Laugardagur 04.05.2013 - 21:25 - FB ummæli ()

Uppgjör Hannesar Hólmsteins við hrunið

Hannes Hólmsteinn Gissurarson flutti í gær fyrirlestur á ráðstefnu í háskólanum á Bifröst, sem hann kallar uppgjör sitt við hrunið. Fyrirlesturinn var sundurlaust samtíningur sem hafði það megin markmið að fría frjálshyggjuna og Davíð Oddsson af allri ábyrgð á hruninu.

Þó maður skilji vel að frjálshyggjumenn vilji komast hjá því að svara til saka fyrir áhrif sín á áratugnum fram að hruni, þá var þetta heldur þunnur þrettándi, því frjálshyggjan, Hannes sjálfur og Davíð Oddsson voru í lykilhlutverkum við mótun þeirrar þróunar sem endaði með hruninu.

Hannes byggði umfjöllun sína ekki á neinum viðurkenndum fræðilegum skýringum á fjármálakreppum og horfði framhjá sumum af stærstu og augljósustu áhrifavöldunum.

Skoðum þetta nánar.

 

Það sem erlendir fræðimenn segja um fjármálakreppur

Mikilvægt er að orsakir og afleiðingar hrunsins verði kannaðar til hlítar og gerðar upp til fulls. Þannig lærum við af mistökum og verjumst slíkum óförum í framtíðinni.

Erlendis hefur mikið verið fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og settar fram skýringar á orsökum hennar, af fræðimönnum sem sérfróðir eru um þennan málaflokk.

Mikill samhljómur er í helstu umfjöllunum alþjóðastofnana (IMF, OECD o.fl.) og sérfræðinga um orsakir fjármálakreppunnar, svo sem hjá Reinhart og Rogoff, Rubini, Krugman, Stiglitz, Aliber og Kindleberger – og jafnvel hjá frjálshyggjumanninum Richard Posner, svo nokkrir séu nefndir (sjá hér).

Sumir frjálshyggjumenn (ekki síst á Íslandi) reyna þó að færa rök fyrir því að fjármálakreppan hafi orðið vegna of mikilla ríkisafskipta, en það er mjög langsótt og raunar fráleitt, vegna þess að ríkisafskipti af fjármálaheiminum hafa víðast stórminnkað frá um 1980. Fræðimenn eru flestir sammála um það.

Fjármálakreppan kom í kjölfar bóluhagkerfis, þar sem stóraukin spákaupmennska með lánsfé var í lykilhlutverki. Flestir rekja orsakir spákaupmennskunnar og bóluhagkerfisins til aukins frelsis á fjármálamörkuðum, sem stafaði af auknum frjálshyggjuáhrifum eftir 1980.

Þeim tengdust afreglun (de-regulation), aukin afskiptaleysisstefna er byggði á oftrú á sjálfstýringu fjármálamarkaðarins, og ýmis nýmæli á markaðinum sem juku lausatök hvers konar.

Þessi auknu lausatök auðvelduðu meiri áhættuhegðun og leiddu til of mikillar skuldasöfnunar. Reinhart og Rogoff sýna glögglega hvernig hin aukna skuldasöfnun var lykilþáttur aukinnar áhættu sem svo brast á endanum. Þau benda á að Ísland og Írland hafi verið í sérflokki hvað varðar gríðarlega öra skuldaaukningu í aðdraganda hrunsins.

 

Fjármálakreppan á Íslandi

Þróunin á Íslandi var þannig, að hér jókst frelsi á fjármálamarkaði, fyrst rólega frá og með níunda áratugnum en síðan með stigvaxandi hraða frá 1995. Aðild að EES opnaði fyrir frjálst flæði fjármagns og einkavæðing bankanna hleypti nýjum aðilum að bönkunum, sem gjörbreyttust strax í kjölfarið úr viðskiptabönkum í áhættusækna fjárfestingabanka.

Stjórnvöld voru algerlega andvaralaus gagnvart nýjum hættum fyrir þjóðarbúið sem þessum breytingum fylgdu.

Á Íslandi tóku erlendar skuldir að aukast með stigvaxandi hraða frá 1998 (eftir að einkaaðilar komu að eignarhaldi helstu bankanna) og tóku svo stökk uppávið frá og með byrjun árs 2003. Í lok árs 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda. Skuldirnar áttu eftir að aukast stórlega til viðbótar í framhaldinu, raunar margfaldast.

Einkenni bóluhagkerfisins og fjármálahrunsins á Íslandi eru að mestu leyti svipuð og í klassískum lýsingum fræðimanna á fjármálabólum og fjármálakreppum. Sérstaða Íslands felst einkum í því, að hér varð þróunin örari og ýktari en annars staðar. Hér gekk þetta allt lengra: lausatökin og afskiptaleysisstefnan, áhættusæknin, braskið, skuldasöfnunin, ójöfnuðurinn og andvaraleysi eftirlitsaðila og stjórnvalda.

 

Uppgjör stjórnanda frjálshyggjutilraunarinnar

Þegar Hannes Hólmstein Gissurarson, sjálfur hugmyndafræðingur “Íslenska efnahagsundursins”, flytjur fyrirlestur um uppgjör sitt við hrunið þá vill maður gjarnan heyra hvað hann ber á borð. Hann var sjálfur meðal helstu skipuleggjenda hrunadansins kringum gullkálfinn.

Þetta “uppgjör” hans olli hins vegar miklum vonbrigðum.

Hannes byggði í engu á skipulegum fræðilegum umfjöllunum um viðfangsefnið, hvorki erlendum né innlendum. Í staðinn tíndi hann til sundurlausa mola héðan og þaðan til að styðja þann fyrirframgefna boðskap sinn, að frjálshyggjan og Davíð Oddsson bæru enga ábyrgð á því sem gerðist hér á Íslandi. Það var söguþráðurinn – en ekki leit að skýringum á hruninu eins og boðað var!

Á máli Hannesar mátti skilja að ekkert hefði verið óeðlilegt við framvinduna á Íslandi eftir 1995, nema helst framferði einnar auðmannaklíku – og virtist hann þá einungis eiga við Baugsveldið. Í lokin sagði Hannes að helsta orsök hrunsins hefði verið óheppni og óvild erlendra þjóða.

Í sundurlausu erindi Hannesar gætti ýmissa mótsagna og skorts á skilningi á lykiláhrifaþáttum, eins og fram koma í umfjöllunum erlendra fræðimanna á sviðinu.

Hann sagði t.d. að bankarnir hefðu ekki verið of stórir, heldur Ísland of lítið! Erlendir fræðimenn og úttektaraðilar (t.d. Jänneri úttektin, Rannsóknarnefnd Alþingis o.fl.) gera áhættusækni og of hröðum vexti bankanna og endanlegri ofurstærð þeirra hins vegar mjög hátt undir höfði sem einum af orsakavöldum hrunsins. Þar brugðust stjórnvöld og eftirlitsaðilar því að verja þjóðina gegn aukinni áhættu sem þessum mikla vexti fylgdi, ekki síst Seðlabanki Davíðs Oddssonar.

Síðan eru mótsagnirnar skrautlegar: á einum stað sagði Hannes að hér hefði verið um að ræða aukin frjálshyggjuáhrif en á öðrum að þetta hefðu engin sérstök frjálshyggjuáhrif verið! Í einn stað sagði Hannes að aukin ríkisafskipti væru ein af helstu orsökum kreppunnar (eða hefðu gert illt verra) en í annan að stjórnartími Davíðs Oddssonar hefði ekkert haft með þetta allt að gera, hvorki í ríkisstjórnum né Seðlabanka.

Sérstaklega sagði Hannes að allt hafi verið hér í fínasta lagi til 2004 (á meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra). Þá horfir Hannes framhjá því að Davíð stýrði þjóðarskútunni inn í það frjálsræðis- og afskiptaleysisástand sem gerði auknu lausatökin möguleg, auk þess sem Ísland náði þeim vafasama heiðri að verða skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda á vakt Davíðs í forsætisráðuneytinu, þegar á árinu 2004 (sjá hér).

Hannes hefur raunar sjálfur áður þakkað Davíð fyrir slíka róttæka frjálshyggjuvæðingu íslenska samfélagsins í erlendri blaðagrein, sem hann sagði hafa verið á pari við þekktar tilraunir með frjálshyggju í Chile Pinochets, Nýja Sjálandi og í Bretlandi Thatchers (sjá hér)!

Einnig horfir Hannes framhjá því að frá 2005 varð Davíð Oddsson aðalbankastjóri Seðlabankans og þar með æðsti yfirmaður íslenska fjármálakerfisins. Hann varð yfirmaður ríkisafskipta af fjármálakerfinu! Þar átti hann að vernda stöðugleika þess og gjaldmiðilsins. Fjármálakerfið bólgnaði út með svo fordæmalausum hætti á vakt Davíðs í Seðlabankanum að bólan sprakk haustið 2008 – í einu stærsta fjármálahruni sögunnar.

Seðlabankinn sjálfur varð gjaldþrota. Kanski einhver mistök hafi verið gerð á vakt Davíðs í Seðlabankanum, sem hefði verið þess virði að nefna ef menn væru í alvöru að leyta skýringa á því sem afvega fór á Íslandi? Það gera einmitt ýmsir erlendir fræðimenn (t.d. þessir, sem eru raunar frjálshyggjumenn).

Svo má auðvitað rifja upp að Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að seðlabankastjórarnir allir hefðu gerst sekir um alvarlega vanrækslu í starfi sínu, ásamt forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

En menn missa af slíkum lykilatriðum í framvindunni þegar markmiðið er að fría ábyrgðarmennina ábyrgð, eins og var í erindi Hannesar.

 

Dómari í eigin sök?

Raunar er Hannes einnig að fría sjálfan sig af ábyrgð á því sem hér gerðist, enda var hann helsti hugmyndafræðingur og klappstýra frjálshyggjutilraunarinnar og fjármálamiðstöðvarinnar, sem Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn komu í framkvæmd.

Það verður auðvitað léttvæg “fræðimennska” þegar Hannes gerist dómari í eigin sök. En skrif Hannesar eru oftast því marki brennd, að vera áróður fyrir róttækri frjálshyggju og réttlæting þess sem henni fylgir, rétt eins og var í þessu erindi. Þá víkur öll fræðimennska og óheilindi bragðarefsins taka við. Þannig eru einmitt flest skrif Hannes Hólmsteins (sjá gott dæmi um slík vinnubrögð hér).

Þeim sem vilja skoða gagnlega bók fræðimanna um orsakir og aðdraganda fjármálakreppunnar á Íslandi skal bent á ritgerðasafn Roberts Z. Alibers og Gylfa Zöega (2011), Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Síðan ættu menn að kynna sér rit viðurkenndra fræðimanna á sviðinu, eins og t.d. rit þeirra sem að ofan eru nefndir – og auðvitað skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

 

Fyrri pistill: Miðjan og pólitíska landslagið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar