Þriðjudagur 05.02.2013 - 09:25 - FB ummæli ()

Svona fór Ísland á hliðina

Ég skrifaði grein um daginn þar sem ég fór yfir helstu skýringar Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff á orsökum fjármálakreppa. Einnig sagði ég frá samhljóða greiningu frjálshyggjumannsins Richard A. Posner á orsökum bandarísku fjármálakreppunnar (sjá hér).

Reinhart og Rogoff hafa safnað gögnum um allar helstu fjármálakreppur sem orðið hafa á síðustu átta öldum og rannsakað aðdraganda þeirra, orsakir og afleiðingar (sjá bók þeirra This Time is Different, frá 2009).

Þau hafa síðan gefið út aðra bók, A Decade of Debt, árið 2011. Þar fylla þau út í myndina sem þau hafa áður dregið upp.

 

Skuldasöfnun leiðir til fjármálakreppu

Ör ósjálfbær skuldasöfnun er nær algilt einkenni á aðdraganda fjármálakreppa. Því stórtækari og örari sem skuldasöfnunin er, þeim mun alvarlegri verður fjármálakreppan eða hrunið sem kemur í kjölfarið.

Ósjálfbær skuldasöfnun kemur iðuglega í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaði, sem felur í sér að reglun er rýrð, aðhald og eftirlit rofnar, álykta Reinhart og Rogoff.

Með auknum frjálshyggjuáhrifum á fjármálamörkuðum eftir 1980 jókst tíðni fjármálakreppa og náði hámarki með núverandi kreppu. Saman fór aukið frelsi, vegna aukinnar afskiptaleysisstefnu margra stjórnvalda, og nýjar afurðir og ný skipan á fjármálamarkaði sem gerðu meiri og örari skuldasöfnun mögulega en áður var. Aukið framboð fjármagns á lágum vöxtum í slíku umhverfi varðaði síðan leiðina  í ógöngur, sem þó voru misjafnlega alvarlegar eftir löndum.

Ísland var eitt allra alvarlegasta dæmið um óhóflega skuldasöfnun og stjórnleysi í peningamálum á áratugnum fyrir hrun. Hér má heyra Carmen Reinhart flytja athyglisvert erindi í tilefni að útkomu bókarinnar A Decade of Debt, þar sem hún meðal annars fjallar um skuldasöfnunina á Íslandi (það er skömmu eftir mínútu 20 sem Ísland er nefnt til sögunnar). Reinhart og Rogoff segja að þau hafi ekki áður í rannsóknum sínum séð jafn öfgafulla skuldasöfnun eins og varð á Íslandi og Írlandi (sjá einnig grein þeirra hér).

Á myndinni hér að neðan má sjá þessa skuldasöfnun sem þau Reinhart og Rogoff tala um. Tölurnar koma frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands og sýna erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu.

 

Tengsl milli aukins frelsis, einkavæðingar og skuldasöfnunar

Hin fordæmalausa uppsöfnun skulda hér á landi hófst með einkavæðingu bankanna, byrjar 1998 en tekur svo stefnuna til himna frá og með 2003, eftir að bankarnir voru að fullu komnir í hendur hinna nýju eigenda, sem breyttu þeim á punktinum í óvenju áhættusækna fjárfestingabanka.

Strax í lok árs 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú heims (sjá hér), en þá átti mikið lánsfé enn eftir að renna inn í landið. Skuldirnar fjórfölduðust frá lokum árs 2004 til hrunsins 2008.

Skuldir heimilanna voru einungis um 10% af heildarskuldum þjóðarbúsins við hrun. Það var því einkageirinn (fyrirtæki og bankar) sem söfnuðu megninu af skuldunum (sjá hér). Þær fóru í að fjármagna spákaupmennsku og brask sem var gríðarlega arðbært fyrir viðkomandi á uppsveiflunni.

Alvöru viðvaranir voru gefnar út af matsfyrirtækjunum í lok árs 2005 og af Lars Christiansen í Danske bank í byrjun árs 2006. Samt tvöfölduðust skuldirnar enn eftir það! Willem Buiter, þekktur sérfræðingur í fjármálahagfræði, sagði að á Íslandi hafi myndast allsherjar vitfirring á þessum árum (“collective madness”). Skuldasöfnunin var eins og ekki væri gert ráð fyrir gjalddögum morgundagsins.

Peningamál þjóðarinnar voru stjórnlaus. Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórn brugðust í einu og öllu.

 

Frjálshyggjumenn mærðu efnahagsundrið

Skondnust voru ummæli frjálshyggjupáfans Arthurs Laffer, guðföður vúdú-hagfræðinnar. Hann kom til Íslands í nóvember 2007 (í boði íslenskra frjálshyggjumanna) og sagði við það tækifæri, að hér væri allt í allra besta lagi! Engin ofhitun, engin óeðlileg skuldasöfnun og allt bara frjálst og fínt. Um 25% halli á viðskiptum við útlönd á einu ári skipti ekki máli!

Fjármálaráðherrann, Árni Matthiessen, sagði að Ísland væri sönnun þess að kenningar Laffers væru réttar!

Hannes Hólmsteinn sagði í tilefni af komu Laffers: “Samkvæmt þjóðsögunni bíður fjársjóður við enda regnbogans. Engum hefur enn tekist að finna þann fjársjóð. En annar bogi er til, þar sem hafa má ógrynni fjár. Hann er Laffer-boginn svonefndi, sem kenndur er við bandaríska hagfræðinginn Arthur B. Laffer …”

Töfrar vúdú-hagfræðinnar lágu í loftinu…

Skemmst er frá því að segja, að fjármálakerfið hrundi til grunna rúmum tíu mánuðum eftir að þessir spekingar höfðu tjáð sig með þessum hætti, um stöðu fjármálanna.

Robert Aliber, þekktur fjármálahagfræðingur frá Bandaríkjunum, hafði hins vegar komið hér sumarið 2007 og séð á ytri merkjum og lauslegri skoðun hagtalna að hér stefndi í óefni. Hann sá dæmigert bóluhagkerfi í hættulegum þenslufasa.

Þegar bankarnir svo hrundu haustið eftir sagði prófessorinn um stjórnvöld og stjórnendur Seðlabankans, að “ólíklegt væri að nýir leiðtogar sem valdir væru af handahófi í símaskránni gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða.”

Þeir sem áttu að verja fjárhagslegan stöðugleika þjóðarbúsins voru slegnir blindu af frjálshyggjuhagfræði Laffers og annarra. Skildu ekki hætturnar sem þjóðinni var stefnt í með fordæmalausri skuldasöfnun og stóluðu á sjálfstillingu markaðarins, sem frjálshyggjumenn töldu sjálfgefna. Töfrar ósýnilegu handarinnar myndu tryggja eilífa farsæld!

Af þessu öllu varð hér stærsta bóluhagkerfi sögunnar og stærsta fjármálahrun sögunnar, að mati AGS og OECD.

Við Íslendingar höfum síðan sopið seyðið af þessum göruga frjálshyggjudrykk – og verðum fyrir vikið á kafi í skuldum um langa framtíð.

Frjálshyggjan reyndist vera leiðin til ánauðar! Skuldaánauðar.

Verst er að fúskararnir sem fluttu þessa speki til landsins og stjórnmálamennirnir sem fylgdu ráðum þeirra hafa ekkert lært og engu breytt í stefnumálum sínum.

Þeir virðast ætlað að halda sínu striki inn í framtíðina – komist þeir til valda á ný.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar