Miðvikudagur 05.03.2014 - 11:23 - FB ummæli ()

Villandi tal um Svíþjóð

Þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir Svíþjóð vera “frjálshyggjuparadís í samanburði við Ísland” þá dregur hann upp villandi mynd af báðum löndum. Ég bendi á þrjú grundvallaratriði málsins:

  • Velferðarríkið í Svíþjóð er talsvert stærra og hlutverk ríkisins á því sviði er meira en á Íslandi.
  • Skattar eru talsvert hærri í Svíþjóð en á Íslandi – þó þeir hafi lækkað lítillega í tíð hægri stjórna þar.
  • Reglufesta og aðhald stjórnvalda er talsvert meira í Svíþjóð en á Íslandi og hefur lengi verið.

Það er hins vegar rétt hjá Árna Páli að Svíar hafa tekið hugmyndina um samkeppnismarkaði alvarlega og kanski af mun meiri alvöru en Íslendingar, sem hafa oft umborið einokunar- og fákeppnisaðstæður úr hófi.

Íslendingar hafa líka leyft alltof mikinn samgang stjórnmála og viðskipta með tilheyrandi spillingu.

Hér hefur afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar verið mjög ríkjandi sjónarmið og á árunum fram að hruni tengdist hún við mikið auðmannadekur og vaxandi frelsi og fríðindi til handa fjárfestum, bönkum og atvinnurekendum. Það jók ójöfnuð og endaði í skuldafeni og fjármálahruni.

Svíþjóð er réttar lýst sem þróttmiklu blönduðu hagkerfi en sem “frjálshyggjuparadís”. Svíþjóð sameinar öflugan samkeppnismarkað og viðamikið velferðarríki, sem endurdreifir tekjum og jafnar verulega, þvert á það sem óheft markaðsöflin myndu gera.

Ísland er nær nýfrjálshyggjuskipan hvað snertir sterka afskiptaleysisstefnu, lítið aðhald stjórnvalda gegn fjármálaöflum og losaralegt siðferði. Viðamikill samgangur stjórnmála og viðskipta hefur svo búið til fyrirgreiðslukerfi sem grefur undan samkeppnismörkuðum og auðveldar spillingu og óreiðu hér.

Markaðsumhverfið á Íslandi er þannig með minni samkeppni og ófullnægjandi aðhald, samanborið við Svíþjóð. Það færir íslenskum neytendum ekki nógu góð kjör á mörgum sviðum.

Það er rétt hjá Árna Páli að við getum lært margt af bæði Svíum og Evrópusambandinu um það hvernig efla má samkeppnisaðhald markaða.

Það snýst ekki um einhliða aukna frjálshyggju heldur um farsæla blöndu markaðshátta og ríkisaðhalds (reglun, eftirlit, ögun og velferðarforsjá fyrir almenning).

 

Síðasti pistill: Bjarni Ben: Lýðræði er óraunsæ krafa

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar