Laugardagur 10.08.2013 - 11:00 - FB ummæli ()

Samanburður á fjölda opinberra starfsmanna

Menn fara oft mikinn þegar rætt er um “ríkisbáknið” og opinbera starfsmenn. Þeir sem eru á hægri væng stjórnmálanna vilja margir fækka opinberum starfsmönnum stórlega. Aðrir kunna að meta opinbera starfsemi á sviði velferðar, heilbrigðismála og menntunar, auk öryggisgæslu og stjórnsýslu.

Sumir virðast binda miklar vonir við að núverandi stjórnvöld muni skera mikið niður í opinbera geiranum, til viðbótar því sem þegar hefur verið gert eftir hrun.

Í þessari umræðu er oft farið óvarlega með staðreyndir. Það er því gagnlegt að freista þess að bera saman ábyggilegar tölur milli landa um fjölda opinberra starfsmanna (hjá ríki, sveitarfélögum og opinberum stofnunum eða fyrirtækjum). Slíkan samanburð má finna á myndinni hér að neðan, fyrir árin 2000 og 2008.

Opinberir starfsmenn 2000 og 2008

Opinberir starfsmenn alls sem hlutfall mannafla. (Heimildir: OECD og fjármálaráðuneytið)

Hér má sjá að hlutfall oinberra starfsmanna (í fullum störfum og hlutastörfum samanlagt) er um 20% á Íslandi og er það sjötta hæsta hlutfallið í OECD-ríkjunum. Margir eru í hlutastörfum í opinbera geiranum hér á landi.

Við komum næst á eftir norrænu velferðarríkjunum (Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi), ásamt Frakklandi. Frændþjóðir okkar eru með frá um 23% til 29%. Þar eru umtalsvert fleiri opinberir starfsmenn en hér.

Opinberi geirinn á Íslandi er hins vegar ódýrari en í mörgum öðrum OECD-ríkjum, því við erum mun neðar á listanum ef opinber útgjöld eru borin saman. Þar erum við í 17. sæti (sjá hér). Þetta bendir til að laun opinberra starfsmanna séu frekar lág hér á landi m.v. grannríkin.

Stærð velferðarþjónustunnar skiptir miklu máli fyrir fjölda opinberra starfsmanna. Norrænu velferðarsamfélögin eru farsælustu samfélög heimsins með bestu lífsgæðin fyrir almenning. Það er því enginn löstur að líkjast þeim.

Meðaltal OECD-ríkjanna er um 15% og hefur það lítið breyst frá 2000 til 2008. Bandaríkin eru rétt fyrir neðan meðaltalið með 14,6% (mest hjá sveitarfélögum/fylkjum).

Ísland var með um 17,9% vinnuaflsins í opinberum störfum árið 2000 og hækkaði það í 20,4% til 2008. Það er meiri fjölgun en í nokkru öðru OECD-ríki á sama tíma.

Frá 2008 til 2010 fækkaði stöðugildum opinberra starfsmanna í heild hins vegar um rúmlega 6% og starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu einni og sér fækkaði um nærri 20%. Óvíst er um þróun fjölda starfsmanna sveitarfélaga á þeim tíma.

Það voru því hægri stjórnir sem stækkuðu „báknið“ meira hér en annars staðar frá 2000 til 2008. Vinstri stjórnin dróg það síðan saman á kreppuárunum.

Helsta leiðin til að fækka opinberum starfsmönnum svo máli skipti er að færa rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu eða menntunar og velferðar yfir í einkageirann.

Reynslan af einkavæðingu er hins vegar skelfileg á Íslandi og óvíst að almenningur vilji hverfa frá leið norræna velferðarsamfélagsins.

Það verður því varla auðvelt að stórfækka opinberum starfsmönnum – en það væri hægt að halda aftur af fjölgun þeirra á næstu árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar