Sunnudagur 13.11.2016 - 14:18 - FB ummæli ()

Valkostir BF: Engeyjarstjórn eða Þjóðstjórn?

Nú reyna menn myndun hreinnar hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks (D), Viðreisnar (C) og Bjartrar framtíðar (A). Það yrði réttnefnd “Engeyjarstjórn” þeirra frænda, Bjarna Benediktssonar og Benedikts Jóhannessonar.

Slík stjórn yrði með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi (32 þingmenn).

Hægri menn vilja samt reyna þetta, því mikið er í húfi að þeirra mati.

Viðamiklar eignir liggja nú hjá ríkinu (2 bankar o.m.fl.) sem hægt verður að koma í hendur “réttra aðila” á næsta kjörtímabili. Svigrúm til skattalækkana á yfirstéttina er líka nokkurt, ef ekki verður of miklu eytt í velferðarumbætur.

Ég sagði það strax eftir kosningar að Viðreisn myndi velja Sjálfstæðisflokkinn sem sinn fyrsta kost í stjórnarsamstarfi (sjá hér).

Það er vegna þess að Viðreisn samanstendur einkum af Sjálfstæðismönnum, meðal annars mörgum fyrrverandi forystumönnum Samtaka atvinnulífsins (t.d. Þorsteini Víglundssyni, Þorsteini Pálssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur).

Sjálfur er Benedikt Jóhannesson gamall refur úr valdakerfi Sjálfstæðisflokksins, en hann móðgaðist hins vegar vegna meðferðar flokksins á ESB-aðildarumsókninni. Finnst að hann þurfi að rétta hlut sinn gagnvart flokknum.

Engeyjarstjórn yrði lengst til hægri á pólitíska litrófinu (sjá hér hvað felst í því).

Engeyjarstjórn yrði t.d. mun lengra til hægri en fráfarandi stjórn, þar sem Framsókn veitti Sjálfstæðisflokknum umtalsvert mótvægi, einkum í velferðarmálum. Framsókn hafði umtalsverðan þingstyrk til þess, enda flokkarnir með jafn marga þingmenn á síðasta þingi.

Eygló Harðardóttir og aðrir á félagshyggjuvæng Framsóknar háðu marga hildina við Sjálfstæðisflokkinn og náðu umtalsverðum árangri í velferðarumbótum – þrátt fyrir allt. Þó ekki eins miklum og þau vildu.

Í hugsanlegri Engeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri ekkert samsvarandi mótvægi við óhefta markaðshyggju, einkavæðingu og auðmannadekur Sjálfstæðismanna.

Björt framtíð er alltof lítil til að veita nokkurt viðnám og hinn naumi meirihluti gefur hagsmunagæslumönnum sjávarútvegs og landbúnaðar í þingliði Sjálfstæðisflokks skothelt neitunarvald um allar alvöru breytingar. Einstaka frjálshyggjuróttæklingar í Sfl. fengju líka neitunarvald.

Ég myndi því segja að Björt framtíð seldi sig fyrir afar lítið í slíku samstarfi. Raunar kemur á óvart að hún hafi stillt sér upp sem einstaklega þægilegu verkfæri í höndum Benedikts – eins og það birtist í öllu falli.

 

Aðrir valkostir Bjartrar framtíðar

En Björt framtíð hefur í reynd aðra valkosti sem gætu fært henni vænlegra hlutverk. Þeir eru þó misgóðir.

Sá fyrsti er fjölflokkastjórn vinstri og miðjuflokka, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Hún gæti t.d. verið með tvennum hætti:

VG (10)+Píratar (10)+Framsókn (8)+Björt framtíð (4) og Samfylking (3): alls 35 þingmenn. Ágætur meirihluti. Þarna eru umbótaflokkar sem gátu unnið ágætlega saman eftir að Sigurður Ingi tók við forystuhlutverkinu í Framsókn í vor.

Þetta eru að vísu margir flokkar og sumir hafa efasemdir um samstarf við Pírata vegna reynsluleysis þeirra. Veik staða Samfylkingar stendur líka í sumum.

Annar kostur væri þessi:

VG (10)+Píratar (10)+Viðreisn (7)+Björt framtíð (4) og Samfylking (3): alls 34 þingmenn.

Fjögurra flokka kostur, þar sem Framsókn kæmi í stað Bf og Sf, væri þessi:

VG (10)+Píratar (10)+Viðreisn (7)+Framsókn (8): alls 35 þingmenn.

Viðreisn myndi hins vegar varla samþykkja þessa tvo síðastnefndu, vegna neikvæðrar afstöðu þeirra til Pírata og Framsóknar, en ekki síður vegna eðlislægrar ástar Viðreisnarfólks á Sjálfstæðisflokknum.

Minnihlutastjórn í skjóli Pírata og Samfylkingar væri svo enn minna fýsilegur kostur – veikari bygging.

Þá er eftir sá kostur sem væri í hvað mestum takti við niðurstöður kosninganna.

 

Þjóðarsáttarstjórn í stað Engeyjarstjórnar?

Í kosningunum var sveifla til Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Pírata mest afgerandi, auk þokkalegs gengis Viðreisnar.

Ef Björt framtíð gengi til samstarfs við VG og Sjálfstæðisflokk væri staða þeirra mun vænni, ef markmiðið væri að veita mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og ofurvald hægri aflanna.

Slík stjórn hefði ágætan 35 manna meirihluta og mun betri forsendur til að veita mótvægi við hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Það þyrfti að vísu að vinna VG á band þessarar hugmyndar – en það getur varla verið útilokað. Manni heyrist að almenningur sé mjög hallur undir svona stjórnarmynstur, ekki síst vegna vinsælda Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta væri mun vænlegra fyrir þjóðina en að fá harðdræga hægri stjórn, eins og nú er til umræðu.

En kanski vilja VG-menn ekki axla slíka ábyrgð…

Eða hafa þeir kanski unnið að slíkri brúarsmíð bak við tjöldin?

Og kanski sér Björt framtíð sig bara sem mið-hægri flokk sem gæti verið fullsæmdur af því að vera hækja í Engeyjarstjórn…

En Björt framtíð á þó klárlega fleiri raunhæfa valkosti en þann sem nú er til umræðu.

Þar á meðal er annar þriggja flokka kostur (Sfl+VG+Bf) sem er með mun styrkari þingmeirihluta en Engeyjarstjórnin hefði (35 í stað 32).

 

Síðasti pistill:  Uppreisn alþýðunnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar