Sunnudagur 15.09.2013 - 10:24 - FB ummæli ()

Afkoma þeirra ríku í kreppunni – USA og Ísland

Paul Krugman birti um daginn grein í New York Times um það hvernig þeir ríku í Bandaríkjunum eru komnir út úr kreppunni á meðan almenningur situr enn í viðjum hennar. Hann vísar í upplýsingar sem eru á myndinni hér að neðan (frá Piketty og Saez 2013).

Slide1

Hér má sjá hvernig tekjuhæstu 10 prósent heimila í Bandaríkjunum eru komin með stærri hlut af heildartekjum þjóðarinnar árið 2012 en var á bóluárinu 2007 – og raunar hærri en nokkrum sinnum fyrr síðastliðin 100 ár. Kreppa þeirra ríku varð bara lítil og stóð stutt.

Ríkustu 10 prósent heimila í USA eru með rúmlega helming heildartekna heimilanna. Ríkasta 1 prósentið var með rúm 23% árið 2007 en er nú með 22-23% heildarteknanna á ný.

Þeir ofurríku í USA eru sem sagt komnir aftur í rífandi sókn en almenningur situr eftir. Ójöfnuðurinn eykst enn frekar en orðið var.

Hvernig var þetta í kreppunni á Íslandi?

Vegna hins algera hruns hlutabréfamarkaðar og vegna jöfnunarstefnu vinstri stjórnarinnar þá varð þróunin önnur á Íslandi. Hana má sjá á myndinni hér að neðan, sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur reiknaði úr gögnum Ríkisskattstjóra. Miðað er við allar skattaskyldar tekjur (með söluhagnaði), fyrir skatt, eins og í efri línunni fyrir Bandaríkin.

Slide2

Tekjur ríka fólksins lækkuðu meira í kreppunni á Íslandi en í USA og hafa ekki hækkað eins bratt á ný – enn sem komið er.

Ríkustu 10 prósent fjölskyldna á Íslandi höfðu farið upp í um 43% heildartekna fjölskyldna árið 2007 (á móti tæplega 50% í USA). Hlutur ríkustu tíu prósentanna lækkaði svo meira á Íslandi en í USA, eða niður í 32% 2010 og er enn á svipuðum slóðum 2011.

Ríkasta eitt prósentið á Íslandi fór í 19,8% árið 2007 (á móti rúmlega 23% í USA) en lækkaði svo í 6,7-6,8% 2010 og 2011. Í USA fór hlutur ríkasta eins prósentsins ekki neðar en 18%.

Hrun hlutabréfamarkaðarins (sem lækkaði fjármagnstekjur hátekjufólks mikið) og stefna vinstri stjórnarinnar (aukin jöfnun tekna með sköttum og bótum) gerðu það að verkum að þróunin varð með öðrum hætti á Íslandi. Ekki eins hagstæð fyrir þá ríkustu og varð í Bandaríkjunum.

Vísbendingar eru um að hærri tekjuhópar hafi hækkað meira en aðrir á Íslandi á árinu 2012 (forstjórar og starfsmenn í fjármálageira), en það kemur í ljós síðar í vetur hvort það hafi breytt tekjuhlutdeildinni.

Síðan er athyglisverð spurning, hvernig þróunin verður á næstu árum, þegar hlutabréfamarkaður fer á meira flug og ef stjórnvöld breyta skatta- og bótastefnu sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar