Mánudagur 19.08.2013 - 22:39 - FB ummæli ()

ESB málið – hagsmunum Íslands fórnað?

Evrópusambandslöndin eru okkar helstu samherjar og viðskiptavinir. Þangað eigum við mest að sækja.

Engin þjóð þrýfst í einangrun í hnattvæddum heimi nútímans.

Meirihluti ríkisstjórnarflokkanna er andvígur aðild Íslands að ESB. Það ber að virða.

Þó eru ekki allir flokksmenn þeirra andvígir ESB. Né samtök atvinnulífsins og ASÍ. Einnig stór hluti stjórnarandstöðunnar. Viðvarandi meirihluti kjósenda hefur lýst vilja í skoðanakönnunum til að klára aðildarviðræður síðust fjögur árin – óháð afstöðu til aðildar. Kanski stjórnvöld ættu að virða allt þetta?

En ég get ekki varist þeirri hugsun að leiðtogar okkar haldi nú illa á hagsmunagæslu Íslands til framtíðar. Hvers vegna?

Við eigum svo margt til Evrópu að sækja og höfum notið velvildar þar, meðal annars í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur verið okkur gríðarlega mikilvægt á sviði viðskipta, menningar, vísinda og rannsókna, auk margra fleiri sviða.

Við höfum notið velvildar í Evrópusambandsríkjunum til þessa, jafnvel þó fjárglæfrar íslenskra braskara og bankamanna hafi valdið miklu tjóni þar, t.d. í Þýskalandi og fleiri löndum.

 

Eru Íslendingar að loka á mikilvæg tækifæri í Evrópu?

Við erum með ónýtan gjaldmiðil og annar af tveimur vitrænum valkostum okkar varðandi framtíðarskipan þeirra mála er upptaka Evru, að mati Seðlabanka Íslands, eftir viðamikla úttekt á málinu (sjá hér).

Nú vilja leiðtogar okkar loka á alla möguleika á þeirri leið, án þess að kanna til hlítar hvað fælist í henni. Það hefði verið gert með því að klára aðildarviðræðurnar – án nokkurra skuldbindinga um aðild.

En stjórnvöld vilja ekki aðeins fresta viðræðum, heldur stöðva þær varanlega og loka þar með öllum möguleikum á aðild og upptöku Evru á næsta áratug eða lengur.

Það þýðir að við verðum fangar gengisfellingar-krónunnar til langrar framtíðar. Gjaldmiðils sem Seðlabankinn segir að magni vanda okkar, bæði á uppsveiflu og í kreppu. Kanski verðum við líka fangar varanlegra gjaldeyrishafta.

Við verðum þá fangar gjaldmiðils sem tryggir að íslensk heimili borga helmingi meira fyrir húsnæði sitt en þjóðirnar í Evru-löndunum. Og umtalsvert meira fyrir ýmsar neysluvörur. Þetta eru stórmál.

ESB þróast síðan áfram. Fljótlega siglir sambandið út úr fjármálakreppunni og þá verður umhverfið í Evrópu allt álitlegra.

ESB er nú að vinna að miklum fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Það gæti verið mjög mikilvægt fyrir okkur að fá aðild að þeim samningi. Hann er þó einungis fyrir aðildarríki (sjá hér).

En leiðtogar okkar mæta ESB með yfirlæti og hroka litla einfeldningsins. Halda menn að það leiði til þess að ESB leggi lykkju á leið sína til að leyfa Íslandi að njóta ábata af fríverslunarsamningi ESB við Bandaríkin? Varla.

Eða á öðrum sviðum?

Ég óttast að viðvaningsleg framganga, hroki sjálfhverfrar smáþjóðar og yfirlýstur fjandskapur hérlendra áhrifamanna í garð Evrópusambandsins verði okkur ekki til framdráttar.

Ég óttast að ýmsar mikilvægar dyr muni lokast Íslendingum á næstu árum.

Er ekki skynsamlegri stefna að hámarka möguleika okkar og tækifæri? Halda sem flestum dyrum opnum?

 

Síðasti pistill: ESB viðræður: Eru Íslendingar fífl?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar