Föstudagur 17.01.2014 - 00:30 - FB ummæli ()

Velferðarstefna í mjólkuriðnaði

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor er snjall og talnaglöggur maður. Hann er sífellt að grafa upp staðreyndir um undarlega viðskiptahætti, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði.

Hann hreyfir oft við gagnlegum umræðuefnum og lætur hvergi deigan síga þó sægreifar og bændahöfðingjar sæki að honum með vopnaskaki.

Hann heldur sínu striki og lætur staðreyndirnar tala.

síðast upplýsti Þórólfur að Mjólkursamsalan selur rjóma á margföldu kostnaðarverði og notar svo hagnaðinn af því til að niðurgreiða verð á mjólk og smjöri til almennra neytenda.

Við ríka fólkið sem kaupum mikið af rjóma fyrir jól og aðrar hátíðir greiðum sem sagt ofurverð fyrir rjómann og hagnaðurinn rennur til almennings sem kaupir alþýðlegri mjólkurvörur.

Þetta er eins og í velferðarríkinu í Skandinavíu. Þeir ríku eru skattlagðir þunglega og afraksturinn sendur til milli og lægri tekjuhópa í formi velferðarbóta og velferðarþjónustu. Þetta einkenni velferðarríkisins hefur raunar skapað bestu samfélög jarðarinnar – norræna módelið.

En þetta er þó ekki í samræmi við markaðsmódel kennslubókanna í hagfræði. Þykir ganga í berhögg við lög um frjálsa samkeppni og eðlilega verðmyndun.

 

Samræður við hagfræðinga

Ég spurði vini mína í hagfræðinni hvort þetta tíðkaðist ekki bara í fleiri atvinnugreinum? Hvort bílainnflytjendur (umboðin svokölluðu) verðlögðu ekki varahluti alltof hátt því þar hafa þeir neytendur í bandi?

Eða hvort t.d. Toyota umboðið selji ekki Landcruiser jeppann á ofurverði til ríka fólksins og noti svo hagnaðinn af því til að niðurgreiða Yaris bíla handa almenningi? Geti þannig selt meira af litlu bílunum en keppinautar þeirra á smábílamarkaði?

Nei, sögðu hagfræðingarnir. Ef þeir selja Landcruiser of dýrt þá fara aðrir að flytja hann inn og selja ódýrar – eða að ríkir neytendur velja frekar aðra sambærilega jeppa sem eru þá á betra verði. Samkeppnin virkar, því það er ekki einkasala á þessum bílum eða varahlutum, sögðu hagfræðingarnir.

En þá spurði ég: Eru nokkrir aðrir en Toyota umboðið að flytja inn Landcruiser eða varahluti fyrir Toyota bíla svo nokkru nemi? Er ekki næstum einkasala (einokun) á þessu, þrátt fyrir samkeppnislög og bann við umboðum og einkasölum?

Það er að vísu rétt sögðu þeir. Samkeppnismarkaðinum er ekki alveg fullkominn.

Hagfræðivinir mínir töldu hins vegar fráleitt að bílainnflytjendur létu hagnað af sölu lúxusvöru eða varahluta renna til að lækka verðið á alþýðubílum. Þeir myndu frekar stinga gróðanum í vasann.

Kanski er það meira að segja svo að bílainnflytjendur smyrja á ódýru bílana en selja jeppana frekar ódýrt. Það eru jú óvenju margir jeppar á Íslandi samanborið við önnur lönd.

En kanski er bara of miklu smurt á allt. Það er jú allt svo dýrt á Íslandi. Hæsta verðlag í heimi og hæstu vextir í heimi. Mesta ávöxtunarkrafan! Þarna eru rannsóknarefni.

Þá sagði ég:  Kanski velferðarkerfi mjólkuriðnaðarins sé þrátt fyrir allt betra fyrir neytendur en margir kaupmenn í einkageiranum.

Almennir neytendur, t.d. barnafjölskyldur, fá þó mjólkina og smjörið ódýrar en ella – vegna okursins á rjómanum!

Svo fær almenningur hinn bráðskemmtilega Guðna Ágústsson í kaupbæti hjá Mjólkursamsölunni.

Hann er óborganlegur þegar hann kemur glaðbeittur á skjáinn og útskýrir hvernig Mjólkursamsalan flytur inn írskt smjör til að tryggja nægilegt framboð af íslensku smjöri fyrir jólin!

“Íslendingar elska íslenska smjörið”, sagði Guðni – og kyssti Kusu á munninn.

Maður botnað auðvitað ekkert í þessari smjörlógík, en gleðst yfir glaðværðinni sem stafar frá Guðna.

Mjólkursamsalan er sem sagt hluti af velferðarríkinu á Íslandi.

Og allir elska velferðarríkið, eins og smjörið – nema auðvitað ríku karlarnir sem vilja ekki borga fyrir það…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar