Mánudagur 14.01.2013 - 11:26 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn – Einkavæðing orkulindanna?

Einkavæðing hefur ekki fært íslensku þjóðinni gæfu hingað til. Öðru nær.

Einkavæðing bankanna misheppnaðist svo herfilega að hún leiddi þjóðarbúið næstum í gjaldþrot – á örfáum árum. Margir einkaaðilar græddu þó gríðarlega á því ævintýri.

Einkavæðing Landssímans misheppnaðist einnig algerlega. Viðskiptavinir Símans borga kaupverðið smám saman fyrir “eigendurna”. Kaupendur og braskarar græddu einnig mikið á því ævintýri, en þjóðin tapaði. Dæmin eru fleiri.

Einkavæðing á Íslandi hefur ítrekað breyst í einkavinavæðingu, þar sem gróði sérhagsmunaaðila hefur ráðið för – á kostnað almannahagsmuna.

Nú boðar formaður Sjálfstæðisflokksins einkavæðingu Landsvirkjunar. Að þessu sinni til lífeyrissjóðanna. Þingmaður flokksins vill selja helming fyrirtækisins í byrjun.

Sala til lífeyrissjóðanna er augljóslega hugsuð sem millileikur að því að koma Landsvirkjun og orkulindunum sem hún nýtir í hendur einkaaðila, auðmanna flokksins. Innvígður og innmúraður Eimreiðarmaður er nú forstjóri Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna. Hann yrði væntanlega í lykilhlutverki í þessu máli. Hann tengdist líka hinni misheppnuðu einkavæðingu Landssímans.

Lífeyrissjóðirnir geta þó varla keypt í Landsvirkjun nema hafa útgönguleið til að selja fyrirtækið áfram á hlutabréfamarkaði. Þar með væri leiðin vörðuð að því að afhenda auðmönnum orkulindir þjóðarinnar, beint eða óbeint. HS Orka og REI málin sýna hug og gerðir Sjálfstæðismanna í þessum efnum. Ekkert hefur breyst hjá þeim.

Auðmenn flokksins ágirnast orkulindirnar.

Það er raunar ævintýralegt að slíkt skuli geta komið á dagskrá eftir það sem á undan er gengið. Og svo skjótt!

Þetta sýnir mikilvægi þess að koma nýju stjórnarskránni í höfn. Að minnsta kosti nýja auðlindaákvæðinu og rýmri heimildum til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þjóðin þarf að verja eignir sínar gegn ágangi gráðugra úlfa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar