Nú þegar hægri stjórnin hefur verið sett á ís eru áhugaverðir kostir í myndinni.
VG er næst stærsti flokkur landsins og leiðir því stjórnarmyndun, að Sjálfstæðisflokki frágengnum.
Mikið er í húfi að það heppnist, því stór og spennandi verkefni bíða.
Fjárhagur ríkisins býður nú upp á gott svigrúm til uppbyggingar og umbóta, sem stækka má með heilbrigðari innheimtu gjalda af notkun náttúruauðlinda og einhverri sölu nýfenginna ríkiseigna (t.d. hlutum í bönkunum tveimur).
En hver ættu að vera stærstu mál nýrrar ríkisstjórnar?
Stærstu og brýnustu málin
Allir eru sammála um að myndarleg uppbygging heilbrigðisþjónustunnar sé efst á listanum. Skólakerfið hefur einnig drabbast niður á óviðunandi stig. Hvaða stjórn sem er væri fullsæmd af því að koma þessum tveimur stórmálum í gott horf.
En fleira kemur til. Nýbreytt lög um almannatryggingar hækkuðu lífeyri til eldri borgara en um leið voru skerðingar auknar og nær allir vinnuhvatar teknir út. Það þarf að laga. Auk þess þarf að hugsa til enda hvernig á að haga nýrri skipan lífeyrismála fyrir öryrkja og endurhæfingarfólk. Það er óleyst.
Þá er enn margt óklárað á sviði húsnæðismála.
Gott væri að fá lagfæringar á stjórnarskránni. Sjálfur væri ég nokkuð sáttur við þá nýlegu málamiðlun sem stjórnarskrárnefnd skilaði í sumar. Það væri gott skref.
Menn þurfa að vanda stjórnarskrárbreytingar vel og tryggja að þær fáist samþykktar á tveimur þingum. Það krefst víðtækrar samstöðu. Því þarf að fara hóflega fram í þeim efnum. Ef nýr meirihluti í næstu kosningum dregur allt til baka er til lítils unnið.
Þá þarf að lagfæra skattkerfið, t.d. draga úr undanskotum, afnema undanþágur ferðaþjónustunnar frá virðisaukaskatti og hamla notkun erlendra skattaskjóla.
Ríki og sveitarfélög þurfa að fá auknar tekjur af auðlindanotkun sjávarútvegsins, með hækkun veiðigjalda. Ég held að bein hækkun stjórnvalda sé öruggari leið til þess en uppboð aflaheimilda (kvótakaupendur eru fámennishópur sem geta hagrætt útkomum úr lítilfjörlegu uppboði á kvóta, t.d. ef einungis 3% væri boðið upp, eins og Viðreisn hefur rætt um).
Svo þarf líka að skila þjóðinni meiri arði af orkulindum og náttúruskoðuninni sem ferðamenn borga fyrir.
Þjóðaratkvæði um endurupptöku aðildarviðræðna við ESB er hins vegar ekki brýnt mál. ESB hefur ákveðið að taka ekki fleiri aðildarríki inn á næstu 4-5 árum. Munið það!
ESB-aðildarviðræðurnar ættu því klárlega að vera áfram á ís. Annað er bara tímasóun og fóður fyrir sundrungu. Þetta mál skemmdi mikið fyrir vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms og engin ástæða er til að endurtaka þann leik nú.
Þó fleira komi auðvitað til þá gætu ofangreind umbótamál öll orðið næstu ríkisstjórn til sóma.
Möguleg stjórnarmynstur
VG mun sjálfsagt reyna fyrst að mynda fimm flokka mið-vinstri stjórn, með gömlu stjórnarandstöðunni og annað hvort Framsókn eða Viðreisn. Ég reikna þó með að Viðreisn verði helsti dragbíturinn þar.
Erfitt verður að ná saman um málefni fyrir svo stóran hóp flokka. Geta VG menn til dæmis gleypt það hjá Viðreisn og BF sem strandaði hjá Sjálfstæðisflokki (uppboðsleiðin í sjávarútvegi og endurnýjun ESB-aðildarumsóknar)?
Framhjá því verður heldur ekki horft að erfitt yrði að halda slíkri stjórn saman. Nyti hún nægilega mikils velvilja almennings?
En þetta er vissulega umræðunnar virði.
Loks má þó benda á að vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar sem sat frá 1988 til 1991 (eftir að stjórn Þorsteins Pálssonar úr Sjálfstæðisflokki sprakk í beinni útsendingu RÚV) var margflokka stjórn.
Fyrst voru saman 3 flokkar (Framsókn, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur), með stuðningi frá Stefáni Valgeirssyni óháðum þingmanni „Samtaka um jafnrétti og félagshyggju“. Síðar kom Borgaraflokkurinn inn í stjórnina með 2 ráðherra. Þar með var sú stjórn orðin fimm flokka stjórn í reynd.
Þessi fimm flokka stjórn starfaði ágætlega. Kom á umbótum í skattamálum og velferðarmálum (inleiddi m.a. vænar barnabætur) og lagði grunn að þjóðarsáttinni á vinnumarkaði.
Hún stóð sig betur en margar tveggja flokka stjórnir!
Það á því að vera mögulegt að halda úti fimm flokka stjórn, ef menn vanda sig og standa saman.
Þjóðstjórn yfir miðjuna?
Hinn stóri kosturinn sem VG hefur er þriggja flokka “þjóðstjórn” yfir miðjuna (VG, BF og Sfl.). Það er mynstur sem ég held að mörgum kjósendum hugnist vel. Ef BF yrði treg í slíku samstarfi mætti vel sækja Framsókn Sigurðar Inga í staðinn. Það væri þó ferskara að hafa BF með VG í slíku samstarfi. Fleiri útfærslur mætti þó hugsa sér.
VG og BF hefðu saman þokkalegt mótvægisvald gegn verstu göllum Sjálfstæðisflokksins, sem gæti vel virkað farsællega. Góðu velferðarmálin ættu að ná vel í gegn og einhverjar umbætur í stjórnsýslu, sjávarútvegs- og umhverfismálum.
Hóflegar umbætur á stjórnarskrá gætu jafnvel skriðið í gegn – enda tímabærar. En enginn flokkur nær öllu sem hann óskar sér. Menn verða að vera raunsæir þegar stjórn er mynduð.
Svona stjórn fengi mun betri vinnufrið en vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms og ætti góða möguleika á að njóta hylli almennings.
VG hefur því nokkra góða og raunar afar spennandi kosti, sem vonandi tekst að vinna farsællega úr.
Nýlegur pistlar: Uppreisn alþýðunnar og Hættan frá hægrinu
Fyrri pistlar