Laugardagur 02.02.2013 - 16:24 - FB ummæli ()

Væri sænska leiðin góð fyrir Ísland? – Já og nei!

Tímaritið Economist er búið að uppgötva að leið frjálshyggju felur í sér of mikinn ójöfnuð og vilja þeir nú styðja norrænu velferðarleiðina og aðrar skynsamlegar miðjuleiðir (sjá hér).

Staðreyndin er nefnilega sú, að norræna módelið hefur mikla yfirburði á mörgum sviðum – og hefur lengi haft (sjá hér).

Hver eru megin einkenni norræna eða sænska módelsins?

  • Viðamikið opinbert velferðarkerfi
  • Frekar örlát bótaréttindi
  • Hátt þjónustustig (leikskólar, umönnum, heilsugæsla, félagsþjónusta)
  • Sveigjanlegur vinnumarkaður, með kröftugum virkniaukandi aðgerðum
  • Öflugt nýsköpunarkerfi, með opinberum stuðningi við rannsóknir og þróunarstarf (R&Þ)
  • Mikil jöfnun tekjuskiptingar (með bótakerfi og sköttum)
  • Lítil fátækt
  • Há laun
  • Stuttur vinnutími
  • Háir skattar

Ísland hefur lengi haft þá sérstöðu í samfélagi Norðurlandanna að hafa viðaminna velferðarkerfi en hinar norrænu þjóðirnar. Þannig hefur stuðningur hins opinbera verið minni hér á landi, þó saman hafi dregið á síðustu áratugum, m.a. vegna aukinna útgjalda lífeyrissjóða.

Bætur hér hafa ekki verið eins örlátar og einnig meira tekjutengdar en í Skandinavíu. Laun hafa verið lægri  hér og vinnutími lengri. Skattar hafa einnig verið lægri hér, en þjónustustig er að mörgu leyti svipað hér og í Skandinavíu.

Íslendingar hafa bætt sér upp minni opinbera velferðarforsjá og lægri laun með meiri vinnu og lægri sköttum. Það hefur haldið fátækt í skefjum hér – en almennt hafa Íslendingar meira fyrir lífskjörum sínum en norrænu frændþjóðirnar (sjá nánar um þetta hér).

Myndin hér að neðan sýnir opinber velferðarútgjöld í Svíþjóð, á Íslandi og meðaltal OECD-ríkjanna 1980-2010 (inn í íslensku tölurnar vantar útgjöld lífeyrissjóða; ef það er meðtalið færumst við nær meðaltali OECD-ríkjanna; tölurnar eru frá OECD).

Ef við ættum að smella okkur beint inn í sænska velferðarmódelið þyrfti að hækka velferðarútgjöld hér strax úr u.þ.b 22% af landsframleiðslu upp í 28-30%, eins og er nú í Svíþjóð – og lengi hefur verið.

Skattbyrðin þyrfti að hækka úr um 35% af VLF í um 45%. Álagning á hæstu tekjur einstaklinga þyrfti að hækka úr um 46% í um 56% og álagning á fjármagnstekjur og fyrirtæki þyrfti að hækka stórlega.

 

Væri þá gott fyrir Ísland að fara sænsku leiðina í auknum mæli?

Ég segi bæði já og nei!

Það væri gott fyrir okkur að fá örlátara bótakerfi og minni tekjutengingar (t.d. hærri barnabætur), hærri laun og styttri vinnutíma. Við erum hins vegar með svipað þjónustustig í velferðarþjónustu og frekar stórt hlutverk fyrir einkageira í umönnun aldraðra og fatlaðra (félagslega einkaþjónustu – non-profit).

Ekki er ástæða til að fylgja Svíum í því að auka hlutverk hagnaðarleitandi einkarekstrar í veitingu umönnunarþjónustu, því það er mjög umdeilt þar í landi og mörg hneykslismál því tengd hafa komið upp á síðustu árum (m.a. í anda EIR-málsins hér á landi). Þegar einkafyrirtæki ætla að græða á umönnun aldraðra (sem ríkið fjármagnar) þá kemur það niður á umfangi og gæðum þjónustunnar.

Hins vegar væri ekki gott að fá sænska skatta hér á landi. Það myndi þýða umtalsvert hækkaða skattbyrði. Í ljósi lágra launa á Íslandi og mikils álags á heimili þá væri það alls ekki gott.

Þess vegna segi ég, að sumt sem Svíar njóta gæti bætt hag íslenskra heimila – en annað ekki.

Þeir hægri menn sem nú dásama sænska módelið (sumpart vegna misskilnings á hvað í því felst) myndu ekki vera sáttir við beina yfirfærslu þess á íslenskan veruleika.

Eða myndu frjálshyggjumenn skrifa upp á verulega aukið hlutverk hins opinbera á Íslandi og hækkaða skattbyrði? Ég held ekki. Sú hægri stjórn sem nú situr í Svíþjóð hefur ekki breytt velferðarkerfinu í grundvallaratriðum, heldur fínpússað það.

Hægri stjórn í Svíþjóð er að mörgu leyti eins og vinstri stjórn á Íslandi!

Enginn er andvígur slíkri fínpússningu til að bæta virkni og nýta opinbert fé betur – og til að ná betur markmiðum um atvinnusköpun, atvinnuþátttöku, hagvöxt og útrýmingu fátæktar.

Slíkt hefur allta verið hluti norrænu velferðarleiðarinnar.

PS! Myndu íslenskir hægri menn styrja aðild Íslands að ESB, eins og Svíar gera?!!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar