Laugardagur 01.06.2013 - 11:33 - FB ummæli ()

Horfurnar í heimsbúskap og heimahögum

Þó alþjóðlega fjármálakreppan sé ekki yfirstaðin er nokkuð ljóst hvað blasir við í þróun heimsbúskaparins.

Vestrænar þjóðir, Evrópa og Ameríka, sitja uppi með þunga skuldaklafa og munu njóta frekar lítils hagvaxtar á næstu árum, miðað við fyrri áratugi. Stjórnmál innanlands munu einkennast af umtalsverðum átökum og sundrungu, meðal annars vegna aukins ójafnaðar, tapaðs trausts á stjórnmálum og minnkandi umburðarlyndis.

Dani Rodrik, merkur hagfræðiprófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, telur að flestar vestrænu þjóðirnar muni af þessum sökum verða innhverfari í viðfangsefnum sínum á næstu árum. Þær muni hafa minnkandi getu til að sinna alþjóðlegu samstarfi og samvinnu, sem muni koma niður á hagsældartækifærum allra.

Nýju rísandi hagsældarríkin (Kína, Indland og Brasilía) telur hann ekki líkleg til að filla tómarúmið sem Evrópa og Ameríka munu skilja eftir sig. Hann telur sem sagt að tækifærum er tengjast hnattvæðingunni muni fækka og því muni hægja á allri hagsældarþróun.

Það gæti víða hrikt í stoðum í slíkum aðstæðum. Nútímaþjóðir eru svo háðar hagvextinum í lífsháttum sínum. Sumum þjóðum mun þó áfram vegna vel (ekki síst þeim sem eru með minni skuldir og stóla minna á heimsmarkaðinn), segir Dani Rodrik.

Þungum skuldaklafa fylgir gjarnan hægari hagvöxtur, því stærri hluti kaupmáttarins fer í afborganir skulda. Eftirspurn neytenda verður of lítil og fjárfesting til nýsköpunar ófullnægjandi. Það eru dæmigerðar afleiðingar djúprar fjármálakreppu.

Fjármálahagfræðingarnir Reinhart og Rogoff hafa lagt mikla áherslu á að þjóðir sem eru með mestu skuldaklafana þurfi að fá skuldaafskriftir. Annars verða höft á hagvexti þeirra langt inn í framtíðina.

Við Íslendingar þurfum líka að taka langtímahorfurnar inn í myndina. Okkar fjármálakreppa var eins sú allra dýpsta og þjóðarbúið er með gríðarlegan skuldaklafa – ríkið, heimilin og fyrirtækin.

Þó við séum á uppleið þá er hún hæg og hikandi. Sumir leita enn galdralausna, einkum í nýjum álverum. Það er ekki nóg og varla skynsamlegt heldur.

Þó talsvert hafi þegar verið afskrifað af skuldum á Íslandi þarf meira til. Samkvæmt viðmiðum Reinhart og Rogoff er skuldabyrði íslenska þjóðarbúsins of mikil. Því til viðbótar er svo ónóg framleiðsla gjaldeyris er tengist snjóhengjuvandanum og fyrirliggjandi kröfum erlendra fjármagnseigenda hér á landi. Án verulegra afskrifta losnum við ekki við gjaldeyrishöftin innan fyrirsjáanlegrar framtíðar.

Við eigum þess vegna ekki að forðast að nálgast slík viðfangsefni heldur sækja fram. Það á ekki bara við um heimilin heldur einnig um skuldir ríkisins og fyrirtækjanna.

En það er góð áhersla að setja heimilin í forgang, því þau eru undirstaða þjóðarbúskaparins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar