Mánudagur 04.02.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Árni Páll kemur sterkur inn

Formannskjörið í Samfylkingunni virðist vera nokkuð vel heppnað. Árni Páll fékk sannfærandi kosningu en Guðbjartur kemur heill frá slagnum og styður nýja formanninn. Raunar virtist Guðbjartur lengst af vera með hálfum huga í þessari vegferð, þegar Árni Páll sýndi mikinn sóknarhug.

Að kjöri loknu hefur Árni Páll síðan stimplað sig kröftuglega inn sem forystumaður.

Ræða hans við lok landsfundar Samfylkingarinnar, sem birt var á Eyjunni í gær, er óvenju góð og kraftmikil. Hann vísar jöfnum höndum í arfleifð sænsku kratanna og hin brýnustu kjaramál heimilanna á Íslandi nútímans.

Minnir raunar á Jón Baldvin Hannibalsson.

Árni Páll leggur ferska áherslu á frelsi og réttlæti í bland. Þróttmikið atvinnulíf og nýsköpun í opnu hagkerfi – og velferð almennings og jöfnuð.

Með kjöri Árna Páls eru orðin kynslóðaskipti í forystu Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir er að ljúka verki sínu og hefur skrifað sig rækilega inn í sögubækurnar. Ferill hennar er einstakur og árangur í endurreisninni eftir frjálshyggjuhrunið mikill.

Árni Páll er ekki bara af yngri kynslóð, heldur einnig með annan stíl og heldur meiri áherslu til hægri eða á miðjuna. Boðar það breytingu hjá Samfylkingunni?

Það er erfitt að segja. Samfylkingin er eins og norrænu krataflokkarnir, vinstri-miðjuflokkur. Slíkir flokkar sameina áherslur bæði til hægri (atvinnulíf) og vinstri (velferðarríki). Þó áherslurnar breytist lítillega frá einum tíma til annars felur það varla í sér grunvallarbreytingar. Olof Palme var vinstri jafnaðarmaður en Göran Persson hægri jafnaðarmaður. Báðir voru farsælir krataleiðtogar.

Nýr formaður í Samfylkingunni getur skapað flokknum sóknarfæri í kosningunum framundan, að mörgu leyti laus undan átökum og erfiði hrunáranna. Hann getur betur fókusað á framtíðina – sem er brýnast nú eftir að Ísland hefur aftur náð vopnum sínum.

Sjálfstæðismenn hafa sýnt Árna Páli nokkurn áhuga. Það er væntanlega einnig vísbending um sóknarfæri Samfylkingar gagnvart Evrópu-sinnuðum hægri mönnum, nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið mjög einstrengingslega afstöðu gegn framhaldi aðildarviðræðna.

Margir hófsamir og skynsamir Sjálfstæðismenn vilja vita hvað aðildarsamningur gæti falið í sér – þó meirihluti flokksins fylgi línunni úr Hádegismóum.

Það má því búast við auknu fjöri í stjórnmálunum þegar nær kosningum dregur. Með góðum meðbyr Bjartrar framtíðar í skoðanakönnunum er einnig ljóst að mikil óvissa er um útkomur og stjórnarmyndun að kosningum loknum. Aukið fylgi Framsóknar virðist tengt Icesave dómnum og koma að stærstum hluta frá Sjálfstæðisflokki – gæti verið tímabundið.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Árna Páli í baráttunni. Hann er greinilega vígfimur og í miklum sóknarhug.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar