Laugardagur 21.6.2014 - 11:10 - FB ummæli ()

Hamskiptin – hvernig pólitík breytti Íslandi

Ingi Freyr Vilhjálmsson, sagnfræðingur/heimspekingur og blaðamaður, sendi fyrir nokkru frá sér bókina Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi. Þetta er bók um breytingar tíðarandans í samfélaginu í aðdraganda hrunsins.

Bókin fjallar um það hvernig aukin frjálshyggjupólitík breytti hugarfari og þar með samfélaginu á Íslandi, sem svo greiddi leiðina að hruninu. Þetta er athyglisvert og mikilvægt framlag til greiningar á orsökum hinna miklu ófara íslenska samfélagsins sem hrunið var.

Ingi Freyr er sérstaklega vel í stakk búinn til að skrifa svona bók. Ástæðan er sú, að hann hefur sem blaðamaður og fréttastjóri á DV fylgst vandlega með framvindunni í þjóðmálunum og sérstaklega beint skörpum blaðamannsaugum að viðskiptalífinu, bæði fyrir og eftir hrun.

Ingi Freyr hefur verið óþreytandi við að draga fram í dagsljósið margt af því sem misfórst hér í fjármálum og stjórnmálum í starfi sínu sem rannsóknarblaðamaður. Hann hefur kafað ofaní gögn sem tengjast hruninu, frá opinberum skýrslum til ársreikninga fyrirtækja og greint fyrirtækjafrumskóga sem ræktaðir voru til að fela vafasama fjármálagjörninga margvíslega.

 

Frá nýfrjálshyggju til fjármálahruns

Þráðurinn í bókinni er um áhrif breytinga á tíðarandanum í átt til aukinnar nýfrjálshyggju, sem fól í sér ný gildi og breytta áherslu í stjórnmálum og þjóðmálum almennt. Þessari nýju hugmyndafræði fylgdi aukin áhersla á óheft frelsi fjármálaafla og fyrirtækja, markaðshyggju og peningahyggju.

Þetta var auðvitað hluti af almennri nýfrjálshyggjuvæðingu sem breiddist út um Vesturlönd frá um 1980, meðal annars fyrir áhrif Margrétar Thatchers og Ronalds Reagans.

Hér á landi var það Eimreiðarhópur Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins sem dró frjálshyggjulestina, einkum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.

Hópurinn samanstóð af einstaklingum sem allir urðu síðar miklir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins og víðar. Sú staðreynd að þeim tókst að sveigja stærsta og áhrifamesta stjórnmálaflokk landsins til áratuga í átt til aukinnar nýfrjálshyggju gerði þessa breytingu jafn afdrifaríka og raun ber vitni.

 

Samfélagið breyttist

Ingi Freyr lýsir vel hvernig þessu fylgdu breytingar á tíðarandanum í samfélaginu, einkum frá tíunda áratugnum. Hann þræðir framvinduna á ólíkum sviðum samfélagsmálanna og sýnir aukin áhrif lífsgilda taumlausrar neysluhyggju, sem og aukna peningavæðingu menningarinnar, stjórnmálanna, fjölmiðlunar, háskólanna, forsetaembættisins og listaheimsins.

Markaðsvæðing hugarfarsins lét engan kima samfélagsins ósnortinn.

Þessu fylgdi það að fjármálaheimurinn tók í auknum mæli yfir atvinnulífið, stjórnmálin og menningu samfélagsins. Sérstaklega afdrifaríkt var að stjórnmálin urðu undirlögð og ofurseld afli peningamanna. Verulega auknar fjárhæðir runnu frá þeim til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.

Með því keyptu peningamenn sér pólitísk áhrif.

 

Lýðræðið veiktist

Þar með var grafið undan lýðræðinu í samfélaginu og vald peningaafla almennt aukið. Viðskiptaráð varð verulega áhrifamikill mótandi lagasetningar um langt árabil. Fyrirtækjamenn og fjármálabraskarar fengu nær allt það sem þeir báðu um frá stjórnvöldum, í fríðindum og fyrirgreiðslu.

Jafnvæginu milli markaðar og lýðræðis var með þessu raskað. Fjármálamenn sluppu lausir og settu á endanum efnahagslífið á hliðina með taumlausri gróðasókn og skuldasöfnun sinni, sem var með öllu ósjálfbær og stórhættuleg eins og kom á daginn.

Þeir sem áttu að verja samfélagið gegn áhættum og óhófi fjármálaafla og braskara brugðust í einu og öllu: stjórnvöld, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Sérstaklega athyglisvert er hvernig Inga Frey tekst að sýna samfelluna í áhrifum hins nýja tíðaranda nýfrjálshyggjunnar á öðrum sviðum en í viðskiptalífinu. Í umfjöllunum um þjóðmálin hefur oft vantað að setja breytingar á afmörkuðum sviðum í heildarsamhengi.

 

Ábyrgðin á hruninu

Raunar hafa áhrif nýfrjálshyggjunnar á samfélagið og pólitíkina verið stórlega vanmetin hér á landi. Þar eð fáar þjóðir urðu jafn illa fyrir barðinu á valdatöku frjálshyggju- og fjármálaaflanna í samfélaginu er löngu tímabært að þessir hlutir séu skýrðir og settir í rétt samhengi.

Í seinni hluta bókarinnar reifar Ingi Freyr athyglisverða umræðu um ábyrgð á hruninu almennt. Eftir að hafa útlistað réttilega hvernig helstu stjórnmálaöflin og helstu gerendurnir í fjármála- og atvinnulífinu bera mesta ábyrgð á óförunum spyr hann um almenna ábyrgð almennings og kjósenda sérstaklega.

Þó flatskjárkenningin haldi engu vatni má vissulega segja að kjósendur hafi kosið yfir sig aukin áhrif nýfrjálshyggju og hugmyndafræðina um „alþjóðlega fjármálamiðstöð“ hólmsteinskunnar.

Varast ber þó að leggja of mikið af ábyrgðinni á almenning sem fyrst og fremst var fórnarlamb þess sem yfirstéttin aðhafðist. Bóluhagkerfið var drifið áfram með lánsfé af fjármálabröskurum í viðskiptalífinu sem græddu gríðarlega á öllu saman.

Almenningur hafði litlar upplýsingar um hvað var að gerast hér á árunum fyrir hrun og stjórnmál, háskólar og fjölmiðlar brugðust í upplýsingagjöf og aðhaldshlutverki sínu. Almeningur var í raun varnarlaus gegn taumlausri góðasókn braskara sem keyrðu þjóðarbúið í þrot.

Þegar upp var staðið var reikningurinn sendur almenningi. Almenningur var helsta fórnarlambið.

Ábyrgðin á hruninu liggur því fyrst og fremst hjá helstu gerendunum í stjórnmálunum (nýfrjálshyggjuöflunum) sem gerðu þetta allt mögulegt, sem og hjá bröskurunum í bönkum og fyrirtækjum sem nýttu sér frelsi frjálshyggjunnar ótæpilega og græddu gríðarlega á öllu saman.

 

Félagslegar og pólitískar rætur hrunsins

Bók Inga Freys Vilhjálmssonar, Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi, er mikilvægt framlag til aukins skilnings á því hvernig breytt pólitík getur breytt samfélaginu og sérstaklega hvernig aukin nýfrjálshyggjuáhrif greiddu leiðina að hruni.

Bók Jóhanns Haukssonar, Þræðir valdsins – Kunningjaveldi, aðstöðubrask og hrun Íslands, er skyld bók Inga Freys.

Báðar draga þessar bækur sérstaklega fram félagsleg og pólitísk áhrif á samfélagið sem svo leiddu til hrunsins. Þær eru mikilvægar til mótvægis við einhliða hagfræðilegar umfjallanir um orsakir hrunsins, sem og til mótvægis við beinar sögufalsanir um orsakir hrunsins sem enn eru á borð bornar.

Það er þakkarvert að menn eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jóhann Hauksson og fleiri skarpir þjóðfélagsrýnar skuli leggja á sig að skrifa svo ítarleg og upplýsandi verk um jafn skelfilegan viðburð og hrunið varð.

 

Síðasti pistill: Rokkstjarna hagfræðinnar með allt á hreinu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.6.2014 - 15:49 - FB ummæli ()

Rokkstjarna hagfræðinnar með allt á hreinu

 

Piketty coverÞað var viðbúið að Frakkinn Thomas Piketty fengi á sig harða gagnrýni fyrir nýju bókina sína (Capital in the 21st Century). Ástæðan er sú, að niðurstöður hans rekast illa á hagsmuni þeirra ríkustu og valdamestu í samfélaginu og þær hafa vakið gríðarlega athygli og umræðu um allan heim.

Raunar er sala bókarinnar svo mikil að undrun vekur og fjölmiðlar tala um Piketty sem „rokkstjörnu hagfræðinnar“. Verk Pikettys fjallar hins vegar um viðfangsefni sem skiptir fólk miklu máli – framtíð ójafnaðar, kapítalisma og lýðræðis.

Rannsóknir Pikettys og félaga sýna að aukning tekna og eigna þeirra ríkustu er í venjulegu árferði meiri en hagvöxturinn eða hækkun raunlauna. Þeir ofurríku hafa alltaf forskot og skattalækkanir til þeirra á síðustu áratugum hafa einungis magnað ójöfnuðinn en ekki aukið hagvöxtinn eða bætt kjör venjulegs fólks.

Auðurinn í samfélaginu þjappast þannig sífellt meira saman. Ójöfnuður eykst. Millistéttin og lægri tekjuhópar sitja eftir. Tækifæri til að vinna sig upp í samfélaginu minnka.

Aukinn ójöfnuður hefur grafið undan bæði hagvexti og lýðræði í vestrænum samfélögum, ekki síst í Bandaríkjunum. Horfurnar eru að óbreyttu þær, að ástandið muni versna enn frekar á næstu áratugum.

Fyrstu viðbrögð í Bandaríkjunum voru þau, að ýmsir talsmenn hægri stjórnmála og auðmannadekurs fóru að kalla Piketty “marxista”! Það er hins vegar út í hött. Aðrir reyna að afbaka verk hans með kukli og fúski og telja fólki trú um að aukinn ójöfnuður sé einhver tálsýn eða skipti ekki máli (sjá t.d. hér).

Raunar vill Piketty bjarga kapítalismanum frá græðgi kapítalistanna og tryggja betur hag milli og lægri stétta – og meiri hagvöxt og farsælla lýðræði.

Í kjölfarið á þessum áburði um marxisma kom það sem við fyrstu sýn virtist alvarleg gagnrýni, frá blaðamanni á Financial Times í London (hér). Sá taldi sig hafa fundið villur í gögnum sem bók Pikettys byggir á og fullyrti hann að það ógilti niðurstöður bókarinnar.

Þeir sem fóru ofan í málið brugðust fljótlega við og höfnuðu þessum róttæku ályktunum blaðamannsins. Meira að segja frjálshyggjumaðurinn Scott Winship, sem þó er gagnrýninn á sumar ályktanir Pikettys, hafnaði strax þeim áburði að Piketty hefði gert mistök eða dregið upp ranga mynd af ójöfnuði í skiptingu tekna og eigna.

Margir aðrir málsmetandi hagfræðingar hafa hafnað því að athugasemdirnar breyti niðurstöðum Pikettys. Margvísleg önnur gögn styðja niðurstöðurnar. Við sem höfum fylgst með rannsóknum Pikettys og félaga um árabil vissum að hann var með allt sitt á hreinu, þó auðvitað geti fagleg álitamál komið upp þegar unnið er með gögn sem ná til tveggja síðustu alda eða jafnvel lengri tíma.

Nú hefur Thomas Piketty sjálfur fyrir nokkru sent frá sér ítarleg svör við aðfinnslum blaðamannsins og skýrt betur þau talnagögn sem deilan hefur staðið um (sjá hér).

Niðurstaðan er sú, að Piketty gefur ekki þumlung eftir. Hann sýnir á öruggan hátt hvernig gögnin eru unnin og stillt af með eðlilegum hætti til að tryggja sambærileika yfir tíma.

Niðurstöðurnar halda til fulls.

Bók Thomasar Pikettys er tímamótaverk sem mun ekki aðeins breyta hagfræðinni til betri vegar heldur sennilega einnig samfélagsgerð vestrænna þjóðfélaga – það er ef allt fer á betri veginn.

 

Hér eru samræður um bók Thomasar Pikettys á RÚV frá í gær: Sjónmál á RÚV (18. júní) 

Síðasti pistill: Ábyrgðin á hruninu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.6.2014 - 23:31 - FB ummæli ()

Ábyrgðin á hruninu

Það var klaufalegt, en ekki óvænt, þegar Benedikt Jóhannesson neitaði því að Sjálfstæðisflokkurinn bæri mesta ábyrgð á hruninu, í viðtali við DV um daginn.

Benedikt er jú Sjálfstæðismaður að upplagi, þó hann sé í andófi við flokkinn sinn og vilji stofna út úr honum nýjan flokk sem verði jákvæðari gagnvart ESB-aðild Íslands. Hann vildi samt ekki hallmæla flokknum sínum.

Benedikt dróg að vísu til baka þá miklu ranghugmynd er hann hafði sett fram, þ.e. að almenningur bæri mesta sök á hruninu.

En þetta atvik sýnir þörf þess að hinar augljósu staðreyndir um ábyrgina á hruninu séu í hávegum hafðar – svo við megum betur vita hvað ber að varast í framtíðinni.

Ég hef skrifað marga pistla um þetta efni hér á Eyjunni og ritgerðir á fræðilegum vettvangi að auki, sem byggja á megin sjónarhorni og kenningum þeirra fræða sem fjalla um fjármálabólur og fjármálakreppur.

Bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System, er mjög góð og með skýra niðurstöðu, er byggir að stórum hluta á vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna. Ingi Freyr Vilhjálmsson fjallar ítarlega um ábyrgðina á hruninu í bók sinni Hamskiptin. Fleiri fræðileg framlög mætti nefna.

 

Það sem fór afvega

Í grunninn var það geigvænleg skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins sem setti landið á hliðina með hruninu. Þessi skuldasöfnun var örari og meiri en áður eru dæmi um í fjármálasögu síðustu átta alda. Aðeins Írar nálguðust okkur í þessu efni, enda fór líka illa fyrir þeim.

Þessi mikla skuldasöfnun tengdist alltof örum og ósjálfbærum vexti bankanna og tengslum þeirra við spákaupmennsku með lánsfé. Útrásin var ein birtingarmynd þessa. Ofurskuldsetning íslensks sjávarútvegs vegna fjárfestinga í óskyldum greinum var önnur.

Allt var þetta gert í þágu leitar að skjótfengnum gróða. Fyrir helstu þátttakendur heppnaðist ævintýrið, því íslenskir fjármála- og framtaksmenn græddu gríðarlega á þessu öllu fram að hruni. Ríkustu tíu prósent Íslendinga juku tekjur og eignir sínar örar en áður hefur sést á byggðu bóli.

 

Hverjir voru helstu gerendurnir?

Það voru eigendur og stjórnendur bankanna sem gerðu þessa gríðarlegu og ósjálfbæru skuldasöfnun mögulega. Rannsóknarnefnd Alþingis setti frumábyrgðina á hruninu á þeirra herðar.

En hverjir tóku lánin? Það voru einmitt þeir sem voru helstu gerendurnir, þeir sem juku áhætturnar úr hófi með græðgi sinni.

Opinber gögn sýna að það voru fyrirtækin sem juku skuldirnar langmest – ekki heimilin eða ríkið.

Það voru einkum atvinnurekendur, efnaðir einstaklingar og braskarar úr hópi framtaksmanna, sem notuðu hið gríðarlega mikla lánsfé til að braska með hlutabréf og fasteignir. Þó heimilin hafi aukið skuldir sínar frá 2004 var hlutur þeirra í heildaraukningu skuldanna lítill.

Fjármálamenn og braskarar voru helstu gerendurnir.

 

Hver var hlutur stjórnmála og eftirlitsaðila?

Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra (Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið) áttu að verja fjármálalegan stöðugleika, gjaldmiðilinn og öryggi landsmanna.

Þau brugðust þessum hlutverkum í einu og öllu. Það var líka niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis.

Líklegasta skýringin á því að þessir aðilar brugðust er sú, að þeir allir hafi verið fangar nýfrjálshyggjutíðaranda.

Sú pólitík boðaði afskiptaleysisstefnu stjórnvalda (veikingu “eftirlitsiðnaðarins”), samhliða ofurtrú á óhefta markaðshætti og sjálfstýringarmátt þeirra. Frelsi fjármálageirans jókst og með því lausatök í eftirliti, aðhaldi og stjórnun. Örygginu var fórnað á altari fjármálafrelsis og óhóflegrar græðgi.

Slík þróun hafði hafist í Bandaríkjunum og Bretlandi um 1980 og breiddist þaðan út um heiminn, m.a. með hnattvæðingunni. Hér gekk þetta lengra en víðast, eins og skuldasöfnunin og óhófsbraskið sýna. Hugmyndin um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð (skattaparadís fyrir efnafólk) var hluti myndarinnar.

Afleiðingin var sú, að íslenska bólan varð sú stærsta sinnar tegundar og hrunið sömuleiðis. Þetta var klassísk en óhóflegri fjármálabóla en áður hefur sést sem sprakk hér haustið 2008.

 

Rót ófaranna lá í tíðaranda nýfrjálshyggjunnar

Aukinn frjálshyggjutíðarandi var þannig ein af meginforsendum þess að Ísland og fleiri lönd fóru jafn illa afvega og raun ber vitni. Þar liggur rótin að vandanum sem upp kom, bæði hér á landi og annars staðar – fjármálakreppan varð jú alþjóðleg.

Nýfrjálshyggjan réttlætti þá stefnubreytingu sem jók frelsið á fjármálamörkuðum, ýtti undir afskiptaleysisstefnu stjórnvalda, ýtti undir einfeldnislega oftrú á óhefta markaðshætti, boðaði aukin fríðindi fyrirtækja og fjárfesta (minna eftirlit, meiri leynd, meira sjálfstæði, aukin not skattaskjóla), auk þess að réttlæta líka aukna gróðasókn auðmanna og hinn aukna ójöfnuð sem öllu þessu fylgdi.

Þess vegna hafa menn nú víðast hert lög, reglur og eftirlit til að stemma stigu við endurtekningu óheillaþróunarinnar. Spurning er þó hvort nóg sé að gert.

Meira að segja áhrifamiklir frjálshyggjumenn, eins og Richard A. Posner í Bandaríkjunum, viðurkenna þetta og segja áhætturnar sem fylgja óheftum markaði óboðlegar.

Það sama verður þó ekki sagt um helstu talsmenn nýfrjálshyggju hér á landi.

Þeir sigla áfram eins og ekkert hafi í skorist!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.6.2014 - 13:48 - FB ummæli ()

Nýr meirihluti – allir út að slá!

Það er ágætt að vinstri menn hafi ná saman um nýjan meirihluta í Reykjavík og ætli að laga húsnæðismál, lýðræði og bæta hag barnafjölskyldna.

Megi þeim ganga sem allra best með þau mikilvægu verkefni.

En það er annað sem skiptir miklu máli og er raunar eitt stærsta umhverfismálið í borginni.

Það er hirða almennra grassvæða og umhverfis.

Þar var oft slegið slöku við eftir hrun, væntanlega vegna niðurskurðar. En nú eru þeir tímar að baka og afsaka ekki lengur slugs og slóðaskap í umhverfismálum.

Grasflatir eru alltof sjaldan og illa slegnar enn sem komið er. Illgresi sleppur laust.

Nýr meirihluti í Reykjavík þarf að taka þetta föstum tökum – strax í dag!

Þetta er ekki bara mikilvægt fyrir íbúa borgarinnar, heldur er þetta mikilvgt fyrir helstu vaxtargrein atvinnulífsins – ferðaþjónustuna.

Þessi mál þurfa að vera í góðu lagi.

Halló nýi meirihluti, hvað segið þið um þetta?

Mættum við fá fleiri og vandvirkari sláttumenn og aðra hirða gróðurs og umhverfis?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.6.2014 - 23:58 - FB ummæli ()

Vinstri stjórnir í 3 af 5 stærstu bæjum landsins

Menn hafa sumir gert mikið úr því að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í meirihluta nokkurra stórra bæjarfélaga (Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Hafnarfirði). Allt eru þetta þó gömul vígi flokksins, nema helst Hafnarfjörður.

Í sumum slíkra bæja missti Sjálftæðisflokkur nokkurt fylgi og tapaði reyndar talsverðu á Seltjarnarnesi – gömlu stórvígi sínu.

Sigur miðju og vinstri manna var hins vegar talsverður í þessum kosningum.

Nú er ljóst orðið að vinstri-og-miðjumenn stjórna þremur af fimm stærstu sveitarfélögum landsins næsta kjörtímabilið: Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri.

Oft hafa þetta verið sterk vígi Sjálfstæðisflokksins. En ekki nú.

Í þessum þremur sveitarfélögum býr nær helmingur íbúa landsins.

Vinstri og miðjumenn stjórna reyndar víðar, þannig að þeir stýra nú sveitarfélögum þar sem meirihluti þjóðarinnar býr.

Vinstri menn hafa sjaldan verið jafn áhrifamiklir í stærstu sveitarfélögum landsins og nú er.

Það eru tíðindi!

Síðasti pistill: Kynlegar villur Hannesar Hólmsteins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.6.2014 - 11:53 - FB ummæli ()

Kynlegar villur Hannesar Hólmsteins

Hannes Hólmsteinn fór mikinn á ráðstefnu um kynjamál um daginn.

Sagði hann jafnréttisbaráttu kynjanna nú vera lokið með fullum sigri kvenna. Lífið væri körlum þungbærara en konum, launamunur kynjanna væri “tölfræðileg tálsýn” og jafnlaunabaráttan því barátta við vindmyllur.

Auk þess mælti hann með lögleiðingu vændis og fullyrti að óheftur samkeppnismarkaður myndi skila meira jafnrétti kynja og jafnari tækifærum.

Málflutningi sínum til stuðnings leiddi Hannes fram tölur um lengri ævilengd kvenna, fleiri sjálfvíg meðal karla, slys, morð, óreglu og fangelsanir. Taldi hann þessar tölur sýna að lífið væri körlum þungbærara en konum og því væri ekki lengur tilefni til jöfnunaraðgerða milli kynjanna.

Þegar rýnt er í þennan málflutning og tölurnar sem Hannes setur fram þá kemur í ljós að hann gerir grundvallarvillur í ályktunum og rökfræði sinni.

Þessar tölur sem Hannesar flaggar á yfirborðslegan hátt sýna almennt fátt eða ekkert sem er beintengt jafnréttisbaráttu kynjanna.

 

I. Ævilengd er að mestu líffræðilega ákvörðuð

Tökum fyrst lengri ævilengd kvenna. Konur lifa almennt lengur en karlar. Sérfræðingar rekja það öðru fremur til líffræðilegra þátta. Lífsstílsþættir eða samfélagsskilyrði geta haft áhrif en þau eru í minnihluta.

Konur hafa að upplagi líffræðilegt forskot á karla hvað ævilengd snertir. Á árum áður var munur á ævilengd kvenna og karla almennt meiri en nú er. Hannes virðist telja að jafnréttisbaráttan hafi leitt til þessarar lengri meðalævi kvenna og telur að nú sé nóg komið. Hann hefur mjög rangt fyrir sér um það.

Staðreyndin er sú, að eftir að barátta fyrir jafnrétti kynjanna jókst fór að draga meira saman með körlum og konum í meðalævilengd. Konur á Íslandi lifðu að jafnaði um sex árum lengur en karlar um 1970, áður en kraftur tók að aukast í jafnréttisbaráttunni. Nú á dögum hefur þessi munur helmingast og er rétt um þrjú ár.

Ef jafnréttisbaráttan er tengd meðalævilengd þá hefur hún sem sagt meira gagnast körlum. Meðalævilengd þeirra hefur aukist örar en hjá konum á tíma jafnréttisbaráttunnar!

En þarna eru hins vegar engin markverð tengsl á milli. Það er grundvallarvilla hjá Hannesi að tengja þessi atriði eins og hann gerir.

Lífeðlisfræðingar og læknar rekja mun ævilengdar og reyndar einnig mun kynjanna hvað snertir áhættusækni, árásargirnd og ofbeldishneigð m.a. til áhrifa kynhormónanna. Testosterónið (karlkynshormónið) er talið hafa þau áhrif á karla, einkum unga karla, sem Hannes vísar til sem dæma um verra líf karla (sjálfsvíg, slys, morð, glæpi og meiri fangelsanir sem af sumu þessu leiða). Kvenkynshormónið (estrogen) færir konum annað upplegg.

Hannes er því að tengja gögn um mun kynjanna sem er einkum líffræðilegur við jafnréttisbaráttuna, sem hefur ekkert með þessi atriði að gera.

Þetta er eins og að segja sem svo, að sólardagar eru mun fleiri á Grikklandi en Íslandi. Ergó: Grikkir hljóta að vera mun ríkari (hagsælli) en Íslendingar.

Staðreyndin er hins vegar sú, að Íslendingar eru mun hagsælli en Grikkir. Fjöldi sólardaga á ári hefur ekkert með hagsæld að gera, frekar en að jafnréttisbaráttan hafi eitthvað með meðalævilengd og ólíka áhættutilhneigingu kynjanna að gera.

Hannes fellur í þá gryfju að taka sýndarsamband (enska: spurious correlation) sem orsakasamband. Faglega kunnandi menn myndu vara sig á því, en Hannes hikar ekki við að draga miklar og djarfar ályktanir af þessari villu sinni.

 

II. Er launamunur kynjanna tálsýn?

Hannes viðurkennir að launamunur kynjanna sé nokkur, en segir hann ekki vera vegna mismununar – og því sé um tálsýn að ræða. Hann segir:

“Konur mælast ekki að meðaltali með lægri laun en karlar vegna þess, að kvennastörf séu láglaunastörf, heldur vegna þess að lægri laun eru í boði fyrir þau störf, sem konur hafa tilhneigingu til að velja.

Þau störf krefjast ekki samfelldrar viðveru, sívirkrar þekkingaröflunar og fela ekki í sér verulega ábyrgð.”

Í staðinn uppskeri konur að fá að ganga með og ala börn á brjósti. Skiptin séu konum ekki óhagstæð og því yfir litlu að kvarta.

Fyrri hluti röksemdarinnar hjá Hannesi felur í sér hringrök sem engu vatni halda, en seinni fullyrðingin stenst heldur ekki staðreyndakönnun og er reyndar meiðandi fyrir konur.

Hannes horfir alveg framhjá því að gerðar hafa verið víðtækar rannsóknir á launaumbun fyrir karla og konur sem hafa sömu menntun, vinna sama vinnumagn og gegna sömu störfum með sambærilega ábyrgð. Þær rannsóknir sýna að laun kynjanna eru samt er ekki þau sömu, eins og lög þó kveða á um að vera skuli.

Þetta er kallað óútskýrður launamunur kynjanna og er oft rakinn til mismununar eða hefðbundinna hátta (íhaldssemi) á vinnumarkaði.

Hannes hefur því engar forsendur til að fullyrða svo stórkallalega að launamunur kynjanna sé tálsýn.

 

III. Eru barneignir einkamál kvenna?

Umræðunni um launamun kynjanna er teng sú fullyrðing Hannesar að “…konur hafi tilhneigingu til að velja störf, sem farið geta saman við barneignir og heimilishald.”

Þetta eru hin lakari störf sem vísað er til að ofan og sem skaffa konum lægri laun en körlum – og sem konur hafa ekkert yfir að kvarta vegna þeirrar lífsfyllingar sem þær fá af barneignum og heimilishaldi, að mati Hannesar.

Forsendan fyrir þessum málflutningi Hannesar er sú, að barneignir séu einkamál kvenna. Hannes virðist hafa lítinn skilning á eðli fjölskyldulífs og bareigna.

Forsenda jafnréttisbaráttunnar er hins vegar sú, að börn séu sameign og á ábyrgð beggja foreldra, karla ekki síður en kvenna. Því fylgir að konur eigi ekki að búa við nauðarval í þessum efnum, hvorki hvað snertir skyldur við heimilisstörf né hvað snertir tækifæri í menntun og á starfsferli.

Raunar er það svo nú til dags að konur sækja háskólanám í meiri mæli en karlar og því væri enn óskynsamlegra en ella hjá samfélaginu að nýta ekki hæfni, getu og dug kvenna sem mest á vinnumarkaði sem víðar.

Stór þáttur í jafnréttisbaráttu nútímans er einmitt um að samþætta betur en fyrr þarfir heimila (fjölskyldna) og vinnustaða. Jafnvel íhaldssamar stofnanir eins og OECD og Samtök atvinnulífsins á Íslandi taka undir slíkan málflutning.

En það er of langt gegnið fyrir Hannes Hólmstein.

 

IV. Hver niðurgreiðir hvern?

Inn í þetta tal sitt fleygir Hannes að venju ýmsum molum sem eiga að ginna menn til að trúa boðskapnum. Eitt slíkt atriði er, að fyrst konur lifi lengur þá megi segja að karlar greiði niður lífeyri fyrir konur.

Þetta er varla meira en hálfsannleikur og að auki afleiðing nauðarvals kvenna sem tengist barneignum.

Staðreyndin er sú að karlar hafa almennt hærri lífeyritekjur en konur, einmitt vegna meiri atvinnuþátttöku á starfsaldri. Það felur í reynd í sér að vinna kvenna við barneignir og heimilishald hefur lengi ekki verið metin í lífeyriskerfum til réttindaávinnings. Þessi störf og ýmis umönnunar og kennslustörf hafa kerfisbundið verið vanmetin þó fátt sé mikilvægara í lífinu en þau.

Þetta er nær því að vera mismunum en sérstök niðurgreiðsla til kvenna. Í seinni tíð hefur mönnum orðið þetta ljóst og það sjónarmið að ekki eigi að refsa konum með lakari lífeyrisrétti vegna barneigna hefur unnið á. Nú veita hin skárri lífeyriskerfi Vesturlanda konum lífeyrisrétt í barneignaleyfum.

Ungir karlar glíma við sérstök vandamál í nútímanum sem taka þarf á, en það felur ekki í sér að snúa eigi jafnréttisbaráttunni á haus. Við eigum að stefna að framförum áfram fyrir bæði kynin. Áhættuhegðun, skortur á félagslegum tengslum og óreglulíf eru sjálfstæð viðfagnsefni sem vinna þarf að, óháð jafnréttisbaráttu kynja eða annarra hópa.

 

V. Lagar markaðshyggjan allt böl?

Rótin að þessum málflutningi Hannesar Hólmsteins um kynjamálin er sá sami og alltaf: áróðursbarátta hans fyrir nýfrjálshyggjunni. Allt sem hann gerir og kallar „fræðimennsku“ er því marki brennt.

Hannes er að leggjast gegn jafnréttisbaráttunni vegna þess að hann vill óheftan markað og engin eða sem allra minnst ríkisafskipti af samfélagsþróuninni. Þetta er ekki bara íhaldssemi heldur einnig ofurtrú á nytsemd hins óhefta markaðar.

Þó lítt heft markaðsöflin hafi leitt til hruns á fjármálakerfi Íslands fyrir fimm árum þá hefur hann ekkert lært – eða neitar öllu heldur að læra eitthvað af því. Sennilega er honum erfitt að horfast í augu við eigin ábyrgð í þeim efnum og ófullkomleika markaðarins.

En það er einnig oft svo með trúarbrögð, að staðreyndir geta vegið lítið á móti blindri sannfæringu. Það einkennir allt tal Hannesar um markaðshyggjuna.

Það er auðvitað pínlegt að þiggja laun sem fræðimaður við opinberan háskóla og vera undir slíku oki pólitískra trúarbragða – að ekki sé talað um fúskið sem Hannes oft gerist sekur um.

Dómur sögunnar er hins vegar sá, að óheft markaðshyggja skilar hvorki mannréttindum né jöfnum tækifærum. Það þurfti pólitísk afskipti og mikla baráttu til að afnema þrælahald og til að innleiða velferðarríki nútímans, sem færir aukin mannréttindi og meiri jöfnuð tækifæra fyrir bæði kynin og fólk af ólíkum samfélagsuppruna.

Þar sem markaðshyggjan er óheftari þar standa þessi mannréttindamál og skyld tækifæramál oftast verr.

Þessar kynlegu villur Hannesar Hólmsteins eru því miður mjög einkennandi fyrir vinnubrögð og málflutning hans  um þjóðmál og pólitík almennt.

En það er jú engin ný frétt!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.6.2014 - 22:36 - FB ummæli ()

Á að auðvelda skattsvik í ferðaþjónustu?

Ferðaþjónustan hefur tvöfaldast að umfangi á tiltölulega stuttum tíma, án þess að skatttekjur af henni hafi aukist samsvarandi. Skatttekjur og útflutningstekjur á hvern ferðamann hafa dregist saman.

Ástæðan hlýtur að vera aukin undanskot frá skatti.

Nýleg skýrsla frá Rannsóknarstofnun atvinnulífsins við Háskólann á Bifröst um skattsvik í ferðaþjónustu staðfestir einmitt það, aukin skattsvik í ferðaþjónustunni á síðustu árum.

Í þessu samhengi er undarlegt að heyra hvernig Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hugsar sér umbætur í reglugerðarumhverfi og eftirliti með ferðaþjónustunni (í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum).

Hún boðar aukið frelsi og aukið traust í garð ferðaþjónustunnar. Ætlar að einfalda regluverk og starfsumhverfi ferðaþjónustunnar. Hún segir breytingarnar verða…

“…í þeim anda að draga úr tálmunum við því að starfsemi hefjist, svo sem vegna leyfisveitinga, vottorða og umsagna stjórnvalda. Atvinnulífinu verði í grunninn sýnt traust til að reka sína starfsemi samkvæmt lögum og reglum.

Hins vegar verði lögbundnar öryggisreglur sem fyrirtækjunum verði skylt að uppfylla og beitt viðurlögum í stað kæru til lögreglu ef útaf verði brugðið.”

Hugsun ráðherra er augljóslega sú, að auka frelsi og sjálfræði ferðaþjónustunnar, einfalda skráningarferla fyrir leyfisveitingar og vona svo að þeir sem starfa svart muni hætt því.

Opna bara nýja gátt á netinu (í stað tveggja eða þriggja skráningaraðila) og þá muni svarta starfsemin skila sér og atvinnurekendur glaðir greiða sinn skatt! Svo ætlar hún að draga úr refsingum.

Þetta hljómar fallega – eða þannig. Það á að treysta skattsvikurum!

Er það líklegt til að draga úr skattsvikum?

Þetta er svolítið eins og að bjóða áfengissjúklingum auðveldari aðgang að fríu áfengi til að draga úr áfengissýki!

 

Frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins – enn á fullri ferð

Hugsun ráðherrans er reyndar í takti við auðmannadekur frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum. Gera allt fyrir atvinnulífið og braskara. Auka frelsi þeirra.

Sjálfstæðismenn vilja alltaf veikja “eftirlitsiðnaðinn”.

Við vitum ósköp vel hverju slíkt skilar: Auknum undanskotum. Auknum skattfrjálsum gróða. Stækkun svarta hagkerfisins. Freistnivandinn sem plagar framtaksmenn mun skila því.

Vel má vera skynsamlegt að einfalda starfsumhverfi, en ekkert kemur í stað alvöru eftirlits til að draga úr skattsvikum.

Vonandi er ráðherrann með einhver alvöru áform um að draga úr skattsvikum í ferðaþjónustu og öðrum greinum.

Það jafnar samkeppnisstöðu milli heiðarlegra og óheiðarlegra atvinnurekenda og gerir umhverfi atvinnulífsins og samfélagsins heilbrigðara.

 

Síðasti pistill: Kvótinn rústar landsbyggðinni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.6.2014 - 12:19 - FB ummæli ()

Nú má segja satt um skatta!

Á árunum fyrir hrun sýndi ég með opinberum gögnum hvernig skattbyrði hátekjufólks og fyrirtækjaeigenda hafði lækkað frá um 1995 til 2007, um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa hækkaði.

Aukna skattbyrðin var mest hjá allra tekjulægstu hópunum, lífeyrisþegum og láglaunafólki.

Síðan eftir hrun breytti ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms skattbyrðinni og þyngdi hana hjá tekjuhæstu hópunum og fyrirtækjaeigendum, þ.m.t. fjármagnstekjuskattinn. Um leið var skattbyrði lægri og millitekju hópa lækkuð eða stóð í stað.

Jöfnuður jókst vegna breyttrar skatta- og bótastefnu ríkisstjórnarinnar.

Þessi aukning skattbyrðarinnar á hærri tekjuhópa var ekki sérlega mikil í sögulegu samhengi og færði ástandið einungis nær því sem verið hafði í kringum 1995.

Tekjuskattbyrðin í heild var áfram nálægt meðaltali OECD.

Ég sætti mikilli gagnrýni frá hægri stjórnmálamönnum, atvinnurekendum og ekki síst frá róttækum frjálshyggjumönnum. Einnig frá Mogganum og Viðskiptablaðinu.

Þessir aðilar trekktu upp áróður um gríðarlegar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar og sögðu skattbyrði á Íslandi vera orðna þá hæstu í heimi!

Það var alltaf fjarri því að vera satt.

Í morgun var hins vegar frétt í Viðskiptablaðinu um að tekjuskattbyrði á Íslandi væri undir meðaltali OECD ríkjanna (sjá hér).

Nú er sem sagt orðið í lagi að segja satt um skattbyrðina á Íslandi!

 

Síðasti pistill: Það sem vinstri menn ættu að gera í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.6.2014 - 21:50 - FB ummæli ()

Það sem vinstri menn ættu að gera í Reykjavík

Pólitík er ekki bara fagleg stjórnsýsla, ábyrg fjármálastjórn og skynsamlegur og vandaður rekstur.

Í lýðræði á pólitík líka að snúast um að láta drauma almennings rætast. Gera það sem kjósendur valdhafanna vilja. Svara óskum og leysa vandamál sem plaga samfélagið.

Vinstri menn í Reykjavík eiga nú kjörið tækifæri til að setja mark sitt á söguna, ef fyrirhugað meirihlutasamstarf gengur eftir.

Síðasti meirihluti tók við þrotabúi Sjálfstæðisflokksins eftir hrun. Það var erfitt verkefni, eins og í landsstjórninni. Fjárhagsþrengingar og rekstrarerfiðleikar settu mark sitt á starfið.

Það gekk vonum framar, en stærsti bagginn var væntanlega björgum Orkuveitunnar frá gjaldþroti.

Að öðru leyti var lítið svigrúm til að láta drauma kjósenda rætast. Þetta var basl.

Sama var í landsstjórninni. Endurreisn eftir frjálshyggjuhrunið tók alla orku vinstri stjórnarinnar. Sú stjórn tók þó þá ákvörðun að freista þess að hlífa lægri tekjuhópum við afleiðingum hrunsins, eins og erfiður fjárhagur ríkissjóðs leyfði. Svigrúmið var raunar minna en ekkert.

Samt náði stjórnin mikilvægum árangri í því, en almenningi fannst að meira hefði átt að gera. Þegar kom að þingkosningum í fyrra vildu vinstri flokkarnir einkum sýna fjárhagslega ábyrgð og greiða niður skuldir, en sögðust ekki ætla að gera meira fyrir skuldug heimilin.

Þess vegna varð auðveldur leikur fyrir þáverandi stjórnarandstöðu að bjóða heimilunum meiri stuðning, þ.e. um 20% lækkun skulda heimilanna til viðbótar. Auðvitað tóku heimilin því tilboði og snéru baki við vinstri stjórninni.

Í þessu liggur mikilvæg lexía fyrir vinstri menn í Reykjavík.

 

Mikil fjölgun íbúða, gjaldfrjáls leikskóli, nýsköpun og efling lýðræðis

Vinstri meirihluti þarf að marka sér spor, sem um munar. Þau þurfa að skila alvöru vinstri pólitík en ekki stæra sig af því einu að vera betri fjármálastjórar en Sjálfstæðismenn (það er hvort eð er of auðvelt til að vera spennandi!).

Þau þurfa að skila framförum í samfélaginu í Reykjavík. Einkum á sviði velferðarmála og nýsköpunar. Þar standa upp úr húsnæðismálin og hagur barnafjölskyldna, en einnig nýsköpun og efling lýðræðis og gagnsæis í borgarmálunum.

R-listinn náði sögulegum árangri í að fullnægja þörf barnafjölskyldna fyrir leikskólapláss á stjórnartíma sínum frá 1995.

Nýr vinstri meirihluti þarf að skila lofaðri fjölgun íbúða í Reykjavík og bættum hag barnafjölskyldna. Loforð VG um gjaldfrjálsan leikskóla er djarfasta velferðarloforðið sem fram var sett, auk húsnæðismálanna.

Það væri frábært að geta komið gjaldfrjálsum leikskóla í höfn, ásamt hinu. Það myndi marka söguleg spor í þróun borgarinnar og vekja athygli í heiminum. Það er einmitt þannig mál sem vinstri menn eiga að koma í höfn. Það yrði líka vel metið af ungu fólki – til langrar framtíðar.

Slíkt mál mun kosta talsvert, en er ekki óyfirstíganlegt. Marka þarf stefnuna og hefja leiðina að lokamarkinu. Ef fjárhagur leyfir það ekki til fulls á kjörtímabilinu, þá er samt mikilvægt að marka stefnuna og ná verulegum áfanga, t.d. að borgin greiði helming kostnaðarins strax en stefni svo áfram að fullnustu stefnunnar á næsta kjörtímabili.

Vinstri menn þurfa að vera óhræddir við að skila slíkum framförum og skera sig úr svo um munar. Slík pólitísk dirfska mun skila langlífi í pólitíkinni og gefa pólitísku starfi inntak sem almenningur mun vel meta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.6.2014 - 19:55 - FB ummæli ()

Vinstri meirihluti í Reykjavík?

Viðræður eru að hefjast um samstarf milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er að mörgu leyti athyglisverður kostur.

Þetta yrði sterkur meirihluti með níu fulltrúa af fimmtán. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt í málefnaáherslum og samhljóm hefur mátt finna milli þeirra í kosningabaráttunni.

Að mörgu leyti yrði um endurreisn R-listans að ræða. Hann var sterkt umbótaafl sem sat í þrjú kjörtímabil. Það er líka sterk leið fyrir vinstri menn að stefna nú að frekara samstarfi, eftir að sundrung í röðum þeirra keyrði um þverbak í þingkosningunum í fyrra.

Sú sundrung veikti stöðu vinstri manna verulega og færði einkum Sjálfstæðisflokki fleiri þingsæti en fylgi þeirra bauð uppá. Um 14% atkvæða fóru í súginn vegna smáframboða sem ekki náðu lágmarki til að fá fulltrúa.

Dagur B. Eggertsson er einmitt maðurinn til að byggja brýr milli einstaklinga og flokka á vinstri vængnum. Ef vel tækist til um samhenta stjórn borgarinnar yrði staða vinstri manna í landsmálunum sterkari.

Auðvitað eru aðrir kostir fyrir Samfylkinguna, sem er langstærsti flokkurinn í Reykjavík. Hún gæti starfað með Sjálfstæðisflokki með sterkan meirihluta, en líklega meira misræmi í stefnuáherslum.

Samt er Halldór Halldórsson mun geðþekkari og málefnalegri maður að vinna með en frjálshyggjulið Sjálfstæðisflokksins og hirð Hádegismóra.  Það ætti því að vera hægt að ná málefnasamstöðu með honum í starfhæfum meirihluta.

Það kom hins vegar fram í viðræðum forystumanna framboðanna í Reykjavík á Stöð 2 rétt áðan, að allir hafa fyrirvara á samvinnu við Framsókn, vegna áherslunnar á mosku-málið og innflytjendur. Líka leiðtogi Sjálfstæðismanna.

Dagur útilokar þó ekki samstarf við Framsókn, en eins og aðrir kallar hann á að Framsókn skýri skilmerkilega á hvaða ferð flokkurinn er með þennan málaflokk. Sigmundur Davíð er byrjaður að skýra það og segist ekki andvígur byggingu mosku í Reykjavík.

Flest bendir þó til að vinstri meirihluti verði myndaður í Reykjavík. Slíkur meirihluti gæti lagt grunn að stærra sögulegu hlutverki fyrir vinstri hreyfinguna í landsmálunum. Góður árangur meirihluta S og BF í stjórnun Reykjavíkur á óvenju erfiðum tíma er líka uppörvandi fyrir endurnýjað samstarf í þeim anda.

Vinstri og miðjumenn þurfa að skilja að með sundrungu í sínum röðum vinnst ekkert, nema að færa hægri öflunum í Sjálftæðisflokki og fjármálaöflunum meiri völd í landinu. Menn muna hversu illa sundrund innan VG lék stjórn Jóhönnu og Steingríms, sem að öðru leyti starfaði vel og náði mikilvægum árangri.

Aukin samstaða og samvinna á vinstri vængnum felur því í sér mikilvæga möguleika. Reykjavík gæti orðið vettvangur sögulegra sátta á næsta kjörtímabili.

Vinstri og miðjumenn ætla einnig að freista samstarfs í Reykjanesbæ og hugsanlega eru líka slíkir möguleikar í Hafnarfirði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.6.2014 - 05:09 - FB ummæli ()

Stórsigur Dags – annað fór upp og niður

Niðurstaða kosninganna er nokkuð skýr. Dagur B. Eggertsson vinnur stórsigur fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn bíður afhroð í borginni, en Framsókn vinnur þar óvæntan sigur. Píratar ná inn manni, Björt framtíð fær minna en vænt var í Reykjavík og VG stendur að mestu í stað.

Sjálfstæðisflokkur missir sterkan meirihluta sinn í Reykjanesbæ, en vinnur sætan sigur í Eyjum. Að öðru leyti má segja að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn fái nokkuð breytilega útkomu á landinu, bæta við sig sums staðar en tapa annars staðar.

Björt framtíð vinnur stóra sigra í nokkrum sveitarstjórnum, t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ (og taka þar mest fylgi frá Samfylkingunni). Alls fær Björt framtíð um tug sveitarstjórnarmanna á landinu, sem er stórt skref.

Framsókn bætir stöðu sína sögulega í Reykjavík, með áherslu á Moskumálið. Nýjum leiðtoga B-listans í borginni tóks fádæma vel að vekja athygli sem virðist hafa skilað sér í kjörkassana. Framsókn bætir við sig á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, t.d. á Dalvík, í Skagafirði, en einnig í Kópavogi.

Sjálfstæðisflokkur er stærstur í nokkrum stærri bæjum utan Reykjavíkur, án þess að vera með mikið fylgi sögulega séð. Tapar raunar aðeins fylgi í bláa kraganum, sérstaklega á Seltjarnarnesi, sem og á Ísafirði og í Hveragerði.

VG voru almennt ekki í neinni sókn í þessum kosningum. Þau halda fulltrúa í Reykjavík, en ekki meira en það. Klofningsframboð eins og Dögun fær engan hljómgrunn. Slík framboð sundra einungis og atkvæði falla dauð, eins og svo mikil brögð voru að í síðustu Alþingiskosningum.

Á heildina litið eru það einkum Samfylking, Framsókn og Björt framtíð (utan Reykjavíkur) sem bæta við sig fylgi á landinu öllu. Samfylkingin virðist þó suma staðar fara mjög halloka gagnvart Bjartri framtíð. VG stendur í stað en Sjálfstæðisflokkur tapar lítillega til viðbótar við slaka útkomu í síðustu kosningum.

Kjörsókn í sumum sveitarfélögum var óvenju lítil og hefur það væntanlega haft áhrif á úrslitin.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.5.2014 - 10:37 - FB ummæli ()

Hverjum verður slátrað í Valhöll?

Sjálfstæðismenn eru með böggum hildar vegna slakrar stöðu flokksins í Reykjavík og víðar.

Styrmir Gunnarsson hefur ítrekað kallað eftir uppgjöri í Valhöll. Fleiri hafa gert það, meðal annars Guðmundur Magnússon í Mogganum í dag.

Hrun fylgisins í Reykjavík er eitt. Slakt fylgi á landsvísu er annað.

Margir munu reyna að kenna forystumanni listans í Reykjavík um útkomuna og kalla á aftöku hans. Það væri þó ekki sanngjarnt, enda ristir vandinn dýpra.

Það sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn afvega, öðru fremur, var öfgafrjálshyggjan sem Hannes Hólmsteinn fluttu inn frá Bandaríkjunum.

Auðmannadekur, blind markaðshyggja, skattalækkanir fyrir hátekjumenn og fyrirtæki, spillt einkavæðing, fjandskapur í garð velferðarríkisins, afskiptaleysisstefna ríkisvaldsins og hirðuleysi um hagsmuni almennings voru leiðarljósin.

Á Davíðs-tímanum voru þessar stefnuáherslur innleiddar, einkum eftir 1995.

Afleiðingin varð stærsta bóluhagkerfi sögunnar og eitt stærsta fjármálahrun sögunnar. Auðmenn græddu gríðarlega af braski með lánsfé, í skjóli fríðinda og afskiptaleysis. Davíð Oddsson var sterkur leiðtogi og menn fylgdu honum í blindni. Þess vegna gekk þróunin hér jafn langt afvega og raun varð á.

Kreddufastir stjórnmálamenn verða gjarnan hrokafullir og hirða ekki um umburðarlyndi gagnvart öðrum skoðunum. Stefna Davíðs var að refsa fólki fyrir önnur sjónarmið en þau sem hann fékk frá Hannesi Hólmsteini. Samherjum jafnt sem andstæðingum var refsað.

Þess vegna var klassískt umburðarlyndi Sjálfstæðisflokksins aflagt á frjálshyggjutímanum.

Eftir hrun stoppaði Davíð síðan uppgjörið við mistök frjálshyggjutímans, á eftirminnilegan hátt. Þar er flokkurinn enn fastur og leysist smám saman upp í frumeindir sínar.

Sjálfstæðisflokkurinn kemst hvorki lönd né strönd. Reynir að ljúga sig frá ábyrgð sinni á mistökunum sem leiddu til hrunsins, hvort sem er í Moggaskrifum eða bloggspreði Hólmsteins.

Ég ráðlegg forystu Sjálfstæðisflokksins að losa sig við Davíð, Hannes og hirð þeirra alla. Það er leiðin til að endurreisa hinn klassíska Sjálfstæðisflokk, sem gat höfðað til um 40% kjósenda í góðu árferði.

Ég hef þó ekki trú á að það verði niðurstaðan. Náhirð Davíðs og Hannesar er einfaldlega enn of valdamikil.

Því er líklegra að leiðtoga listans í Reykjavík verði slátrað. Nema menn láti eins og ekkert sé…

 

Síðasti pistill: Kvótinn rústar landsbyggðinni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.5.2014 - 09:45 - FB ummæli ()

Kvótinn rústar landsbyggðinni

“Stórfelld hagræðing stendur fyrir dyrum í íslenskum sjávarútvegi. Skipum mun fækka, fiskvinnslum mun fækka…”.

Þetta segir útgerðarstjóri Vísis hf. í Grindavík, sem nýlega tilkynnti um áform um flutning vinnslu fyrirtækisins frá Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi til Grindavíkur.

Í viðtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni segir útgerðarstjórinn, Pétur Hafsteinn Pálsson, að þróunin í sjávarútvegi sé þegar orðin þannig að nokkur fyrirtæki séu ráðandi á sérhverju vinnslusviði sjávarafurða. Fáir og stórir aðilar eiga kvótann og fyrirtæki þeirra stýra öllu – líka því sem mótar lífsskilyrði íbúanna í sjávarbyggðunum kringum landið. Myndbandið frá Djúpavogi segir þessa sögu á áhrifaríkan hátt.

Þetta er það sem sagt var frá upphafi að myndi gerast með tilkomu framseljanlega kvótans. Eignarhald í sjávarútvegi myndi færast á sífellt færri og stærri hendur og byggðum víða um land yrði fórnað. Það hefur gengið eftir.

Áróðursmenn frjálshyggju og auðmanna sögðu kvótakerfið þjóna hagsmunum landsbyggðarinnar. Það var álíka rangt og allt annað sem frá þeim söfnuði hefur komið!

Og útgerðarstjórinn sér frekari þróun í átt til samþjöppunar. Endastöð stærðarhagkvæmninnar, sem ræður för, er væntanlega að örfá stórfyrirtæki eigi allan sjávarútveginn. Eigum við að segja þrjú eða fimm fyrirtæki?

Þetta er boðað á tíma sem er gróðavænlegri fyrir sjávarútveg en verið hefur í áratugi. Gengisfelling hrunsins hefur magnað gróða útvegsmanna í hæstu hæðir. Þó fiskverð lækki lítillega á þessu ári verður áfram góðæri hjá útvegsmönnum. Þeir eru í öðru hagkerfi en almenningur. Samt vilja þeir græða enn meira.

Ekki er umdeild að kvótakerfið getur falið í sér stærðarhagkvæmni. Strandveiðar eiga þó líka rétt á sér.

Stóri gallinn við kvótakerfið er hins vegar sá, að hagræðingin sem það getur skapað er einungis til ábata fyrir útvegsmenn – en á kostnað landsbyggðarfólks.

Íbúum sjávarbyggðanna blæðir fyrir hagræðingu útvegsmanna. Störf þeirra tapast, eignir þeirra í sjávarplássum verða verðlausar. Gangi sú þróun lengra sem útgerðarstjóri Vísis í Grindavík spáir verður víða frekara rof eða hrun í sjávarbyggðum.

Hvað er til ráða?

Er hægt að láta skammtíma gróðasókn útvegsmanna stefna samfélögum víða um land í eyði? Þarf ekki að miðla hagsmunum milli útvegsmanna og íbúa sjávarbyggðanna? Hafa íbúar landsbyggðarinnar ekki tilkall til að njóta ávaxta sjávarauðlindarinnar rétt eins og útvegsmenn?

Núverandi aðgerðir til að verja byggðarlögin (byggðakvóti, strandveiðiheimildir) eru veikar og ómarkvissar og skila ekki árangri, eins og gömul og ný dæmi sýna.

Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og stjórnarformaður Byggðastofnunar, reifar athyglisverða hugmynd um breytingar á kvótakerfinu, til að styrkja stöðu sjávarbyggða sem búa við óöryggi og veikan grundvöll. Þóroddur talar um svæðisbundinn kvóta.

Í skrifum sínum hefur Þóroddur spurt hvort leggja eigi af byggðakvóta og aðrar sporslur en einfaldlega svæðisbinda hluta aflaheimilda ríkisins. Hluti kvótans sé t.d. bundinn á Vestfjörðum og svæðisbundinni hagræðingu sé að öðru leyti leyft að eiga sér stað. Hugmyndafræðin byggir á því að um skýrt markmið sé að ræða; það er að segja, hvernig mun byggðin á viðkomandi svæði líta út eftir tvo áratugi en ekki á sama tíma að ári. Þessar svæðisbundnu heimildir yrðu fyrir hvern sem er.

„Þá skiptir ekki máli hvort um ræðir heimamenn eða ekki, því starfsemin væri bundin á svæðinu hvort sem er,“ segir Þóroddur og spyr hvort það skipti máli hvort aflinn er unninn í Bolungarvík eða á Ísafirði. Með þessu væri snúið frá því að reyna að jafna stöðu sjávarbyggða innbyrðis, þeirra sem standa verst, en reynt að efla útgerð svæðisbundið sem kæmi þessum sömu byggðum til góða. Þessi svæðisbinding myndi fela í sér að að aflaheimildir gengju kaupum og sölum líkt og í stóra kerfinu. Munurinn væri sá að þeim fylgdu kvaðir um fullvinnslu á tilteknu vinnusóknarsvæði, litlu eða stóru. Lægra verð á slíkum kvóta myndi endurspegla meint óhagræði af dreifðari og smærri vinnslum og þannig gera þær samkeppnisfærar.

Þetta myndi þýða að svæðisbundnu heimildirnar yrðu í höndum þeirra sem sæju tækifæri til arðbærrar vinnslu á smærri svæðum en þær yrðu ekki seldar í burt. Þetta væri því eins konar markaðslausn á byggðavanda núverandi kerfis. Þetta ætti ekki aðeins við um stærri og öflugari svæðin, t.d. eru Djúpivogur og Borgarfjörður eystri skilgreind sem örsmá vinnusóknarsvæði sem fengju þá sínar svæðisbundnu heimildir. En samgöngubætur sem stækka og styrkja vinnusóknarsvæði myndu jafnframt leiða til svæðisbundinnar hagræðingar í sjávarútvegi. (ívitnun í umfjöllun Svavars Hávarðssonar í Fréttablaðinu í dag)

Þetta eru athyglisverðar hugmyndir hjá Þóroddi Bjarnasyni, sem vert er að kanna til hlítar. Önnur leið væri að eyrnamerkja hluta hressilegs veiðileyfagjalds til alvöru byggðaþróunaraðgerða.

Það er ófært að sjávarútvegi sé stýrt með hagsmuni útvegsmanna eina að leiðarljósi. Samfélög sjávarbyggðanna eiga líka rétt.

Og þjóðin öll á jú auðlindina…

 

Síðasti pistill: Útbrunnir Sjálfstæðismenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.5.2014 - 10:07 - FB ummæli ()

Útbrunnir Sjálfstæðismenn

Upplausnin í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík er alger. Nú hafa þeir beinlínis gefist upp í kosningabaráttunni. Eru bara farnir og hættir

Styrmir Gunnarsson, skýrasti stjórnmálagreinandi flokksins til margra áratuga, spyr einungis hvort rætt verði á opnum fundi í Valhöll um væntanlega niðurlægingu flokksins í borgarstjórnarkosningunum. Fátt er um svör.

Davíð Oddsson, sem hefur sakað borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna um dugleysi og linkind, er sá eini sem reynir að halda uppi einhverri baráttu, nú síðast með aðstoð Jóns Magnússonar lögfræðings.

Jón skrifaði smekklausa níðgrein um Jón Gnarr sem ritstjóri Staksteina tekur upp í Mogganum í dag og reynir að gera sér mat úr. Af því sprettur tal um að “dragdrottningin Jón Gnarr“ og Besti flokkurinn allur hafi ekki gert neitt á kjörtímabilinu! Dagur B. Eggertsson hafi ráðið öllu og sé því ábyrgur fyrir því sem miður hefur farið.

Og hvað er nú helst að í borginni, að mati ritstjórans?

“Samfylkingin undir forystu Dags ber því ábyrgð á stjórn borgarinnar. Nú þegar rignir sést t.d. vel hveru illa viðhaldi gatna hefur verið sinnt, en sumar götur eru beinlínis hættulegar til aksturs”, segir höfundur Staksteina-pistils dagsins.

Þar kom það, höggið sem vinnur kosningarnar fyrir Sjálfstæðismenn! Hviss, bang, búmm!!!

Nei annars, getur ekki einhver sæmilega klókur aðili hjálpað þeim Sjálfstæðismönnum að koma upp með eitthvað bitastæðara sem bítur betur?!! Þetta er eitthvað svo sorglega slappt.

Svo amast ritstjórinn líka við tímabærum og vinsælum áformum Dags og félaga um mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni.

Sjálfstæðismenn vilja að svokallaður “markaður” sjái um slíka uppbyggingu. Sá ágæti aðili hefur hins vegar ítrekað brugðist íbúum borgarinnar og landsins alls, bæði í húsnæðismálum og fjármálum almennt.

Stjórnmálamenn eiga að svara óskum og þörfum almennings, leiða saman gerendur og leita lausna. Mér sýnist að Dagur og hans fólk, sem og fólkið hans Jóns Gnarr í Bjartri framtíð, geri það með miklum ágætum núna.

Sjálfstæðismenn ættu hins vegar að fara í svona tíu ára frí, detox og endurhæfingu.

Þeir eru eins útbrunnir og hugsast getur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.5.2014 - 23:12 - FB ummæli ()

Andstæðingar ESB í stórsókn

Kosningum til Evrópuþingsins, sem lauk í kvöld, er lýst sem pólitískum jarðskjálfta í fjölmiðlum í Evrópulöndum. Forsætisráðherra Frakka, Manuel Valls, notar sömu lýsinguna, eftir að Front National (Þjóðarfylking Le Pen) hefur fengið mest fylgi þar í landi.

Andstæðingar eða gagnrýnendur Evrópusambandsins eru víðast í stórsókn, ekki síst í Frakklandi, Bretlandi, Danmörku og Grikklandi. Kannanir höfðu reyndar bent til slíkrar sveiflu.

Sumir munu kalla þetta kosningar þar sem “kynþáttahatarar” vinna mikla sigra í sumum Evrópulöndum.

Ég held þó að villandi sé að tala um kynþáttahatur í þessu sambandi. Það sem er að gerast í Evrópu er að sívaxandi hluti almennings er með efasemdir um fjórfrelsi Evrópusambandsins, ekki síst fullt frelsi til búferlaflutninga milli aðildarríkjanna.

Einnig eru vaxandi efasemdir um valdaframsal til ESB og ekki síður er víða mikil óánægja með viðbrögð ESB við kreppunni.

Þetta er líka kosning gegn kjaraskerðingu kreppunnar og niðurskurðarstefnu Þjóðverja og Evrópska seðlabankans (austerity policies).

Andstæðingar ESB fá víða hlutfallslega mikinn stuðning frá fólki í lægri starfsstéttum, fólki með minni menntun. Það er einmitt fólkið sem verður fyrir mestri samkeppni um störf frá innflytjendum. UKIP er sennilega orðinn mesti verkalýðsflokkurinn í Bretlandi.

Andstaða við innflytjendur er því í mörgum tilvikum viðbrögð við samkeppni um störf og ótti um að innflytjendur stuðli að lækkun launa, ásamt því að þeir leggi aukna byrði á aðþrengt velferðarríkið.

Slík andstaða við samkeppni frá innflytjendum þarf alls ekki að fela í sér kynþáttahatur.

Það sem virðist blasa við er að niðurstöður þessara kosninga munu geta haft umtalsverðar afleiðingar fyrir Evrópusambandið. Íhaldsmenn í Bretlandi munu þurfa að fá leikreglum ESB breytt, t.d. til að takmarka flæði innflytjenda til Bretlands. Sami þrýstingur kemur með meiri þunga frá Frakklandi en áður.

Aukið fylgi gagnrýnenda ESB á Evrópuþinginu mun einnig geta haft áhrif á framvindu Evrópusamstarfsins, þó aðildarsinnar verði áfram í meirihluta á Evrópuþinginu.

Kanski komið sé að því að grundvöllur fjórfrelsisins í Evrópusambandinu verði endurskoðaður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar