Mánudagur 06.05.2013 - 12:31 - FB ummæli ()

Rökvillur HHG um hrunið

Ég benti á það í síðustu grein minni að Hannes Hólmsteinn hefði í umfjöllun sinni horft framhjá algengustu skýringum fræðimanna á íslenska fjármálahruninu, þ.e. frjálshyggjuáhrifum, afreglun, lausatökum í eftirliti og aðhaldi (afskiptaleysisstefnu), vafasamri hegðun bankamanna og gríðarlegri skuldasöfnun.

Því til viðbótar má benda á rökvillur sem eru í málflutningi Hannesar þegar hann hafnar algengum skýringum á hruninu. Þær snerta fjögur atriði.

Skoðum þau nánar:

1. Fullyrðing Hannesar: Bankarnir voru ekki of stórir, heldur Ísland of lítið. Rekstrarsvæði bankanna var EES en verndarsvæðið var Ísland. Þetta var “kerfisvilla”.

Villa 1: Um íslensku bankana giltu eftir sem áður lög og reglur og stjórnvöld, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið áttu að tryggja fjárhagslegan stöugleika og verja þjóðina gegn áföllum. Ef ógn stafaði af frelsi bankanna erlendis (kerfisvillu) átti að bregðast við því á Íslandi, með reglun, aðhaldi eða t.d. með flutningi höfuðstöðva þeirra til einhvers ESB lands. Það stóð hvergi að bankarnir hefðu frelsi til að steypa Íslandi í glötun. Eftirlitið og aðhaldið brást: Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnsýslan opinbera – auk einkabankanna sjálfra sem voru reknir eins og spilavíti með lánsfé. Bankarnir íslensku voru vissulega of stórir – m.a. vegna þess að þeir voru spilavíti.

2. Fullyrðing Hannesar: Ha Joon Chang hafði rangt fyrir sér um að hér hefði verið gerð frjálshyggjutilraun, sem brást.

Villa 2: Hannes sjálfur hefur gert grein fyrir hinni miklu frjálshyggjutilraun sem hér var gerð eftir 1995 (sjá hér). Hannes hefur að vísu fullyrt að tilraunin hafi gengið vel til 2004, en farið afvega vegna Baugs-klíkunnar eftir það! Eftir stendur að hér var gerð frjálshyggjutilraun (aukið frelsi á fjármálamarkaði án viðeigangi eftirlits og aðhalds) sem mistókst herfilega, með hruni fjármálakerfisins. Þegar árið 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda, með tilheyrandi áhættu. Það versnaði síðan stórlega alveg að hruni.

3. Fullyrðing Hannesar: Bankamennirnir voru aular. En bankamenn annarra landa voru þá líka aular og fóru ekki  síður gáleysislega en þeir íslensku.

Villa 3: Vera má að bankamenn séu alls staðar eins. En hér var umhverfið þannig að þeir komust lengra afvega en í flestum öðrum vestrænum löndum. Hér var lengra gengið í skuldasöfnun og áhættu, lausatök voru meiri vegna meira frelsis og minna aðhalds og eftirlits. Þó hér hafi gilt almennt regluverk EES umhverfisins þá var framfylgnin lausari, t.d. varðandi skattaframkvæmd og aðgengi að erlendum skattaskjólum, krosseignartengsl og starfshætti bankanna sem urðu á köflum sviksamlegir og tilefni margra ákæruefna.

4. Fullyrðing Hannesar: Seðlabankinn gerði ekki mistök. Hann segir Robert Wade, sem færði rök fyrir því, hafa farið ranglega með nokkur atriði í grein sinni (missagnir hans snérust flestar um annað en starfshætti seðlabankans í aðdraganda hrunsins).

Villa 4: Eins og Hannes segir sjálfur, þá voru íslensku bankarnir án virks tryggingaverndarsvæðis, þó Seðlabankinn ætti að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi. Það voru því mistök hans að bregðast ekki við þeim göllum sem fólust í kerfisáhættunni sem HHG nefnir. Það eru líka niðurstöður flestra sem fjölluðu um orsakir hrunsins (Karlo Jänneri, Rannsóknarnefndar Alþingis og ýmissa erlendra og innlendra fræðimanna). Meira að segja erlendir frjálshyggjumenn komust að þeirri niðurstöðu að Seðlabanki Íslands hafi gert mikil og afdrifarík mistök (hér).

Rök Hannesar gegn algengum skýringum fræðimanna og erlendra hagsýslustofnana eru því léttvæg.

Mjög léttvæg!

 

Síðasti pistill: Uppgjör Hannesar Hólmsteins við hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar