Sunnudagur 2.3.2014 - 12:54 - FB ummæli ()

Heillandi ópera Gunnars Þórðarsonar

Hin nýja ópera Gunnars Þórðarsonar, Ragnheiður, var sýnd í Hörpu í gærkveldi. Óperan byggir á rammíslenskri ástar- og örlagasögu Ragnheiðar biskupsdóttur í Skálholti, frá ofanverðri 17. öld. Friðrik Erlingsson samdi textann og Petri Sakari stjórnaði hljómsveitinni.

Sýningin var öll hin glæsilegasta, raunar stórbrotin og mjög áhrifarík. Enda fögnuðu óperugestir lengi og innilega. Þetta var mikill sigur höfunda og flytjenda.

Ætla hefði mátt að sagan um hin grimmu örlög Ragnheiðar væri þung og dapurleg – sem hún auðvitað er. En Gunnari Þórðarsyni tekst að vefja hana inn í svo heillandi tónlist að unun er á að hlýða. Texti Friðriks og tónlistin falla vel saman. Einvalalið einsöngvara og óperukórinn skiluðu þessu mikla listaverki óaðfinnanlega, í snjallri sviðmynd Grétars Reynissonar.

Gunnar Þórðarson hefur auðvitað fyrir löngu skapað sér sess sem stórmeistari íslenskrar dægurtónlistar. Nú brýtur hann blað í heimi klassískrar tónlistar á Íslandi, með þessu mikla verki.

Sem gamall Keflvíkingur hef ég fylgst með ferli Gunnars Þórðarsonar frá fyrstu tíð. Þó ég sé mjög ánægður með uppvaxtarárin í Keflavík þá verður að viðurkenna, að Keflavík var enginn sérstakur vettvangur hámenningar á þeim tíma. Þó fitjað væri upp á ýmsu þá voru óperur og sinfóníur varla partur af menningunni í plássinu.

Þetta var útvegsbær þar sem lífið var fiskur og strit. Mannlífið var nokkuð ófágað en óvenjulegt vegna nærveru bandaríska hersins á Miðnesheiðinni, sem almennt var ekki til neinnar sérstakrar siðeflingar. Biskupinn í Skálholti hefði fundið þar margt sem betur mátti fara!

Ég man eftir Gunna og Rúnari Júlíussyni félaga hans sem leigubílstjórum hjá hernum á Keflavíkurflugvelli. Það þóttu með skárri störfum fyrir unga stráka með nýfengið bílpróf – þeir voru á stórum gráum drossíum að keyra yfirmenn hersins um vallarsvæðið og næsta nágrenni. Það var flott þegar Íslendingar höktu um á Skódum, Lödum og öðrum fólksvögnum – og unnu í fiski.

Sem betur fer festust þeir félagar þó ekki í akstrinum eða fiskinum heldur fundu sköpunarþörf sinni útrás í hljómlistinni. Fyrir framtak Gunnars og félaganna í Hljómum náði Keflavík því að verða leiðandi á sviði dægurtónlistar á Íslandi um langt árabil, þó margir fleiri hafi lagt hönd á plóginn og bætt í flóruna. Talað var um “rokkbæinn Keflavík” og “Liverpool Íslands”. Þarna varð gróska.

Það er á sinn hátt með ólíkindum að mikill listamaður eins og Gunnar Þórðarson skyldi vaxa upp úr þessu frekar fábrotna umhverfi.

En það er á hinn bóginn saga Íslands og Íslendinga almennt. Hér gerast ólíkindalegir hlutir oft á tíðum, þó umhverfið virðist ekki sérstaklega örvandi eða styðjandi.

Þrátt fyrir slæma pólitík og krefjandi náttúruumhverfi brjóta einstaklingar sér leið. Stéttaskipting hefur verið blessunarlega lítill fjötur á framtak og tækifæri fólks, samanborið við mörg önnur samfélög. Samfélagið á Íslandi hefur þrátt fyrir allt verið verið opið og jákvætt.

Nú er ég kominn nokkuð af upphaflegri leið minni, en tilefnið var að taka ofan fyrir Gunnari Þórðarsyni og samstarfsfólki hans í óperunni.

 

Síðasta grein:  Ríkisstjórnin getur unnið – en tapar samt!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.2.2014 - 12:23 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin getur unnið – en tapar samt!

Það er dapurlegt að sjá ráðherra og þingmenn reyna að tala sig frá skýrum loforðum sínum um þjóðaratkvæði frá því í kosningabaráttunni í fyrra.

Það er hins vegar ekki að virka. Um 80% kjósenda vilja þjóðaratkvæði um framhald viðræðna og sá stuðningur virðist vaxandi.

Fólk sér í gegnum froðuna og skilur að ekki er verið að gæta lengri tíma hagsmuna Íslands með slitum viðræðna án niðurstöðu.

Afgerandi slit skilja eftir mikið tómarúm gagnvart forystu atvinnulífs og vinnumarkaðar og takmarkar tækifæri þjóðarinnar.

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar virðist tilkomin vegna harðdrægrar sérhagsmunagæslu LÍÚ-manna annars vegar og frussandi fávitaháttar í anda Heimssýnar hins vegar.

Það er engin skynsemi sem kallar á tafarlaus slit viðræðna án niðurstöðu.

Ríkisstjórnin getur unnið atkvæðagreiðslu á Alþingi um tafarlaus slit. Ég held að hún myndi þó tapa á því og standa veikari eftir.

Ef stjórnin fer sáttaleiðina um hlé og þjóðaratkvæði síðar styrkir hún stöðu sína en veikir stöðu þeirra einstrengingslegu og ofsafullu í sínum röðum.

Væri það ekki farsælla – bæði fyrir stjórnina og þjóðina?

 

Síðasti pistill: Tekjur innflytjenda og Íslendinga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.2.2014 - 15:50 - FB ummæli ()

Tekjur innflytjenda og Íslendingar

Mirra, Miðstöð innflytjendarannsókna, kynnti nýlega athyglisverða könnun Norrænu ráðherranefndarinnar á kjörum innflytjenda og heimamanna í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Osló (sjá hér).

Niðurstöðurnar benda til að Pólverjar hér á landi séu einungis með um 57% af meðallaunum í landinu, sem er lakara en í Kaupmannahöfn og Osló.

Um daginn birtir hins vegar Efling stéttarfélag tölur sem benda til að pólskir félagsmenn Eflingar (verkafólk) séu með um 14% hærri heildarlaun en íslenskt verkafólk.

Þetta virðist mótsagnakennt – en svo þarf þó ekki að vera.

Menn eru að bera saman ólík atriði. Í norrænu skýrslunni eru laun pólverja á Íslandi borin saman við meðallaun í landinu, en í tölum Eflingar eru borin saman heildarlaun verkafólks af pólsku og íslensku þjóðerni.

Pólverskir verkamenn vinna lengri vinnutíma og fá þannig hærri launatekjur en íslenskir stéttarbræður, jafnvel þó taxtalaun þeirra pólsku geti verið lægri.

Þegar laun innflytjenda eru borin saman við meðallaun í landinu hefur mikil áhrif sú staðreynd, að innflytjendur eru almennt meira í lægra launuðum störfum. Flestir þeirra eru verkafólk, en það gildir ekki um íslenskt launafólk almennt.

Vel þekkt er að innflytjendur vinna talsvert lengri vinnutíma en Íslendingar. Það jafnar heildartekjurnar, jafnvel þó taxtakaup geti verið ójafnt.

Hér að neðan eru tölur frá Eurostat um kaupmáttarjafnaðar ráðstöfunartekjur innflytjenda sem hlutfall af tekjum Íslendinga, frá 2004 til 2011. Það gefur góða heildarmynd að kjarastöðu innflytjenda í samanburði við Íslendinga.

Tekjur innflytjenda og Íslendinga

Fyrir hrun voru innflytjendur að saxa á heimamenn í ráðstöfunartekjum, fóru frá 83,6% af meðaltekjum Íslendinga árið 2004 og upp í rúm 90% árið 2006. Með hruninu drógust tekjur innflytjenda meira niður en Íslendinga og lækkaði hlutfall innflytjenda af tekjum Íslendinga því úr rúmlega 90% í 77% árið 2008.  Síðan þá hafa innflytjendur sótt lítillega á, voru komnir í um 81% árið 2011.

Samkvæmt þessu má búast við að ráðstöfunartekjur innflytjenda séu að jafnaði um 15-20% lægri en tekjur Íslendinga um þessar mundir.

Þetta er fyrir alla hópa innflytjenda og endurspeglar einkum áhrif af skipan innflytjenda í tekjulægri stéttir en almennt er meðal Íslendinga. Hugsanlegt er að innflytjendur séu á lægri töxtum en Íslendingar í sömu störfum (flest bendir til þess), en þeir geta unnið það upp með lengri vinnutíma.

Á heildina litið er kjarastaða innflytjenda sem sagt umtalsvert lakari en staða Íslendinga. Að sama skapi hefur atvinnuleysi verið meira meðal innflytjenda en Íslendinga í kreppunni, eins og ég hef áður sýnt (hér).

 

Nýlegur pistill: ESB:  Sátt um hlé er skynsamleg

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2014 - 21:25 - FB ummæli ()

Bjarni afneitar ESB-sinnum í Sjálfstæðisflokki

“Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei sækja um aðild að Evrópusambandinu”, sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag. Hátt og skýrt.

Þetta eru stórtíðindi.

Um 10-20% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir aðild að ESB og fleiri vilja klára aðildarviðræður og sjá hverju þær skila. Allt að þriðjungur stuðningsmanna flokksins er jákvæður gagnvart ESB eða vill kanna hvort sá valkostur gagnast Íslandi.

Umtalsverður hluti forystunnar í atvinnulífinu er í þeim hópi.

Loforðin um að framhald samningaviðræðna yrði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins tryggði Sjálftæðisflokknum áframhaldandi stuðning þessara aðila í kosningunum í fyrra.

Nú hafa þessir kjósendur flokksins ekki aðeins verið sviknir um þetta loforð, heldur er staðfest af formanninum að Sjálfstæðisflokkurinn muni aldrei sækja um aðild fyrir Ísland – sama hvernig allt fer.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn var hóflegri í afstöðu og gætti hagsmuna Íslands með sveigjanlegum hætti. Gerði sér far um að nýta tækifærin sem buðust.

Nú ræður ofstæki Hádegismóra og LÍÚ-greifanna – og einsýnu frjálshyggjugosanna.

Nýi Sjálfstæðisflokkurinn er annar en sá gamli!

Hvað hafa ESB-sinnaðir Sjálfstæðismenn nú að sækja til Sjálfstæðisflokksins? Þurfa þeir ekki að finna sér nýjan og sveigjanlegri vettvang?

 

Síðasti pistill: ESB – Sátt um hlé er skynsamleg

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2014 - 11:02 - FB ummæli ()

ESB: Sátt um hlé er skynsamleg

Ef stjórnvöld vilja tryggja sem best hagsmuni Íslands til lengri tíma þá setja þau aðildarviðræður formlega í bið, en slíta þeim ekki endanlega. Það eru fordæmi fyrir slíku, m.a. svissneska leiðin.

Slíkt hlé gæti staðið um langt árabil og á meðan er fleiri valkostum Íslands haldið opnum.

Þetta er skynsamleg leið vegna þess að við eigum svo mikilla hagsmuna að gæta í samskiptum við ESB. Á fjölmörgum sviðum.

Þetta er líka skynsamlegt vegna mikillar óvissu um framþróun á alþjóðavettvangi almennt og sérstaklega um framtíð Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem opnaði okkur tollfrjálsa leið inn á okkar mikilvægasta markað.

Það er líka mikil óvissa um framtíð krónuhagkerfisins íslenska.

Hluti af slíkri sáttaleið gæti einmitt verið það sem þingflokkur VG leggur til, að upptaka samningaviðræðna á ný gerðist ekki án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Það væri líka í samræmi við skýr loforð stjórnarflokkanna beggja fyrir kosningar – sem ella stefnir í að verði svikin.

Biðleiðin kemur líka til móts við skilaboðin sem koma frá forystumönnum atvinnulífsins – öðrum en útvegsmönnum.

Ef stjórnvöld vilja virkilega ná málamiðlun og gæta sem best hagsmuna Íslands til framtíðar þá fara þau þessa sáttaleið.

Eigum við ekki að gefa skynseminni meira vægi?

Stjórnarflokkarnir sem heild myndu stækka við þá niðurstöðu – en ofsamenn í röðum þeirra smækka.

Getur virkilega verið að einstrengingur og ofsi ráði för í þessu máli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.2.2014 - 21:18 - FB ummæli ()

“Ómöguleiki” Bjarna grefur undan lýðræðinu

Ég var að horfa á Bjarna Benediktsson í Kastljósi. Hann var órólegur og stóð sig illa.

Bjarni er augljóslega að svíkja loforð sín og flokksins fyrir kosningar, en segist samt vera einlægur í að vilja hlíta þjóðaratkvæðagreiðslum – en aðeins ef skilyrði séu rétt!

Hvað eru rétt skilyrði? Ekkert skýrt svar var við því.

Hins vegar segir Bjarni að það sé „ómöguleiki“ í stöðunni vegna þess að ríkisstjórnin öll sé andvíg aðild að ESB. Þess vegna sé ekki hægt að bjóða upp á þjóðaratkvæði um framhald málsins. Ríkisstjórnin myndi ekki framkvæma vilja þjóðarinnar ef hún vildi klára ferlið og fá svörin, eins og skoðanakannanir benda til. Það er enginn að tala um að segja já eða nei við aðild á þessu stigi, einungis hvort klára eigi samninginn.

Með öðrum orðum, það er einungis hægt að bjóða upp á þjóðaratkvæði ef ríkisstjórnin vinnur þá atkvæðagreiðslu. Það er inntakið í „ómöguleika“ Bjarna Benediktssonar.

Þetta er ansi innantómur skilningur á þjóðaratkvæðagreiðslum og lýðræði.

Ef stjórnvöld virða þjóðaratkvæðagreiðslur og þann vilja þjóðarinnar sem fram kemur í þeim, þá ber þeim skylda til að framkvæma niðurstöðuna.

Í besta falli gæti ríkisstjórn sem lendir algerlega upp á kant við þjóðina í slíkri atkvæðagreiðslu komist upp með að tefja eða fresta framkvæmd.

Ef ríkisstjórn neitar að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þá gefur hún skít í vilja þjóðarinnar. Beinlínis.

Það sem er að gerast nú er þess vegna vanvirðing á þjóðaratkvæðagreiðslum og lýðræði – gengisfelling niður í núll!

Þjóðaratkvæðagreiðsla er aðeins “möguleg” ef ríkisstjórnin vinnur kosninguna, samkvæmt þessum skilningi Bjarna.

Ef vinstri stjórnin hefði farið eins að varðandi Icesave-málið þá hefði hún væntanlega blásið fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna af þegar kannanir bentu til að vilji þjóðarinnar væri allt annar en vilji stjórnvalda.

Vinstri stjórnin bauð samt sem áður uppá þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirfram var vitað að gengi gegn áformum hennar um að klára samningaleiðina, en stjórnin virti samt niðurstöðuna að fullu.

Hvað sem efnislegri niðurstöðu þess máls líður að öðru leyti þá var það mun heiðarlegri umgengni við vilja þjóðarinnar en núverandi ríkisstjórn sýnir.

Skýr kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu eru nú svikin, eins og ekkert sé.

Þjóðaratkvæði er svo sagt fela í sér “ómöguleika” ef niðurstaðan gæti orðið ríkisstjórninni óþægileg.

Svo segist ráðherrann vera “einlægur” í vilja sínum til að lúta þjóðaratkvæðagreiðslum!

Hver eru heilindin í þeirri einlægni?

 

Síðasti pistill: Nú er ég sammála atvinnurekendum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.2.2014 - 14:50 - FB ummæli ()

Nú er ég sammála atvinnurekendum

Ég hef oft gagnrýnt atvinnurekendur fyrir hlut þeirra í hruninu og óbilgjarna og ósvífna hagsmunabaráttu á síðustu árum. Einnig fyrir það að greiða of lág laun til íslenskra launamanna.

Ég hef stundum vegið mjög harkalega að þeim, til dæmis fyrir kröfur þeirra um gegndarlaus fríðindi í skattamálum handa fyrirtækjum og fjárfestum. Slík fríðindi juku mjög ójöfnuð í íslensku samfélagi á árunum fram að hruni.

Gagnrýni mín hefur verið efnisleg og málefnaleg.

Nú er ég hins vegar sammála atvinnurkendum varðandi það, að skynsamlegt sé að klára samningaviðræður við ESB, til að hámarka tækifæri Íslands.

Ég verð eiginlega að hamra á þessu, fyrst ég hef svo oft gagnrýnt þá.

Atvinnurekendur benda á að slit samningaviðræðna og afturköllun umsóknarinnar takmarki valkosti Íslands í mikilvægum málum til framtíðar, t.d. í gjaldmiðilsmálum. Ég hef bent á fleiri hagsmunamál Íslands sem stefnt er í hættu með fyrirhugaðri afturköllun umsóknar, sem skilur allt eftir í óvissu.

Ég ítreka líka að ég er enginn sérstakur aðildarsinni. Vil einungis að aðildarsamningar séu kláraðir svo við getum byggt stefnu okkar á staðreyndum – en ekki á bulli, eins og nú er boðið uppá.

Rökréttast hefði því verið að setja aðildarviðræður í bið og halda mikilvægum valkostum áfram opnum.

 

Síðasti pistill: Tækifærum Íslands fækkað

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.2.2014 - 15:13 - FB ummæli ()

Tækifærum Íslands fækkað

Eitt það mikilvægasta í stjórnmálum og samskiptum þjóða er að safna bandamönnum og rækta tækifæri – í þágu eigin þjóðarhags og sameiginlegra hagsmuna.

Í hnattvæddum heimi nútímans skipta viðskipti og tengsl milli ríkja meira máli en nokkru sinni fyrr. Evrópa er mikilvægasti heimshlutinn fyrir hagsmuni Íslands, þó sjálfsagt sé að rækta einnig önnur tengsl.

Ég hef áhyggjur af því að það líti sérstaklega illa út í Evrópu að Ísland skuli ekki vilja fá svör við álitamálum varðandi aðildarsamning – hvernig hann gæti litið út, eftir að hafa klárað drjúgan hluta af ferlinu. Við kjósum frekar óvissu en traustar upplýsingar.

Bæði ESB og Ísland hafa lagt mikið fé, tíma og erfiði í samningssvinnuna. Nú er því kastað hálfkláruðu á glæ, til tjóns fyrir báða aðila.

Lúkning samningaferilsins var eina leiðin til að útkljá deilur um hvaða skilyrði og varanlegar sérlausnir fengjust með aðildarsamningi – sem hægt væri svo að taka upplýsta afstöðu til.

Það er án efa fátítt á Vesturlöndum að menn kjósi fremur fávisku en traustar upplýsingar í stóru hagsmunamáli þjóðar, eins og hér um ræðir.

Í ESB-ríkjum eru mikilvægustu útflutningsmarkaðir Íslands.

Seðlabankinn gerði vandaða og viðamikla úttekt á valkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum. Tveir kostir þóttu vera raunsæir: að hald áfram krónunni eða taka upp Evru með aðild að ESB.

Nú lokum við á annan af þessum tveimur valkostum og festum okkur við meingallaðan gjaldmiðil til áratuga í viðbót. Sama hvernig allt fer.

Margir bundu vonir við aðstoð frá ESB við afnám gjaldeyrishafta, í nafni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ekki greiðum við fyrir því með framferði okkar.

Raunar er framtíð samningsins um EES í óvissu og þar eigum við allt undir velvilja frá ESB í okkar garð. Við munum hafa mikla þörf fyrir margar og mikilvægar ívilnanir á þeim vettvangi á næstu árum.

Hjálpar það að sýna ESB fingurinn, eins og nú er gert, með viðræðuslitum án nokkurra ásteitingssteina í ferlinu?

 

Óttinn við fullkláraðan samning

Viðræðuslit á miðri leið skilja öll álitamálin eftir í óvissu. Hvað græðir Ísland á því?

Augljóslega ekkert.

Andstæðingar aðildar græða hins vegar það, að geta fullyrt áfram að aðild sé okkur óhagstæð – án þess að hirða nokkuð um staðreyndir eða að hafa látið á það reyna.

Sennilega vildu andstæðingarnir ekki klára viðræðurnar því þeir óttuðust að samningurinn yrði of hagstæður – of góður fyrir Ísland.

Enginn þurfti að óttast slæman samning, því hann hefði verið felldur umsvifalaust í þjóðaratkvæði.

Dapurlegt er að kjósa frekar óvissu og innihaldslaust karp en áreiðanlegar upplýsingar til að byggja framtíðina á.

Enn verra er þó að hafna því að rækta mikilvægustu tækifæri Íslands á klókan hátt.

Enginn vandaður bísnessmaður myndi fara svona að. Hví þá að fara svona með fjöregg þjóðarinnar allrar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.2.2014 - 12:40 - FB ummæli ()

Ofstæki gegn ESB

Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um stöðu ESB viðræðna kemur ekki fram með neitt nýtt. Raunar slær hún úr og í varðandi eitt stærsta ágreiningsmálið.

Í skýrslunni segir annars vegar að “ekki sé hægt að fá undanþágur” frá reglum ESB og hins vegar að hægt sé að semja um “varanlegar sérlausnir” sem ESB geti ekki breytt einhliða.

Í minni bók eru slíkar varanlegar sérlausnir það sama og undanþágur!

Eðlilega getur svona skýrsla því stutt málstað bæði aðildarsinna og andstæðinga. Eins og komið hefur á daginn.

Hins vegar rjúka andstæðingar þess að klára aðildarviðræður nú upp og vilja leggja fram tillögu um að slíta viðræðunum við ESB strax – sumir jafnvel áður en þeir voru búnir að lesa skýrsluna.

Það er í takti við ríkjandi einkenni á málflutningi andstæðinga þessara viðræðna. Þar hefur gætt of mikils ofstækis, forheimskunar og ýkjutals.

Hætta er á því að slíkur málflutningur og ótaktísk framkoma gagnvart ESB ríkjum skaði hagsmuni Íslands.

Við eigum jú gríðarlega mikið undir velvilja Evrópusambandsins komið, enda er þar okkar langstærsti markaður og margvísleg önnur tengsl.

Ef við ætlum að vera áfram á Evrópska efnahagssvæðinu munum við þurfa sækja að ESB með margvíslegum óskum um frávik og undanþágur á næstu misserum, meðal annars varandi gjaldeyrishöft sem verða hér augljóslega til langs tíma.

Við munum líka vilja fá að smygla okkur inn á svæði nýs fríverslunarsamnings milli ESB og USA, svo annað sé nefnt. Það gæti einungis heppnast með miklum velvilja ESB í okkar garð, því sá samningur er einungis fyrir aðildarríki ESB.

Við þurfum sem sagt á velvild ESB að halda og ættum því að hreyfa okkur varlega. Öll þing aðildarríkjanna samþykktu, hvert fyrir sig, að fara í aðildarviðræður við Ísland.

Ofstæki eins og hefur einkennt andstæðinga ESB er því ekki farsælt fyrir þjóðarhag okkar.

 

Síðasti pistill: Svar til Gylfa Arnbjörnssonar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.2.2014 - 21:21 - FB ummæli ()

Svar til Gylfa Arnbjörnssonar

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, sendir mér pirraðan tón á Pressunni í dag.

Erindið er að kvarta yfir skrifum mínum um kjarasamninga og nú síðast grein um aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna, fyrir og eftir þjóðarsáttarsamningana 1990.

Gylfi afbakar skrif mín og tilgang nokkuð og stillir svo upp tölum um launaþróun sem hann segir að gefi allt aðra og réttari mynd en tölurnar sem ég notaði.

Ég ætla hér að leiðrétta rangfærslur Gylfa um skrif mín og sýna að auki samanburði á hækkun kaupmáttar launavísitölunnar (í stað ráðstöfunartekna), fyrir og eftir þjóðarsátt – sem styður fyrri niðurstöður mínar.

Fyrst koma tvær leiðréttingar á rangfærslum Gylfa um skrif mín.

1. Gylfi segir að ég sé í uppgjöri við Þjóðarsáttarsamningana frá 1990 og reyni “að búa til einhver fræðileg rök fyrir því að launafólk sé betur statt í óðaverðbólgu og víxlverkan gengis, verðlags og launa”.

Þetta er kolrangt og frekar ósvífið. Ég tek sérstaklega fram í greininni að ég sé ekki að mæla með verðbólgu.

Þeir sem lesa grein mína á Eyjunni (hér) sjá að ég er einfaldlega að benda á, að raunveruleg aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna var meiri á tímabilinu frá 1960 til 1987 en á tímabilinu eftir þjóðarsáttarsamningana (1990-2007) – þrátt fyrir mikla verðbólgu á fyrra skeiðinu. Hverjar orsakir þess eru segi ég ekkert um og síst af öllu dettur mér í hug að verbólgan hafi sérstaklega leitt til kaupmáttaraukningar.

Það er greinilega ekki vanþörf á að birta þessar grundvallarupplýsingar fyrst margir virðist halda að kaupmáttaraukning heimilanna hafi verið meiri eftir þjóðarsáttarsamninga en fyrir þá – þegar staðreyndin er öndverð.

2. Loks skýri ég neðst í grein minni hvað felst í tölum um kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Þar má sjá að Gylfi fer með rangt mál þegar hann segir eftirfarandi:

“Það sem ekki kemur fram að fullu í þessum útreikningum er, að skuldsetning heimilanna í dag er margföld á við skuldsetninguna fyrir 1990 og þar af leiðandi eru áhrifin af þeirri miklu lækkun vaxta sem þó hefur orðið frá óðaverðbólguárunum mjög vanmetin.”

Greiðslubyrði af húsnæðislánum er inni í þeim tölum sem ég nota og því er ekki um slíkt vanmat að ræða, sem Gylfi nefnir.

 

Hvað segja tölurnar?

Loks birtir Gylfi tölur um kaupmátt dagvinnulauna verkakarla í Dagsbrún/Eflingu frá 1955 til 2013 og segir að þær gefi allt aðra niðurstöðu en ég fæ.

Ég myndi setja fyrirvara við notkun slíkra gagna um þróun launataxta tiltekinnar starfsstéttar á svo löngum tíma. Miklar breytingar geta orðið á notkun svona viðmiða, bæði vegna tilfærslna og yfirborgana, ekki síst á löngum tímabilum. Það skerðir gildi samanburðar yfir tíma.

Í staðinn hef ég reiknað kaumáttaraukningu launavísitölunnar, sem er meðalkaup launafólks. Það gefur betri heildarmynd af kaupmáttarþróun launafólks. Niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi mynd.

AUkning kaumáttar launavísitölu 1960-2013

Kaupmáttaraukningin var meiri á báðum tímabilum fyrir þjóðarsátt en eftir. Það voru vissulega miklu meiri sveiflur til beggja átta á verðbólgutímanum en á þjóðarsáttartímanum og því er val tímabila nokkuð viðkvæmt. Ef við byrjuðum t.d. árið 1961 í stað 1960 væri útkoman mun hagstæðari en myndin sýnir fyrir verðbólgutímann (2,6% á ári í stað 1,9% – fyrsta súlan á myndinni).

Það er vissulega rétt hjá Gylfa að stöðugleiki var meiri á þjóðarsáttartímanum og það skiptir miklu máli þegar skuldir eru verðtryggðar, eins og ég benti á í minni grein.

En niðurstaða mín stendur óhögguð, hvort sem notast er við ráðstöfunartekjur eða launavísitöluna.

Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna heimilanna var markvert meiri á verðbólgutímabilinu en á tíma þjóðarsáttar. Fleira en kauphækkanir skilaði þeim árangri, meðal annars aukin atvinnuþátttaka kvenna, eins og Gylfi bendir á, en einnig þróun bóta og skatta. Kaupmáttaraukning launavísitölunnar var líka meiri á verðbólgutímanum.

Það þýðir þó alls ekki að ég mæli með verðbólgu og stjórnlausum kauphækkunum, eins og Gylfi leyfir sér að bera á mig. Ég hef hins vegar lýst efasemdum um að fyrirliggjandi kjarasamningur ASÍ og SA skili einhverri kaupmáttaraukningu sem máli skiptir. Vera má að það skapi pirring.

Í staðinn hef ég mælt með verðtryggðum hóflegum kauphækkunum, sem væru innan þeirrar aukningar sem hagvöxtur leyfir – og því án verðbólguþrýstings.

Slík leið myndi færa okkur nær skandinavískum kaupmáttaraukningum en sú leið sem ASÍ hallast að.

Auk þess myndi hún legga ábyrgð af verðbólgunni á herðar atvinnurekenda og stjórnvalda – þar sem hún ætti frekar heima en á herðum almenns launafólks.

 

Síðasti pistill: Kaupmáttur fyrir og eftir þjóðarsátt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.2.2014 - 16:22 - FB ummæli ()

Kaupmáttur fyrir og eftir þjóðarsátt

Í umræðum um kjarasamninga er oft sagt að allir hafi tapað á verðbólguárunum og að með þjóðarsáttarsamningunum frá og með 1990 hafi kaupmáttur fyrst tekið að aukast, svo um munaði.

Það er rangt. Tölur um breytingu kaupmáttar heimilanna sýna annað.

Árleg aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna var meiri að jafnaði á verðbólguárunum frá 1960 til 1987 (5,3% á ári) en á tíma þjóðarsáttarinnar frá 1990 til 2008 (2,5%). Miklu munar.

Raunar náði kaupmáttaraukning hinna ósjálfbæru bóluára frá 2003 til 2008 ekki að fullu kaupmáttaraukningu tímabilsins 1960 til 1987 (5,1%).

Tímabilið frá 1960 til 1987 var því einstakt hvað bættan hag heimilanna á Íslandi varðar.

Árangur þjóðarsáttarinnar snéri hins vegar einkum að lækkun verðbólgunnar.

Þjóðarsáttartímabilið skilaði minni verðbólgu, en einnig minni aukningu kaupmáttar en verið hafði að jafnaði í nærri þrjá áratugi frá 1960.

Þetta má sjá á tveimur myndum hér að neðan. Sú fyrri sýnir samband breytingar á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna og verðbólgu frá ári til árs, frá 1955 til 2012.

Slide1

Hér má sjá að raunaukning kaupmáttar ráðstöfunartekna (gráu súlurnar) var flest árin frá 1960 til 1987 talsvert hærri en á árunum eftir 1990. Þrátt fyrir mikla verðbólgu jókst kaupmáttur heimilanna langmest á milli 1960 og 1987.

Fyrst eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir (1990) tók við samdráttur kaupmáttar eða stöðnun alveg til 1994 og í góðærinu frá 1995 náðist bara þokkalegur árangur – miðað við fyrra tímabilið.

Seinni myndin sýnir beinni samanburð á þremur tímabilum: verðbólgutímanum, tíma þjóðarsáttar og bóluhagkerfis.

Slide2

Verðbólguárin frá 1960 til 1987 voru sem sagt mesta framfaratímabil þjóðarinnar hvað snertir bæði hagvöxt og aukningu kaupmáttar heimilanna. Þjóðarsáttartímabilið frá 1990 og fram að hruni var umtalsvert lakari tími fyrir kaupmáttaraukningu, þó verðbólga væri vissulega minni.

Þetta eru staðreyndirnar.

Þetta þýðir ekki að ég sé að óbreyttu að mæla með verðbólgu. Helsti ókostur hennar er vegna verðtryggingarinnar, sem eykur skuldir heimilanna.

Það má hins vegar velta fyrir sér, á grundvelli þeirrar reynslu sem myndirnar sýna, hvort heimilin væru betur sett í dag án bæði verðtryggingar og þjóðarsáttar? Þetta hljómar þó líklega eins og helgispjöll í hugum sumra.

Ef þjóðarsáttarsamningar eiga í framtíðinni að verða eins og sá kjarasamningur sem nú liggur fyrir, þ.e. með lítilli sem engri kaupmáttaraukningu, þá verður þessi spurning meira og meira viðeigandi.

Dómur reynslunnar er sem sagt sá, að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst langmest á verðbólgutímanum frá 1960 til 1987.

Samt voru inni á því tímabili þrjár djúpar kreppur með kaupmáttarskerðingum (hrun síldarstofnsins 1968-9; alþjóðakreppa í kjölfar mikilla olíuverðhækkana 1974-5 og misgengisárin 1983-4). Þessar kreppur lækka meðaltal kaupmáttaraukningar, sem þó náði um 5,3% á ári að jafnaði.

————————–

Skýringar: Tölur um kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna ná til samanlagðra launa, skatta og bóta, auk greiðslubyrðar af húsnæðislánum. Þessar tölur gefa því heildstæða mynd af afkomuþróun heimilanna. Tölurnar eru, líkt og verðbólgutölurnar, reiknaðar árlega af Hagstofu Íslands (áður Þjóðhagsstofnun).

 

Síðasti pistill: Braskarar klófesta orkuveitu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.2.2014 - 20:13 - FB ummæli ()

Er bannað að gagnrýna Viðskiptaráð?

Menn fara mikinn í umfjöllun um kaffispjall Gísla Marteins við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, í morgun. Spjallstjórinn var óvenju hvass og þrasgjarn – ólíkt því sem var er hann ræddi við Bjarna Benediktsson um síðustu helgi.

Mér fannst ámælisvert við upplegg Gísla Marteins að hann virtist gefa sér að eitthvað væri athugavert við það, að forsætisráðherra gagnrýndi Viðskiptaráð í vikunni. Rétt eins og ráðherrann hefði spillt einhverri veislugleði í Sjálfstæðisflokknum!

Eins og menn muna þá hefur Viðskiptaráð verið eins konar útibú frá frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins.

Mér fannst það hins vegar góðs viti að forsætisráðherra skyldi gagnrýna Viðskiptaráð, enda ferill ráðsins frá því fyrir hrun sérstaklega ámælisverður. Nýjustu hugmyndir þeirra eru litlu skárri en áður.

Sama gilti um gagnrýni ráðherrans á Seðlabankann. Gísla Marteini virtist misboðið að sjálfur forsætisráðherrann hefði gagnrýnt bankann, t.d. fyrir hávaxtastefnuna og neikvæða nálgun á áform ríkisstjórnarinnar um skuldalækkun til heimilanna.

Eins og Friðrik Jónsson, hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington, hefur bent á, þá er alvanalegt að stjórnvöld gagnrýni Seðlabanka efnislega, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Það hefur ekkert með sjálfstæði seðlabanka að gera. Þeir eru ekki yfir gagnrýni hafnir, þó þeir búi við stjórnskipulegt sjálfstæði. Seðlabankar mega líka gagnrýna ríkisstjórnir.

Sigmundur Davíð gerði hins vegar þau mistök í þættinum að láta þessi og önnur upplegg Gísla Marteins fara um of í taugarnar á sér og fór að þrasa við hann um spurningarnar og túlkanir Gísla. Slíkt kemur yfirleitt ekki vel út í sjónvarpi.

Forsætisráðherra virðist almennt vera óþarflega viðkvæmur fyrir gagnrýni. Betra er að svara bara efnislega.

Ráðherrann á til dæmis ekki að vera að amast við gagnrýnum skrifum háskólamanna um landbúnaðinn. Við erum með einn mesta stuðning við landbúnað í heiminum og hátt matvælaverð. Það ber að ræð fram og til baka – í leit að betri lausnum.

Ég hvet því kollega mína í háskólasamfélaginu, ekki síst Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor, til að láta hvergi deigan síga á þeim vígstöðvum – né öðrum.

Látum staðreyndirnar tala sem mest og víðast.

Gagnrýni er leyfð í lýðræðissamfélaginu.

 

Síðasti pistill: Braskarar klófesta orkuveitu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.2.2014 - 13:06 - FB ummæli ()

Braskarar klófesta orkuveitu

Reykjavík Vikublað, sem er í ritstjórn Ingimars Karls Helgasonar,  er með athyglisverða umfjöllun í dag um innreið fjármálabraskara í grunnþjónustu samfélagsins á Suðurnesjum. Með því færist grunnþjónustan og arðurinn af henni frá samfélaginu til einkaaðila.

Þar er sagt frá kaupum Ursus I á stórum hlut í HS Veitum. Ursus er stýrt af Heiðari Má Guðjónssyni, fjárfesti og frjálshyggjumanni, fyrrverandi starfsmanni erlendra vogunarsjóða.

Þetta er nýjasti kaflinn í hrunsögu Orkuveitu Suðurnesja, sem áður var glæsilegt fyrirtæki í eigu íbúa svæðisins. Fyrirtækinu var skipt upp í HS Orku og HS Veitur fyrir hrun. HS Orka var seld til skúffufyrirtækisins Magna Energy, sem var í eigu tungulipurs braskara frá Kanada. Það fyrirtæki hefur síðan skipt um nafn.

Sú sala var réttlætt með því að kaupandinn ætlaði að koma með fé inn í fyrirtækið. Það reyndist rangt, enda þurfti seljandinn (Reykjanesbær) að lána honum fyrir kaupverðinu! Tær snilld!

Nú er sem sagt líka verið að koma sífellt stærri hluta af HS Veitum í hendur braskara.

Þessi vegferð öll á sennilega rætur sínar í því, að stjórnendur Reykjanesbæjar drekktu sveitarfélaginu og fyrirtækjum þess í skuldum, með “fjármálasnilli” sinni á áratugnum fyrir hrun. Telja sig nú þurfa að selja verðmætar eignir samfélagsins til að grynnka á óreiðuskuldunum.

Þjónar þetta hag almennings og íbúa á Suðurnesjum?

Nei, öðru nær.

Þarna er um að ræða einokunarfyrirtæki sem veita íbúum heitt og kalt vatn og rafmagn. Kostir samkeppnisrekstrar koma ekki við sögu í slíkum rekstri, því neytendur eru bundnir þessum fyrirtækjum. Einkavæðing slíkra félaga gefur eigendum veiðileyfi á neytendur.

Notendagjöldin munu hækka hressilega til lengri tíma.

Síðan er sú hlið málsins, að einkaaðilar og braskarar (jafnvel þó þeir starfi með aðstoð lífeyrissjóða) hafa ekkert nýtt fram að færa til slíks rekstrar.

Íslendingar hafa áratuga reynslu af uppbyggingu og rekstri orkuveita í almenningseigu. Það hefur gengið mjög vel og skilað miklum arði til sameiginlegra verkefna.

Það hefur einnig skilað heimilunum óvenju lágum kostnaði við hitun húsa og rafmagn, sem hefur gert Ísland byggilegra fyrir alla. Það er mikill árangur í landi þar sem allt er óvenju dýrt – nema húshitun og rafmagn.

Þarna er víti til að varast. Leiðinlegt er að sjá lífeyrissjóði greiða fyrir því að braskarar klófesti innviði samfélagsins með þessum hætti.

 

Síðasti pistill: Seðlabankinn:  Allar kjarabætur bannaðar!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.2.2014 - 18:18 - FB ummæli ()

Seðlabankinn: Allar kjarabætur bannaðar!

Mér hefur fundist Seðlabankinn gera margt ágætlega á síðustu árum. Skýrsla bankans um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum var t.d. vandað plagg og reglubundnar skýrslur hans um peningamál og fjármálastöðugleika hafa mikið upplýsingagildi.

Ég hef hins vegar meiri efasemdir um inngrip bankans í stefnumótun, bæði á sviði skuldalækkunar og kauphækkana.

Seðlabankinn hefur tekið að sér að vara mjög ákveðið við kauphækkunum í kjarasamningum og hann hefur einnig lagst gegn tillögum ríkisstjórnarinnar um skuldalækkun til heimilanna.

Ég er sammála rökum Marinós Njálssonar og Friðriks Jónssonar, en þeir gagnrýna vaxtastefnu og málflutning bankans um áhrif hóflegra skuldalækkana til heimilanna um 20 milljarða á ári næstu 4 árin.

Marinó bendir á að tilefni bankans til viðvarana vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skuldalækkanir séu verulega ýkt og órökrétt, þegar hliðsjón er höfð af miklu stærri skuldalækkunum til bæði heimila og fyrirtækja á síðasta kjörtímabili. Miklu stærri.

Friðrik sýnir glögglega að ekki er rökrétt samhengi í vaxtastefnunni.

Bankinn virðist hafa bitið það í sig að fátt sé hættulegra en kaupmáttaraukning heimilanna, hvort sem er vegna skuldalækkunar eða kauphækkana. Þeir vilja festa þjóðina í kjaralægð kreppunnar.

Þeir virðast líka fastir í hávaxtastefnu – þó verðbólgan lækki. Þetta er ekki sjálfsögð hagfræði.

Það var hagvöxtur í fyrra og verður áfram á þessu ári og bankinn spáir um 3,5% hagvexti á næsta ári. Samt vilja þeir keyra í gegn stöðnun kaupmáttar heimilanna. Það er ekki boðlegt að kaupmáttur fylgi ekki hagvexti.

Seðlabankinn virðist sem sagt vera að berjast fyrir því, að hagvöxturinn þessi árin renni allur til fyrirtækjanna, þar á meðal til braskaranna sem settu þjóðarbúið á hausinn.

Þetta er ógæfuleg stefna.

 

Síðasti pistill: Vantar unga fólkið enn meiri skuldir?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.2.2014 - 14:39 - FB ummæli ()

Vantar unga fólkið enn meiri skuldir?

Á árunum fyrir hrun voru Viðskiptaráð og frjálshyggjufólkið í Sjálfstæðisflokknum eins og samhljóða kór. Boðuðu bandaríska öfgafrjálshyggju og höfðu mikil áhrif á ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs.

Hældu sér svo af því að hafa fengið um 93% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum bóluáranna!

Stefnan leiddi hins vegar til hrunsins og kreppunnar í kjölfarið. Lagði skuldabagga á þjóðarbúið sem við munum bera langt inn í framtíðina.

Þrátt fyrir hrunið hefur Viðskiptaráð ekkert lært og engu gleymt.

Þeir eru enn að þylja sömu þulurnar.

Nú vilja þeir aukin skólagjöld í ríkisháskólum og víðar. Gera hlutdræga könnun til að magna stuðning við málið. Sjálfstæðismaðurinn sem ritstýrir Fréttablaðinu tekur svo undir í leiðara.

Þeir telja alvöru skólagjöld, eins og í Bandaríkjunum, leysa allan vanda skólakerfisins.

Það hvarflar hins vegar ekki að þeim að skoða galla skólagjaldanna.

Reynslan frá Bandaríkjunum kennir okkur t.d. að há skólagjöld aftra fólki úr milli og lægri stéttum aðgengi að góðu háskólanámi. Aðrir drukkna í skuldum og fá svo ekki sjálfkrafa störf við hæfi að námi loknu.

Er það eftirsóknarverð staða fyrir ungt fólk – að byrja starfsferilinn með enn meiri skuldir en nú er?

Er skuldavandi ungs fólks og foreldra þeirra á Íslandi ekki nógu mikill fyrir?

Viljum við ekki sem jöfnust tækifæri allra til náms?

Hvernig væri að Viðskiptaráð og frjálshyggjukórinn reyndu nú einu sinni að sjá hlið stúdenta og almennings á málinu?

Best væri þó ef Viðskiptaráð myndi einbeita sér að því að bæta siðferði í viðskiptalífinu og auka framleiðslu og þjónustu – en léti öðrum eftir að móta stefnu í menntamálum.

 

Síðasti pistill: Sjálfstæðismenn telja sig eiga Ísland

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar