Menn fara mikinn í umfjöllun um kaffispjall Gísla Marteins við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, í morgun. Spjallstjórinn var óvenju hvass og þrasgjarn – ólíkt því sem var er hann ræddi við Bjarna Benediktsson um síðustu helgi.
Mér fannst ámælisvert við upplegg Gísla Marteins að hann virtist gefa sér að eitthvað væri athugavert við það, að forsætisráðherra gagnrýndi Viðskiptaráð í vikunni. Rétt eins og ráðherrann hefði spillt einhverri veislugleði í Sjálfstæðisflokknum!
Eins og menn muna þá hefur Viðskiptaráð verið eins konar útibú frá frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins.
Mér fannst það hins vegar góðs viti að forsætisráðherra skyldi gagnrýna Viðskiptaráð, enda ferill ráðsins frá því fyrir hrun sérstaklega ámælisverður. Nýjustu hugmyndir þeirra eru litlu skárri en áður.
Sama gilti um gagnrýni ráðherrans á Seðlabankann. Gísla Marteini virtist misboðið að sjálfur forsætisráðherrann hefði gagnrýnt bankann, t.d. fyrir hávaxtastefnuna og neikvæða nálgun á áform ríkisstjórnarinnar um skuldalækkun til heimilanna.
Eins og Friðrik Jónsson, hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington, hefur bent á, þá er alvanalegt að stjórnvöld gagnrýni Seðlabanka efnislega, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Það hefur ekkert með sjálfstæði seðlabanka að gera. Þeir eru ekki yfir gagnrýni hafnir, þó þeir búi við stjórnskipulegt sjálfstæði. Seðlabankar mega líka gagnrýna ríkisstjórnir.
Sigmundur Davíð gerði hins vegar þau mistök í þættinum að láta þessi og önnur upplegg Gísla Marteins fara um of í taugarnar á sér og fór að þrasa við hann um spurningarnar og túlkanir Gísla. Slíkt kemur yfirleitt ekki vel út í sjónvarpi.
Forsætisráðherra virðist almennt vera óþarflega viðkvæmur fyrir gagnrýni. Betra er að svara bara efnislega.
Ráðherrann á til dæmis ekki að vera að amast við gagnrýnum skrifum háskólamanna um landbúnaðinn. Við erum með einn mesta stuðning við landbúnað í heiminum og hátt matvælaverð. Það ber að ræð fram og til baka – í leit að betri lausnum.
Ég hvet því kollega mína í háskólasamfélaginu, ekki síst Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor, til að láta hvergi deigan síga á þeim vígstöðvum – né öðrum.
Látum staðreyndirnar tala sem mest og víðast.
Gagnrýni er leyfð í lýðræðissamfélaginu.
Fyrri pistlar