Sunnudagur 07.07.2013 - 16:50 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæði væri gott fyrir Framsókn

Það voru Sjálfstæðismenn sem lögðu mesta áherslu á að ná fram lækkun veiðigjaldsins fyrir útvegsmenn.

Sjávarútvegsáðherra Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fékk hins vegar það dapra hlutverk að koma því í framkvæmd. Þar með tóku Framsóknarmenn á sig óvinsældir vegna þessa forgangsmáls Sjálfstæðismanna!

Forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, kannar nú hvort hann eigi að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur áður gefið ádrátt um að slíkt komi vel til greina.

Það er vissulega djúp gjá milli þings og þjóðar í málinu. Mikill stuðningur er við núverandi veiðigjald meðal þjóðarinnar (70%) á meðan meirihluti Alþingis samþykkir umtalsverða lækkun þess. Undirskriftir um 35 þúsund kjósenda, er söfnuðust í kyrrþey á rúmri viku á sumarleyfistíma, eru einnig sterk og réttmæt krafa um aðkomu þjóðarinnar.

En fleira mælir með þjóðaratkvæði um lækkun veiðigjaldsins. Málið er grundvallaratriði um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Ef þjóðin nýtur ekki eignar sinnar á auðlindinni með sameiginlegum fjárhagslegum ávinningi þá verður eignarhaldið lítils virði – beinlínis innantómt.

Íbúar Alaska, hver og einn, hafa fengið heimsenda ávísun á hverju ári síðan 1982 vegna gjaldtöku fyrir afnot olíufélaga af olíuauðlind þjóðarinnar (sjá hér). Þetta eru um hundrað þúsund krónur á mann á ári, um 400 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær ríkissjóður Alaska um 80% af tekjum sínum frá olíuvinnslunni, sem gerir þeim kleift að leggja hvorki tekjuskatt á einstaklinga né söluskatt (vsk.) á neyslu heimilanna. Norðmenn njóta verulegs ávinnings af eignarhaldi þjóðarinnar á olíuauðlindum, með öflugum olíusjóði sínum.

Íslendingar hafa lengst af fengið ekkert auðlindagjald fyrir afnot einkaaðila af sjávarauðlindinni og áður en núverandi veiðigjald kom til sögunnar var hér í gildi sýndargjald, sem litlu skilaði. Nýja veiðigjaldið færði okkur nær leið Noregs og Alaska – en fjær leið Nígeríu.

Þetta er því stórmál sem þjóðin á vissulega að fá að tjá sig um. Atkvæðagreiðslurnar um Icesave-samningana voru atkvæðagreiðslur um fjárhagslegar skuldbindingar og mögulega framtíðarskattheimtu – svipað og veiðigjaldið er nú.

Á þessu eru svo enn fleiri fletir. Til dæmis væri það gott fyrir ríkiskassann að þjóðin felldi lækkun veiðigjaldsins. Þá þyrfti ekki að þrengja enn frekar að velferðar- og menntamálum, með niðurskurðaraðgerðum sem draga auk þess úr hagvexti. Gott væri að þjóðin fengi að tjá sig um slíka forgangsröðun.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um veiðigjaldsmálið er þannig grundvallarmál af stærstu gerð og rökrétt framhald þeirrar lýðræðisvæðingar sem núverandi forseti stofnaði til.

Loks er athyglisverður flötur á málinu sá, að það væri gott fyrir Framsókn að fá þjóðaratkvæði um málið, á hvorn veg sem það færi. Þá væri Framsókn losuð undan óvinsældum, sem framkvæmdin (fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins) skapar þeim.

Ef frumvarpið yrði fellt verður auk þess meira svigrúm til að efna velferðarloforð Framsóknar.

Framsókn ætti því sjálf að vera jákvæð gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ákvörðun forsetans nú er þannig mikilvæg – á marga vegu.

 

Síðasti pistill: Sjálfstæðismenn vega enn að Framsókn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar