Fimmtudagur 13.11.2014 - 07:40 - FB ummæli ()

Hve lengi skal vinna á efri árum?

Þessa dagana sit ég ráðstefnu OECD og Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel um vinnuþátttöku og lífeyriskerfi. Markmiðið er að safna saman upplýsingum um reynslu ólíkra þjóða af ólíku skipulagi lífeyriskerfa og vinnumarkaða.

Mér var boðið að halda erindi um fyrirkomulagið og reynsluna á Íslandi. Íslendingar hafa reyndar talsverða sérstöðu á þessu sviði, því við förum síðar á eftirlaun eða lífeyri en flestar aðrar vestrænar þjóðir.

Þetta tengist sérstöðu bæði í lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði og hefur ýmis jákvæð áhrif, sem marga fýsir að öðlast. Að fara síðar á lífeyri bætir hag eldra fólks og heldur kostnaði lífeyriskerfa niðri, svo dæmi sé tekið.

Það er reyndar talsverður vandi í mörgum ríkjum á meginlandi Evrópu að menn fara afar snemma út af vinnumarkaði og inn í lífeyriskerfin, jafnvel áður en þeir ná sextugsaldri þar sem lengst er gengið. Þetta leiðir til mikils kostnaðar fyrir samfélögin.

Margar þjóðir standa frammi fyrir því að ráða illa við þennan kostnað og valið verður þá um að hækka lífeyristökualdurinn, hækka iðgjaldagreiðslur og skatta, eða skerða lífeyriskjörin.

Eftirsóknarverðast virðist að hækka lífeyristökualdurinn – en þó sjaldnast vandræðalaust.

Eitt af því sem ég sýndi ráðstefnugestum, sem eru sérfræðingar á þessu sviði frá öllum ESB ríkjunum, var myndin hér að neðan. Á henna má sjá atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 65 til 69 ára. Sérstaða Íslendinga er mikil þarna.

Slide1

Um 48% Íslendinga á þessum aldri stunda einhverja launaða vinnu. Frændur okkar Norðmenn koma næstir með um 27% og aðrar þjóðir eru með mun lægri tölur. Danir eru með 14% atvinnuþátttöku í þessum aldurshópi og Spánverjar 4%, svo dæmi séu tekin.

Nú er fleira sem hefur gildi í lífinu en launuð vinna. En með góðu heilsufari og góðum líkum til að ná frekar háum lífaldri (sem Íslendingar njóta í miklum mæli samanborið við margar aðrar þjóðir) þá er vinnugeta meiri en á fyrri tíð.

Íslendingar vilja almennt ekki hækka hinn opinbera lífeyristökualdur (67 ára), þó karlar fari nú að jafnaði út af vinnumarkaði hér við 68 ára aldur og konur við 67 ára aldurinn. Það er heldur lægra en var á árunum fyrir kreppuna.

Hins vegar kemur fram í könnunum að Íslendingar vilja gjarnan hafa val um það, hvenær þeir hætta og sérstaklega fýsilegt finnst mörgum hér að eiga kost á að trappa sig út af vinnumarkaðinum, með minnkandi starfshlutfalli.

Margir öfunda okkur af þessum háa lífeyristökualdri og þeim ávinningi sem honum fylgir. En margt þarf til að sú útkoma gangi eftir. Vinnumarkaðir og lífeyriskerfi þurfa að vinna saman á farsælan hátt og það reynist mörgum þjóðum erfitt verkefni að leysa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.11.2014 - 11:55 - FB ummæli ()

Hagstofan – fróðleg skýrsla um börn og fátækt

Hagstofa Íslands hefur undanfarið aukið birtingar á efni úr lífskjarakönnun ESB, sem framkvæmd er árlega hér á landi, eins og í öðrum Evrópulöndum.

Fyrir skömmu komu út nýjar skýrslur um húsnæðisaðstæður og um skort á efnislegum lífsgæðum.

Það eru mjög gagnlegar upplýsingar sem koma fram í þessum skýrslum.

Í þeirri nýjustu er sjónum sérstaklega beint að börnum og fátækt. Fátækt er þar mæld annars vegar sem hlutfall barnafjölskyldna undir fátæktarmörkum (afstæð fátækt) og hins vegar hlutfall barnafjölskyldna af ýmsum gerðum sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum (algild fátækt).

Almennt tel ég meira byggjandi á vísum um algilda fátækt og upplýsingum um fjárhagsþrengingar en á vísum um afstæða fátækt. Fjölþættari mælingar gefa þó almennt skýrari mynd af fátæktarvandanum en hver og ein mæling.

Niðurstaða þessarar nýju skýrslu er sú, að fátæktarvandi er algengari á heimilum þar sem börn eru en á öðrum heimilum. Einnig er fátækt mun algengari hjá einstæðum foreldrum en hjónum með börn. Þá er hættan á fátækt mest hjá yngstu foreldrunum.

Á myndinni hér að neðan, sem kemur úr skýrslu Hagstofunnar, má annars vegar sjá yfirlit um hlutfall barnafjölskyldna undir lágtekjumörkum og hins vegar barnafjölskyldur sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum.

Screen shot 2014-11-10 at 10.41.34 AM

Í báðum mælingum er hlutfall barnafjölskyldna hærra en hjá öðrum fjölskyldum. Þá er athyglisvert að þó hlutfall þeirra sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum hafi aukist eftir að hrunið skall á þá varð það ekki hærra en á árunum frá 2004 til 2007. Á árinu 2008 voru innleiddar breytingar í almannatryggingakerfinu sem drógu úr fátækt lífeyrisþega, en sú þróun gekk að hluta til baka með hruninu.

Á seinni myndinni má sjá erfiða stöðu einstæðra foreldra í samanburði við hjón með tvö börn á heimilinu.

Screen shot 2014-11-10 at 10.43.02 AM

Um 30% einstæðra foreldra voru undir lágtekjumörkum árið 2013 og um 25% þeirra búa við skort á efnislegum lífsgæðum (heilu línurnar á myndinni).

Hjá hjónum með tvö börn eru tölurnar sitt hvoru megin við 5%, sem er lágt í alþjóðlegum samanburði. Staða barna einstæðra foreldra ætti því að vera sérstakt áhyggjuefni á Íslandi. Hún er markvert verri hér en á hinum Norðurlöndunum, samkvæmt upplýsingum frá Eurostat og OECD (sjá hér).

Í fyrri skýrlu Hagstofunnar um skort á efnislegum lífsgæðum kom einnig fram að um 25% öryrkja búa við skort á efnislegum lífsgæðum og um 22% atvinnulausra.

Einstæðir foreldrar, öryrkjar og atvinnulausir eru samkvæmt þessum skýrslum Hagstofunnar þeir þjóðfélagshópar sem búa við mesta hættu á fátæktarþrengingum Íslandi í dag.

Svona upplýsingar auðvelda mjög árangursríka stefnumótun á sviði velferðarmála.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.11.2014 - 10:00 - FB ummæli ()

Hví lækkar bensínið ekki meira?

Formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda minnir okkur nú á, að umtalsverð lækkun bensíns á heimsmarkaði er ekki að skila sér að fullu til neytenda á Íslandi.

Þetta hefur verið svona eins lengi og elstu menn muna.

Bensínverð hækkar alltaf fyrirhafnarlaust af minnsta tilefni, en lækkar hægt eða alls ekki – þó ærin tilefni séu til.

Hvers vegna er þetta?

Jú, það er einfaldlega vegna þess að eigendum og stjórnendum olíufélaganna finnst að þeir sjálfir eigi frekar að njóta verðlækkana á heimsmarkaði en neytendur.

Neytendur eigi fyrst og fremst að njóta verðhækkana! Þetta virðist vera algengt hugarfar meðal kaupmanna á Íslandi.

Hvers vegna ættum við þá að trúa því að fyrirhugaðar lækkanir á vörugjöldum og efra þrepi í virðisaukaskattkerfinu muni skila sér til neytenda?

Hækkun matarskatts og bókaskatts mun hins vegar ná ofan í buddu okkar um leið.

Eins og venjulega!

 

Síðasti pistill:  Læknar eiga að fá sérmeðferð

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.11.2014 - 11:05 - FB ummæli ()

Læknar eiga að fá sérmeðferð

Verkfall lækna snýst um að bjarga íslenska heilbrigðiskerfinu, frá því að holast að innan með flótta fagfólks.

Sú þróun er auðvitað þegar byrjuð en mun aukast stórlega ef læknar ná ekki viðunandi árangri, með þessari neyðaraðgerð sem verkfall þeirra er.

Óbætanlegt tjón getur auðveldlega orðið á íslenska heilbrigðiskerfinu á stuttum tíma.

Það er því mikið í húfi.

Ég tel að læknar eigi að fá sérmeðferð og ganga eiga langt til að mæta kröfum þeirra, þó ekki sé farið alveg alla leið.

Allir Íslendingar eru sammála þessu, nema framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), en þeir sem hann vinnur fyrir (stjórnendurnir í atvinnulífinu) eru þegar búnir að fá ríflegar hækkanir tekna sinna, langt umfram alla aðra.

Flestir Íslendingar eru sammála því að miklar hækkanir til lækna geti ekki gengið yfir línuna í almennum kjarasamningum.

Það eru einfaldlega meiri hagsmunir en minni, að okkur takist að halda í þá í landinu. Miklu má kosta til að svo verði. Landflótti lækna er raunveruleg hætta.

Læknar eiga því að fá sérmeðferð.

Í staðinn eigum við hin að sætta okkur við minna, það er að almenn aukning kaupmáttar í landinum fylgi einungis hagvextinum til fulls. Kaupmáttur almennings á að lágmarki að aukast jafn mikið á ári hverju og þjóðarframleiðsla á mann eykst, eða um ca. 3% á ári umfram verðlag.

Það er víst ærið verkefni fyrir fulltrúa okkar að skila því.

Kjarabarátta lækna snýst hins vegar um að bjarga heilbrigðiskerfinu frá hruni.

Árangur lækna nú er forsenda þess að viðunandi verði að búa áfram á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.11.2014 - 10:14 - FB ummæli ()

Barnafjölskyldur í basli

Margir eru hissa á viðvarandi reiði og óánægju í samfélaginu. Mikil þátttaka í mótmælunum í gær kom mörgum líka á óvart, ekki síst stjórnarliðum.

Allt er þetta þó skiljanlegt.

Kjaraskerðingin vegna frjálshyggjuhrunsins var hátt í 30%, þegar bæði er tekið er tilliti til minnkunar kaupmáttar og aukinnar skuldabyrði heimila. Þetta var gríðarlegt áfall, sem þjóðin er enn að glíma við.

Ungar barnafjölskyldur fóru einna verst út úr hruninu. Margar þeirra höfðu keypt húsnæði á bóluárunum, þegar íbúðaverð var uppsprengt og því tók ungt fjölskyldufólk á sig meiri skuldir en áður hefur þekkst hér á landi (sjá hér).

Síðan magnaði hrunið þennan vanda sem var undirliggjandi.

Þó vinstri stjórninni hafi tekist að nokkru leyti að verja tekjulægstu heimilin gegn verstu afleiðingunum þá tókst almennt ekki að hlífa neinum alveg við kjaraskerðingu.

Hins vegar var tæpast um nógu miklar varnir að ræða. Mikil hækkun vaxtabóta bætti þó úr og það sama má segja um 30% hækkun barnabóta í byrjun árs 2013. Það kom þó full seint og hefði að auki mátt vera meira, því barnabótakerfið var orðið nær ónýtt, eftir árvissa rýrnum þess frá 1995 til um 2006.

En heimilin glíma sem sagt enn við mikinn vanda, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Á henni eru upplýsingar um fjárhagsþrengingar íslenskra barnafjölskyldna, bæði fyrir og eftir hrun, í samanburði við barnafjölskyldur á hinum Norðurlöndunum (heimild: Eurostat).

Barnafjölskyldur í fjárhagserfiðleikum

Fjárhagsstaða barnafjölskyldna á Íslandi var verri en á hinum Norðurlöndunum fyrir hrun og stórversnaði svo með hruninu. Sveiflurnar eru miklar.

Um 8% barnafjölskyldna á Íslandi náðu endum saman einungis með miklum erfiðleikum árið 2004. Það lækkaði síðan niður í tæp 5% árið 2007, en meira en tvöfaldaðist svo til 2010, í tæp 11%.

Síðan 2010 hefur hlutfall barnafjölskyldna í fjárhagserfiðleikum lækkað lítillega, en einungis lítillega. Raunar jókst það aðeins á ný árið 2013.

Eins og sjá má á myndinni er batinn óverulegur miðað við þá miklu aukningu fjárhagserfiðleika sem hrunið lagði á barnafjölskyldur og aðra.

Á hinum Norðurlöndunum varð lítil breyting á fjárhagserfiðleikum barnafjölskyldna með fjármálakreppunni, nema helst í Danmörku. Aukningin þar var þó ekkert í líkingu við þróunina á Íslandi.

Þó fyrri ríkisstjórn hafi glímt við mun meiri fjárhagsvanda en sú sem nú situr hefði verið æskilegt að hún sýndi heimilunum enn meiri skilning. Þrátt fyrir fyrirhugaða skuldalækkun glímir núverandi stjórn við sama vanda. Hún þykir sýna heimilunum of lítinn skilning. Sjálfstæðismenn hafa að auki of miklar áhyggjur af hag ríkari hluta þjóðarinnar, að því er fólki finnst.

Lærdómurinn af myndinni hér að ofan er sá, að æskilegt hefði verið að geta gert meira fyrir barnafjölskyldur og aðra þjóðfélagshópa sem hafa verið í fjárhagsþrengingum.

Afleiðingar hrunsins eru hér enn – svo um munar.

Það eru helst hátekjuhóparnir sem ekki finna fyrir neinu basli. Eignir þeirra og tekjur eru teknar að aukast á ný – svo um munar (sjá hér og hér og hér).

Þess vegna er reiðin enn við lýði. Þess vegna er óánægjan viðvarandi.

 

Síðasti pistill:  Villi Egils yrkir ljóð um gjaldeyrishöft – og vill leggja enn meiri byrðar á heimilin

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.11.2014 - 18:14 - FB ummæli ()

Villi Egils yrkir ljóð um gjaldeyrishöft

Vilhjálmur Egilsson, gamall frjálshyggjumaður og talsmaður atvinnurekenda til langs tíma, var á Sprengisandi hjá Sigurjóni Egilssyni í morgun að tala um gjaldeyrishöftin.

Hann finnur þeim allt til foráttu og segir það hafa verið mistök að innleiða þau eftir hrun.

Gjaldeyrishöftin, sem takmarka flæði fjármagns til og frá Íslandi að hluta, voru sett á að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að aftra því að gengi krónunnar lækkaði enn meira en þó varð.

Án gjaldeyrishaftanna hefði kaupmáttur heimilanna minnkað enn meira og skuldir þeirra orðið enn meiri en nú er.

Mörgum fannst þó kjaraskerðingin sem hrunið orsakaði meira en nógu stór biti fyrir heimilin, svo ekki sé meira sagt!

En Villa Egils finnst sem sagt í lagi að ganga enn fastar í skrokk á heimilunum. Honum finnst að fara hefði átt alla leið í hruni krónunnar og telur hann að við værum betur stödd í dag ef hrunið hefði orðið enn stærra! Og þetta segir hann í fullri alvöru, að því er virðist.

Svona ábyrgðarlaus steypa kemur varla frá neinum nema þeim sem tekur óhefta markaði sem trúarbrögð, eða frá þeim sem hafa beinan hag af gengisfellingu, eins og á við um marga atvinnurekendur og fjárfesta (einkum í útflutningsgreinum).

Þarna skortir að minnsta kosti alla tillitssemi gagnvart afkomu heimilanna.

Atvinnurekendur hafa ítrekað hvatt stjórnvöld til að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst, og hirða augljóslega ekkert um hvernig það færi með heimilin. Segja bara að án haftanna verði allt betra, en eiga við að þá muni hagur þeirra sjálfra batna, þó hagur heimilanna versni enn meira.

Vilhjálmur Egilsson tjaldaði öllum venjulegu rökunum um kosti þess að afnema þessar takmarkanir á flæði fjármagns til og frá Íslandi. Hagvöxtur yrði meiri og svo framvegis.

Vilhjálmur gaf sér meðal annars að hagvöxtur yrði um hálfu prósenti meiri á ári hverju og margvíslegur sparnaður annar félli til. Með höftunum yrði kostnaðurinn af framkvæmd þeirra á hinn bóginn meiri en kostnaðurinn af hruninu sjálfu, sagði hann!

Þar fór Vilhjálmur illa afvega. Hann hefur nefnilega engin ábyggileg gögn sem tryggja það að hagvöxtur yrði meiri með afnámi haftanna. Þetta er bara skáldskapur hjá honum.

 

Afnám gjaldeyrishafta án skilyrða leiðir til annars hruns lífskjara

Raunar er lang líklegast að djúp samdráttardýfa myndi fylgja í kjölfar gengisfellingar sem afnám haftanna án skilyrða myndi örugglega framkalla, vegna enn minni kaupmáttar, aukins skuldavanda og enn meiri niðurskurðar opinberra útgjalda. Einkaneysla myndi dragast saman á ný.

Atvinnuleysi myndi aukast hratt á ný – alveg eins og í kjölfar hrunsins 2008.

Í núverandi ástand er hagvöxtur á Íslandi hins vegar einn sá mesti sem sést á Vesturlöndum og hefur svo verið frá 2011 – í skjóli gjaldeyrishafta. Atvinnuleysi er líka með allra minnsta móti – í skjóli gjaldeyrishafta.

Við urðum reyndar ein af ríkustu þjóðum heims í skjóli gjaldeyrishafta, sem voru í gildi hér til 1995. Hagvöxtur á tíma gjaldeyrishafta var t.d. mun meiri frá 1960 til um 1990 en varð eftir afnám haftanna, frá 1995 til 2008.

Þessu eru Vilhjálmur Egilsson og pólitískir samherjar og hagsmunabræður hans tilbúnir að fórna, fyrir ævintýralegt lotterí – þar sem afkoma heimilanna er lögð undir.

Þetta er svipuð lógík og var á bak við skuldsettu yfirtökurnar á frjálshyggjutímanum, sem settu þjóðarbúið á hausinn. Lotterí og brask með lánsfé, sem lendir svo á venjulegum skattgreiðendum.

Kanski Vilhjálmur Egilsson og eftirmaður hans hjá Samtökum atvinnulífsins ættu líka að upplýsa stjórnvöld um það, hversu mikið vinsældir þeirra myndu aukast við afnám gjaldeyrishafta sem sendir heimilin í annað kjarahrun á svipstundu.

Engin ríkisstjórn mun lifa af afnám gjaldeyrishafta, ef það leiðir til umtalsverðrar gengisfellingar með tilheyrandi kjaraskerðingu.

Þess vegna þurfum við „þjóðhagsvarúðarreglur“ gagnvart flæði fjármagns ef við viljum verja þjóðina gegn öðru hruni og frekari kjaraskerðingu, eins og AGS hefur bent á. Það þýðir áframhaldandi gjaldeyrishöft, en kanski svolítið breytileg frá einum tíma til annars. „Þjóðhagsvarúðarreglur“ eru einfaldlega annað orð yfir „gjaldeyrishöft“.

Sjá einnig athyglisverð ummæli Gylfa Zoega hagfræðings um höftin (hér).

 

Síðasti pistill:  Fúsk Hannesar Hólmsteins leiðrétt í nýrri frjálshyggjubók

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.10.2014 - 11:39 - FB ummæli ()

Fúsk Hannesar Hólmsteins leiðrétt í nýrri frjálshyggjubók

Í gær fór ég á kynningu á nýrri bók um tekjudreifingu og skatta, sem frjálshyggjumenn í Reykjavík gefa út, í ritstjórn Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar.

Kynningin var haldin undir fyrirsögninni “Er ójöfn tekjuskipting óréttlát?” og fór fram í húsnæði Gamma, sem er fjármálafyrirtæki í Reykjavík.

Raunar var kynningin nokkuð öðruvísi en bókin sjálf, sem er skondið út af fyrir sig. Málshefjendum var öllum efst í huga að ekki ætti að amast við miklum ójöfnuði tekna eða einkaeign sjávarauðlindarinnar. Vöruðu sérstaklega við að auðmenn væru skattlagðir svo neinu næmi (sjá hér).

Það sem vakti mesta athygli mína við þessa bók var það, að í henni kemur fram allt önnur niðurstaða um þróun tekjuskiptingarinnar á árunum eftir 1995 en frjálshyggjumenn hafa hingað til viðurkennt.

Frjálshyggjumenn hafa með ýmsum loftfimleikum reynt að halda því fram að ójöfnuður í tekjuskiptingu hafi ekki aukist á Íslandi, þvert á skýrar staðreyndir (sjá t.d. hér).

Á blaðsíðu 12 og í kafla 3 í bókinni kemur fram að Hannes Hólmsteinn er enn að fullyrða þetta. Segir mig hafa haft rangt fyrir mér um að tekjuskiptingin hafi orðið ójafnari og kennir um að ég hafi gert einhverjar reiknivillur.

Allt er það ósatt og hefur verið leiðrétt oftar en einu sinni.

Samt kýs þessi starfsmaður Háskóla Íslands að halda áfram að breiða út ósannindin og reyna að villa um fyrir almenningi.

 

Axel Hall hafnar boðskap Hannesar Hólmsteins

Hagfræðingurinn Axel Hall fjallar um þróun tekjuskiptingar og skattbyrðar á árunum eftir 1995 í þessari bók. Nú ber svo við að Axel fær sömu niðurstöður og ég og samstarfsmaður minn höfum fyrir löngu birt og krufið ofan í kjölinn (sjá t.d. á bls. 16  og kafla 6 og 7 í bókinni „Tekjudreifing og skattar“).

Axel Hall sýnir að tekjuskiptingin varð ójafnari á tímabilinu frá 1995 til 2005, með því að tekjur hinna tekjuhæstu jukust mest allra. Það þýðir auðvitað aukinn ójöfnuður.

En það er ekki allt. Axel Hall sýnir einnig að jöfnunaráhrif tekjuskattkerfisins minnkuðu á tímabilinu (sem einnig jók ójöfnuð) og að skattbyrði einstaklinga hafi aukist vegna rýrnunar persónufrádráttarins (sem þyngir skattbyrði lágtekjufólks mest).

Allt þetta hef ég áður sagt með tilvísunum til traustra opinberra gagna (sjá t.d. hér og hér). Það hafa aðrir innlendir fagaðilar einnig gert.

Öllu þessu hefur Hannes Hólmsteinn hins vegar hafnað, í tugum ef ekki hundruðum ófrægingargreina og kallað villur og skekkjur illa meinandi manns. Birgir Þór Runólfsson og fleiri hafa bergmálað sumar af þessum ófrægingargreinum Hannesar.

En nú hefur mér sem sagt borist óvæntur stuðningur – úr átt frjálshyggjumanna.

Hannes og fleiri hafa ítrekað fullyrt að tekjuskiptingin hafi ekki orðið ójafnari á árunum eftir 1995. Axel Hall hagfræðingur sýnir hið gagnstæða.

Það sama á við um skrif Hannesar um skattbyrði. Axel Hall opinberar einnig staðreyndavillur Hannesar þar.

Raunar hafa erlendir sérfræðingar á sviðinu og virtar hagskýrslustofnanir stutt niðurstöður mínar og samstarfsmanns míns. Málið liggur ljóst fyrir.

Þá er spurningin hvort Hannes Hólmsteinn dregur gríðarlega umfangsmikil villuskrif sín og ófrægingar til baka og biðst afsökunar?

Þar reynir á heilindi þess sem vill láta kalla sig fræðimann.

Hannes er þó hvorki þekktur af heilindum né heiðarleika – og því ekki líklegur til að bæta ráð sitt.

 

Síðasti pistill: Hnignun heilsugeirans – verður eitthvað gert?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.10.2014 - 17:02 - FB ummæli ()

Hnignun heilsugeirans – verður eitthvað gert?

Alvarleg hnignun heilbrigðisþjónustunnar er ein af afleiðingum hrunsins.

Við Íslendingar vorum áður með heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Vorum nálægt toppi norrænna og vestur evrópskra heilbrigðisgeira hvað útgjöld á mann snerti. Árangur  heilbrigðisþjónustunnar var með besta móti.

Frá um 2003 til hruns var þó verið að draga saman útgjöld til heilbrigðismála jafnt og þétt og leita aukinnar hagræðingar. Síðan kom hrunið og blóðtakan úr heilbrigðisþjónustunni stórjókst.

Við sitjum nú uppi með afleiðingarnar. Óbætanlegt tjón gæti orðið.

Fréttir af þessum vettvangi eru nær eingöngu slæmar: Versnandi aðstaða, minnkandi þjónusta, lengri biðtími, aukin gjaldtaka af sjúklingum. Ísland er ekki lengur samkeppnishæft á þessu sviði.

Mikils metnir læknar sem hafa forystu á sínum fagsviðum hafa hver á eftir öðrum varað við, að afleiðinganna fari að gæta í verra heilsufari þjóðarinnar.

Ekkert virðist þó gerast – rétt eins og þessir læknar og aðrir sérfræðingar séu ekki málsmetandi fólk.

Maður hefði viljað sjá alla stjórnmálaflokka sýna skilning á vandanum og taka málið á dagskrá – í fullri alvöru.

Íslendingar voru fámenn og fátæk  þjóð er Landsspítalinn var byggður. Nú er ríkidæmi þjóðarinnar mikið og einfaldlega spurning um forgangsröðun.

Á markmiðið að vera eingöngu að gera þá ríku ríkari eða að bæta hag alls almennings og sameiginlega þjónustu í heilbrigðis- og menntamálum? Ég gef mér að meirihluti sé fyrir seinna markmiðinu.

Það þarf að móta trúverðuga stefnu um að snúa þróuninni við sem allra fyrst. Leggja fram ítarlega tímasetta áætlun um enduruppbyggingu og úrbætur, ásamt vandaðri útfærslu á því hvernig greiða eigi fyrir endurreisnina. Aukin notendagjöld eru ekki ásættanleg leið.

Ekkert er þjóðinni mikilvægara en traust og gott heilbrigðiskerfi.

Stjórnmálamenn úr öllum flokkum verða að rísa undir nafni og sýna að þeir geti gert eitthvað gagnlegt á þessu sviði.

Sýna að þeir vilji virkilega gera eitthvað í málinu.

 

Síðasti pistill: Rónar gegn áfengisböli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.10.2014 - 09:52 - FB ummæli ()

Rónar gegn áfengisböli?

Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, sem þeir segja að miði að því að draga úr spillingu.

“Megintilgangur frumvarpsins er meðal annars til að tryggja betri meðferð á opinberu fé og til að koma í veg fyrir spilling”, segja flutningsmenn (orðrétt).

Af kommentum á netinu að dæma virðast margir frekar tengja Sjálfstæðisflokkinn við spillingu en siðbót. Mörgum finnst þetta svolítið eins og að rónar taki að sér að hafa forystu um baráttuna gegn áfengisbölinu! Sumir fagna þó og segja batnandi mönnum best að lifa.

Nefnt er að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi öðrum fremur lagst gegn gagnsærri upplýsingagjöf um fjárframlög til kosningabaráttu, ekki síst sinnar eigin. Þá var hann einnig lykilgerandi í afar vafasömum risastyrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins á árunum fyrir hrun, sem meðal annars virtust tengjast REI-málinu. Það leit ekki vel út – svo ekki sé meira sagt.

Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason eru harðir báráttumenn gegn opinberu eftirliti hvers konar, einkum ef það beinist að einkageiranum. Telja hins vegar mikla ástæðu til að hafa eftirlit með hinu opinbera.

Þrímenningarnir eru svokallaðir frjálshyggjumenn, sem sjá svart þegar ríkið eða lýðræði ber á góma, en telja að markaðurinn og einkageirinn séu heilagar kýr sem geri allt á besta veg og eigi að taka yfir sem flest af verkefnum ríkisins.

Nú er ég ekki andvígur auknu eftirliti með opinberum rekstri og gagnsæi í upplýsingagjöf um hann. Hreint ekki.

Hins vegar mættu þessir ágætu riddarar siðsemi og góðra stjórnsýslu koma niður á jörðina og beina sjónum að spillingu og ógagnsæi þar sem vandinn er mestur. En það er í einkageiranum.

 

Einkageirinn er mesti vandinn – ekki ríkið

Það var einmitt einkageirinn, óhefti markaðurinn og óhefti fjármálageirinn, sem setti Ísland á hausinn fyrir um sex árum síðan. Þar voru ekki bara siðleysi, græðgi og ófaglegir stjórnarhættir á ferð, heldur einnig margvísleg lögbrot, eins og fram hefur komið á síðustu misserum. Þjóðinni blæðir nú vegna þessa.

Græðgi braskara í einkageira magnaðist úr hófi í umhverfi óheftra markaðshátta, þar sem eftirlit og aðhald ríkisins gagnvart einkageiranum hafði verið veikt og þynnt út með skipulögðum hætti á frjálshyggjuárunum. Stjórnvöld höfðu ofurtrú á einkageira og óheftum markaði, í anda frjálshyggjurétttrúnaðar.

Braskararnir nýttu sér hið aukna frelsi til að drekkja Íslandi í skuldum, en sjálfum sér til hagsbóta.

Það er því helst á sviði einkageirans sem þörf er á auknu eftirliti, gagnsæi upplýsinga og aðhaldi gegn óhófi og spillingu.

Ríkisgeirinn er almennt með mikið kostnaðaraðhald og lítinn tilkostnað miðað við það sem gerist í öðrum löndum og miðað við einkageirann hér á landi. Launagreiðslur eru hóflegar hjá ríkinu og engar innistæðulausar arðgreiðslur.

Háskóli Íslands er til dæmis rekinn fyrir minna fé á hvern stúdent en sést víðast á Vesturlöndum. Samt skilar hann allgóðum árangri, langt umfram það sem illa fjármagnaðir háskólar almennt gera.

Tryggingastofnun ríkisins er rekin fyrir einungis um þriðjung til fjórðung af því sem sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum kosta, miðað við umfang verkefna.

Það er því annað hvort hræsni eða veruleg þröngsýni þegar riddarar frjálshyggjunnar sjá hvergi lesti nema hjá ríkinu, nema hvoru tveggja sé.

Einkageirinn þyrfti svo mikið á aðhaldsherferðum að halda: auknu eftirliti, gagnsæi, siðabót og hófstillingu.

En frjálshyggjubörnin heimta sífellt meira frelsi án ábyrgðar fyrir einkageirann, líka skömmu eftir að hann keyrði íslenska þjóðarbúið fyrir björg.

Þessi herferð þeirra félaga er svolítið eins og að rónar hafi tekið forystuna í baráttunni gegn áfengisbölinu – og beini spjótum sínum einkum að hófdryggjumönnum!

 

Síðasti pistill:  Kostnaður Íslendinga af hruninu – nýjar upplýsingar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.10.2014 - 10:00 - FB ummæli ()

Kostnaður Íslendinga af hruninu – nýjar upplýsingar

Samkvæmt nýlegum upplýsingum sérfræðinga AGS var beinn útlagður kostnaður af hruninu á Íslandi (2008 til 2011) um 44% af vergri landsframleiðslu (sjá “Fiscal Cost á myndinni hér að neðan).

Þetta nemur um 748 milljörðum króna (þjóðarframleiðslan árið 2011 var 1700 milljarðar).

Það eru um 2,4 milljónir á hvert mannsbarn í landinu, eða tæplega 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta var heldur dýrara en bankakreppan hjá Írum. Þar var beini kostnaðurinn um 41% af landsframleiðslu þeirra.

Þó er þetta ekki allt. Eins og sjá má á mynd AGS hér að neðan þá jukust skuldir hins opinbera vegna hrunsins og kreppunnar mun meira, eða um 72% af landsframleiðslu. Það var svipað og hjá Írum (73%).

PDP-Working Paper

Það eru um 1.224 milljarðar sem íslenskir skattgreiðendur þurfa á endanum að borga. Það samsvarar um 15,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Skuldum hins opinbera vegna hrunsins er hægt að fleyta inn í framtíðina (eins og nú er gert), en það kostar um 85 milljarða á hverju ári í vaxtakostnað, eða meira en kostnaður er við byggingu nýs Landsspítala. Vaxtakostnaðurinn er sem sagt einn nýr Landsspítali á ári.

Þá er ótalinn kostnaður vegna framleiðslutaps þjóðarbúsins, en það varð þó talsvert minna hér en á Írlandi, ekki síst vegna minna atvinnuleysis. Þá vegur 20-30% skerðing ráðstöfunartekna heimilanna mikið til viðbótar. Rólega hefur miðað í endurheimt kaupmáttarins. Tapið var bæði beint og óbeint.

Lífeyrissjóðir almennings töpuðu um 480 milljörðum króna. Það eru um 6 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Niðurstöður AGS-manna benda til að hrunið íslenska hafi verið þriðja dýrasta fjármálakreppan í heiminum síðan 1970, næst á eftir Indónesíu 1997 og Argentínu 1980, miðað við útlagðan kostnað. Það er mælt í hlutfalli við landsframleiðslu, eins og sjá má á myndinni.

Fjármálakreppan í Finnlandi í byrjun tíunda áratugarins kostaði um 15% af landsframleiðslu í beinum fjárútlátum. Hún var bæði djúp og erfið. Beinn kostnaður okkar var sem sagt þrisvar sinnum meiri en kostnaður Finna.

Þegar allt er saman tekið er þetta gríðarlegur kostnaður. Satt að segja ótrúlegur.

En þessu til viðbótar er stefnt að afnámi gjaldeyrishafta sem að öllum líkindum mun leiða til stórrar gengisfellingar á ný (sjá hér og hér).

Það mun rýra kaupmátt fjölskyldna enn frekar og hækka allar skuldir enn meira. Á móti myndi það bæta hag útvegsmanna og atvinnurekenda í öðrum útflutningsgreinum.

Vonandi hafa stjórnvöld þá fyrirhyggju að afnema ekki gjaldeyrishjöftin fyrr en tryggt verður að ekki komi til gengisfellingar vegna þess.

Þol heimilanna er takmarkað og sennilega fullnýtt – svo ekki sé meira sagt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.10.2014 - 09:15 - FB ummæli ()

Dómgreindarlaus dómari?

Enginn efast um greind og dugnað Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögfræðings. En hann var aldrei heppilegur valkostur til að gegna starfi hæstaréttardómara.

Hvers vegna?

Jú, vegna þess að hann er stórpólitískur maður, raunar frjálshyggjuróttæklingur, sem hafði lengi verið virkur í pólitískri valdabaráttu er hann tók sæti í dómnum. Hann er enn að beita sér í pólitískri valdabaráttu og virðist hafa haldið því áfram á meðan hann sat í dómnum.

Auk þess er hann hlutdrægur vegna náinna tengsla við áhrifamikil valdaöfl. Hann hefur að sama skapi haft lítið umburðarlyndi og lítla virðingu fyrir öðrum öflum og öðrum skoðunum.

Raunar virðist stundum sem hann telji að þeir sem eru á annarri skoðun en hann gangi erinda einhvers sem ekki á rétt á sér – eða séu í andstöðu við Davíð Oddsson, eins og hann hefur sagt!

Æskilegt er að dómari geti gegnt störfum sínum á þann hátt, að hann sé sem hlutlausastur gagnvart viðfangsefninu og dæmi eftir laganna bókstaf, en sé ekki virkur gerandi á átakavettvangi þjóðmálanna.

Jón Steinar hefur nú viðurkennt að hafa skrifað hið fordæmalausa “nafnlausa bréf”. Það var sent á dómara í tilteknu máli, verjendur og fjölmiðla. Hann beitti þar brögðum til að hafa áhrif á framvindu og útkomu í dómsmáli, sem hann og valdabræður hans létu sig miklu varða.

Þetta var algerlega óverjandi gerningur af hendi hæstaréttardómara.

Dómarinn var dómgreindarlaus vegna hlutdrægni sinnar og þátttöku í valdabraski.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.10.2014 - 10:06 - FB ummæli ()

Eignalausar fjölskyldur eru enn of margar

Skuldavandi heimila jókst stórlega á árunum fram að hruni og verðbólgan á árunum 2008 til 2010 magnaði svo þann vanda, um leið og kaupmáttur ráðstöfunartekna féll um ríflega 20%.

Á hinum ágæta upplýsingavef Hagstofu Íslands má finna tölur um fjölda fjölskyldna sem skulda meira en þær eiga, þ.e. eru með neikvætt eigið fé.

Á myndinni hér að neðan má sjá hve stór hluti fjölskyldna var í þessari stöðu fyrir og eftir hrun – og hvernig staðan er nú.

Hlutfall með neikvæða eiginfjárstöðu

Árið 2005 voru 19% fjölskyldna með neikvæða eiginfjárstöðu. Þeim fjölgaði svo stig af stigi til 2008, en þá nærri tvöfaldaðist fjöldi eignalausra fjölskyldna, fór í 36,7%.

Stökkið varð samhliða aukinni verðbólgu sem kom í kjölfar hruns krónunnar, sem hófst í byrjun ársins 2008 og tók svo mikla dýfu til viðbótar með hruni bankanna.

Áfram stækkaði sá hluti fjölskyldna sem skuldaði meira en þær áttu, allt til 2010, er hann náði hámarki í 41%.

Fjórar af hverjum tíu fjölskyldum voru þá með neikvæða eiginfjárstöðu, sem er afar mikið á alla mælikvarða.

Síðan þá hefur hlutfallið lækkað rólega og í lok árs 2013 var það rúmur þriðjungur fjölskyldna sem skuldaði meira en þær áttu.

Þrátt fyrir þennan bata er hlutfallið enn alltof hátt – eða meira en 50% hærra en var lengst af á árunum fyrir hrun.

Æskilegt hefði verið að skuldastaðan batnaði meira og örar.

 

Fleiri pistlar um Eignaskiptinguna á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.10.2014 - 11:04 - FB ummæli ()

DV tekur flugið á ný

Það er ánægjulegt að sjá að átökunum um stjórnun DV virðist hafa lyktað á farsælan hátt – þrátt fyrir allt.

Það var vel til fundið hjá nýjum stjórnarmeirihluta að ráða Hallgrím Thorsteinsson sem ritstjóra, vel menntaðan og vel reyndan fjölmiðlamann.

Jóhann Hauksson hefur einnig verið ráðinn að blaðinu á ný, og nú sem fréttastjóri, en hann er afar öflugur blaðamaður og þjóðmálaspekingur hinn mesti (sbr. nýlega bók hans).

Það sama má segja um Inga Frey Vilhjálmsson, sem verður áfram á blaðinu og nú sem ritstjórnarfulltrúi (sjá nýlega bók hans).

Síðan eru verðlaunablaðamennirnir Jóhann Páll og Jón Bjarki áfram á vaktinni, ásamt mörgum góðum liðsmönnum.

Í síðustu viku var DV með afar fróðlega úttekt á eftirlitsstofnunum sem eiga undir högg að sækja, vegna niðurskurðar og frjálshyggjuóra.

Blaðið virðist ætla að sækja fram af fullum þunga, bæði með fróðlegar úttektir og áhugavert efni fyrir þjóðmálaumræðuna – auk líflegs afþreyingarefnis.

Í DV má líka finna öfluga pistlahöfunda og ekki má gleyma Skerjafjarðarskáldinu Kristjáni Hreinssyni, sem skrifar stórskemmtilega pistla í blaðið.

Vonandi gengur DV-mönnum vel að fjölga lesendum og áskrifendum.

DV gegnir afar mikilvægu hlutverki í fjölmiðlaflórunni og þjóðmálaumræðunni.

 

Síðasti pistill:  Eignaskiptingin – lítill hlutur millistéttar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.10.2014 - 12:51 - FB ummæli ()

Eignaskiptingin – lítill hlutur millistéttar

Í síðasta pistli sýndi ég hvernig heildareignir einstaklinga í ólíkum eignahópum þróuðust frá 1997 til 2013, á verðlagi hvers árs, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands sem unnin eru úr skattframtölum.

Þar kom fram að eignir hópanna sem mest eiga jukust örast allra og að eignir milli og lægri hópa rýrnuðu hlutfallslega meira í kjölfar hrunsins. Eignaminnsti þriðjungur þjóðarinnar eða svo var með neikvæða eiginfjárstöðu allan tímann og versnaði sú staða þeirra með hruninu.

Þetta þýðir að ójöfnuður í skiptingu eigna fjölskyldna á Íslandi jókst á tímabilinu.

Í þessum pistli sýni ég með skýrari hætti hvernig hlutfallsleg skipting eigna fjölskyldna þróaðist.

Myndin hér að neðan sýnir skiptingu hreinna eigna (þeir eignalausu eru undanskildir), frá 2000 til 2013. Tölurnar sýna eignarhlut eignamestu 10 prósenta einstaklinga, eignamestu 30 prósenta einstaklinga og loks fyrir þau 40 prósent einstaklinga sem eru í miðju eignastigans.

Alls ná upplýsingarnar á myndinni þannig til 70% einstaklinga, en lægstu 30% sem uppá vantar eru eignalaus, þ.e. eignastaða einstaklinga í þeim hópum er í heild neikvæð; flestir þeirra skulda meira en þeir eiga).

Eignamestu 70 prósent einstaklinga eiga sem sagt allar hreinar eignir fjölskyldna í landinu (skv. skattframtölum og vinnslu Hagstofunnar). Myndin sýnir hvernig þær eignir skiptast milli hæstu eignahópanna og miðjunnar. Eignamestu 30 prósentin áttu um 88% hreinna eigna til 2005 en hlutur þeirra hækkaði svo í tæp 96% árið 2010 en var árið 2013 um 94%.

Ríkustu 10 prósentin áttu um 61% hreinna eigna 2013 (þegar þeir eignalausu eru undanskildir) en ef þeir eignalausu eru meðtaldir voru eignir ríkustu tíu prósentanna rúmlega 70% hreinna eigna árið 2013.

Eignir stétta 2

Myndin sýnir að eignamesti hópurinn (þau tíu prósent einstaklinga sem mest eiga) átti um 52-54% hreinna eigna fjölskyldna á árunum fyrir hrun (strikuðu súlurnar á myndinni). Hlutur þeirra fór svo hækkandi á bóluárunum og alveg til 2010.

 

Aukin samþjöppun á toppnum – minnkandi hlutur miðjunnar

Hæst fór hlutur eignamesta hópsins í 65%, þ.e. eignamestu tíu prósentanna, árið 2010 (hann jókst í kreppunni vegna þess að eignir lægri hópa minnkuðu meira en eignir hæstu tekjuhópa, eins og sjá má í fyrri pistli mínum). Á árinu 2013 hafði hlutur eignamesta tíundarhópsins lækkað lítillega, eða í 61%.

Í reynd er samþjöppun eigna á Íslandi mjög mikil og ójöfnuður í skiptingu eigna mun meiri en ójöfnuður í skiptingu tekna. Ójöfnuðurinn jókst enn frekar á bóluárunum og einnig í kreppunni.

Samþjöppun eigna á toppnum hefur þannig aukist á þessum tíma.

Eignamesti þriðjungur þjóðarinnar á í reynd megnið af hreinum eignum í landinu.

Samanlagður hlutur eignamestu 30 prósenta einstaklinganna var samkvæmt tölum Hagstofunnar rúmlega 87% árið 2000 og hafði hann hækkað í 94% hreinna eigna í lok tímabilsins (2013).

Ekki síður er athyglisvert að skoða hlut millistéttarinnar. Hún er metin sem þau 40% einstaklinga sem eru með hreinar eignir í miðju eignastigans.

Hlutur miðjunnar af hreinum eignum fjölskyldna var rúmlega 12% í byrjun tímabilsins en hafði lækkað í 6% í lok þess, eins og sjá má á myndinni að ofan.

Á seinni myndinni er sýnd hlutfallsleg skipting heildareigna fjölskyldna árin 1997 og 2013. Þar má sjá stöðu allra eignahópa, líka eignaminnstu hópanna sem eru undanskildir á efri myndinni.

Hlutur eignamestu hópanna er hærri hér en á fyrri myndinni, þegar allir eru meðtaldir en ekki bara þeir hópar sem eru með “hreinar eignir”.

Eignir-Hlutdeild heildareigna 1997 og 2013

Hér má sjá að hlutur eignamestu tíu prósentanna í heildareignum fjölskyldna fór úr um 56% árið 1997 upp í rúm 70% árið 2013.

Á sama tíma lækkaði hlutur lægsta eignahópsins úr -7,5% í -12,7%. Skuldastaða þeirra versnaði.

Þessi mynd sýnir einnig skýrlega hversu rýr hlutur hópanna á miðjunni er í heildareignum fjölskyldna (hópar 4 til 7).

Þar sem eignarhlutur miðjunnar var yfirhöfuð einhver fyrir hefur hann rýrnað á síðustu árum (hópar 6 og 7 og einnig í hópi 8) – um leið og eignarhlutur efstu tveggja hópanna stækkaði.

Þetta er þannig saga aukinnar samþjöppunar “heildareigna” (allir meðtaldir), jafnt sem “hreinna eigna” (eignalausir undanskildir). Eignir eru í öllum tilvikum taldar sem eignir umfram skuldir, þ.e. nettóeignir.

Niðurstaðan er sú, að eignaskiptingin á Íslandi hefur orðið ójafnari – bæði í aðdraganda hrunsins og í kreppunni sem fylgdi.

 

Aths. Rétt að hafa í huga að eignir Íslendinga erlendis (þ.m.t. í skattaskjólum) eru ekki meðtaldar. Það myndi einkum bætast við eignir hæsta eignahópsins. Fjáreignir eru taldar á nafnverði en ekki á markaðsverði. Það vanmetur einnig eignir eignamestu hópanna. 

Síðasti pistill: Eignir stéttanna, 1997 til 2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.10.2014 - 14:07 - FB ummæli ()

Eignir stéttanna, 1997 til 2013

Hagstofan birti um daginn nýjar upplýsingar um eiginfjárstöðu fjölskyldna/einstaklinga (þ.e. eignir umfram skuldir, eða nettóeignir).

Stóri fréttapunkturinn þótti vera aukning eiginfjár milli áranna 2012 og 2013. Vissulega jókst eiginfé flestra hópa, einkum vegna hækkunar fasteignaverðs og hlutabréfa. Sú þróun hófst raunar árið 2011.

En það er fleira fróðlegt við tölur Hagstofunnar um eiginfé fjölskyldna, sérstaklega ef þróunin er skoðuð eftir ólíkum eignahópum.

Myndin hér að neðan sýnir þróun eiginfjár hjá eignamestu hópunum, millihópum og eignaminnstu hópunum, frá 1997 til 2013. Það gefur góða vísbendingu um hvernig bóluhagkerfið og hrunið léku heimili í ólíkum eignahópum eða stéttum (Heimild: Hagstofa Íslands).

Eignir Þróun eiginfjár 1997-2013

Hér má sjá að eiginfé eignamesta hópsins (efstu tíu prósenta einstaklinga) jókst langmest á áratugnum fyrir hrun. Samdráttur eigna efsta hópsins eftir hrun hefur nú skilað sér til baka og eru eignirnar orðnar meiri en áður varð mest (m.v. nafnverð eigna). Það sama gildir um næsthæsta eignahópinn (gráa brotalínan).

Miðhópurinn sá lítillega aukningu hreinna eigna sinna fyrir hrun en sú litla aukning hvarf svo aftur í hruninu og endanleg staða er nú svipuð og hafðu verið um 2001.

Lægstu eignahóparnir voru hins vegar með neikvætt eiginfé allan tímann (skulduðu meira en þeir áttu) og sú staða versnaði verulega eftir 2002 og fram að hruni  – og svo enn frekar í hruninu sjálfu.

Eiginfjárstaða lægstu hópanna er enn árið 2013 mun verri en hún hafði verið á árunum fyrir hrun.

Hins vegar er eiginfé eignamestu hópanna nú mun meira en það var á árunum fyrir 2007.

Bóluhagkerfistíminn frá aldamótum og fram að hruni jók þannig eignir hæstu hópanna verulega en eignir lægstuhópa voru frekar að rýrna að nafnvirði, miðað við þessi gögn Hagstofunnar.

Hrunið fór síðan mun verr með eignir fólks í lægri eignahópum en með fólk í hærri hópunum – hlutfallslega séð.

Seinni myndin sýnir nettó eiginfjárstöðu fjölskyldna í ólíkum eignahópum á árinu 2013 (eignir umfram skuldir, í milljónum króna; raðað frá þeim lægstu til hinna hæstu).

Eignir -Netto eiginfjárstaða

Þar má sjá að þrátt fyrir aukningu eiginfjár í öllum eignahópum á árinu 2013 umfram árið 2012, þá er staðan enn neikvæð hjá þremur lægstu hópunum (vinstra megin á myndinni – skuldir þar eru enn meiri en eignir).

Hóparnir nærri miðju eignastigans (lægri miðjan og hærri miðjan) eru með lítillega jákvæða eiginfjárstöðu.

Efsti eignahópurinn (eignamestu tíu prósent einstaklinga) er hins vegar með hreinar eignir að nafnvirði sem nema um það bil 1550  milljörðum króna (hátt í andvirði einnar landsframleiðslu Íslands – eignir í skattaskjólum erlendis eru þó ekki meðtaldar).

Eiginfé fjölskyldna jókst um nálægt 147 milljarða króna á einu ári, frá 2012 til 2013. Hátt í 80% af þessari aukningu (eða um 115 milljarðar) varð hjá þremur hæstu eignahópunum, þ.e. hæstu þrjátíu prósentum einstaklinga. Eignamestu 30 prósentin fengu sem sagt um 80% af eignaaukningunni frá 2012 til 2013.

Þessar upplýsingar Hagstofunnar gefa þannig góða vísbendingu um að fólk í hæstu eignahópunum græddi gríðarlega á árum bóluhagkerfisins, um leið og milli og lægri eignahópar högnuðust lítt eða ekkert.

Eignaaukningin eftir hrun hefur verið langmest hjá mesta efnafólkinu.

Þó talsverðar eignir hafi tapast í hruninu þá standa einnig mjög miklar hreinar eignir eftir, en fyrst og fremst hjá efstu hópunum.

Tímabilið allt frá aldamótum hefur þannig verið hæstu eignahópunum á Íslandi (stóreignafólki) afar hagfellt, þrátt fyrir hrunið. Hið sama verðu ekki sagt um fólk í milli og lægri eignahópunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar