Fimmtudagur 14.02.2013 - 14:38 - FB ummæli ()

Svona greiddi fólk skatta, 1996 til 2010

Nú í kjölfarið á birtingu nýrrar skýrslu ASÍ um lífskjör á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er gagnlegt að rifja upp hvernig skattbyrði ólíkra tekjuhópa þróaðist á áratugnum fram að hruni – og einnig eftir hrun.

Í töflunni hér að neðan er sýnt hvernig raunveruleg skattbyrð fólks í ólíkum tekjuhópum þróaðist frá 1996 til 2010.

Tölurnar eru niðurstöður Ríkisskattstjóra um hversu mikið fólk í viðkomandi tekjuhópum greiddi í reynd, eftir álagningu og alla löglega frádrætti (m.a. persónufrádrátt, barnabætur, vaxtabætur og lífeyrisiðgjöld einstaklinga).

Taflan sýnir hversu stóran hluta af heildartekjum sínum fjölskyldur í ólíkum tekjuhópum greiddu í beina skatta frá 1996 til 2010. Hópur I eru þau 10% fjölskyldna sem lægstu tekjur höfðu, hópar V og VI eru miðtekjuhóparnir og hópur X eru þau 10% fjölskyldna sem höfðu hæstu tekjurnar. Auk þess er sýnd skattbyrði tekjuhæsta 1% fjölskyldna, lengst til hægri í töflunni.

Gögn: Reiknað úr tölum ríkisskattstjóra. Gögnin ná til hjóna og sambúðarfólks. Tölurnar sýna greidda beina skatta sem hlutfall heildartekna fyrir skatt. Gögnin eru því raunverulega greiddir skattar (e: effective tax burden), en ekki reiknuð eða áætluð stærð. Taflan kemur héðan.

Hér má sjá hvernig raunveruleg skattbyrði lágtekjufólks jókst frá -6% árið 1996  og upp í 4,1% árið 2004, en lækkaði svo rólega til 2008 og síðan mun meira eftir hrun, eða niður í -3,0%. Hjá næst tekjulægsta hópnum (hópur II) fór skattbyrðin úr 1,1% og upp í 12,2% árið 2004 en var svo komin niður í um 7% árið 2010. Þetta eru miklar sveiflur á skattbyrði hjá lágtekjufólkinu.

Hjá miðtekjuhópunum var sambærileg þróun, en mun minni að stærðargráðu. Hjá hópi V fór skattbyrðin úr 16,4% upp í 21,2% árið 2004 og svo aftur niður í 17,5% eftir hrun.

Í hátekjuhópunum varð þróunin hins vegar mest afgerandi. Hjá tekjuhæstu 10% heimila (hópur X) fór skattbyrðin úr 30,3% niður í 17,1% árið 2007. Skattbyrðin lækkaði um tæpan helming, sem virðist vera fordæmalaust á Vesturlöndum á síðustu áratugum (sjá hér). Eftir hrun varð hún síðan hækkuð upp í rúm 30% á ný, eða svipað og hafði verið um 1996.

En í allra tekjuhæsta hópnum (Efsta 1% fjölskyldna) fór skattbyrðin úr 32% árið 1996 og niður í 13% árið 2007, áður en hún hækkaði á ný eftir hrun í rúm 33%. Skattbyrði hátekjuhópa var þannig aukin eftir hrun, en þó ekki meira en upp á svipað stig og verið hafði um 1996.

Niðurstaða ASÍ er sú, að skattbyrði hátekjufólks á Íslandi sé nú lægri en er hjá sambærilegum hópum á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir hækkunina eftir hrun. Skattbyrði lágtekjufólks er einnig talsvert lægri hér, en hjá millitekjufólki virðist hún vera svipuð. Hækkun barnabóta á árinu 2013 gæti bætt stöðu millitekjuhópa hér í þessu tilliti.

 

Helstu ástæður breyttrar skattbyrði

Hvers vegna varð þessi aukning á skattbyrði lágtekjufólks frá 1996 til 2004? Það varð einkum vegna þess að skattleysismörk fylgdu ekki hækkun launa. Því greiddi lágtekjufólk skatt af sífellt stærri hluta tekna sinna. Einnig lækkuðu barnabætur og vaxtabætur ár frá ári á þessum tíma, en þær dragast frá álögðum tekjuskatti.

Þrátt fyrir að lífeyrisiðgjöld væru gerð frádráttarbær á tímabilinu breytti það ekki því, að skattbyrði lágtekjufólks hækkaði umtalsvert, um leið og skattbyrði hátekjufólks lækkaði. Lífeyrisiðgjöld urðu frádráttarbær frá skatti til að afnema tvísköttun lífeyrissparnaðar (en ekki til að koma í stað rýrnandi skattleysismarka).

Lækkuð skattbyrði hjá lágtekjufólki eftir hrun tengdist bæði hækkun persónufrádráttar, lækkun launa og stórhækkun vaxtabóta. Einnig voru barnabætur í meiri mæli greiddar til allra tekjulægsta fólksins.

Lækkuð skattbyrði hjá hátekjufólki varð áberandi eftir að fjármagnstekjuskattur hafði verið tekinn upp um 1998, en fjármagnstekjur fóru mjög vaxandi eftir það, ekki síst í bóluhagkerfinu frá 2000 til 2007. Fjármagnstekjur eru algengastar og langhæstar hjá hátekjufólki, því meiri sem ofar í tekjustigann er litið.

Þar eð fjármagnstekjur báru léttari skattbyrði en aðrar tekjur lækkaði heildar skattbyrði hátekjufólks um leið og hlutdeild fjármagnstekna í heildartekjum þeirra jókst. Auk þess var hátekjuskatturinn aflagður á árunum frá 2004 til 2007.

 

Niðurstaða

Skattbyrði lágtekjufólks jókst verulega frá 1996 til 2004, en lækkaði eftir hrun. Skattbyrði hátekjufólks lækkaði hins vegar stórlega frá 1996 til 2007, einkum vegna aukinna fjármagnstekna í hærri tekjuhópum, en einnig vegna lækkunar hátekjuskattsins.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði hátekjuhópa, bæði vegna hærri álagningar en einnig vegna lækkunar fjármagnstekna.

Nánar má lesa um þessi mál í nýlegri fræðilegri grein eftir mig og Arnald Sölva Kristjánsson hagfræðing, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla (hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar