Miðvikudagur 09.11.2016 - 12:07 - FB ummæli ()

Uppreisn alþýðunnar

Sigur Donalds Trump í forsetakosningunum vestra er sögulegur. Ekki bara fyrir Bandaríkin, heldur einnig fyrir vestræn ríki almennt.

Það er bandarísk alþýða sem færir Trump sigurinn. Einkum hvítt fólk úr lægri millistétt og verkalýðsstétt, sem setið hefur eftir í lífskjaraþróun síðustu þriggja áratuga.

Þessu fólki finnst það vera afskipt og sér störfin sín flytjast til annarra landa. Það sér nýja innflytjendur koma inn sem keppinauta, sem eru tilbúnir að þiggja lægri laun og lakari réttindi.

Þetta er alþýðan sem hefur gefið upp alla von um að Demókrataflokkurinn geri nokkuð til að breyta kjörum venjulegs fólks (en það var meðal sögulegra erinda þess flokks).

Alþýðan trúir ekki lengur á kerfið og hefðbundnu flokkana. Vill eitthvað nýtt, eitthvað sem kemur utanfrá.

Donald Trump er að vísu afar mótsagnakenndur “fulltrúi alþýðunnar”. Hann er auðugur fasteignabraskari, bólginn af sjálfsupphafningu, eigingirni og hégóma. Raunar er hann heldur ógeðfelldur í háttarlagi.

En hann talaði til alþýðunnar, sagðist ætla að færa þeim störfin aftur, halda innflytjendum frá og gera Ameríku almennilega á ný.

Hann virtist sýna þeim afskiptu áhuga og vilja gera eitthvað í málum þeirra.

Hvort hann gerir það er svo annað mál. Það kemur í ljós.

Bernie Sanders fékk hljómgrunn hjá alþýðunni á svipaðan hátt og Trump.

Hillary Clinton virðist hins vegar tengd “kerfinu” sem þessu fólki finnst að hafi brugðist. Hún er líka sögð tengd fjármálageiranum, sem styrkti hana kröftuglega. Enginn efaðist samt um hæfni hennar.

Fáir trúðu því að hún myndi breyta einhverju fyrir afskipta alþýðuna, jafnvel þó hún gæti verið góður fulltrúi kvenna. Femínismi mætir þó enn meiri fyrirstöðu í Bandaríkjunum en við eigum að venjast á Íslandi.

 

Hnattvæðingin er of langt gengin

Þessi óvænta sveifla í Bandaríkjunum er hluti af sambærilegri þróun í Evrópu. Þar hefur fylgið flætt af hefðbundnum flokkum, ekki síst sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum), til nýrra flokka.

Þeir flokkar eru nú fulltrúar fórnarlamba hnattvæðingar (alþjóðavæðingar) og nýfrjálshyggjuþróunar síðustu áratuga, þróunar sem flytur störf úr landi og hleypir auknum fjölda innflytjenda inn á vestræna vinnumarkaði, sem keppinautum heimamanna.

Óheft markaðshyggja, alþjóðlegir viðskiptasamningar og frjálst flæði fjármagns virðist einkum hafa gagnast yfirstéttinni. Ójöfnuður hefur aukist. Þeir ríku hafa hagnast óhóflega, en almenningur hefur setið eftir.

Þessir nýju flokkar á Vesturlöndum eru gjarnan kallaðir “hægri lýðskrumsflokkar” (eða “popúlískir flokkar”), sem er að hluta villandi auðkenni. Þeir endurspegla það sama og er nú að gerast í Bandaríkjunum.

Nýju flokkarnir virðast vera að bregðast við helstu áhyggjuefnum alþýðufólks á Vesturlöndum. Trump kemur sömuleiðis nýr inn í stjórnmálin, í óþökk kerfisins og það er talinn hans helsti kostur.

Þessar sveiflur í stjórnmálunum á síðustu árum eru því viðbrögð við neikvæðum afleiðingum hnattvæðingar og nýfrjálshyggjuþróunar, sem hefur skilið stóran hluta almennings eftir í hagsældarþróuninni.

Fólki finnst líka í vaxandi mæli að samfélög þeirra séu að breytast til hins verra – menn segjast gjarnan vilja “endurheimta landið sitt”. Það getur magnað þjóðlega íhaldssemi.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er þetta hið stóra samhengi þess sem hefur verið að gerast í stjórnmálaþróun Vesturlanda á síðustu árum.

Þetta skýrir einnig sögulegan og óæntan sigur Trumps í gær.

Á meðan undirliggjandi orsakir þróunarinnar verða áfram til staðar má búast við framhaldi slíkrar þróunar á Vesturlöndum.

Vonandi sveigist hún þó ekki um of í átt fasisma eða skyldra öfgahreyfinga, eins og varð á millistríðsárunum í Evrópu.

Af því má hafa áhyggjur.

 

Síðasti pistill:  Hættan frá hægri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar