Á árunum fyrir hrun sýndi ég með opinberum gögnum hvernig skattbyrði hátekjufólks og fyrirtækjaeigenda hafði lækkað frá um 1995 til 2007, um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa hækkaði.
Aukna skattbyrðin var mest hjá allra tekjulægstu hópunum, lífeyrisþegum og láglaunafólki.
Síðan eftir hrun breytti ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms skattbyrðinni og þyngdi hana hjá tekjuhæstu hópunum og fyrirtækjaeigendum, þ.m.t. fjármagnstekjuskattinn. Um leið var skattbyrði lægri og millitekju hópa lækkuð eða stóð í stað.
Jöfnuður jókst vegna breyttrar skatta- og bótastefnu ríkisstjórnarinnar.
Þessi aukning skattbyrðarinnar á hærri tekjuhópa var ekki sérlega mikil í sögulegu samhengi og færði ástandið einungis nær því sem verið hafði í kringum 1995.
Tekjuskattbyrðin í heild var áfram nálægt meðaltali OECD.
Ég sætti mikilli gagnrýni frá hægri stjórnmálamönnum, atvinnurekendum og ekki síst frá róttækum frjálshyggjumönnum. Einnig frá Mogganum og Viðskiptablaðinu.
Þessir aðilar trekktu upp áróður um gríðarlegar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar og sögðu skattbyrði á Íslandi vera orðna þá hæstu í heimi!
Það var alltaf fjarri því að vera satt.
Í morgun var hins vegar frétt í Viðskiptablaðinu um að tekjuskattbyrði á Íslandi væri undir meðaltali OECD ríkjanna (sjá hér).
Nú er sem sagt orðið í lagi að segja satt um skattbyrðina á Íslandi!
Fyrri pistlar