Laugardagur 12.01.2013 - 10:56 - FB ummæli ()

Birgir Þór Runólfsson svarar engu!

Frjálshyggjumaðurinn Birgir Þór Runólfsson hefur skrifað marga pistla um meint samband frjálshyggjuvísitölu Fraser áróðursveitunnar og lífskjara þjóða. Boðskapurinn er alltaf sá, að í löndum þar sem frjálshyggjuvísitalan er hærri þar séu lífskjör allra betri. Líka lágtekjufólks.

Þær niðurstöður fást með samanburði þróaðra landa og vanþróuðustu landa þriðja heimsins. Þau vanþróuðu fá almennt lága einkunn á alla mælikvarða, líka þá sem eru í frjálshyggjuvísitölunni.

Ég hef sýnt með gögnum að útkoman er önnur ef menn bera saman hagsælu þjóðirnar innbyrðis. Fátækt er ekki minnst í vestrænum hagsældarríkjum þar sem frjálshyggjuvísitalan er hæst. Öðru nær.

Í raun segir frjálshyggjuvísitalan lítið annað en það, að lífskjör þróuðu þjóðanna eru betri en lífskjör vanþróuðu landanna. Það virðast frjálshyggjumenn telja mikil tíðindi!

Svo bæta þeir við að þróuðu löndin séu þróuð vegna þess að þar hafi fjárfestar meira frelsi, kalla það “atvinnufrelsi”. Það er boðskapur frjálshyggjuvísitölunnar.

Aðrir sjá samband milli aukins frelsis á fjármálamarkaði og aukinnar hættu á fjármálakreppum, með auknum ójöfnuði og fátækt, eins og gerst hefur eftir um 1980 og magnast stórlega í núverandi kreppu.

Það voru til dæmis ofurfrjálsir fjármálamenn og braskarar sem settu Ísland á hausinn, svo nærtækt dæmi um nytsemd frjálshyggjunnar sé rifjað upp

Hrunið varð einmitt í kjölfar þess að frjálshyggjuvísitala Fraser veitunnar fyrir Ísland hafði hækkað mikið, eins og guðfaðir íslensku frjálshyggjutilraunarinnar benti á og þakkaði fyrir (sjá hér og hér)!

Þeir voru að byggja hér frjálsa alþjóðlega fjármálamiðstöð og skattaparadís fyrir auðmenn!

Birgir Þór Runólfsson þekkir vel hvernig fjármálafrelsið lék heimabyggð hans, Reykjanesbæ. Einn öflugasti sparisjóður landsins, SpKef, var þar rekinn í þrot af ofurfrjálsum bröskurum. Atvinnuleysið náði met hæðum. Birgir Þór sat í stjórn sparisjóðsins. Hann þekkir þetta innanfrá. Hann ætti að segja okkur í smáatriðum hvernig frelsi þeirra sem þar réðu för gagnaðist samfélaginu í Keflavík – og raunar skattborgurum Íslands öllum.

Birgir Þór Runólfsson sat líka í bankaráði Seðlabankans fram að hruni. Sá banki var einnig rekinn í þrot. Birgir Þór ætti að segja okkur í smáatriðum hvernig frjálshyggjufrelsið sem hann boðar gagnaðist þjóðinni á liðnum árum, eins og það blasti við úr Seðlabankanum. Slík innsýn úr brunarústum hrunsins væri vel þegin.

Er ekki rétt að menn svari slíku áður en þeir bjóða íslensku þjóðinni upp á enn stærri skammt af frjálshyggjufrelsi?

Ég hef bent á þetta í pistlum mínum:

  • Samanburður þróuðu landanna innbyrðis segir allt aðra sögu en þessi samanburður þróaðra og vanþróaðra landa sem frjálshyggjumenn byggja mikið á.
  • Frjálshyggjuvísitalan er almennt ekki hærri þar sem fátækt er minni í hagsælli ríkjunum. Hún hefur í reynd enga fylgni við fátækt innan hóps hagsælli ríkjanna í OECD-samtökunum.
  • Frjálshyggjuvísitalan gengur út frá því að velferðarríkið sé til marks um ófrelsi, þó það frelsi mikinn fjölda fólks úr fátækt.
  • Sum OECD-ríkjanna sem eru með hærri rauntekjur lágtekjufólks og minni fátækt en Bandaríkin komast ekki einu sinni í efsta fjórðung frjálshyggjuvísitölunnar. Holland, sem er með ein bestu lífskjör almennings í heiminum, er t.d. með frekar lága frjálshyggjuvísitölu. Einnig Svíþjóð og Lúxemborg.
  • Þá hef ég einnig bent á að samanburður þjóðarframleiðslu á mann sé villandi sem altækur mælikvarði á lífskjör, vegna þess að mjög misjafnt er hvernig þjóðarframleiðslan skiptist milli þjóðfélagshópa.
  • Afleit kjör lágtekjufólks í Bandaríkjunum er skýrasta dæmið um hversu vafasamt er að lesa of mikið í tölur um þjóðarframleiðslu á mann einar sér, ef ekki er tekið tillit til þess hvernig hún skiptist milli þegnanna.
  • Meira frjálshyggjufrelsi er nátengt auknum ójöfnuði og aukinni skuldasöfnun á Vesturlöndum eftir um 1980.

Birgir Þór segist vera að svara mér. En hann svarar engu af þessu sem hér er nefnt.

Raunar segir hann að ekki sé hægt að véfengja þær tölur sem ég birti nýlega um afkomu lágtekjufólks. Það er þó rétt hjá honum. En hvernig væri þá að meðtaka það sem þær segja?

Í staðinn segist hann frekar vilja bera saman Vesturlönd og Kongó í Afríku og þakka frjálshyggjunni einni fyrir hagsæld vestrænu þjóðanna. Hann endurtekur í sífellu frjálshyggjuþuluna.

Lýðræðið, menntunin, tæknin, siðferðið og velferðarríkið skiptu engu máli fyrir nútímavæðinguna og framfarir í þessari furðusögu frjálshyggjunnar. Ekkert af þessu er inni í frjálshyggjuvísitölunni.

Það væri skemmtilegra ef frjálshyggjumenn væru ekki að hengja hugsun sína um of á áróðursvísitölur amerískra auðjöfra, eins og þessi vísitala Fraser veitunnar er (vísitalan er í boði Koch bræðra, bakhjarla Teboðshreyfingarinnar).

Frjálshyggjumenn ættu frekar að bjóða heilbrigðri skynsemi í hús sín. Þá yrðu framfarir.

Birgir Þór Runólfsson svarar engu því sem ég hef sett fram.

Ég spái því að hann svari heldur engu um það, hvernig aukið frjálshyggjufrelsi fjármálamanna gagnast íslensku þjóðinni almennt eða Keflvíkingum sérstaklega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar