Þriðjudagur 21.4.2015 - 14:55 - FB ummæli ()

Ráðherra fær reisupassann!

Nú berast þau tíðindi frá Alþingi að náttúrupassafrumvarpið sé dautt. Það verður ekki afgreitt úr nefnd á þessu þingi.

Ekki er meirihluti fyrir því, hvorki hjá stjórnarflokkun né stjórnarandstöðu.

Þetta mátti sjá fyrir.

Ég sagði í pistli sl. vetur um þessa skelfilegu hugmynd ráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að líklegra væri að hún fengi reisupassa en náttúrupassa, þegar upp yrði staðið.

Þetta var slæm hugmynd, sem hefði haft afleitar afleiðingar fyrir ásýnd lands og þjóðar og jafnvel skaðað ferðaþjónustuna.

Fyrir utan hversu fáránlegt það var að ætla að leggja skatt á Íslendinga til að byggja göngustíga fyrir blómstrandi ferðaþjónustu, sem í alltof miklum mæli er svört atvinnustarfsemi.

Ef tekið væri á miklum skattsvikum ferðaþjónustunnar myndu meira en nægir fjármunir aflast til gerðar göngustíga og nauðsynlegrar aðstöðu við helstu ferðamannastaði. Að því frátöldu hefði gistináttagjald dugað vel, með lágmarks tilkostnaði.

Nú hefur sem sagt komið á daginn að þingið hafnar hinni afleitu hugmynd ráðherrans.

Fara verður aðrar og eðlilegri leiðir til að fjármagna verkefnið.

Megi náttúrupassinn hvíla í friði – um alla tíð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.4.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Hefur HB Grandi efni á kauphækkun?

Starfsgreinasambandið krefst 300 þúsund króna lágmarkslauna fyrir lágtekjufólk í fiskvinnslu (sem á að nást á þremur árum).

Til að koma lægstlaunaða fiskvinnslufólkinu upp í 300 þúsund króna grunnlaun á mánuði þarf um 80 þúsund króna hækkun, þ.e. um 33% hækkun.

Grandi var nýlega að hækka stjórnarlaun um 33% (sjá hér).

Hefur HB Grandi efni á að hækka laun fiskvinnslufólks um 80 þúsund krónur á mánuði?

Hagnaður fyrirtækisins árið 2014 var um 5600 milljónir króna (5,6 milljarðar), skv. ársreikningi.

Hjá HB Granda starfa alls 920 manns. Ef þeir fengju allir flata 80 þúsund króna hækkun mánaðarlegra launa myndi það kosta fyrirtækið innan við 900 milljónir króna á ári. (Ef hækkuin kæmi bara til landvinnslufólks þá væri kostnaðurinn varla yfir 300 milljónum.)

Um 900 milljónir eru bara brot af hagnaði síðasta árs, eða 16% af hagnaðinum. Um 300 milljónir eru nálægt 5% af hagnaði síðasta árs.

Ef slík 80 þús. kr. kauphækkun hefði verið greidd á síðasta ári hefði hagnaður ársins orðið 4700 milljónir króna í stað 5600 milljóna.

Pældu í því!

Fyrirtækið hefði eftir sem áður getað greitt eigendum um 2,7 milljarða í arð fyrir árið 2014 (eins og þeir gerðu) og haldið að auki um 2 milljörðum eftir til eignaaukningar inni í fyrirtækinu.

Arðgreiðslan til eigenda nú er um þrisvar sinnum meira en kostnaðurinn af 80 þúsund króna hækkun til 920 starfsmanna. Hve margir skyldu þiggjendur arðsins vera?

Arðsemi sjávarútvegs er svo mikil þessi árin, eftir hinar miklu gengisfellingar hrunáranna, að fyrirtæki þar geta greitt miklu hærri laun til starfsfólksins.

Kjarasamningur með 80.000 króna flata launahækkun á alla starfsmenn strax kostar HB Granda hf. bara smápening, í samanburði við hagnað síðasta árs.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.4.2015 - 16:07 - FB ummæli ()

Rúnni Júl sjötugur – glæsileg hátíð

Poppgoðið og gæðingurinn Rúnar Júlíusson hefði orðið sjötugur um þessar mundir, hefði hann lifað.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um framlag Rúnna Júll til þjóðlífsins á glæsilegum ferli hans.

Hann skilur eftir sig ríka arfleifð í tónlistinni, sem Keflvíkingar halda vel í heiðri, meðal annars með byggingu Hljómahallarinnar við Stapann.

Synir Rúnna, þeir Baldur og Júlli, skipulögðu tónleika í höllinni að þessu tilefni á laugardagskvöldið.

Þar voru margir af fremstu tónlistarmönnum landsins sem fluttu lög Rúnars og Hljóma í rífandi stemmingu – á þann hátt sem Rúnna hæfði best: Valdimar, Magni, Stefán í Dimmu, Salka Sól o.fl.

Baldur var sögumaður og setti lögin skemmtilega í samhengi og fleiri fjölskyldumeðlimir Rúnna stigu á stokk, auk Júlla sem sá um slagverkið.

Margar perlur mætti nefna en hámarki náðu tónleikarnir þegar keflvíski stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson söng lagið “Það þarf fólk eins og þig”, við undirleik Þóris Baldurssonar á hammond orgel.

Ég var þarna í hópi góðra vina og get staðfest að þetta var frábær skemmtun.

Það er gott að heiðra minningu öðlinga eins og Rúnars – og aldeilis frábært að gera það með þeim glæsibrag sem þarna var.

Hér eru tvær myndir sem ég tók í Stapanum og stílfærði lítillega:

IMG_20150411_223559b

IMG_20150411_223325b1

 

 

Síðasti pistill:  Hundruð milljarða í útgönguskatt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.4.2015 - 11:26 - FB ummæli ()

Hundruð milljarða í útgönguskatt?

Ræða Sigmundar Davíðs á flokksþingi Framsóknarflokksins hefur eðlilega vakið mikla athygli. Enda reifaði hann athyglisverð áform.

Að sumu leyti skerpir Sigmundur á mun sem er milli stjórnarflokkanna, sem er eðlilegt og æskilegt að liggi fyrir með skýrum hætti.

Andstaða Framsóknar við einkavæðingu Landsvirkjunar er til dæmis afar mikilvæg. Vilji forsætisráðherra til að leggja höfuðáherslu á kjarabætur fyrir lægri og milli tekjuhópa og áform um umbætur í velferðarmálum sömuleiðis.

Einna mesta athygli vakti þó yfirlýsing forsætisráðherra um væntanleg skref til afnáms gjaldeyrishafta með útgönguskatti – eða “stöðugleikaskatti” eins og ráðherrann kallar það nú.

Það er lífsspursmál fyrir þjóðina að afnám hafta verði ekki til að fella gengi krónunnar mikið, með nýrri kjaraskerðingu og hækkun skulda heimilanna.

Sennilega er það líka lífsspursmál fyrir ríkisstjórnina að afnám haftanna raski ekki stöðugleika. Með því færi þjóðin stór skref til baka og uppskera liðinna missera færi fyrir lítið. Þjóðin myndi ekki sætta sig við slíkt áfall.

Kröftugur útgönguskattur mun því gegna lykilhlutverki við að verja stöðugleika, nema ef samningar tækjust við kröfuhafa um hundruða milljarða eftirgjöf krónueigna.

Viðbúið er að íslenskir efnamenn vilji líka flytja mikið fé úr landi við afnám hafta og er mikilvægt að útgönguskattur eða eftirgjöf krónueigna, sem urðu til með ósjálfbærum hætti í bólunni, gangi jafnt yfir þá og erlenda kröfuhafa.

Vonandi bera vinstri menn á þingi gæfu til að fylgja fordæmi Ögmundar Jónassonar, Lilju Mósesdóttur og InDefence-manna og styðja álagningu hás útgönguskatts eða stífa samninga um eftirgjöf krónueigna samhliða einhverju afnámi gjaldeyrishafta.

Annað væru mikil mistök.

Hundruð milljarða tekjuauki ríkissjóðs væri eðlileg bót fyrir það tjón sem fjármálageirinn olli samfélaginu og myndi koma sér vel til lækkunar skulda hins opinbera – og/eða til umbóta í velferðarmálum.

 

Síðasti pistill: Ögurstund í húsnæðismálum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.4.2015 - 11:59 - FB ummæli ()

Ögurstund í húsnæðismálum

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur látið búa til nokkur ný frumvörp um skipan húsnæðismála og húsnæðisbóta.

Markmið þessara frumvarpa er að taka á hinum gríðarlega vanda sem er á húsnæðismarkaði í kjölfar hrunsins.

Bæði þarf að tryggja betur framboð húsnæðis fyrir ungt fólk og fólk með lægri- og millitekjur og bæta sérstaklega stöðu leigjenda.

Þetta kallar á nýja skipan húsnæðismála – hvorki meira né minna.

Málin hafa tafist í fjármálaráðuneytinu.

Spurningin er hvort Sjálfstæðismenn ætli að standa í vegi fyrir nauðsynlegum umbótum ráðherrans á þessu sviði?

Þar á bæ gætir oft fyrirstöðu til framfara á sviði velferðarmála. Umhyggja fyrir verktökum og hátekjufólki er iðulega nærtækari í huga Valhallar-manna.

Grannt verður því fylgst með framgangi húsnæðismálanna.

Ef vel tekst til verður þetta mikil skrautfjöður í hatti stjórnvalda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.4.2015 - 10:54 - FB ummæli ()

Sólmyrkvabúgi

Sólmyrkvanum fagnað

DSC_7691b1

Rýnt í myrkvann

DSC_7723d2

 

Gleðilega páska!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.3.2015 - 12:00 - FB ummæli ()

Er ný launastefna tímabær?

Í febrúar árið 1986 skrifaði ég opnugrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni “Ný launastefna – Hvers vegna Íslendingar ættu að fylgja fordæmi annarra þjóða” (sjá greinina neðst á þessari síðu).

Þar var lagt út af þeirri staðreynd að grunnlaun voru óvenju lág á Íslandi, miðað við ríkidæmi þjóðarinnar (þjóðarframleiðslu á mann). Sömuleiðis var vinnutími hér afar langur og framleiðni á vinnustund lítil.

Lagði ég til að Íslendingar gerðu eins og aðrar sambærilegar hagsældarþjóðir og hækkuðu grunnlaun, styttu vinnutíma og reyndu að auka framleiðni samhliða þessum breytingum.

Benti ég m.a. á reynslu af yfirvinnuverkfalli á árinu 1977 þar sem fram kom í könnun Vinnuveitendasambandsins að hjá 85% fyrirtækja hefði tekist að halda sömu afköstum, þrátt fyrir yfirvinnubannið.

Mér sýndust því góðar forsendur fyrir því að takast mætti að kasta láglaunastefnunni fyrir róða og gera lífskjör sambærilegri við það sem tíðkaðist á hinum Norðurlöndunum – í sérstöku átaksverkefni.

Þó sumt hafi batnað hér frá þessum tíma er staðan í megindráttum enn sú sama (sjá hér). Íslendingar hafa of mikið fyrir öflun lífskjara sinna, vegna of lágra launa og of langs vinnutíma – og þar með er of mikið álag á heimili, einkum ungar barnafjölskyldur. Framleiðni er enn óeðlilega lítil.

Góður kollegi minn í Háskólanum, sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum, las þessa gömlu grein mína fyrir nokkru og benti mér á að hún ætti sérstaklega vel við í dag – þrátt fyrir háan aldur!

Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar Samtök atvinnurekenda (SA) sendu frá sér nýtt útspil í kjarasamningamálum.

 

Nýtt útspil atvinnuekenda (SA)

SA-menn leggja nú til að í fyrirliggjandi kjarasamningum verði grunnlaun hækkuð en álagsgreiðslur fyrir yfirvinnu og vaktavinnu verði lækkaðar á móti. Launakerfi verði stokkuð upp og yfirvinna minnki.

Þetta útspil þeirra miðar að því að forðast að til víxlverkunar launa og verðlags komi, vegna krafna um miklar launahækkanir.

Þessi nýja opnun SA-manna gæti verið mikilvægt skref í átt að þeirri launastefnu sem ég lagði til árið 1986, ef vel tækist til um útfærslu. SA-menn mættu að vísu tala skýrar um nauðsynlegt samspil veglegrar hækkunar grunnlauna, styttingu vinnutíma og aukinnar framleiðni í samfélaginu.

Kanski launþegahreyfingin og atvinnurekendur ættu að skoða þessa leið í fullri alvöru núna?

Daglaunastefna af þessu tagi þjónar hagsmunum allra: heimila, fyrirtækja og stjórnvalda. Hún er í senn hagkvæm og réttlát.

Þessi leið í kjarasamningum myndi gera Ísland nútímalegra og fjölskylduvænna – en jafnframt samkeppnishæfara um mannauðinn og unga fólkið.

———————————

Greinin frá 1986 í tveimur hlutum:

s.olafsson

s.olafsson2

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.3.2015 - 12:50 - FB ummæli ()

Lítil stjórnviska

Afgreiðsla ESB-málsins í gær er undarleg og ber ekki vott um mikla stjórnvisku þeirra sem að standa.

Reynt er að stilla málinu upp eins og það sé afgreitt, búið og gert erlendis. Ísland sé ekki lengur umsóknarríki hjá ESB, án þess að Alþingi sem tók upphaflega ákvörðun um aðildarumsókn komi að málinu.

En svo segir utanríkisráðherra eftirfarandi í Morgunblaðinu í dag: „Ég hef ekki sent neitt bréf þar sem fram kemur að einhverju sé rift eða það dregið til baka.”

Síðan heldur hann áfram og segir: „Málið er í þeim farvegi að þetta ferli er einfaldlega komið á endastöð.”… “Það er ljóst að lengra verður ekki haldið.”

Ráðherrann slær sem sagt úr og í.

Morgunblaðið sættir sig greinilega ekki við annað en að þetta sé skýr niðurstaða um afturköllun umsóknar. Það gengur fast að Bjarna Benediktssyni og spyr ítrekað:

„Þannig að umsóknin hafi verið afturkölluð?“

Og endanlegt svar Bjarna er: „Þetta jafngildir því.“

Með því að draga umsóknina formlega til baka eru valkostir Íslands í framtíðinni þrengdir. Sá valkostur var fyrir hendi, að láta málið liggja í dvala næstu 5 árin, því ESB ætlar ekki að taka inn ný ríki á þeim tíma.

Þannig var raunar búið að setja málið til hliðar – en tækifærum Íslands haldið opnum ef aðstæður kynnu að breytast á þessu sviði.

Haukarnir í kringum Davíð Oddsson hafa hins vegar ekki unað öðru en tafarlausri afturköllun umsóknarinnar – sama hvað hagsmunum þjóðarinnar í framtíðinni líður.

Með því að gera þetta svona magnar ríkisstjórnin ófrið um málið, úr öllu hófi.

Stjórnarflokkarnir gera sér málið þannig mun erfiðara en þeir þurftu og þrengja tækifæri Íslands. Það er lítil stjórnviska í slíku framferði.

Eru það bitrir hrokamenn í Hádegismóum sem ráða för, jafnvel gegn vilja utanríkisráðherrans? Hann talar nú tveimur tungum um þessa framkvæmd, eins og sýnt var hér að framan.

Sennilega munu báðir stjórnarflokkarnir tapa á þessu háttalagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.3.2015 - 16:29 - FB ummæli ()

Viðskiptablaðið afbakar frétt – í áróðursskyni

Í fyrradag var frétt í Viðskiptablaðinu um könnun á afstöðu almennings til einkavæðingar RÚV og fleiri opinberra stofnana (sjá hér).

Megin niðurstaða könnunarinnar var sú, að meirihluti kjósenda er andvígur einkavæðingu Landsbankans, Landsvirkjunar og RÚV.

Í tilviki Landsvirkjunar voru einungis um 13% hlynnt því að ríkið selji eignarhlut sinn og um 29% voru fylgjandi því að selja hlut ríkisins í RÚV.

Um 71% svarenda voru þá ekki fylgjandi því að einkavæða RÚV og um 87% voru ekki fylgjandi einkavæðingu Landsvirkjunar!

Þetta er sem sagt afar mikil andstaða við einkavæðingu Landsvirkjunar og RÚV, en meirihlutinn var minni hvað Landsbankann snerti.

Hver er þá eðlilegur fréttauppsláttur að mati Viðskiptablaðsins?

Jú, hann var þessi: “Fleiri vilja einkavæða Ríkisútvarpið”!

Þeir sem ekki lesa fréttina til fulls fá þau skilaboð af fyrirsögninni að meirihluti kjósenda vilji selja RÚV!

Þarna var Viðskiptablaðið augljóslega að hagræða áhrifum í þá átt að blekkja, þ.e. að gefa í skyn að meiri stuðningur sé við einkavæðingu RÚV en í raun er.

Þetta er í takti við þá hugmyndafræðilegu afstöðu sem iðulega einkennir fréttaskrif Viðskiptablaðsins.

Þar ganga menn alla jafna erinda atvinnurekenda og fjárfesta í einkageiranum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.3.2015 - 15:53 - FB ummæli ()

InDefence: Þrotabúin bæti tjónið

InDefence hópurinn er kominn á vaktina á ný. Þessi hópur gegndi mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn Icesave, sem eigendur Landsbankans stofnuðu til, eftir að bankinn stefndi í þrot á árunum 2006 og 2007. Það tiltæki Landsbankamanna lagði mikla áhættu á þjóðarbúið íslenska, eins og allir vita.

Það fór þó á endanum betur en á horfðist.

Nú eru aðilar úr þessum vaska hópi komnir á kreik á ný með athyglisverðan málflutning (sjá hér).

Þeir vekja athygli á þeirri staðreynd að bankarnir ollu þjóðinni gríðarlegu tjóni með óábyrgri starfsemi sinni fram að hruni.

Ég vakti athygli á mati AGS á kostnaði við bankahrunið í pistli á Eyjunni í október á síðasta ári. Beinn fjárhagslegur kostnaður var um 750 milljarðar en raunsærra mat er að skuldir hins opinbera jukust um rúmlega 1200 milljarða vegna hrunsins, skv. sama mati AGS.

Og þá er ekki allt talið, eins og kaupmáttarrýrnun heimila, aukning skulda þeirra, tap lífeyrissparnaðar, aukinn vaxtakostnaður á næstu árum og fleira.

Þó að stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi illa brugðist þeirri skyldu sinni að verja þjóðina gegn þeirri áhættu sem lögð var á þjóðarbúið á bóluárunum, þá voru bankamennirnir og braskaraherinn sem þeir gerðu út frum orsakavaldar hrunsins. Þeir ollu þessu gríðarlega tjóni.

Því má segja að Ísland eigi réttmæta kröfu á þær eignir sem enn eru í þrotabúunum. Hve mikið er álitamál, en traust mat óháðs alþjóðlegs aðila (AGS) hlýtur að koma til greina sem viðmið eða útgangspunktur.

Ef erlent olíuskip hefði valdið gríðarlegu umhverfistjóni við Íslandsstrendur þá teldum við eigendur þess að sjálfsögðu bótaskylda (eins og Shell var vegna mengunarslyssins í Mexíkóflóa). Þó félagið færi á hausinn í kjölfarið breytti það engu um réttmæti slíkrar skaðabótarkröfu á félagið eða þrotabú þess.

Ljóst er að InDefence menn eru að hvetja stjórnvöld til að halda fast á þessu máli við losun gjaldeyrishaftanna, í þágu almannahagsmuna.

Undir það má taka.

 

Er stjórnarandstaðan ekki með á nótunum?

Fara má ólíkar leiðir að þessu markmiði, allt frá beinni skattheimtu á fjármagnsflutninga eða þrotabúin sjálf til samninga við kröfuhafa um afskriftir krónueigna sem hér eru fastar, gegn losun erlendra eigna þrotabúanna.

Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa áður talað með ákveðni í þessa átt. Því má þess vænta að hraustlega verði sótt í málinu.

Stjórnarandstaðan ætti að styðja slíkan sóknarbolta af miklum krafti, jafnvel ætti hún að vera í fararbroddi – með InDefence mönnum.

Varla á stjórnarandstaðan meiri samleið með erlendum fjármagnseigendum en íslenskum alþýðuheimilum?

 

Síðasti pistill:  Krossinn í Colosseum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.3.2015 - 10:58 - FB ummæli ()

Krossinn í Colosseum

Colosseum í Róm, sem með réttu heitir Flavíska hringleikahúsið, er eitt mikilvægasta tákn borgarinnar fyrr og síðar. Það er í senn tákn um mikilfengleika rómverskrar byggingarlistar og grimmd menningarinnar sem ríkti á gullöld Rómar.

Á sviði hringleikahússins voru settar upp stórfenglegar sýningar, en frægast er það líklega fyrir hina blóðugu leika þar sem skylmingarþrælum og dýrum var slátrað, áhorfendum til skemmtunar.

Colosseum var byggt á innan við áratug upp úr árinu 70, sem var mikið afrek. Eftir að Kristnin varð ríkjandi í Rómarveldi breyttust viðhorfin hins vegar og grimmilegir leikarnir sem einkenndu Colosseum féllu í ónáð – og byggingin þar með.

Hún stóð þó áfram en með tímanum skemmdist hún af jarðskjálftum, eldingum, brunum og öðrum eyðandi öflum náttúrunnar.

Mannshöndin kom þar þó líka við sögu, því byggingarefni úr hinu glæsilega hringleikahúsi var tekið til annarra nota, ekki síst verðmætir málmar og marmari sem þakti alla veggi, stiga og gólf. Marmarinn á tröppunum að Péturskirkju kom til dæmis úr Colosseum.

Áhrif Kristninnar urðu þannig upphaflega til að grafa undan hlutverki Colosseum, með því að vinna gegn blóðfórnum í skemmtunarskyni.

En á efri hluta miðalda höfðu öfl kaþólsku kirkjunnar mikið með það að gera, að það sem eftir stóð af beinagrind Colosseums var varðveitt. Það var meðal annars gert til minningar um kristnu píslarvottana sem slátrað var á sviðinu í Colosseum.

Af þeim sökum er mjög við hæfi að krossinn rísi yfir rústum leiksviðsins í Colosseum nú á dögum.

Hér að neðan er mynd sem ég tók í Colosseum í fyrra, en hún vísar til þessara tvíþættu áhrifa kristninnar á hið glæsta hringleikahús.

89-DSC_7364b1

Hér eru fleiri myndir frá Róm í galleríi mínu á netinu (sem ekki er fullklárað þó).

Síðasti pistill:  Staðan í stjórnmálunum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.3.2015 - 16:44 - FB ummæli ()

Staðan í stjórnmálunum

Styrmir Gunnarsson skrifar að mörgu leyti athyglisvera grein um tilvistarkreppu hefðbundnu stjórnmálaflokkanna í Morgunblaðið í dag.

Meginboðskapur Styrmis er sá, að hefðbundnu flokkarnir séu allir í sömu tilvistarkreppunni og hafi misst tengslin við grasrótina. Það er rétt að hluta, eins og ég benti einnig á í viðtali við Egil Helgason á RÁS 1 um daginn.

En það er meira í þróuninni en Styrmir ætlar og tilvistarvandinn er ólíkur milli flokka. Stærsta breytingin er raunar hjá Sjálfstæðisflokknum, sem hefur farið frá því að vera allsráðandi 40% flokkur niður í 25-27% flokk.

Það tengist því að stefna flokksins hefur færst talsvert til hægri, í átt að nýfrjálshyggju sem þjónar fyrst og fremst hagsmunum þeirra ríku. Sú stefna tengdist hrunadansinum og hruninu og margir vilja eðlilega refsa flokknum fyrir það.

Samhliða þessari breytingu hefur Sjálfstæðisflokkurinn minna að bjóða millistéttinni og fólki úr lægri stéttum. Eitt það mikilvægasta fyrir þessar stéttir var séreignastefnan í húsnæðismálum, sem átti stóran þátt í miklu fylgi “Gamla Sjálfstæðisflokksins”. Þeirri stefnu hefur flokkurinn fórnað á altari óheftrar markaðshyggju.

Nú hefur stórlega fækkað þeim sem búa í eigin húsnæði og nær ómögulegt er fyrir venjulegt ungt fólk að eignast íbúð (raunar er líka ómögulegt að leigja vegna okurs).

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert fram að færa til að laga þessa stöðu og styður varla að séð verður viðleitni Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, til að bæta ástandið á þessu sviði.

Á vinstri væng og miðjunni er hins vegar minna nýtt. Þar er fylgi flokkanna að skiptast milli of margra flokka, eins og lengst af á lýðveldistímanum. Það sem varð nýtt í kosningunum 2013 var að klofningur á miðju og vinstri væng varð óvenju mikill, sögulega séð.

 

Meginlínur fylgisins 2013 og nú

Lítum á hvernig fylgi flokkanna hefur þróast frá kosningunum 2013 til janúar á þessu ári, á fyrri myndinni.

Fylgi flokka 2015

Sjálfstæðisflokkur stendur í stað frá kosningum (27% fylgi). Framsókn hefur misst tæpan helming og stjórnarmeirihlutinn því farið úr um 51% niður í um 40% fylgi. Stjórnarandstaðan í heild fór úr um 49% í um 60%.

Samfylkingin hefur bætt við sig eftir gríðarlegt tap 2013, en er samt enn með lítið fylgi miðað við glæstari tíð frá 2003 til 2009. Björt framtíð og VG standa nokkurn veginn í stað en Píratar hafa bætt um þriðjungi við sig.

Það er rétt hjá Styrmi að Samfylkingin er um of tengd stétt menntamanna og með veikar rætur í hefðbundnum stéttum jafnaðarmannaflokka. Sú staðreynd hefur gert Samfylkinguna að jafn miklum ESB-aðildarflokki og raun ber vitni, sem takmarkar fylgismöguleika flokksins í milli og lægri stéttum, hefðbundnum stéttum jafnaðarmannaflokka.

Björt framtíð er raunar klofningur frá Samfylkingunni, enda með sömu pólitísku áherslunar á nær öllum sviðum. Saman eru þeir flokkar með yfir 30% fylgi, eða álíka mikið og Samfylkingin náði mestu á betri dögum sínum. Saman eru þessir flokkar með mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn – sem er athyglisvert.

Það sem var nýtt með tilkomu Samfylkingarinnar 1999 var að þá varð til nýr flokkur á vinstri-miðjunni (þar sem flestir kjósendur eru), sem gat tekið við hlutverki Framsóknarflokksins, sem leiðandi flokkur er gat starfað bæði til hægri og vinstri.

Velgengni Samfylkingar takmarkaði velgengni Framsóknar – og í kosningunum 2013 snérist það aftur við. Framsókn er nú leiðandi velferðarflokkur í landsmálunum, en Samfylkingin virðist nú fyrst og fremst vera ESB-aðildarflokkur.

Þannig að sagan endalausa um mikinn klofning og tilheyrandi áhrifaleysi vinstri og miðju flokkanna náði nýjum hæðum 2013, eftir mikla vinstri sveiflu í kjölfar hrunsins og í kosningunum 2009.

Það athyglisverðasta við kosningarnar 2013 var þó það, að þá varð ekki hægri sveifla, þó Sf og VG töpuðu miklu – heldur miðjusveifla. Fylgið færðist frá þeim og yfir á Framsókn og Pírata. Píratar eru eins konar biðstöð ungs fólks sem sér ekki til lands í pólitíkinni – finnur fátt til að trúa á.

Fylgi flokka 2015 2

Seinni myndin sýnir að heildarfylgi miðju og vinstri flokka samanlagt hefur haldist svipað frá 2013 til janúar á þessu ári (67-68%). Sjálfstæðisflokkurinn hefur sömuleiðis staðið í stað með sitt hægra fylgi, um 27%.

 

Það sem klýfur miðjuna og vinstrið

Um 55-60% kjósenda kusu oft flokka til vinstri eða á miðjunni hér áður fyrr, en nær 65-68% eftir að Sjálfstæðisflokkurinn færðist til hægri. Eins og myndin sýnir hélst það þannig í könnunum frá kosningum 2013 til þessa árs.

Á áratugunum meðan bandaríski herinn var hér var afstaðan til hans og vestrænnar samvinnu sá fleygur sem risti dýpst í klofningi vinstri og miðju manna. Alþýðuflokkur og Framsókn voru með vestrænni samvinnu en Alþýðubandalag vildi hlutleysi og sósíalistar áður fyrr hölluðust meira að Sovétríkjunum.

Eftir að herinn fór tók afstaðan til ESB-aðildar við þessu stóra klofningshlutverki hersins. Vinstrið og miðjan eru nú klofin til helminga um þetta mál (Sf og BF með en Framsókn og VG á móti). Sá klofningur virðist rista mjög djúpt og eyðileggja mikilvæga samstarfsmöguleika á miðjunni.

ESB er ekki gallalaust og óheft flæði fjármagns og fólks milli aðildarríkja skapar ný alvarleg vandamál (fjármálavæðingu, aukinn ójöfnuð og innflytjendavandamál). Þessi nýi veruleiki skilur eftir sig þá tilfinningu hjá venjulegum kjósendum að þeir séu afskiptir, hjá þeim flokkum sem fylgja algerri opnun samfélagsins með ESB-aðild og öðru alþjóðasamstarfi um óhefta markaðshætti.

Við erum að sjá þetta leiða til grundvallarbreytinga á flokkaskipan á öllum hinum Norðurlöndunum, í Bretlandi og víðar. Hjá þeim þjóðum sem fara verst út úr kreppunni (t.d. Grikkland og Spánn) er róttæk vinstri sveifla í gangi.

Flokkar sem kallaðir er “hægri popúlistaflokkar” (sem í raun eru þó meira “þjóðlegir velferðarflokkar”) gera sig gildandi svo um munar. Taka mikið fylgi úr lægri og milli stéttum, frá bæði vinstri og hægri flokkum, þar á meðal klassískt fylgi jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum. Þetta virðist ætla að verða mikil breyting á landslagi stjórnmálanna víða.

Stuðningsmenn nýju flokkanna eru þó ekki sérstakir kynþáttahatarar, heldur er það flest venjulegt fólk sem óttast samkeppni um störf sín frá innflytjendum og lækkun launa sinna, ásamt rýrnun velferðarkerfisins. Það er raunsær ótti.

Að sama skapi sér þetta fólk lítinn stuðning við velferð sína frá hefðbundnum jafnaðarmannaflokkum, sem eru nú meira alþjóðasinnar og talsmenn óhefts markaðar og frelsis til fjármagnsflutninga, frekar en sem talsmenn velferðarríkisins og þjóðlegrar menningar.

Þannig breytist grundvöllur stjórnmálaflokka, vegna þjóðfélagsbreytinga og hugmyndafræða. Hnattvæðingin og aukinn ójöfnuður eru víða í Evrópu að hafa slík áhrif á stjórnmálin – sem ekki sér fyrir endann á.

 

Er ESB-aðild þess virði?

Hér á landi er sérstaklega brýn sú spurning, fyrir þá sem eru á miðjunni og vinstri vængnum, hvort ESB-aðild sé þess virði að kljúfa miðjuna og vinstrið í herðar niður og gera hvern og einn flokkanna sem þar eru nær áhrifalausa?

Við Íslendingar erum nú þegar um 70% meðlimir í Evrópusambandinu, með EES samningnum. Kanski það dugi bara?

Ef við viljum endilega njóta til viðbótar þeirra hagstjórnaráhrifa sem fylgja Evrunni þá getum við einfaldlega fasttengt krónuna við hana, eins og Danir gera. Látið reyna á þetta. Það mun að vísu ekki lækna öll mein sem hér er að finna, frekar en full aðild. Gæti þó aukið stöðugleika eitthvað. Ef þetta færi illa væri enn sá sveigjanleiki fyrir hendi að rjúfa tengslin aftur.

Er það sem útaf stendur virkilega þess virði að kljúfa miðjuna og vinstrið eins og raun ber vitni og dæma jafnvel fulltrúa tveggja af hverjum þremur kjósendum þar með til almenns áhrifaleysis, sem hækjur nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum?

Samfylking og Björt framtíð eiga mest sameiginlegt með Framsókn, að ESB-aðild frátaldri. VG er að mestu leyti þjóðlegur velferðarflokkur í anda gömlu jafnaðarmannaflokkanna í Skandinavíu. Samvinna þessara aðila eða hluta þeirra í þágu meirihluta kjósenda ætti að vera mikilvægt markmið.

Hin leiðin er áframhaldandi sundrung og innbyrðis samkeppni, samhliða ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins, sem einungis er fulltrúi innan við þriðjungs kjósenda, en öðru fremur er hann þó fulltrúi atvinnurekenda og fjármálaaflanna.

Þau öfl ráða alveg nógu miklu þó þeim sé ekki að auki gert kleift að stjórna eða dempa áhrif launþegahreyfingar, vinstri og miðjuflokkanna.

Kanski flokkarnir á miðjunni og í vinstrinu ættu að endurskilgreina sig og tengja betur við launþegahreyfinguna?

 

Síðasti pistill:  Stjórn fjármála – Ísland verst í heimi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.2.2015 - 11:39 - FB ummæli ()

Stjórn fjármála – Ísland verst í heimi?

Írar eru nú að rannsaka orsakir fjármálahrunsins sem varð 2008. Í Irish Times í gær var frétt um vitnisburð tveggja prófessor fyrir rannsóknarnefnd þingsins.

Báðir fjölluðu um að reglun og eftirlit í fjármálageiranum hefði verið mjög veikburða á Írlandi og gríðarleg mistök hefðu því verið gerð, einkum í seðlabankanum og fjármálaeftirlitinu.

Gregory Connor, prófessor í fjármálahagfræði og bókhaldi við Írlandsháskóla í Maynooth, sagði að einungis seðlabankinn og fjármálaeftirlitið á Íslandi hefðu gert meiri mistök en gerð voru á Írlandi.

Ég hef áður sagt þetta sama, með tilvísunum í hina heimsþekktu fjármálahagfræðinga Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff (sjá til dæmis hér og hér).

Þau Reinhart og Rogoff, sem rannsakað hafa allar helstu fjármálakreppur síðustu 8 alda, bentu á að aldrei fyrr hefðu þau séð jafn öra skuldasöfnun og á Íslandi og Írlandi í aðdraganda hrunsins.

Óhófleg skuldasöfnun og óeðlilega ör vöxtur banka eru vísbendingar um of mikla áhættutöku – sem iðulega leiðir til bankahruns og fjármálakreppu.

Prófessorarnir sem vitnuðu fyrir rannsóknarnefndinni í Írlandi segja að grípa hefði átt inn í þróunina á Írlandi strax árið 2005, til að draga úr skuldasöfnun og áhættu.

Það sama á við um Ísland.

 

Einfeldni og afskiptaleysisstefna réðu ferðinni á Íslandi

Hér á landi voru menn hins vegar gagnteknir af einfeldningslegri trú á frjálshyggjutalið um fullkomleika óheftra markaða og „skynsemi einkageirans“.

Stjórnendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ríkisstjórnir bólutímans féllu flöt fyrir afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar og hölluðu sér aftur í stólunum og sögðu: “Sjáiði ekki veisluna”?

„Allt er eins gott og best getur orðið“, sögðu spámenn nýfrjálshyggjunnar – raunar alveg fram að hruni.

Hannes Hólmsteinn hæddi og uppnefndi til dæmis hagfræðiprófessorinn Robert Wade við London School of Economics í júlí 2008, eftir að Wade hafi skrifað gagnrýna grein um þróun og stöðu bankanna á Íslandi. Aðra efasemdarmenn kallaði Hólmsteinn “ginningarfífl”.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði við erlenda sjónvarpsstöð um miðjan september 2008 að íslensku bankarnir stæðu vel og að ríkið gæti greitt skuldir þeirra ef því svo sýndist. Hvoru tveggja var víðáttufjarri veruleikanum.

Robert Wade hafði sem sagt rétt fyrir sér. Bankarnir voru hrundir til grunna um þremur mánuðum eftir birtingu greinar hans

Það virðist því miður vera svo, að Ísland verðskuldi þá einkunn að stjórn peninga- og fjármála í landinu, a.m.k. frá um 2003 til 2008, hafi verið sú versta í heimi.

Kanski við ættum að horfast í augu við það, til að vita betur hvað ber að varast í framtíðinni?

 

Síðasti pistill:  Kaupþingslánið – svörin sem vantar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.2.2015 - 10:58 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið – svörin sem vantar

Sá óvenjulegi og stóri viðburður að Seðlabankinn skyldi ákveða að lána Kaupþing banka nær allan gjaldeyrisvarasjóð Íslands þann 6. október 2008 er enn að mestu óskýrður.

Ákvörðunin var tekin á hrundaginn mikla. Síðar sama dag flutti Geir Haarde “Guð blessi Ísland” ræðuna.

Um kvöldið setti Alþingi svo neyðarlögin og morguninn eftir var Landsbankinn fallinn. Glitnir hafi verið tekinn yfir af Seðlabankanum rúmri viku fyrr, í aðgerð sem virtist hafa verið vonlaus fyrirfram, enda fór bankinn skömmu síðar í gjaldþrot.

Lehmann bankinn bandaríski hafði fallið nærri þremur vikum fyrr og alþjóðlegir fjármálamarkaðir voru búnir að vera frosnir um mánaða skeið.

Á Íslandi voru menn búnir að verja allri helginni á undan hrundeginum mikla í viðræður í Ráðherrabústaðnum um ýmsar leiðir til að bjarga íslensku bönkunum, meðal annars með því að fá lífeyrissjóðina til að flytja allar erlendar eignir sínar heim og dæla þeim inn í bankana, þeim til björgunar.

Sem betur fer stóðu stjórnendur lífeyrissjóðanna í lappirnar og höfnuðu því að hætta sparifé landsmanna með þeim hætti. Hverjir létu sér annars detta í hug að gera það? Því mætti svara.

Lánið til Kaupþings var sem sagt veitt eftir að hrunið var hafið.

Af skrifum Reykjavíkurbréfs í Morgunblaðinu um helgina má ráða og hugsunin hafi verið sú að freista þess að bjarga einum banka, þ.e. Kaupþingi. Það sagði þáverandi aðalbankastjóri Seðlabankans líka í fjölmiðlum þegar málið var kynnt á hrundögunum (sjá greinargóð skrif Benedikts Jóhannessonar um þetta hér).

Það má auðvitað spyrja hversu raunsætt það mat hafi verið, að hægt væri að bjarga þriðja bankanum þegar tveir voru þegar fallnir, í þessum aðstæðum krosseignatengsla og krosslánatengsla. Erlendir lánveitendur litu gjarnan á alla íslensku bankana sem eina heild og voru meira en líklegir til að láta það sama ganga yfir Kaupþing og hina bankana.

En ef menn voru að taka ákvörðun um að lána nær allan gjaldeyrisvarasjóð landsins, nærri 80 þúsund milljónir króna, til fallandi banka þá hlýtur að hafa verið rætt í hvað fjármagnið átti að fara.

 

Hverju nákvæmlega átti lánið að bjarga?

Hver var hinn bráði vandi sem lánið átti að leysa og hvernig var hægt að sjá að þetta fjármagn væri líklegt til að bjarga bankanum?

Allt þetta hlýtur að hafa verið rætt og skýrt af Kaupþingsmönnum þegar þeir fóru fram á aðstoðina við Seðlabankann. Seðlabankinn hlýtur einnig að hafa lagt mat á þörfina og líkindin á að lánveitingin myndi duga.

Eða svo verður að ætla. Ekki hafa Seðlabankamenn tekið ákvörðun um slíka lánveitingu blindandi eða út í loftið, hvort sem það var gert með samráði við ríkisstjórnina eða ekki.

Ábyrgðin á lánveitingunni var og er augljóslega hjá Seðlabankanum einum, eins og lög kveða á um. Seðlabankinn átti að vinna faglega matið sem hlaut að liggja til grundvallar svona ákvörðun.

Þarna eru margar stórar spurningar sem svara þarf:

  • Í hvað átti lánsféð að fara?
  • Hverju nákvæmlega átti að bjarga – hvaða afborganir gat bankinn ekki innt af hendi eða hvaða óviðráðanleg veðköll höfðu verið gerð?
  • Af hverju lá svo mikið á að ekki var hægt að ganga frá pappírum og veðum áður en féð var greitt út?
  • Hvernig komst Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu að lánið myndi duga til að bjarga bankanum sem þegar riðaði til falls?
  • Hvernig var hægt að gefa sér að FIH bankinn danski myndi standa undir veðinu, í ljósi aðstæðna?
  • Vissi Seðlabanbankinn of lítið um aðstæðurnar sem uppi voru í íslenska fjármálakerfinu og í því alþjóðlega?
  • Vantaði skilning á því í Seðlabankanum hvað felst í fjármálakreppum?

Síðan er sú hlið málanna sem snýr meira að Kauþingi en Seðlabankanum, þ.e. hvað varð um fjármagnið eftir að Kaupþing fékk það í hendur? Það hefur heldur ekki verið skýrt.

Ef fjármagnið var veitt til að leysa tiltekinn skilgreindan vanda þá hefði þetta átt að vera ljóst. Þá hefði líka átt að vera auðrekjanlegt hvers vegna lánið dugði ekki til að bjarga bankanum. Hann féll tveimur dögum síðar.

Í Fréttablaðinu var fullyrt á árinu 2010 að lánsféð hefði meðal annars runnið til að kaupa skuldabréf af starfsmönnum bankans? Ef svo var þá gæti verið um lögbrot að ræða. Hvert var féð millifært frá bankanum á Íslandi?

Þessu þarf öllu að svara með skýrum og gagnsæum hætti.

Gerningurinn leiddi til þess að þjóðin tapaði um 35 milljörðum króna. Það hefði mátt byggja nýjan Landsspítala fyrir það sem þarna glataðist.

Menn hafa lagt lykkju á leið sína til að skýra og svara fyrir minna tap en þetta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.2.2015 - 10:46 - FB ummæli ()

Um hvað snýst Víglundarmálið?

Brynjar Níelsson, lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skilað skýrslu til Alþingis um trúverðugleika ásakana Víglundar Þorsteinssonar í garð fyrri stjórnvalda, opinberu stjórnsýslunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Víglundur fullyrti að leiðtogar fyrri ríkisstjórnar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, hefðu ásamt öðrum framið það sem er ígildi landráðs – hvorki meira né minna (þó hann hafi ekki notað það orð).

Þau hefðu gert samsæri gegn hagsmunum almennings, í þágu erlendra kröfuhafa, við endurreisn bankanna eftir hrun.

Niðurstaða Brynjars er sú, að engin haldbær gögn leynist í skjölum Víglunar sem sýni að íslenskur almenningur hafi verið hlunnfarinn eða að brögð hafi verið í tafli við endurreisn íslensku bankanna (sjá hér).

Gríðarlega alvarlegar og meiðandi ásakanir Víglundar Þorsteinssonar eru sem sagt haldlausar – eins og raunar ýmsir fagmenn höfðu þegar sýnt og ítarlega hefur verið greint frá, t.d. í Kjarnanum.

 

Kjarni málsins:  Steypustöð drukknar í skuldum

Allur þessi málatilbúnaður Víglundar byrjaði með því, að hann sakaði Arion banka um að hafa sett fyrirtæki sitt, steypustöðina B.M. Vallá, í gjaldþrot að ástæðulausu.

Hann sagði bankann hafa verið með “dauðalista” yfir fyrirtæki sem setja ætti í gjaldþrot, sem skilja mátti á Víglundi að settur hefði verið saman m.a. af ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þetta er eins og í mögnuðum reyfara.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins voru skuldir B.M. Vallár um 10 milljarðar fyrir gjaldþrot og eiginfjárstaðan neiðkvæð um 2,5 milljarða, eða um 35%. Eigendur vildu fá helming skulda afskrifaðan – þar á meðal 2 milljarða frá lífeyrissjóðum – og halda fyrirtækinu áfram. Bankinn hafnaði þessu og héraðsdómur úrskurðaði það gjaldþrota.

Það ætti raunar að kanna sérstaklega hvernig B.M. Vallá gat safnað svo gríðarlegum skuldum í einstöku góðæri fyrir steyðustöðvar, því áratuginn fram að hruni var óvenju mikið steypt á Íslandi og aðstæður því einstaklega gróðavænlegar fyrir fyrirtæki Víglundar.

Svo virðist sem eigendur og stjórnendur B.M. Vallár hafi einfaldlega drekkt fyrirtækinu í skuldum, vegna viðamikils brasks með lánsfé (eins og henti marga þá er fóru offari í græðgisvæðingu bóluáranna).

Það var í öllu falli niðurstaða Arion banka og lífeyrissjóða að ekki væri verjandi að afskrifa svona mikið af fyrirtækinu og skilja það eftir áfram í höndum sömu eigenda.

Fjármálaeftirlitið gerði sérstaka úttekt á vinnubrögðum bankans við skuldaskil fyrirtækisins, að beiðni Víglundar sjálfs. Niðurstaða þess var sú, að ekkert óeðlilegt væri að finna í vinnubrögðum bankans gagnvart B.M. Vallá.

Þetta sætti Víglundur sig ekki við og hóf nýja leit að sökudólgum eigin ófara. Það nýjasta í því máli voru svo þessar hrikalegu ásakanir um landráð og svik gagnvart ráðherrum fyrri ríkisstjórnarinnar – og gegn allri opinberu stjórnsýslunni og AGS sem saman komu að endurreisn bankanna.

 

Söfnuður Davíðs studdi Víglund í einu og öllu

Þó fáir fagmenn hafi tekið undir með Víglundi, þá átti hann sér harða stuðningsmenn. Félagar hans úr forystu Sjálfstæðisflokksins frá tímabilinu fyrir hrun voru þar fremstir í flokki: Davíð Oddsson og lið hans.

Morgunblaðið og Evrópuvakt Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar (sem rekin er af Hannesi Hólmsteini og félögum), tóku kröftuglega undir ásakanir Víglundar og kröfðust rannsóknar á meintum svikum ríkisstjórnarinnar. Óvarkár kona í Framsóknarflokknum bergmálaði raddir þessara manna, eins og stundum áður.

Nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lögfræðingurinn Brynjar Níelsson, sem sagt skilað niðurstöðu sinni. Sá ágæti maður hefði án efa haft ánægju af því að hlaða sökum á stjórn Jóhönnu og Steingríms ef tilefni hefði gefist – en það gerir hann ekki.

Málefnaleg niðurstaða Brynjars er sú, að ekkert sé hæft í alvarlegum ásökunum Víglundar.

Hvað gera vinir Víglundar þá?

Krefjast þeir frekari rannsókna eða biðjast afsökunar?

 

Ætti að rannsaka rekstur B.M. Vallár?

Vissulega má rannsaka endurreisn bankanna frekar og helst alveg ofan í kjölinn. En ekki sýnist manni þó að ásakanir Víglundar og frumleg leit hans að sökudólgum vegna gjaldþrots B.M. Vallár eigi að vera sérstök ástæða til þess. Annað þyrfti til.

Alvöru rök og ábyggileg gögn þurfa að liggja til grundvallar ef fara á fram með þeim hætti að saka þjóðarleiðtoga og opinberu stjórnsýsluna um svo alvarleg svik.

Ekki síst í ljósi þess að viðkomandi leiðtogar glímdu við fordæmalausan vanda og náðu góðum árangri við endurreisn fjármálakerfisins, eins og AGS hefur staðfest. Brynjar Níelsson bendir einnig sjálfur á þann góða árangur fyrri stjórnar í úttekt sinni.

Eftir stendur það, að nærtækt kann að vera að rannsaka hvernig hægt var að drekkja steypustöðinni B.M. Vallá í skuldum, í einstöku góðæri í byggingariðnaði.

Í því gæti leynst lærdómur um það, sem ber að varast í framtíðinni, svo ekki skelli annað hrun á þjóðinni.

 

Síðasti pistill:  Vitfirring Viðskiptaráðs

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar