Nú þegar hægir á efnahagslífinu, eftir að hagvöxtur varð talsvert meiri á fyrri hluta ársins en spáð var, þá stígur peninganefnd Seðlabankans fram og hækkar stýrivexti um 0,25%.
Þetta gengur gegn allri venjulegri hagstjórn. Við kólnun hagkerfisins myndu flestir Seðlabankar grannríkjanna lækka vexti til að milda niðursveifluna eða jafnvel til að vega á móti henni. Vaxtahækkun við þessi skilyrði hægir enn frekar á hagkerfinu.
Hækkanir vaxta koma fyrst og fremst til að dempa uppsveiflur eða til að vinna gegn ofþenslu. Ekkert slíkt er nú í kortunum hér á landi.
Svo vísa þeir í vaxandi „verðbólguvæntingar“ sem byggja á kukli eða marklausum kveðskap frekar en alvöru vísindalegum mælingum.
Ef það gætir einhvers þrýstings til lítillega hærri verðbólgu um þessar mundir þá er það vegna hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði.
Á vaxtahækkun á Íslandi að draga úr olíuverðshækkun á heimsmarkaði?
Þarna er sem sagt verið að beita meðulum á rangan sjúkdóm og rangan sjúkling! Þetta er undarleg læknisfræði hjá Seðlabankanum – og að auki kjánaleg pólitík.
Ef Seðlabankinn telur að hann sé með þessu að senda aðilum vinnumarkaðarins skilaboð um að ekki megi hækka laun um of í komandi kjarasamningum þá er þetta líklegra til að hafa öfug áhrif – ef þá einhver.
Fyrri pistlar