Þriðjudagur 26.1.2016 - 14:54 - FB ummæli ()

Bernie Sanders er ekki róttækur

Bernie Sanders ógnar nú Hillary Clinton alvarlega í kapphlaupinu um að vera frambjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum.

Sanders kallar sig „lýðræðislegan sósíalista“, það sem við í Evrópu köllum “krata” eða “jafnaðarmenn”.

Slíkt fólk hafnar gömlum leiðum sósíalista, eins og byltingu í þágu verkalýðsins og þjóðnýtingu atvinnulífsins, í anda sovétskipulagsins.

Jafnaðarmenn og félagshyggjumenn eru miðjumenn, sem styðja blandaða hagkerfið, sem best hefur reynst. Í stefnu þeirra er markmiðið þróttmikið samkeppnisumhverfi fyrir einkafyrirtæki og öflugt velferðarríki fyrir lífskjör almennings – og jöfn mannréttindi í framkvæmd.

Það er náttúrulega engin hefð fyrir evrópskri jafnaðarmennsku eða kratisma í Bandaríkjunum. Stjórnmál þar hafa alltaf verið lengra til hægri en í Evrópu og á Norðurlöndunum sérstaklega, þar sem jafnaðarmenn hafa lengst af haft völdin og mótað verulega vel heppnuð samfélög.

Í þessu samhengi má skilja að sumum Bandaríkjamönnum finnist lýsingin “lýðræðislegur sósíalisti” vera ógnvekjandi, þó hún þyki í fínu lagi í Evrópu.

Samt er Bernie Sanders að fá ótrúlega mikinn stuðning þessa dagana. Mun meira en nokkur spáði.

Hann er að segja það sem skiptir fólk máli og vill taka á því sem þarf til að rétta af þjóðfélagsþróunina í Bandaríkjunum, þar sem ríkasta fólkið fær nær allan afrakstur hagvaxtarins og millistéttin og lægri tekjuhópar standa í stað eða horfa á kjör sín rýrna.

Hlustið á myndbandið hér að neðan og þið munið sjá hvers vegna venjulegt fólk þar vestra er í vaxandi mæli að hlusta á hann og styðja framboð hans.

Ég efast þó um að hann nái kjöri sem næsti forseti Bandaríkjanna.

Vald peningaaflanna er einfaldlega of mikið í Bandaríkjunum til að stjórnmál og frambjóðendur sem setja almannahag í forgang nái í gegn. Hnignun bandarísku millistéttarinnar þarf sennilega að ganga enn lengra til að svo verði.

Bernie Sanders er talsmaður almannahagmuna og vill beita vel reyndum leiðum blandaða hagkerfisins til að ná þeim markmiðum.

Það er ekki róttækni, heldur hófleg skynsemi.

 

Síðasti pistill:  Rífandi ánægja með ÁTVR

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.1.2016 - 14:21 - FB ummæli ()

Rífandi ánægja með ÁTVR

Mér er sama hvort vín er selt í sérverslunum ÁTVR eða í matvörubúðum. Ég hef enga hugsjón um það – á hvorn veginn sem er. Hef þó reynslu af hvoru tveggja.

Fyrir mér er þetta einungis spurning um hagkvæmni og skynsemi. Við eigum einfaldlega að vega kosti og galla við báðar leiðir, út frá almannahagsmunum og lýðheilsu.

Hér eru nokkrir kostir ÁTVR fyrirkomulagsins:

  • ÁTVR er eitt best þokkaða fyrirtæki landsins! Þetta hefur ítrekað komið fram í Íslensku ánægjuvoginni, en hún mælir ánægju almennings með íslensk fyrirtæki og þjónustu þeirra.
  • Sérverslanir ÁTVR bjóða nú orðið upp á ágætt vöruúrval og þjónustan er almennt skikkanleg og víða aðgengileg.
  • Rekstur ÁTVR skilar ríkissjóði um 1300 milljónum í hreinan hagnað á ári hverju, auk þeirra tekna sem opinber gjöld á áfengi og tóbak skila, en það telur í tugum milljarða á ári (sjá hér).
  • Reynsla annarra vestrænna þjóða er sú, að rekstur eins og ÁTVR annast gangi síður gegn markmiðum um betri lýðheilsu en sala víns í matvöruverslunum.

Hér eru nokkrir gallar við hina leiðina:

  • Flestar matvörubúðir verða með lítið framboð vína og bjórtegunda samanborið við ÁTVR og því myndi vöruframboð og gæði minnka, nema jafnhliða væru reknar sérverslanir með áfengi. Dreifikerfið gæti þannig orðið viðameira og jafnvel dýrara.
  • Ríkið og skattgreiðendur yrðu af þeim hagnaði sem er af rekstri vínbúðanna og innheimta opinberra áfengisgjalda yrði sett í hendur fjölmargra einkaaðila. Hugsanlega yrðu braskarar og kennitöluflakkarar í þeim hópi.
  • Í mörgum matvöruverslunum eru það unglingar, langt undir löglegum áfengisaldri, sem annast afgreiðslu. Hvaða áhrif myndi það hafa á meðferð áfengis í landinu ef fermingarbörn færu almennt að annast sölu áfengis?
  • Aðgengi að áfengi yrði almennt meira en nú er og það er líklegt til að auka áfengisneyslu og vanda sem af henni leiðir, eins og lýðheilsufólk bendir ítrekað á.
  • Freistnivandi áfengissjúkra eykst með áfengi í matvörubúðum, sem sumar eru opnar allan sólarhringinn, árið um kring.

Þegar allt er saman tekið virðist nokkuð ljóst að núverandi fyrirkomulag áfengis- og tóbakssölu skilar þokkalegum árangri fyrir skattgreiðendur, neytendur og fyrir lýðheilsumarkmið þjóðarinnar að því frádregnu að áfengi er auðvitað skaðræðisvessi og tóbakið drepur fyrir aldur fram.

Og svo eru bara langflestir ánægðir með ÁTVR! Pælið í því…

Hvers vegna ætti þá að gjörbreyta því sem virðist vera í lagi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.1.2016 - 11:35 - FB ummæli ()

Hægari fjölgun öryrkja

Velferðarráðuneytið birti um daginn gagnlegt yfirlit um fjölda og fjölgun öryrkja á Íslandi frá 2005 til 2015 (sjá hér).

Í nóvember 2015 voru tæplega 17.300 öryrkjar skráðir á Íslandi. Um 95% öryrkja fá örorkulífeyri.

Frá árinu 2014 til 2015 fjölgaði öryrkjum um 1,3% og hjá örorkulífeyrisþegum var fjölgunin áþekk. Þetta er svipuð fjölgun og hjá þjóðinni allri.

Tölur ráðuneytisins, sem koma frá Tryggingastofnun ríkisins, sýna glögglega að verulega hefur hægt á árlegri fjölgun metinna öryrkja frá árinu 2010. Það tengist meðal annars breyttum vinnubrögðum við örorkumat hjá TR.

Ég birti nýlega á bloggi mínu tölur um árlega fjölgun örorkulífeyrisþega frá 1987 til 2014. Þær tölur sýna einnig að verulega hefur hægt á fjölgun þess hóps á síðustu árum, frá og með 2006 (sjá hér).

Þetta eru tveir hópar, öryrkjar og örorkulífeyrisþegar, en um báða gildir að umtalsvert hefur hægt á fjölgun þeirra á síðustu árum.

Ég sýndi einnig í fyrri grein minni að hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri er ekki hærra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, nema síður sé.

Það virðist vera rík tilhneiging til að ýkja fjölda öryrkja á Íslandi í fjölmiðlum og stundum í stjórnmálaumræðum. Staðreyndirnar liggja nú fyrir á opinberum vettvangi og því er hægt að byggja umræðu á þeim.

Þó það sé vissulega mikið ánægjuefni að úr fjölgun örorkulífeyrisþega hafi dregið á síðustu árum, er alltaf ástæða til að gera betur í að greiða öryrkjum þátttöku í atvinnulífi og samfélaginu almennt.

Það bætir hag samfélagsins og öryrkjanna sjálfra.

 

Síðasti pistill:  Frosti er rödd skynseminnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.1.2016 - 13:36 - FB ummæli ()

Frosti er rödd skynseminnar

Frosti Sigurjónsson, formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur ítrekað komið fram sem talsmaður þess að við lærum af hruninu og förum varlega í uppbyggingu fjármálakerfisins.

Hann hefur til dæmis talað fyrir því að ekki eigi að fara of geist í að einkavæða ríkisbanka. Ef menn vilji fá hámarksverð til skattgreiðenda fyrir eignarhluti í Landsbankanum þá sé ekki rétti tíminn á næstunni til að selja.

Ef selt er með hraði fyrir næstu kosningar, sem fjármálaráðherra virðist stefna að, er mikil hætta á að hagsmunum almennings verði fórnað. Ef selt er til útlendinga mun hagnaður bankans flytjast úr landi og þrýsta á gengi krónunnar til lengri tíma.

Nær væri að selja eignir út úr bankanum fyrir allt að 60 milljarða í ár og á næsta ári, segir Frosti, og halda eignarhluta ríkisins lengur. Slík upphæð færi langleiðina með að borga fyrir nýjan Landsspítala.

Frosti hefur einnig talað fyrir því að ríkið einfaldlega eigi Landsbankann áfram og beiti honum til að efla samkeppni milli banka, veita aðhald og lækka íslenska vexti, sem lengi hafa verið þeir hæstu í heimi. Það væru góð markmið.

Frosti kallar slíkan banka “samfélagsbanka”. Samfélagsbanki hefur samkeppnishlutverk og stefnir að hóflegum hagnaði – en ekki hámarkshagnaði.

Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt þessi sjónarmið sem Frosti talar fyrir. Þau sjónarmið eiga mikið erindi inn í íslenskt umhverfi.

Reynslan af einkavæðingu bankana 2003 var svo skelfileg að okkur ber skylda til að fara varlega. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar ekki skrifað upp á nein varúðarsjónarmið af þessum toga.

Sjálfstæðismenn vilja einkavæða til vildarvina sem allra fyrst og hámarka frelsi einkagróðaafla til að fara sínu fram. Reynslan kennir okkur að hagsmunir almennings voru fyrir borð bornir síðast þegar það var gert – svo um munaði!

Við eigum því að hlusta á raddir skynseminnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.1.2016 - 11:18 - FB ummæli ()

Menningin fari öll í eina tunnu

Vigdís Hauksdóttir og Viðskiptaráð eru á einu máli í afstöðu sinni til opinberra stofnana.

Þau telja slíkar stofnanir almennt til óþurfta. Þær séu eins konar lúxus sem skapi engin verðmæti sem teljandi séu.

Bæði Vigdís og Viðskiptaráð hafa þannig lýst þeirri skoðun sinni að fyrirtækin ein skapi verðmæti og opinberir starfsmenn og stofnanir séu eins konar sníkjudýr á fyrirtækjunum, eins og Ayn Rand og Hannes Hólmsteinn myndu orða þetta.

Þess vegna vilja þau hjúin fækka opinberum stofnunum sem mest. Leggja niður, sameina eða hola út að innan – en umfram allt einkavæða sem mest af starfsemi hins opinbera.

Ef sama starfsemin væri komin í hendur einkaaðila myndi hún kanski fara að teljast vera “verðmætaskapandi”! Eins og bankarnir sýndu svo eftirminnilega í kjölfar einkavæðingar þeirra…

Í Fréttablaðinu í dag eru reifaðar hugmyndir þessara aðila um menningarstofnanir. Eftirfarandi er frásögn Fréttablaðsins af málinu:

“Í nóvember 2013 birti hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar 111 sparnaðartillögur og tvær þeirra, númer 36 og 37, fjölluðu um að yfirstjórnir Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Einars Jónssonar og Listasafns Íslands yrðu sameinaðar, annars vegar. Hins vegar að yfirstjórnir Landsbókasafns Íslands, Kvikmyndasafns Íslands, Hljóðbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands yrðu sameinaðar.

Hugmynd Viðskiptaráðs er að öll söfnin sem hér eru nefnd fyrir ofan rynnu saman í eina stofnun – Safnastofnun.”

Þetta tal setur ný viðmið fyrir umræðu um hagræðingu. Allt sem hefur “safn” í heiti sínu skuli renna saman í eina stofnun! Jafnvel þó Þjóðminjasafn og Listasafn Íslands eigi ekki mikið skylt í viðfangsefnum sínum þá skuli þau sameinuð í eina “Safnastofnun”, með fjölmörgum öðrum söfnum – og kanski með Symfóníuhljómsveitinni líka.

Forsendan er auðvitað sú, að þetta sé allt svo ómerkileg starfsemi að það megi spara stjórnendur, símsvara og skúringafólk með því að hrúga því öllu saman undir eina fjarstadda stjórn. Í eina tunnu.

Stjórnunarhugmyndin sem að baki býr á meira skylt við miðstýringu í anda sovét-skipulagsins en það sem alls staðar á Vesturlöndum hefur þróast í tímans rás og reynst vera heppilegt.

Þarna er í senn horft framhjá því að opinberi geirinn á Íslandi er almennt ódýr og metnaðarfullur í rekstri. Hann leggur að auki meira til samkeppnishæfni þjóðarinnar en einkageirinn, samkvæmt mælingum erlendra einkarekinna stofnana (IMD og World Economic Forum – sjá hér og hér).

Með frekari útvíkkun á hugmyndinni ætti svo auðvitað að setja menninguna alla í eina tunnu – undir sömu stjórn.

Svo kæmi menntunin, heilbrigðisþjónustan, sýslumannsembættin…

Hvert um sig í eina tunnu – undir einni stjórn.

Þetta myndi auðvitað ekki virka vel, en kanski greiða fyrir einkavæðingu síðar…

 

Síðasti pistill:  Glæsilegur viðskilnaður Ólafs Ragnars

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 1.1.2016 - 15:42 - FB ummæli ()

Glæsilegur viðskilnaður Ólafs Ragnars

Nú þegar Ólafur Ragnar Grímsson hefur lýst því yfir, með afgerandi hætti, að hann muni ekki bjóða sig aftur fram til embættis forseta Íslands er við hæfi að líta til baka.

Ólafur Ragnar hefur verið óvenju sterkur forseti í sögu íslenska lýðveldisins. Hann gerbreytti forsetaembættinu og varð virkari á vettvangi þjóðmála en áður hafði tíðkast.

Hann varð öflugur þjóðarleiðtogi er lét mikilvæg samfélagsmál, alþjóðamál og umhverfismál til sín taka og var óhræddur við að láta brjóta á sér, jafnvel hina stærstu brimskafla.

Þannig breytti Ólafur Ragnar forsetaembættinu úr ópólitísku og hægfara sameiningartákni í virka forystu fyrir þjóðina, á völdum sviðum.

Vigdís lagði áherslu á tunguna, umhverfismál og menningu en Ólafur hefur gert Norðurslóðamál og sjálfbæra orkunýtingu að sínum stóru málum, auk þess að vera óhræddur við að tjá sig um mikilvæg umbótamál í samfélaginu, jafnvel í óþökk stjórnmálamanna.

Þannig hefur hann verið sjálfum sér samkvæmur, frá fyrsta áramótaávarpi til þess síðasta, við að benda á þá vömm og skömm að eldri borgara og öryrkja séu skildir eftir í kjaraþróun og að sárri fátækt sé viðhaldið í landinu, þó þjóðin gæti vel unnið bug á þeim meinsemdum.

Þó ég hafi ekki verið ánægður með allt það sem Ólafur Ragnar hefur fitjað uppá í valdatíð sinni, þá hef ég ítrekað dáðst af hæfni hans og útsjónarsemi.

Það er mikilvægt fyrir þjóð að eiga leiðtoga sem hægt er að líta upp til.

Ólafur Ragnar hefur verið þannig leiðtogi. Í senn sterkur á vettvangi stjórn- og þjóðmála og góður fulltrúi menningar, mennta og samfélagslegra umbóta.

Ólafur forseti getur því litið glaður um öxl. Hans verk eru mikil að vöxtum og flest vel unnin. Hann getur þó, ekki síður en Vigdís forseti, áfram gegn mikilvægu hlutverki sem liðsmaður góðra mála, bæði hér og erlendis.

Það er því þakkarvert að Ólafur Ragnar skuli hafa lýst sig fúsan til að taka áfram með okkur í árarnar á þjóðarskútunni, þegar þörf verður á.

Ég óska lesendum síðunnar farsældar á nýju ári.

 

Síðasti pistill:  Óreiðan í einkageiranum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 28.12.2015 - 10:34 - FB ummæli ()

Óreiðan í einkageiranum

Þekkt er að hrunið orsakaðist öðru fremur af gríðarlegri skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins (sjá hér).

Það voru ekki heimilin sem voru helstu sökudólgarnir. Ekki heldur ríkisvaldið (það greiddi niður skuldir á árunum fyrir hrun).

Nei, það voru fyrirtækin og bankarnir sem drekktu Íslandi í skuldum (sjá hér).

Myndin hér að neðan sýnir skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði.

Skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja var algerlega einstök á árunum eftir 2003 (svarta feita línan á myndinni). Hvergi í þessum löndum söfnuðu fyrirtæki jafn miklum skuldum og hér! Hraðinn í skuldasöfnun fyrirtækja á Íslandi var raunar ævintýralegur.

Skuldir fyrirtækja

Mynd: Skuldir fyrirtækja í vestrænum löndum, frá 2003 til 2014 (tölurnar koma úr skýrslu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika 2015:1)

 

Þessi skuldasöfnun var vegna brasks og spákaupmennsku, sem varð almenn í stærri fyrirtækjum á Íslandi. Það var kallað “fjármálastarfsemi” og forstjórar steypustöðva og pizzustaða fóru að kalla sig „fagfjárfesta“.

Eftir að hrunið skall á sagði Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, að “Ísland ætlaði ekki að greiða skuldir óreiðumanna”.

Óreiðumennirnir voru einkum stjórnendur fyrirtækja og banka. Sem sagt: einkageirinn.

Það sem myndin segir okkur er að óreiðan á bóluárunum var hvergi meiri en í íslenska einkageiranum. Raunar var hún alveg fordæmalaus. Íslensku fyrirtækin hafa síðan fengið mun meiri skuldaafskriftir á kreppuárunum en erlend fyrirtæki – og miklu meira afskriftir en heimilin.

Írland og Kýpur voru einnig þekkt fyrir mikið brask og mikla skuldasöfnun, (enda varð fjármálakreppan djúp þar). En hegðun fyrirtækjageiranna í þeim löndum komst þó ekki í hálfkvist á við íslensku fyrirtækin, í óreiðu og braski. Það sýnir myndin á skýran hátt.

Þetta er merkilegt og segir mikla sögu um íslenska þjóðarbúið og orsakir hrunsins.

Hluti opinbera geirans (Seðlabankin, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin) brást vissulega þeirri skyldu sinni að verja íslenska þjóðarbúið fyrir þessari ógæfu (þeir hefðu átt að stöðva þessa ósjálfbæru skuldasöfnun fyrirtækja og banka, ekki síðar en á árinu 2006).

Almennt var ekki um slíka óreiðu og brask að ræða í opinberum stofnunum. Hins vegar var nokkuð um slæmar ákvarðanir hjá æðstu stjórnsýslu ríkisins, sem veiktu eftirlit og aðhald og svo kynntu stjórnvöld einnig undir bólunni með rangri tímasetningu stóriðjuframkvæmda.

En velferðarríkinu var til dæmis ekki sleppt lausu með stórkostlegum hækkunum lífeyris og bóta til almennings. Heilbrigðisútgjöld drógust saman frá 2003 til 2008. Helst voru það orkuveitur sem tóku mið af einkageiranum og fóru offari í fjárfestingum (sem er þó annað en brask með lánsfé í eigin ágóðaskyni).

 

Sjá ekki bjálkann í eigin auga

Í þessu samhengi er athyglisvert að talsmenn fyrirtækja (Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök kaupmanna, Mogginn, hægri stjórnmálamenn o.fl.) eru sífellt að tala um gallana í opinbera geiranum.

Þeir þykjast sjá flísina þar, en sjá ekki bjálkann í eigin auga!

Þeir segja í síbylju, allir sem einn, að opinberi geirinn sé helsta vandamál Íslands. Vilja skera niður opinber útgjöld (opinbera þjónustu, stjórnsýslu og velferðarútgjöld), fækka starfsfólki og helst einkavæða sem mest.

Samt er opinberi geirinn á Íslandi ekki sérlega stór samanborið við OECD-ríkin (sjá hér). Opinber laun eru yfirleitt hófleg, allt skorið við nögl og horft í hverja útgjaldakrónu.

Samt næst þar ágætur árangur, enda er samkeppnishæfni opinbera geirans betri en samkeppnishæfni einkageirans (sjá hér). Opinberi geirinn á Íslandi stendur sig almennt nokkuð vel.

Hvernig væri nú að talsmenn einkageirans litu sér nær á nýju ári og einbeittu sér að lagfæringum í einkageira, áður en þeir ráðast frekar á opinbera starfsmenn og opinberar stofnanir?

Auðvitað eigum við áfram að leita hagkvæmni og ráðdeildar í opinbera geiranum, en það ætti ekki að verða til að skerða gæði opinberrar þjónustu í heilbrigðismálum, menntun, félagslegri þjónustu og stjórnsýslu, eins og orðið hefur.

 

Stærstu umbótaverkefnin ættu að vera í einkageiranum

Þar má til dæmis nefna eftirfarandi:

  • Tryggja þarf að græðgin og óhófið sleppi ekki laus á ný, eins og á árunum fyrir hrun. Opinberi eftirlitsiðnaðurinn þarf því að vera öflugur, ekki síst í fjármálageiranum
  • Auka þarf framleiðni atvinnulífsins
  • Draga þarf úr kostnaði vegna yfirbyggingar í einkageira, t.d. með sameiningu Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins og margra fleiri slíkra samtaka
  • Lækka þarf verðlag á Íslandi, en það er eitt hið hæsta í heimi (nema fyrir heitt vatn og rafmagn, sem hið opinbera sér um)
  • Hækka þarf grunnlaun og stytta vinnutíma
  • Atvinnulífið sjálft þarf að efla nýsköpun – ekki bara heimta að ríkið geri það fyrir einkageirann
  • Þær atvinnugreinar einkageirans sem nota sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar þurfa að greiða meiri auðlindarentu til almennings, svo sanngirni og ráðdeildar sé gætt.

Talsmenn og stjórnendur einkageirans hafa verk að vinna – einkum í eigin garði!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.12.2015 - 15:31 - FB ummæli ()

Jólakveðja til Viðskiptaráðs

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að það sé fyrir neðan virðingu ráðsins að svara gagnrýni minni á róttækar hugmyndir þeirra, um að fækka opinberum stofnunum um meira en helming.

Hann ákvað samt að gera það, til að leiðrétta meintan misskilning minn á hugmyndum ráðsins, en þær hafa mælst afar illa fyrir.

En það var enginn misskilningur í skrifum mínum. Ekki nokkur.

Þeir sögðu að Íslendingar bæru hlutfallslega meiri kostnað af opinberum stofnunum en aðrar þjóðir. Þess vegna þyrfti að stórfækka þeim eða leggja niður.

Ég sýndi með tölum OECD að við höfum ekki síður en grannþjóðirnar full efni á því að vera alvöru þjóð, enda opinber útgjöld okkar fjarri því að vera hlutfallslega meiri en grannþjóðanna sem við berum okkur saman við. Raunar erum við undir meðallagi OECD-ríkja.

Við gætum gengið lengra og sundurgreint opinberu útgjöldin í einstaka þætti og það styður einnig mál mitt. Ísland er hvergi með hlutfallslega meiri útgjöld en allar aðrar vestrænar þjóðir. Við erum í hærri kanti í sumum málaflokkum, eins og gildir um hin norrænu velferðarríkin, en lægri í öðrum.

Ég get líka bent á að sumar af stærri stofnunum opinbera geirans (t.d. Landsspítalinn, Háskóli Íslands og Tryggingastofnun) eru reknar með minni hlutfallslegum tilkostnaði en sambærilegar stofnanir í grannríkjunum.

Systurstofnanir TR á hinum Norðurlöndunum kosta t.d. allt að fjórum sinnum meira en TR, sem hlutfall af umsvifum (útgreiddum lífeyri og bótum). Háskóli Íslands er einn ódýrasti háskóli Vesturlanda í sínum stærðarflokki, en nær samt ágætum árangri.

Ég hef þó sjálfur fært rök fyrir hagræðingu og auknum gæðum í starfsemi opinberra stofnana, jafnvel með sameiningu, þar sem starfsemin er nógu skyld til að skapa sterk samlegðaráhrif. Slíkt gildir þó ekki hvar sem er.

Tillögur Viðskiptaráðs eru hins vegar illa ígrundaðar og í anda leiftursóknar gegn opinbera geiranum, til að lækka útgjöld og fækka starfsfólki. Þeir segja jú að við höfum ekki efni á þessu.

Gagnrýni mín í fyrri grein stendur því í einu og öllu.

 

Samkeppnishæfni opinbera geirans er meiri en einkageirans.

Nú vil ég þó bæta um betur og senda Viðskiptaráði jólagjöf, í tilefni hátíðarinnar sem í hönd fer.

Gjöfina er að finna á eftirfarandi tveimur myndum, sem raunar koma frá Viðskiptaráði sjálfu. Kanski það sé auðveldara fyrir Viðskiptaráð að trúa þessum niðurstöðum en tölum OECD sem ég lagði fram!

Myndirnar sýna að opinberi geirinn á Íslandi kemur betur út í alþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni en einkageirinn, samkvæmt skýrslu IMD stofnunarinnar. Fleiri skýrslur um samkeppnishæfni hafa ítrekað komist að sömu niðurstöðu (t.d. World Economic Forum skýrslurnar).

Á fyrri myndinni má sjá að Ísland kemur langbest út í samanburði á samfélagslegum innviðum (í 11. sæti árið 2015). Innviðirnir eru einkum á ábyrgð opinbera geirans.

Skilvirkni hins opinbera kemur betur út en skilvirkni atvinnulífsins og efnahagsleg frammistaða, sem einkum er á ábyrgð einkageirans, kemur verst út – og fer raunar versnandi. (Myndirnar koma úr kynningu hagfræðings Viðskiptaráðs á könnun IMD frá síðasta vori).

Screen shot 2015-12-22 at 1.57.20 PM

Á seinni myndinni má svo sjá ítarlegri sundurliðun á útkomunni. Lang besta útkoman tengist frammistöðu opinbera geirans. Grunnstoðir samfélagsins koma í 1. sæti. Það er eina dæmið um að Ísland sé á toppnum og það er hið opinbera sem sér um grunnstoðirnar.

Sama gildir um heilsu og umhverfi, menntun og tæknilega innviði, sem er fyrst og fremst í umsjá ríkisins. Samfélagslega umgjörðin er góð á Íslandi, miðað við önnur lönd.

Framleiðni, skilvirkni atvinnulífsins, efnahagur og verðlag nær varla máli hins opinbera í þessum efnum. Þar liggur ábyrgðin að mestu hjá einkageiranum.

Screen shot 2015-12-22 at 1.56.42 PM

Heildarmyndin er þannig sú, að verkefnin við að bæta einkageirann virðast sannarlega vera ærin og því verðug viðfangsefni fyrir Viðskiptaráð.

Ef við skoðum afleita frammistöðu einkageirans í aðdraganda hrunsins verður þetta auðvitað mun meira afgerandi og brýnna.

Kanski Viðskiptaráð ætti að líta sér nær. Það eru ansi margar stofnanir og samtök einkageirans að gera það sama og Viðskiptaráð, þ.e. að reyna að hafa áhrif á stjórnmálin í þágu eigin hagsmuna (SA, LÍU, SI, Samtök atvinnurekenda, SFF, o.m.fl.). Þarna mætti sameina og spara, í anda tillagna Viðskiptaráðs.

Þetta er allt fjármagnað með félagsgjöldum á fyrirtæki, sem fleyta kostnaðinum svo út í verðlagið. Við erum með eitt hæsta verðlag í heimi, án þess að hafa hæstu laun í heimi. Kanski það sé á ábyrgð einkageirans? Væri ekki verðugt verkefni fyrir Viðskiptaráð að lækka verðlag á Íslandi, með hagræðingu í einkageira, án þess að lækka laun vinnandi fólks?

Opinberi geirinn er hins vegar með mun betri útkomu. Það virðist vera minna bilað þar en í einkageiranum.

Hvers vegna finnst Viðskiptaráði þá brýnast að steypa opinbera geiranum í upplausn eða fyrir björg, eins og felst í tillögum þeirra?

Menn vita að gríðarleg vandamál geta tengst sameiningu tveggja stofnana, sérstaklega ef þær eiga ekki nógu mikið sameiginlegt eða ef aðgerðin er illa undirbúin og illa framkvæmd. Það er heldur ekki góð hugmynd að stjórnendur stofnunar sem starfar úti á landi sitji í annarri stofnun í Reykjavík.

Að steypa saman miklum fjölda stofnana er eins og óráðstal, án allrar ábyrgðar – nema það sé hugsað sem skemmdarverk.

Er það af illa ígrunduðum hugmyndafræðilegum ástæðum eða bara fjandskap í garð opinberra starfsmanna sem Viðskiptaráð fer fram með þessum hætti?

Eða þjónar það hagsmunum einkageirans að ryðja opinbera geiranum úr vegi og skapa þannig fleiri gróðafæri fyrir einkafyrirtæki?

Þetta mætti ræða í jólaboðunum.

Ég sendi Viðskiptaráðsmönnum og öllum öðrum bestu jólakveðjur.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.12.2015 - 11:42 - FB ummæli ()

Viðskiptaráð á villigötum

Fyrir hrun hældi Viðskiptaráð sér af því, að ríkisstjórnir landsins hefðu samþykkt meira en 90% af stefnumálum Viðskiptaráðsins.

Þeir voru ein helsta klappstýra hrundansins. Forystumenn ráðsins fyrr og nú voru í hópi helstu gerenda þess sem afvega fór.

Nú eru þeir komnir á fullt á ný og þyrstir í meira af því sama.

Þeir vilja skera lýðræðið og ríkisvaldið við trog og draga úr velferðarkerfinu sem mestan þrótt. Markaði og einkageira vilja þeir hins vegar allt!

Í nýjasta fréttabréfi sínu heimta þeir að ríkisstofnunum verði fækkað um meira en helming, hvorki meira né minna! Úr 188 niður í 70. Fækkun um 118 opinberar stofnanir þýðir gríðarlega fækkun sérhæfðra starfsmanna. Fjöldaatvinnuleysi.

Til dæmis vilja þeir fella rekstur allra opinberra safna á safnasviði undir eina stjórn. Þeim finnst þetta líklega allt vera sama “menningardraslið”: Þjóðminjasafnið, Listasafnið og jafnvel Óperan og Sinfónían…

Umboðamann skuldara vilja þeir feigan, osfrv…

Um daginn heimtuðu þeir að umbótafrumvörp Eyglóar Harðardóttur um húsnæðismál verði felld. Þeir vilja engar húsnæðisbætur fyrir almenning og helst engar barnabætur heldur.

 

Viðskiptaráð býður aftur til veislu fyrir yfirstéttina – á kostnað almennings.

Í boðskap sínum um meinta þörf fyrir gríðarlegan niðurskurð á opinbera stofnanakerfinu segir Viðskiptaráð eftirfarandi:

“Ísland er örríki í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir það höldum við úti stofnanakerfi sem jafnast á við mun fjölmennari þjóðir. Kostnaður þjóðfélagsins af slíku fyrirkomulagi er mun hærri en annars staðar…” (feitletrun mín)

Þarna falla hugsjónamenn Viðskiptaráðs á fyrsta prófinu, í barnalegum ákafa sínum.

Því þessi fullyrðing þeirra er kolröng. Þessi kostnaður er ekki meiri hér en annars staðar. Öðru nær.

Það má sjá á myndinni hér að neðan, en hún sýnir heildarútgjöld hins opinbera á Íslandi og í öðrum OECD-ríkjum, árið 2013 (sem hlutfall af þjóðarframleiðslu – Ísland er í rauðu).

Screen Shot 2015-12-17 at 09.55.00

Ísland er undir meðallagi OECD-ríkja hvað snertir byrðar af opinberum útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Takið eftir því.

Fjórtán ríki eru með meiri opinber útgjöld en við og ellefu eru með minni útgjöld.

Ef Viðskiptaráði tækist að stórfækka opinberum stofnunum og skera velferðarútgjöld niður, eins og þeir vilja, þá færist Ísland mun nær Bandaríkjunum.

Þá værum við ekki lengur hluti af norrænu velferðarríkjunum.

Er það virkilega eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að líkjast hinu misheppnaða bandaríska samfélagi meira en þegar er?

Var reynslan af leiðsögn og gerðum Viðskiptaráðs á árunum að hruni svo góð að ástæða sé til að hlusta á þá nú?

Kanski við ættum frekar að læra af reynslunni?

 

Síðasti pistill: Mótun framtíðar – í boði Trausta Valssonar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.12.2015 - 13:41 - FB ummæli ()

Mótun framtíðar – í boði Trausta Valssonar

Fyrir skömmu kom út bókin Mótun framtíðar: Hugmyndir – skipulag – hönnun, eftir Trausta Valsson, prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands.

Þetta er óvenjuleg bók, eins konar fagleg ævisaga. Trausti gerir grein fyrir námi sínu, þróun hugmynda sinna og starfsferli, í samhengi við hugmyndasögu skipulagsfræðanna og tíðarandann í samfélaginu.

Þetta er mjög gott yfirlit um verk Trausta og þróun hans sem skipulagsfræðings og hönnuðar.

Trausti hefur verið afar hugmyndaríkur hönnuður og sett fram margar stórar skipulagshugmyndir sem sumar hafa lifað lengi. Rótin að því er sú, að Trausti hefur verið ófeiminn við að hugsa út fyrir kassann. Hann hefur því oft rekist á kassakarla, sem hafa átt erfitt með að fara út fyrir hið viðtekna og venjulega.

Frumlegir og frjóir menn menn eins og Trausti eiga oft erfitt uppdráttar í hópum þröngsýnna og íhaldssamra. Þeir eru því oft teknir beinlínis úr umferð eða úthrópaðir sem undanvillingar eða sérvitringar.

Það er hins vegar til marks um lagni Trausta að hann hefur komist upp með að hreyfa meira við því viðtekna en flestir.

Þannig eru enn á dagskrá þjóðmálaumræðunnar margar áratuga gamlar hugmyndir sem upphaflega komu frá honum. Sumar eru jafnvel enn uppspretta átaka.

Stærsta hugmynd Trausta er kanski hugmyndin um að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni út á uppfyllingar á skerjunum í Skerjafirði og taka Vatnsmýrina undir miðbæjarstarfsemi og íbúabyggð. Í leiðinni vildi hann tengja saman gamla miðbæinn og Vatnsmýrina og brúa áfram yfir í Kópavog og Álftanes.

Aðrar stórar hugmyndir eru til dæmis sundabrautin, suðurstrandarvegur, hálendisvegir, þétting byggðar, bætt blöndun vinnustaða og íbúabyggðar, betri nýting strandlengjunnar o.s.frv.

 

Meinsemdir módernismans

Trausti hóf nám sitt í Berlín í höfuðvígi módernismans í byggingalist. Hann fjallar mikið um galla módernismans, hinn kalda og hráa stíl og fjöldablokkir úthverfa, sterílar og vélrænar útfærslur í and Le Corbusier og Walter Gropiusar.

Í framhaldsnámi sínu í Berkley háskólanum í Kaliforníu kynntist hann mýkri hlið hönnunar, klassískari stílum og gildi samþættingar og umhverfisskipulags. Hann setur hina vélrænu og militarísku hönnun Berlínar upp sem andstæðu hinnar mjúku, fjölbreyttu og klassísku hönnun Parísarborgar. París hefur vinninginn í huga Trausta. Flestir myndu taka undir það.

Raunar finnur Trausti modernisma flest til foráttu og kennir honum um mörg mestu skipulagsslys tuttugustu aldarinnar. Reykjavík á sín dæmi um meinsemdir módernismans í löngu stórblokkunum í Breiðholti III og ýmsum hugmyndum fyrr og síðar um að hreinsa burt klassíska gamla byggð og setja andlaus kassaháhýsi þar í staðinn.

Trausti segir það einungis heppni að gamli miðbærinn í Reykjavík hafi ekki verið eyðilagður með slíkum áformum, eins og niðurrifi Torfunnar og byggingu kassaháhýsa þar og víðar í anda Moggahallarinnar í Aðalstræti.

Hugmynd um hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið og bygging atvinnuhúsnæðis eftir nær allri norðurströnd Reykjavíkur, með tilheyrandi eyðileggingu útsýnis að sundunum og Esjunni (til dæmis frá Laugarnesi að Elliðaárvogi), eru hugmyndir af þeim toga modernisma og aðgreiningar (zoning) sem Trausta líkar ekki við. Undir það má taka.

Í ljósi harðrar gagnrýni Trausta á meinsemdir módernisma finnst mér svolítið skemmtilegt að ég nýt þess að búa í öðru af einungis tveimur íbúðarhúsum á höfuðborgarsvæðinu sem Trausti Valsson hannaði. Það er reyndar hús í módernískum fúnkis-stíl í rúmum garði, en ekki hávaxið fjölbýlishús í anda Grópíusar. Þetta er hið ágætasta hús þar sem tekst að blanda vel saman garði og byggingu, meira í anda Falling Water hússins sem Frank Lloyd Wright hannaði en í anda Bauhaus hönnuðanna sem Trausti gagnrýnir.

Lexía mín af þessu er sú, að módernismi geti bæði verið góður og slæmur. Klassísk hönnun sömuleiðis. Menn eiga ekki að nálgast og meðhöndla stefnur í hönnun og skipulagningu með einstrengingslegum hætti. Það sama ætti líka að gilda um pólitík.

Kredda og einstrengingur eru alltaf hættuleg hjú.

Bók Trausta Valssonar, Mótun framtíðar, er fróðleg umfjöllun um skipulagsmál og hönnun og gott yfirlit um frjótt og mikið ævistarf. Trausti getur litið stoltur til baka nú þegar hann lætur af störfum við Háskóla Íslands, eftir að hafa náð sjötugsaldri.

Vondi heldur hann þó áfram að hugsa út fyrir kassann og ýfa upp umræðuna um skipulagsmál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.12.2015 - 13:59 - FB ummæli ()

Skilningsleysi í fjárlaganefnd?

Margir urðu forviða yfir þeirri uppákomu er varð í fjárlaganefnd Alþingis þegar forstjóri Landsspítalans kom þar á fund fyrir skömmu.

Forysta nefndarinnar talaði um að stjórnendur Landsspítalans beittu nefndina “andlegu ofbeldi” og sögðu að slíkt væri árlegur viðburður.

Forsendan virðist vera sú, að stjórnendur Landsspítalans séu að fara fram á ónauðsynlegar eða óréttmætar fjárveitingar.

Í viðtali Sigurjóns Egilssonar við Pál Matthíasson, forstjóra Landsspítalans, á Sprengisandi í morgun kom hins vegar fram að forysta fjárlaganefndar hafi ekki skilið þau gögn er Landsspítalinn lagði fram, sem grundvöll mats á fjárþörf, í samræmi við lagalegt hlutverk og markmið spítalans.

Heilbrigðisráðherra hefur brugðist við með því að fá hlutlausa utanaðkomandi sérfræðinga til að gera úttekt á rekstri Landsspítalans. Sigurjón Egilsson sagði að svo virtist sem ráðherrann ætlaði að stappa staðreyndunum ofaní forystu fjárlaganefndarinnar með þessum hætti. Páll fagnaði því að slík úttekt yrði gerð, en tók ekki afstöðu til túlkunar Sigurjóns.

Málið allt vekur upp mikilvægar spurningar.

Ef forysta fjárlaganefndar er ekki fær um að skilja fagleg gögn sem Landsspítalinn leggur fram þá er það grafalvarlegt mál, sem ekki má við una. Ekki kom fram í viðbrögðum forystu nefndarinnar að efnislegar villur væru í téðum gögnum, heldur töluðu þau einungis um óeðlilegan þrýsting að hálfu spítalans.

Hins vegar efast ég um að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi varaformaður fjárlaganefndar, hafi ekki skilið þessi gögn. Hann er enginn kjáni.

En Guðlaugur Þór er hins vegar fangi róttækrar hugmyndafræði sem leggst gegn ríkisrekstri í heilbrigðisþjónustu og vill stórauka einkarekstur. Helsta leiðin til að ná því markmiði er að grafa undan ríkisreknum Landsspítalanum og annarri opinberri heilbrigðisþjónustu. Formaður fjárlaganefndar virðist hins vegar telja allan ríkisrekstur of dýran og ekki skila verðmætasköpun á pari við einkageirann (sem stenst þó enga staðreyndakönnun).

Ástæða er því til að ætla að hugmyndafræðileg afstaða stýri þessum viðbrögðum hjá forystu fjárlaganefndar að einhverju leyti.

Kanski vilja þau ekki taka mark á fjárbeiðni Landsspítalans? Fram hefur jú komið að svigrúm er fyrir hendi í rekstri ríkisins um þessar mundir.

 

En hverjar eru staðreyndirnar?

Tiltölulega nýleg úttekt á rekstri Landsspítalans sýndi að hann er ódýr miðað við sambærilega spítala í grannríkjunum og nær samt góðum árangri. Heilbrigðisútgjöld á Íslandi eru nú undir meðallagi OECD-ríkja en voru um 2003 í fremstu röð. Fyrirhuguð úttekt heilbrigðisráðherra mun án efa skila svipaðri niðurstöðu.

Ég þekki vel til tveggja annarra stórra opinberra stofnana sem báðar eru mjög ódýrar í samanburði við sambærilegar stofnanir í norrænu grannríkjunum.

Háskóli Íslands er einn alódýrasti háskóli á Vesturlöndum, í sínum stærðarflokki. Samt nær hann ágætum árangri á alþjóðlega gæðamælikvarða, mun betri árangri en margir miklu dýrari háskólar.

Tryggingastofnun ríkisins er rekin fyrir einungis um þriðjung til fjórðung af kostnaði við systurstofnanirnar á Norðurlöndum, í hlutfalli við umsvif (útgreiddan lífeyri og bætur).

Þetta er víðar svona í opinbera geiranum, enda er Ísland ekki með óeðlilega mikil opinber útgjöld á hvern íbúa, raunar talsvert minni en frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

Opinberar stofnanir sem ekki voru vel fjármagnaðar fyrir hrun (miðað við hlutverk sín og markmið) máttu sæta miklum niðurskurði í kreppunni.

Vanda Landsspítalans nú ber að skoða í því ljósi. Líka í ljósi þess að verkefnin jukust á niðurskurðarárunum og vaxa nú umtalsvert á hverju ári sem við bætist.

Stjórnvöld hafa vissulega hafið sókn í málum Landsspítalans og það ber að virða. Enda var því lofað í stjórnarsáttmála og kjarasamningum við lækna.

En meira virðist þurfa í grunnrekstur, viðhald og innviði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.12.2015 - 11:47 - FB ummæli ()

Er Ólafur Ragnar stærsta vandamálið?

Ég hef verið svolítið undrandi yfir hörðum viðbrögðum sumra við ummælum forseta vors, Ólafs Ragnars Grímssonar, um hættu af öfgamúslimum í nútímanum.

Samt sagði Ólafur Ragnar einungis það augljósa um málið.

Raunar það sama og flestir ábyrgir þjóðarleiðtogar í Evrópu og Norður Ameríku, bæði til hægri og vinstri í litrófi stjórnmálanna.

Svo flæðir þessi neikvæða afstaða yfir á umræðu um hvort Ólafur Ragnar bjóði sig fram á ný, í viðbót við langan og farsælan feril.

Andstæðingar hans eru margir ansi ruddalegir í ummælum um þetta.

Auðvitað er málefnalegt að velta því upp hversu lengi þjóðkjörnir leiðtogar geti setið í embætti og hvort ástæða sé til að setja tímamörk á það.

Okkar löggjöf er hins vegar opin hvað þetta snertir. Það er því óhætt að segja að þjóðin einfaldlega ráði því hversu lengi kjörinn forseti komi til með að sitja. Hann sjálfur hefur þó einnig eitthvað um málið að segja.

 

Fulltrúi verðleikasamfélagsins

Oft er rætt um það sem galla á íslensku fámennis- og klíkusamfélagi að verðleikar séu settir til hliðar.

Flokksbönd, auður, vinskapur og ætterni ráði of miklu. Samfélagið sé ekki verðleikasamfélag í nógu miklum mæli. Vinstri menn leggja oft mikla áherslu á þetta.

Ólafur Ragnar er hins vegar mjög góður fulltrúi verðleikahugsjónarinnar. Það er varla umdeilt.

Hann vann sig upp í embættið af eigin verðleikum – og raunar í andstöðu við ríkjandi yfirstétt þess tíma; ríka og valdamikla fólkið í Sjálfstæðisflokknum.

Í embætti hefur hann ítrekað sýnt mikla hæfni og styrk, þó auðvitað megi hafa efasemdir um sumt sem hann hefur gert.

Nú er meira að segja svo komið að yfirstéttin á hægri vængnum er búin að taka hann í sátt, þó því fylgi enn eitthvert óbragð í munni einstaka pótintáta Sjálfstæðisflokksins.

Ef þeir fyndu á honum höggstað myndu þeir án efa hjóla í hann af mikilli grimmd og miskunnarleysi.

Vinstri menn eru hins vegar margir harðari í andstöðu við Ólaf Ragnar nú til dags. Í þeim hópi eru einmitt sumir sem leggja mikla áherslu á verðleikasamfélagið sem hugsjón og markmið.

En ef maður horfir raunsætt á málið, þá er leitun að manni sem er verðugri fulltrúi verðleikasamfélags en Ólafur Ragnar Grímsson – þrátt fyrir allt.

 

Síðasti pistill:  Umfang skattsvika og bótasvika

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.11.2015 - 11:59 - FB ummæli ()

Umfang skattsvika og bótasvika

Ríkisskattstjóri upplýsti um daginn að áætlað umfang skattsvika á Íslandi nemi rúmlega 80 milljörðum á ári (þ.e. 80 þúsund milljónum króna).

Ríkisendurskoðun Íslands benti á að í Danmörku væri talið að rangar greiðslur í almannatryggingakerfinu gætu numið á bilinu 3-5% af heildarupphæð bóta.

Ef þær tölur giltu fyrir Ísland myndi upphæð rangra greiðslna, m.a. bótasvika, nema á bilinu 2,6-4,4 milljörðum, að mati TR.

Það er þó ekki vitað hvort þessar tölur gætu fyllilega átt við á Íslandi, því það hefur ekki verið vandlega rannsakað. En gáið að því að þetta vísar til “rangra greiðsla, m.a. bótasvika”. Bótasvik eru einungis hluti af þessari upphæð (í Bretlandi eru bótasvik um fjórðungur rangra greiðslna).

Ríkisendurskoðun Bretlands metur árlega eiginleg bótasvik þar í landi og kemst að þeirri niðurstöðu að þau séu þessi árin um 0,7% af útgreiddum bótum.

Ef hlutfall bótasvika væri svipað á Íslandi og í Bretlandi væru bótasvik hér á landi á bilinu 600-800 milljónir króna á ári. Það er vissulega há upphæð.

Samt eru skattsvik í kringum hundrað sinnum stærri upphæð en áætluð bótasvik, ef miðað er við reynslu Breta af bótasvikum í þarlendum almannatryggingakerfum.

Skattsvik og bótasvik eru auðvitað alvarleg mál. Í heilbrigðu samfélagi á hvorugt að líðast.

Það er þó gagnlegt fyrir okkur öll að hafa það á hreinu, að skattsvik gætu verið allt að hundrað sinnum stærra vandamál en bótasvik.

Með því að draga verulega úr skattsvikum væri hægt að lækka skattaálögur á heiðarlega skattgreiðendur eða bæta opinbera þjónustu verulega, fyrir tugi milljarða á ári.

Og með fullri útrýmingu bótasvika væri hægt að tryggja þeim sem raunverulega þurfa á stuðningi almannatrygginga að halda ívið betri kjör, eða á bilinu 15-30 þúsund krónur á ári (þ.e. í kringum 2.000 krónur á lífeyrisþega á mánuði).

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.11.2015 - 12:38 - FB ummæli ()

Tekur róttækni Ayns Rand völdin í Valhöll?

 

Útdráttur

Áhrifamenn í Eimreiðarklíku nýfrjálshyggjumanna vinna nú hörðum höndum að útbreiðslu öfgafrjálshyggju Ayns Rand á Íslandi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson leiðir verkefnið, eins og fyrri daginn.

Þarna eru á ferðinni hugmyndir um að fjármálamenn og atvinnurekendur séu eins konar ofurmenni, sem einir geri þjóðfélaginu gagn, en aðrir annað hvort skipta ekki máli eða teljast vera “sníkjudýr”, til dæmis ellilífeyrisþegar, rikisstarfsmenn og öryrkjar.

Hugmyndir Ayns Rand réttlæta óvenju róttæka einstaklingshyggju, með áherslu á sérhyggju, græðgi og yfirstéttadekur, en hafna lýðræði, kristinni trú, náungakærleika og samúð.

Bandarískir auðmenn hafa tekið þessar hugmyndir upp á arma sína á síðustu árum og styðja fjárhagslega við útbreiðslu þeirra í Bandaríkjunum – og raunar víðar um hinn vestræna heim. Það gera þeir í áróðursskyni, til að grafa undan lýðkjörnu ríkisvaldi og velferðarríki, um leið og þeir vilja styrkja stoðir eigin auðræðis.

Sú staðreynd að það er að hluta sama fólkið sem stendur að þessu nýja trúboði og stóð að byltingu nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma, vekur spurningar um hvort hin sérkennilega róttækni Ayns Rand verði jafn áhrifarík í flokknum í framhaldinu og nýfrjálshyggjan varð á valdatíma Davíðs Oddssonar.

—————————————————————

Gamla frjálshyggjan toppaði með hruninu

Það er varla umdeilt að Hannes Hólmsteinn hefur verið langáhrifamesti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, fyrr og síðar.

Hann hefur verið helsti talsmaður nýfrjálshyggju í flokksstarfinu og víðar allt frá því fyrir 1980. Braut hans til áhrifa í flokknum opnaðist til fulls þegar Davíð Oddsson, hugmyndafræðilegur samherji og vinur Hannesar, varð forsætisráðherra árið 1991.

Frá um 1995 til 2008 stóðu þeir og fleiri að viðamikilli frjálshyggjutilraun á Íslandi, sem endaði með hruni fjármálakerfisins og djúpri kreppu, sem skall á almenning með fullum þunga kjaraskerðingar og aukinnar skuldabyrði. Sjá grein Hannesar um frjálshyggjutilraunina (hér).

Tilraunin fólst einkum í aukinni markaðsvæðingu, einkavæðingu, fjármálavæðingu, minni ríkisafskiptum (afskiptaleysisstefnu) og skattafríðindum til atvinnurekenda og fjárfesta, samhliða rýrnun reglna og opinbers eftirlits.

Þessi tilraun leiddi til aukins frelsis fyrir fjárfesta og atvinnurekenda og verulega aukins ábata fyrir þá. En öðru fremur leiddi hún til óhófs og brasks með lánsfé sem á endanum drekkti þjóðarbúinu í skuldum. Eftirlitsstofnanir (Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið) brugðust með öllu í að verja þjóðina gegn óhófi og græðgi fjármálaaflanna.

Skuldasúpan gat svo af sér hrunið, þegar ekki var lengur hægt að halda braskinu áfram, með enn meiri skuldasöfnun.

Ætla mátti að nýfrjálshyggjumenn hefðu séð að sér í ljósi skelfilegrar reynslu þjóðarinnar af frjálshyggjutilrauninni og hruninu og mildað hugmyndafræði sína. Þeir hefðu átt að sýna vilja til að læra af mistökunum og tryggja varfærnislegri framvindu í framtíðinni.

En svo var ekki.

Þeir þverneituðu allri ábyrgð á því sem afvega fór, jafnvel þó pólitík þeirra hefði varðað leiðina að hruni. Og jafnvel þó frjálshyggjuleiðtoginn mikli, Davíð Oddson, hefði sem seðlabankastjóri verið æðsti embættismaður fjármálakerfisins, sem hrundi á hans vakt.

Nei, í staðinn gáfu þeir í. Reyndu fyrst að koma sök á hruninu á eina fjölskyldu í Reykjavík sem þeim var í nöp við – og síðan á útlendinga. Sök þeirra síðarnefndu átti að vera sú, að hafa neitað að bjarga íslenska bankakerfinu frá hruni eftir að íslenskir óreiðumenn voru búnir að reka það í risavaxið þrot, með leyfi stjórnvalda (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan var áfram boðuð á vettvangi atvinnulífs og stjórnmála, eins og ekkert hefði í skorist. Viðskiptaráð spilar nú þegar allar sömu laglínurnar og fyrir hrun.

 

Ný sókn nýfrjálshyggjumanna – með öfgatrúboði Ayns Rand

Á kreppuárunum eftir 2008 hófu svo Hannes Hólmsteinn og félagar hans í útgáfufélagi Eimreiðarklíkunnar (Almenna bókafélaginu) að þýða og gefa út bækur bandarísku skáldkonunnar Ayn Rand. Almenna bókafélagið er meðal annars í eigu Kjartans Gunnarssonar og Baldurs Guðlaugssonar, sem báðir hafa verið áhrifamiklir í Eimreiðarklíkunni.

Hægri menn í Bandaríkjunum uppgötvuðu það á níunda áratugnum að skáldsögur Ayn Rands fólu í sér róttæka málsvörn fyrir algerlega óheftum kapítalisma og upphafningu atvinnurekenda og fjármálamanna til skýjanna. Þetta líkaði þeim og töldu að skáldsögur þessar gætu verið gagnleg verkfæri fyrir útbreiðslu enn róttækri nýfrjálshyggju en áður.

Cato Institute, áróðursveita nýfrjálshyggjuhugmynda, sem auðmennirnir David og Charles Koch hafa lengi fjármagnað, leggur nú sérstaka áherslu á útbreiðslu hugmynda Ayn Rands, asamt fleiri bandarískum áróðursveitum.

Þannig beitir Cato stofnunin sér nú m.a. fyrir því að styrkja háskóla sérstaklega fyrir að kenna skáldsögur Ayn Rand sem “heimspekirit” um kapítalisma.

Háskóli einn í North Carolina í Bandaríkjunum fékk t.d. um 65 milljón króna styrk til að setja upp námskeið í efninu og stúdentar fengu bók Ayns Rand gefins í upphafi námskeiðsins. Þetta er auðvitað ígildi þess að selja áróðursveitu aðgang að stúdentum og gera áróðursefni að námsefni við háskóla – gegn greiðslu til viðkomandi stofnunar.

Sagt er að Cato áróðursveitan og Ayn Rand Institute reki nú sérstaka utanríkisstefnu sem miðar að því að halda bókum Ayn Rands að stúdentum víða um heim, með slíkum styrkveitingum. Stundum eru bækurnar gefnar. Þetta er eins konar heimstrúboð róttækustu útgáfunnar af nýfrjálshyggjunni. Hannes Hólmsteinn var einmitt með erindi um boðskapinn í Háskóla Íslands í síðustu viku og talaði um meinta sköpunargleði ofurmenna og sníkjulíf annarra.

Hannes og útgáfufélag Eimreiðarklíkunnar eru sem sagt komnir inn á þessa línu, að breiða út boðskap Ayns Rand, sem virðist vera liður í þessu heimsátaki bandarískra auðmanna. Ég veit ekki hvort þeir fá styrk frá Cato eða öðrum slíkum áróðursveitum til verkefnisins, en slíkt er klárlega í boði. Þeir gangast fyrir ráðstefnum eða fundum um efnið meðal stúdenta (sjá hér) og dreifa þessum bókum, sem þeir upphefja sem “heimspekirit”.

Bækur Ayns Rand eru hins vegar lítið annað en dystópískar annars flokks skáldsögur, með gegnumgangandi trúboði sem réttlætir græðgi og óheftan kapítalisma.

Þetta eru hugmyndir sem styrkja auðræði en hafna algjörlega lýðræði og kristnum trúarbrögðum.

 

Speki Ayn Rand: Ofurmenni yfirstéttar gegn þjófum og sníkjudýrum

Lykilþema í skrifum Ayn Rand er, eins og áður segir, upphafning atvinnurekenda og fjármálamanna sem ofurmenna, sem eru sögð skapa auð og verðmæti samfélagsins af eigin dug einum. Aðrir eru sagðir ónytjungar  – eða skipta bara engu máli. Framlag venjulegs vinnandi fólks til verðmætasköpunarinnar telur varla með.

Af þessu verður mikið yfirstéttardekur. Allt skal gera fyrir þessa snillinga til að auðvelda þeim að auka auð sinn enn frekar – óháð því hvernig hag almennings reiðir af.

Við sáum hvernig þetta var í framkvæmd hér á Íslandi á áratugnum fram að hruni, með snillinga útrásar og fjármála í fararbroddi. Þeir keyrðu þjóðarbúið á kaf í skuldir. Einmitt þeir sem Ayn Rand og Hannes Hólmsteinn segja vera sérstaka snillinga og velgjörðarmenn! Þeir voru bara braskarar að þjóna eigin græðgi.

Síðan er í heimi Ayn Rand litið á lýðkjörið ríkisvald sem þjóf, er rænir hina miklu skapara sem fjármálamenn og atvinnurekendur eru sagðir vera, með skattlagningu fyrir sameiginlegum þörfum samfélagsins – en þær eru sagðar óþarfar.

Velferðarríkið er sagt byggja á þeim þjófnaði og gera illt verra með því að úthluta skattfé til iðjulausra ónytjunga! Enginn skilningur er sýndur á því að um sé að ræða samtryggingarkerfi, þar sem notendur greiða flestir fyrir sig sjálfir.

Þannig eru opinberir embættismenn og starfsmenn, sem fá laun af skatttekjum ríkisins, einnig taldir afætur, sem atvinnurekendur og fjármálamenn eru sagðir bera á bakinu. Örorkubótaþegar og ellilífeyrisþegar eru sérstaklega neðarlega í virðingarröðinni hjá Randistum – og kallaðir sníkjudýr!

Þetta er sem sagt heimsmyndin. Atvinnurekendur og fjármálamenn einir skipta máli. Aðrir eru sníkjudýr, sem sagðir eru lifa á yfirstéttinni. Kennarar, hjúkrunarfólk og læknar á ríkisspítölum eru taldir með flokki sníkjudýra og fólk sem hefur misst heilsuna vegna veikinda eða slysa er uppnefnt sem sníkjudýr og bótasvikarar.

Þetta er auðvitað mjög villandi mynd af velferðarríkinu sem upp er dregin, en umfram allt ruddaleg og miskunnarlaus, en svona tala Ayn Rand og fylgjendur hennar. Svona talaði Hannes Hólmsteinn í fyrirlestri sínum um daginn, þó hann reyndi til málamynda að setja smá fyrirvara við örfáa þætti í yfirgengilegasta boðskap skáldkonunnar.

 

Verður þetta stefna Sjálfstæðisflokksins?

Hannes sagði fyrir skömmu í viðtali við Reykjavík Grapevine að boðskapur Eimreiðarhópsins um aukna markaðshyggju, í anda Hayeks og Friedmans, hafi verið miklu mildari hugmyndafræði en boðskapur Randistanna. Nú sé hins vegar komið að því að harðari rödd Ayn Rands heyrist betur (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan er þegar búin að breyta Sjálfstæðisflokknum mikið, í átt þess að vera fyrst og fremst flokkur yfirstéttarinnar, flokkur ríka fólksins. Það gerðist á tíma Davíðs.

Spurningin er nú hversu langt þetta nýja framlag Eimreiðarklíkunnar til íslenskra stjórnmála muni ná inn fyrir veggi Valhallar?

Verður ekki lengur pláss í Sjálfstæðisflokknum fyrir samstöðu með millistéttinni? Verða ellilífeyrisþegar kallaðir sníkjudýr þar á bæ? Verða langveikir öryrkjar kallaðir sníkludýr? Verður kristilegt siðgæði þurkað út úr allri hugmyndafræði flokksins? Verður auðræðið allsráðandi?

Kanski þeir sem vilja enn um sinn halda í norrænu samfélagsgerðina á Íslandi ættu að óska þessum fylgjendum öfganna hjá Ayn Rand góðs gengis innan Sjálfstæðisflokksins.

Líklegast er að þjóðinni muni ekki hugnast svona öfgafull og mannfjandsamleg pólitík.

Sjálfstæðisflokkur Hannesar Hólmsteins og Ayns Rand gæti þannig orðið enn minni en hann nú er!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 31.10.2015 - 13:03 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð er með pálmann í höndunum

Fyrir síðustu kosningar var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, nær einn á báti með þann málflutning, að ganga ætti fast að erlendum kröfuhöfum þrotabúa bankanna.

Þeir þyrftu að eftirláta íslenskum stjórnvöldum umtalsverðan hluta íslenskra eigna sinna hér á landi.

Hann nefndi gjarnan að um gæti verið að ræða nálægt 300 milljörðum “og jafnvel hærri upphæðir”.

Margir efuðust um þetta og gagnrýndu Sigmund Davíð fyrir lýðskrum, sérstaklega þegar hann tengdi þetta við möguleikann á að lækka skuldir heimilanna. Hart var gengið að honum í fjölmiðlum (sjá t.d. hér).

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms lagði grundvöllinn að góðri samningsstöðu ríkisins, með því að loka þrotabúin bak við gjaldeyrishöftin. Þar voru áform um að nýta þá samningsstöðu, til hagsbóta fyrir þjóðarbúið.

Hins vegar gerðu vinstri flokkarnir þau mistök í kosningabaráttunni að tala ekki um slík áform og veitast í staðinn að Sigmundi Davíð. Þeir misstu fótanna í pólitíkinni og töpuðu sókarfæri sem Framsókn nýtti sér hins vegar til fulls.

Framsókn varð kröftugur talsmaður velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna, sem hún vildi setja í forgang. Að þessu leyti hefði Framsókn átt að eiga meiri samleið með vinstri og miðju flokkunum en raun varð á.

Samfylkingin fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga. Það voru stór mistök og flokkurinn galt afhroð í kosningunum. Framsókn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki og þarf nú að berjast við þá um flestar framfarir í velferðarmálum heimilanna.

Margt hefur þó heppnast ágætlega hjá núverandi stjórnvöldum, rétt eins og líka gildir um vinstri stjórnina. Hún skilaði góðum árangri í mörgum mikilvægum málum, í einstaklega erfiðri stöðu, þó ekki tækist allt sem að var stefnt.

Saman hafa báðar þessar ríkisstjórnir skilað Íslandi á mun betri stað eftir hörmungar hrunsins. Fólk á að meta framlag beggja ríkisstjórna en ekki tala pólitíska andstæðinga niður út í eitt, eða gefa skít í alla stjórnmálamenn, nema þá óþekktu og óreyndu (Pírata).

 

Loforðin efnd

Og nú þegar samningar við erlendu kröfuhafana eru að komast í höfn þá blasir við að Sigmundur Davíð er með pálmann í höndunum.

Hann hefur þegar efnt loforðið um skuldalækkun til heimilanna (þó upphæðin hefði mátt vera meiri og framlag stjórnvalda gildara – en þar er þó meira við Sjálfstæðisflokkinn að sakast).

Sigmundur Davíð hefur líka efnt það sem hann sagði um fyrirhugaða sókn gegn kröfuhöfunum fyrir hönd ríkissjóðs.

Kröfuhafarnir munu skila um 400 milljörðum í ríkissjóð og ýmsum öðrum verðmætum með stöðugleikaframlögum, sem hjálpa við að tryggja stöðugleika, þó hluti eigna kröfuhafanna fari úr landi, nú og síðar meir.

Það er vonum framar.

Við skulum heldur ekki gera of mikið úr því, að stjórnvöld og Seðlabankinn hafa að því er virðist ýkt ávinninginn af væntanlegu samkomulagi um stöðugleikaframlögin í kynningu sinni, með oftalningu og tvítalningum (sjá hér).

Það er líka rétt hjá InDefence-mönnum að hluta vandans er seinkað og að stöðugleikaskattur hefði skilað meiru beint í ríkissjóð. Það hefði að vísu verið mjög mikil skattlagning eigna og ef til vill óraunsæ framganga (sjá hér).

Samkomulag um þessa lausn sem liggur fyrir og Seðlabankinn hefur samþykkt er á heildina litið gríðarlega mikilvægt.

Farsæl niðurstaða virðist blasa við. Ávinningur þjóðarbúsins verður mikill og það ber að virða.

Sigmundur Davíð má sérstaklega vel við una og fólk ætti að virða framlag hans, hvar í flokki sem það stendur.

 

Síðasti pistill: Mun Ísland semja af sér?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar