Traust almennings á Alþingi og stjórnmálum hrundi með falli bankanna. Lægst fór traustið á Alþingi niður í um 10% (þ.e. þeir sem sögðust bera mikið traust til þingsins).
Nýjasta Gallup könnun bendir til aukins trausts til Alþingis á þessu ári, það hækkaði úr um 15% í fyrra upp í 24%. Könnunin var gerð 12. til 23. febrúar, þ.e. áður en til mótmæla kom á ný vegna ESB-málsins.
Ætla má þó að traustið hafi lækkað aftur í kjölfar mótmælanna.
Á vegum ESB var gerð könnun meðal Evrópuþjóða á árinu 2012. Þar var m.a. spurt um traust til þjóðþinga. Fróðlegt er að bera Ísland saman við Evrópuþjóðirnar, á myndinni hér að neðan.
Traust almennings til þjóðþings viðkomandi lands 2012 (meðaltal á kvarða frá 1 til 10). Heimild: Eurofound
Ísland er í meðallagi í þessari könnun. Og það þegar traustið var heldur minna en á þessu ári. Það gæti komið einhverjum á óvart!
Almennt hefur traust á stjórnmálum og þjóðþingum minnkað í kjölfar kreppunnar, víðast á Vesturlöndum. Ekki bara á Íslandi.
En það er út af fyrir sig athyglisvert, að þrátt fyrir hið mikla áfall sem Ísland varð fyrir þá er enn minna traust til þjóðþingsins í um helmingi Evrópuþjóða en hér á landi.
Og traustið hér á landi var heldur vaxandi fram að yfirstandandi mótmælum.
Við erum þó enn langt frá því að vera sambærileg við frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Svíar, Danir og Finnar eru í efstu sætunum (Noregur var ekki með í könnuninni). Einkunnir frændþjóðanna eru um 40-50% hærri en okkar.
Minnst er traustið almennt í löndum Austur Evrópu og sunnar í álfunni.
Í Grikklandi, Lettlandi, Rúmeníu og Litháen er traustið miklu minna en á Íslandi. Það sama gildir um Ítalíu.
Þó hrunið hafi verið mikið áfall fyrir íslensk stjórnmál og grafið stórlega undan trausti almennings til stjórnmálanna þá er staðan verri í 18 Evrópuríkjum – og mun verri í sumum þeirra.
Traustið er sennilega einnig minna í Bandaríkjunum en hér á landi – þrátt fyrir allt.
Traustið til stjórnmálanna þarf vissulega að aukast. Til þess að það gerist þurfa þingstörfin að verðskulda aukna virðingu almennings.
Það er auðvitað mögulegt.
Fyrri pistlar