig grunar að allt tal frjálshyggjumanna um nýju sænsku leiðina breytist undurfljótt í tal um gamlar og góðar sænskar kjötbollur!

Pólitík frjálshyggjumanna verði áfram sótt til Texas og Cato Institute í Bandaríkjunum. Peningamennirnir í Sjálfstæðisflokknum vilja það miklu frekar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar