Laugardagur 16.02.2013 - 14:24 - FB ummæli ()

Svona virka skattleysismörk

Um daginn birti ég tölur um raunverulega greidda beina skatta hjá fjölskyldum í ólíkum tekjuhópum, frá 1996 til 2010 (sjá hér).

Þar kom meðal annars fram hvernig skattbyrði lágtekjufólks jókst umtalsvert frá 1995 til 2004, en lækkaði talsvert eftir hrun.

Ein af mikilvægari skýringum á þeirri þróun er rýrnun skattleysismarka. Það þýddi að lágtekjufólk greiddi tekjuskatt af sífellt stærri hluta tekna sinna. Þannig eykst skattbyrði þeirra, jafnvel þó álagning geti verið sú sama frá ári til árs.

Á myndinni hér að neðan má sjá góða vísbendingu um þessa rýrnun skattleysismarka, í samanburði við heildarlaun verkafólks (verkamannalaun koma frá Hagstofunni en upphæð skattleysismarka frá Ríkisskattstjóra).

Hér má sjá hvernig skattleysismörkin þróuðust. Þau fóru frá því að nema 40% af heildarlaunum verkafólks árið 1998 og niður í 26% árið 2007. Síðan hækkuðu þau á ný og eftir hrun náðu þau hámarki í um 34-35% af launum verkafólks. Þess vegna lækkaði skattbyrði verkafólks eftir hrun, en hækkun vaxtabóta jók þau áhrif enn frekar.

Þannig minnkaði verulega sá hluti launa verkafólks sem var skattfrjáls, allt til 2007. Ríkisstjórnirnar sem sátu á tímabilinu frá 1995 til 2007 kenndu sig við frelsi og skattalækkanir, en þær rýrðu verulega skattfrelsi verkafólks og hækkuðu skattbyrði þess.

Aðrir þjóðfélagshópar eru með lægri tekjur en verkafólk, t.d. öryrkjar og atvinnulausir. Fyrir þá skipta skattleysismörkin enn meira máli en fyrir verkafólk.

Lífeyrisþegar sem einkum stóluðu á lífeyri almannatrygginga voru skattfrjálsir til 1996 (tekjur þeirra voru þá undir skattleysismörkum), en eftir það tóku þeir að greiða tekjuskatt af sífellt stækkandi hluta tekna sinna, allt til 2006 (sjá hér, töflu 1).

 

Virkni og mikilvægi skattleysismarka

Skattleysismörk eru þannig mjög mikilvæg fyrir skattbyrði, sérstaklega fyrir lægri og milli tekjuhópa. Þau skipta hátekjufólk hins vegar litlu eða engu máli, enda eru þau svo lítill hluti tekna þeirra.

Skattleysismörk geta oft verið 80-100% af tekjum lífeyrisþega en einungis 3-5% af tekjum forstjóra. Þess vegna getur hátekjufólki verið sama hvort skattleysismörk lækki eða hækki – og kanski þess vegna vilja sumir í efri þrepum tekjustigans leggja þau af. Við það myndu kjör lágtekjufólks hins vegar rýrna stórlega.

Barnabætur og vaxtabætur eru einnig mikilvægar fyrir skattbyrði fjölskyldna, enda dragast þær frá álögðum skatti, eins og persónufrádrátturinn (sem myndar skattleysismörkin). Lífeyrisiðgjöld dragast hins vegar frá skattstofni, sama hlutfall af launum hjá öllum (en ekki föst krónutala eins og skattleysismörk) og hafa þau því svipuð áhrif á skattbyrði í ólíkum tekjuhópum.

Almenna reglan í nútímanum er sú, að skattleysismörk og önnur viðmið skattkerfisins (t.d. mörk milli álagningarþrepa) hækki svipað og meðalhækkun launa. Ef það gerist ekki þá aukast tekjur ríkisins umfram launahækkunina og jafnvel umfram hagvöxtinn, þ.e. báknið blæs út, eins og sjálfkrafa sé.

Það að viðmið skattkerfisins fylgi launaþróuninni tryggir að skattkerfið er í megindráttum það sama frá ári til árs og hlutdeild tekna hins opinbera vex með þjóðarframleiðslunni, en ekki meira. Dreifingaráhrif beinna skatta haldast þá einnig svipuð (þ.e. skattbyrði ólíkra tekjuhópa).

Ef viðmiðin fyrir mörkum milli álagningarþrepa fylgja ekki launaþróuninni þá fara tekjur fólks í vaxandi mæli í hærri álagningarþrep. Ef slíkt gerist yfir langan tíma þá verða allir skattgreiðendur smám saman komnir í efsta þrep! Það er almennt ekki látið gerast í vestrænum samfélögum.

Ef skattleysismörk hækka minna en laun og jafnvel minna en verðlag (eins og gerðist á Íslandi) þá hækkar skattbyrði lægri tekjuhópa verulega.

 

Niðurstaða: Skattar og frelsi

Rýrnun skattleysismarka átti stóran þátt í aukinni skattbyrði lægri og milli tekjuhópa á áratugnum eftir 1996. Raunlækkun barnabóta og vaxtabóta hafði sömu áhrif á sama tíma.

Skattleysismörk þurfa að fylgja launaþróuninni frá einu ári til annars. Ef það gerist ekki þá eykst hlutur ríkisins af þjóðarkökunni því skattbyrði fjölskyldna eykst, mest í lægstu tekjuhópum, að öðru óbreyttu. Ekki er nóg að skattleysismörk fylgi verðþróun.

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar minnkuðu skattfrelsi verkafólks, lífeyrisþega og annarra lágtekjuhópa.

Þær juku hins vegar skattfrelsi hátekjuhópa, fyrirtækjaeigenda og stóreignafólks.

Frelsinu var sem sagt mjög misskipt. Aukið hjá hástéttinni, en minnkað hjá milli og lægri tekjuhópum.

Var það kanski alltaf markmiðið með frjálshyggjupólitíkinni? Þannig varð einmitt þróunin í Bandaríkjunum á síðustu áratugum – fyrir tilstilli frjálshyggjustefnunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar