Poppgoðið og gæðingurinn Rúnar Júlíusson hefði orðið sjötugur um þessar mundir, hefði hann lifað.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um framlag Rúnna Júll til þjóðlífsins á glæsilegum ferli hans.
Hann skilur eftir sig ríka arfleifð í tónlistinni, sem Keflvíkingar halda vel í heiðri, meðal annars með byggingu Hljómahallarinnar við Stapann.
Synir Rúnna, þeir Baldur og Júlli, skipulögðu tónleika í höllinni að þessu tilefni á laugardagskvöldið.
Þar voru margir af fremstu tónlistarmönnum landsins sem fluttu lög Rúnars og Hljóma í rífandi stemmingu – á þann hátt sem Rúnna hæfði best: Valdimar, Magni, Stefán í Dimmu, Salka Sól o.fl.
Baldur var sögumaður og setti lögin skemmtilega í samhengi og fleiri fjölskyldumeðlimir Rúnna stigu á stokk, auk Júlla sem sá um slagverkið.
Margar perlur mætti nefna en hámarki náðu tónleikarnir þegar keflvíski stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson söng lagið “Það þarf fólk eins og þig”, við undirleik Þóris Baldurssonar á hammond orgel.
Ég var þarna í hópi góðra vina og get staðfest að þetta var frábær skemmtun.
Það er gott að heiðra minningu öðlinga eins og Rúnars – og aldeilis frábært að gera það með þeim glæsibrag sem þarna var.
Hér eru tvær myndir sem ég tók í Stapanum og stílfærði lítillega:
Fyrri pistlar