Í kjölfar lífskjarasamninganna spyrja margir hvað verði um lífskjör lífeyrisþega.
Mun lífeyrir almannatrygginga ekki taka sömu hækkunum og launataxtar þeirra lægst launuðu?
Lífskjarasamningarnir færa þeim lægst launuðu mestu hækkanirnar, alls um 90.000 krónur á samningstímabilinu – og svo hagvaxtartengdar hækkanir að auki.
Frá 1. apríl hækka lægstu taxtar um 17.000 krónur á mánuði, síðan 24.000 þann 1. apríl 2020, þá 24.000 1. janúar 2021 og loks 25.000 1. janúar 2022.
Þetta eru þær hækkanir sem óskertur lífeyrir almannatrygginga ætti einnig að taka – fyrsta hækkunin komi strax frá 1. apríl eins og gildir um launataxtana. Hagvaxtarábatinn á svo að bætast við þetta, ef til kemur.
Það launafólk sem er með yfirborganir, álög eða bónusa fær minni hækkanir, eða samtals um 68.000 krónur á samningstímabilinu. Hið sama gildir um lágmarkslaunatrygginguna, sem hækkar minna en lægstu taxtarnir, enda telja álög, yfirborganir og bónusar inn í hana.
Lífeyrisþegar sem litlar aðrar tekjur hafa en frá almannatryggingum búa ekki við yfirborganir, álög eða bónusa. Ef lífeyrisþegar hafa aðrar tekjur en frá almannatryggingum þá er lífeyrir þeirra skertur.
Það er hin neikvæða sérstaða lágtekjulífeyrisþega – sem er oft öllu verri en staða láglaunafólks á vinnumarkaði.
Viðmiðið fyrir lífeyrisþega er klárt
Það er því augljóst að viðmiðið fyrir hækkanir lífeyris almannatrygginga eru þær taxtahækkanir sem koma á lægstu taxtana í lífskjarasamningnum, samtals um 90.000 krónur á samningstímabilinu – auk hagvaxtarábatans.
Stjórnvöld fá auknar skatttekjur af þeim launahækkunum sem nú taka gildi á vinnumarkaði og það dugar þeim til að fjármagna samsvarandi hækkun á lífeyri almannatrygginga.
Í hópi lífeyrisþega er sumt af tekjulægsta fólkinu í okkar samfélagi, ekki síst örorkulífeyrisþegar sem eru í sambúð og án annarra tekna. Þeir fá frá TR einungis 247.183 krónur á mánuði fyrir skatt og 206.086 krónur eftir skatt. Það eru mun lakari kjör en þeir búa við sem eru á lágmarkstöxtum á vinnumarkaði – þó þau laun dugi ekki fyrir framfærslu.
Öll frávik frá því að hækka lífeyri almannatrygginga til fulls í samræmi við hækkanir lægstu taxta, sem og tafir á gildistöku þeirra hækkana, myndu þýða að lífeyrisþegar almannatrygginga væru skildir eftir – einn þjóðfélagshópa í íslenska velferðarríkinu.
Það hefur að vísu gerst áður að lífeyrisþegar hafi verið skildir eftir.
En ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skilaði góðu framlagi til lífskjarasamningsins; í formi skattalækkana, hækkunar barnabóta, umbóta í húsnæðismálum og með lengingu fæðingarorlofs, auk loforða um aðrar umbætur.
Allt það nýtist lífeyrisþegum einnig, eins og við á.
Það væri alvarlegt stílbrot á frammistöðu ríkisstjórnarinnar ef hún myndi nú bregðast lífeyrisþegum og ekki veita þeim ávinning lífskjarasamningsins til fulls.
Ef hún skildi sumt af fátækasta fólkinu eftir á flæðiskeri.
Forsætisráðherrann hlýtur að sjá til þess að engin vanhöld verði á því að skila ávinningi lífskjarasamningsins til fulls til lægst launuðu lífeyrisþeganna, þ.e. þeirra sem mest stóla á almannatryggingar.
Það væri einmitt gert með því að hækka lífeyri almannatrygginga til jafns við lægstu taxtana.
Þingið þarf að afgreiða það fyrir sumarfrí og láta hækkunina gilda frá 1. apríl.
Fyrri pistlar