Fimmtudagur 24.5.2018 - 16:33 - FB ummæli ()

Burt með bruðlið

Á fundi borgarstjórnar 20. mars sl. óskaði ég eftir því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri upplýsti um launakostnað Reykjavíkurborgar vegna þeirra fulltrúa stjórnmálaflokka sem hafa setið í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar á kjörtímabilinu. Spurningin er skýr og því á að vera auðvelt að svara henni.  Svörin hefðu hins vegar leitt í ljós að kostnaður borgarinnar vegna fulltrúanna er verulegur og að í hópi fulltrúanna eru fjölmargir vinir borgarstjóra.

Gæðingar í húsi borgarstjóra
Nú hafa verið haldnir fjórir borgarstjórnarfundir án þess að borgarstjóri hafi svarað fyrirspurn minni.  Lesendur blaðsins þurfa ekki að velkjast í vafa um ástæðu þagnarinnar.  Það hentar ekki borgarstjóra að svara fyrir kosningar.  Þeir eru nefnilega ófáir gæðingarnir sem borgarstjóri hefur á húsi.

Nýir vendir sópa best
Kostnaður við stjórnsýslu borgarinnar hefur blásið út á kjörtímabilinu.  Það er ekki ókeypis að stofna á fjórða hundrað ráð og nefndir til að móta stefnu borgarinnar.  Sífellt fellur til meiri kostnaður vegna bitlinganna.  Veljum fulltrúa Borgarinnar okkar – Reykjavík til að taka til í rekstri borgarinnar.  Veljum X-O í kosningunum 26. maí nk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 23.5.2018 - 08:50 - FB ummæli ()

Burt með snjallsíma

Fyrr á þessu ári lagði ég fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að nemendum yrði bannað að nota snjallsíma í skólum borgarinnar. Tillagan var felld með fjórtán atkvæðum gegn einu. Sumir þeirra sem greiddu atkvæði gegn tillögunni töldu að hún væri of víðtæk. Aðrir töldu að hún fæli í sér forræðishyggju því með henni væri gripið fram fyrir hendurnar á kennurum, skólastjórnendum og foreldrum.

Áhrifin í skólastofunni

Við þekkjum flest hve notkun snjallsíma geta verið ávanabindandi.  Snjallsímar hafa ekki minni áhrif á börnin okkar. Þegar skoðuð eru áhrif snjallsíma á nemendur staðfesta rannsóknir að það nægir að einn nemandi grípi til símans til að kennarinn og aðrir nemendur finni fyrir truflun af þeim sökum.  Nýlegar rannsóknir staðfesta jafnframt að áhrifin eru ekki takmörkuð við beina notkun nemenda á símanum heldur nægir að þeir taki símann með sér í skólann. Ástæðan er sú að mörg börn, líkt og fullorðnir, eru ánetjuð því að fylgjast með skilaboðum og myndböndum sem þeim berast í símann. Þau eru því „upptekin“ við að einbeita sér að því að fylgjast ekki með því sem bíður þeirra í símanum. Ég tel þess vegna að tillaga um algert bann við notkun snjallsíma sé ekki of víðtæk. Í mínum huga blasir það einfaldlega við að banna á notkun snjallsíma í skólastofunum.

Frumkvæði skólayfirvalda skortir

Í samtölum mínum við kennara hafa þeir staðfest að símarnir trufli kennslu og að nemendur séu margir hverjir háðir símunum. Athyglisbrestur sé sívaxandi vandamál. Kennararnir segja skólastjórnendur vilja taka á málunum, en aftur á móti sé beðið eftir frumkvæði skólayfirvalda.

Erlendar kannanir benda jafnframt til þess að stór hluti foreldra sé mótfallinn því að börn taki snjallsímann með í skólann. Foreldrarnir telja hins vegar að frumkvæðið verði að koma frá skólayfirvöldum.  Erfitt sé að útskýra fyrir barninu að það megi ekki taka símann með eða nota hann í skólanum þegar það bendi á móti á að önnur börn geri það athugasemdalaust.

Tökum frumkvæðið

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í borgarstjórn sýnir að þeir flokkar sem þar eiga fulltrúa skortir af einhverjum ástæðum kjark til að taka á málinu.  Ég hvet þess vegna alla þá sem vilja að tekið sé á málinu að velja X-O fyrir BORGINA OKKAR í borgarstjórnarkosningunum 26. maí nk.  Við munum ekki láta okkar eftir liggja.

Höfundur er oddviti Borgarinnar okkar – Reykjavík.

(greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2018)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.5.2018 - 09:05 - FB ummæli ()

Engar eyðsluklær í borgarstjórn

Þeir sem hafa komið nálægt rekstri fyrirtækja gera sér grein fyrir mikilvægi þess að allar ákvarðanir um fjárfestingar og útgjöld séu vel ígrundaðar.  Rangar ákvarðanir geta verið dýrkeyptar og komið í veg fyrir vöxt og viðgang fyrirtækisins.  Hið sama á við um ákvarðanir í rekstri sveitarfélaga.  Það hefur því reynst mörgu sveitarfélaginu happadrjúgt þegar sá sem stendur í brúnni hefur þurft að hafa fyrir hlutunum í lífinu, er hagsýnn og gerir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að fara með fé annarra.  Eyðsluklær eiga ekki að koma nálægt rekstri sveitarfélaga.

Skuldirnar hækkað um meira en 50%

Að undanförnu hef ég vakið athygli á óhóflegri skuldasöfnun A-hluta borgarsjóðs.  Í borgarstjóratíð Jóns Gnarr hækkuðu skuldirnar lítið milli ára. Skuldirnar námu 57 milljörðum kr. í árslok 2011, 61 milljarði kr. í árslok 2012, 62 milljörðum kr. í árslok 2013 og tæpum 65 milljörðum kr. í árslok 2014.  Eftir að Dagur tók við stjórnartaumunum tóku skuldirnar hins vegar stökk upp á við.  Þannig námu þær 81 milljarði kr. í árslok 2015, 84 milljarði kr. í árslok 2016 og 100 milljörðum kr. í árslok 2017 (miðað við útkomuspá sem kynnt var 5. desember sl.). Fyrsta heila starfsárið eftir að Dagur tók við hækkuðu skuldirnar því um 25% eða 16 milljarða kr.  Fyrstu þrjú heilu starfsárin hækkuðu þær hins vegar um meira en 50% eða 35 milljarða kr.  Það þarf óstjórn til að ná slíkum árangri.

Ég er stoltur þegar ég horfi yfir reikningana

Þegar Dagur er spurður út í fjárhagsstöðu borgarinnar vill hann aldrei ræða um þann hluta borgarsjóðs sem hann stýrir.  Hann vill bara ræða um Orkuveituna.  Í sjónvarpsþættinum Kjarnanum 18. apríl sl. var Dagur spurður að því hvernig hann brygðist við þeirri gagnrýni að óráðsía væri í rekstri borgarinnar.  Dagur var fljótur til svars og kvað viðsnúning“ hafa náðst í rekstrinum og vísaði í því sambandi til þess mikla viðsnúnings sem hafi náðst í rekstri Orkuveitunnar.  Kvað hann ársreikning Reykjavíkurborgar 2017 sýna áframhaldandi styrka stjórn og sterka stöðu.  Þetta væru hins vegar ekki nýjar fréttir fyrir þá sem fylgdust með fjármálum borgarinnar.  Kvaðst Dagur vera stoltur þegar hann horfði yfir reikningana.  Var Dagur ekki krafinn frekari skýringa af þáttastjórnanda Kjarnans enda tengsl fjölmiðilsins við forystumenn Samfylkingarinnar kunnari en frá þurfi að greina.

Í svörum Dags birtast helstu ástæður þess að stjórnmálamenn missa virðingu kjósenda.  Í fyrsta lagi reynir Dagur að beina athyglinni frá því sem fram kemur í ársreikningum borgarinnar þegar hann svarar málefnalegri gagnrýni með innihaldslausum frösum um viðsnúning, styrka stjórn og sterka stöðu.  Í öðru lagi skreytir hann sig með stolnum fjöðrum, ef fjaðrir skildi kalla, þegar hann eignar sér þann árangur sem náðst hefur í endurskipulagningu á fjárhag Orkuveitunnar.  Enda þótt Jón Gnarr hafi ekki haldið þétt um stjórnartaumana í borgarstjóratíð sinni var það Besti flokkurinn, en ekki Dagur, sem hafði forgöngu um að taka til í rekstri Orkuveitunnar.  Gjaldskráin var hækkuð og viðskiptavinir fyrirtækisins greiddu reikninginn.  Í úttekt Viðskiptablaðsins á árinu 2016 var bent á að á fimm árum hafi raforkuverð Orkuveitunnar hækkað um 48% á meðan vísitala neysluverðs hafi aðeins hækkað um 23%.

Áfram seilst í vasa Reykvíkinga

Því miður staðfesta ársreikningar Reykjavíkurborgar að Dagur tilheyrir þeim hópi stjórnmálamanna sem er ekki treystandi til að fara með opinbert fé. Það eru að minnsta kosti ekki margir sem kalla það styrka stjórn þegar skuldir aukast og eigið fé dregst saman.  Í stað þess að taka til í rekstri A-hluta borgarsjóðs ætlar Dagur að láta viðskiptavini Orkuveitunnar greiða fyrir kosningaloforð sín. Þegar Dagur kynnti loforð Samfylkingarinnar kvaðst hann ætla að ráðast strax í uppbyggingu á svonefndri Borgarlínu sem talið er að kosti á bilinu 70-150 milljarða kr.  Þá skyldi Miklabraut fara í stokk, strax!  Hann mun þá væntanlega að drífa í að moka burt veggnum sem hann lét reisa meðfram Miklubraut við Klambratún síðasta sumar.

Nýtt framboð: BORGIN OKKAR – REYKJAVÍK

Sívaxandi skuldir A-hluta borgarsjóðs tala sínu máli um fjármálastjórn Dags B. Eggertssonar. Ég trúi því að kjósendur vilji borgarfulltrúa sem eru ábyrgðarfullir og duglegir, sýna áræðni og ráðdeild og umfram allt fulltrúa sem eru skynsamir. Það eru þau gildi sem ég tel mest um verð.  Í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí nk. býð ég mig fram sem oddviti fyrir nýtt framboð, BORGINA OKKAR – REYKJAVÍK.  Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn.  Í því felst að lausnirnar séu raunhæfar en setji ekki myllustein um háls útsvarsgreiðenda á komandi áratugum.

(greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 15.5.2018 - 17:07 - FB ummæli ()

Skítug strönd í Reykjavík.

Á síðasta ári bilaði neyðarloka í dælustöðinni við Faxaskjól með þeim afleiðingum að í tæpar þrjár vikur streymdi óhreinsað skólp í sjóinn við Ægissíðu. Almenningi var hins vegar ekki greint frá biluninni fyrr en fréttir fóru að spyrjast út um óþrifnað í flæðarmálinu. Erfiðlega gekk að ná í Dag B. Eggertsson borgarstjóra enda vissi hann upp á sig skömmina. Dælustöðvarnar eru komnar til ára sinna og höfðu líka bilað á árunum 2014 og 2015.

Endurnýjun óhjákvæmileg

Í ágætri grein sem Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, ritaði í Fréttablaðið á sumardaginn fyrsta fjallar hann um fráveitukerfið sem var endurnýjað fyrir fjörtíu árum. Kveður Bjarni sýn okkar á umhverfismál hafa tekið stakkaskiptum síðan þá og segir meðal annars: Fráveitukerfið er barn síns tíma og sem dæmi má taka að dælustöðvarnar tíu eru allar þannig að stöðvist dælurnar, til dæmis vegna rafmagnsleysis eða bilunar, þá opnast neyðarrás sem hleypir skólpinu beint í sjóinn, óhreinsuðu. Sama á við ef stöðva þarf dælingu vegna viðhalds eða endurbóta. Það er enginn varabúnaður sem tekur við. Ef neyðarrásin hleypti ekki skólpinu til sjávar myndi hækka í öllum lögnum og skólpið kæmi upp um klósett og niðurföll í þeim húsum sem lægst standa.“ Er augljóst að Bjarni kallar eftir skýru umboði frá stjórnmálamönnum til að ráðast í endurnýjun á fráveitukerfinu.

Aðeins „áform“ um hreinar strendur

Nútíma dælustöðvum er ekki aðeins ætlað að halda strandlengjunni hreinni heldur jafnframt til að síja frá efni, svo sem örplast, sem við viljum alls ekki að fari í hafið. Ætla mætti að vilji væri til þess að samþykkja að ráðast nú þegar í endurnýjun dælustöðvanna. Svo er hins vegar ekki. Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag hélt Dagur B. Eggertsson borgarstjóri áfram að tala um „áform“ borgarinnar um hreinar strendur og „framtíðarsýn“. Engar ákvarðanir voru teknar um endurnýjun fráveitukerfisins.

Vildu frekar ylstrendur

Á borgarstjórnarfundinum voru hins vegar til umræðu tillögur Dags um tvær nýjar ylstrendur í Reykjavík. Eina við Skarfaklett og aðra við Gufunes. Á fundinum lýsti ég þeirri skoðun minni að nauðsynlegt væri að forgangsraða og að ég vildi sjá fjármunum varið í að laga fráveitukerfið og dælustöðvarnar, sérstaklega með tilliti til örplastmengunar, áður en ráðist yrði í að útbúa nýjar ylstrendur. Þær gætu komið síðar. Það sorglega er að Dagur hafði sitt í gegn og að fulltrúar allra flokka, þar á meðal Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna, voru þessu samþykkir. Hver vill vera á móti ylströndum?

(grein þessi birtist fyrir í Morgunblaðinu)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.5.2018 - 11:18 - FB ummæli ()

Hvar eru Reykjavíkurhúsin Dagur?

Í síðustu kosningabaráttu lofaði Dagur B. Eggertsson Reykjavíkurhúsum.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1504555/

Hann fór í fjölmörg viðtöl, talaði við kjósendur, lofaði kjósendum, kynnti stefnu sína í þessum málum.

Ætlunin var að embættismenn borgarinnar, ásamt framkvæmdastjóra Félagsbústaða, ynnu tillögur að fjárhagslegum forsendum og frekari umgjörð verkefnsins. Grunnforsenda var að útfærslan stæðist viðmið Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um félagslegt hlutverk hins opinbera á húsnæðismarkaði.  Hugmyndin var að  í hverju húsi yrði lögð áhersla á fjölbreytni einstaklinga og fjölskyldugerða á ólíkum lífsskeiðum, með ólíkan bakgrunn, eins og það er orðað.

Í dag, 7. maí 2018 hefur EKKERT Reykjavíkurhús risið.

Borgarstjóra virðist í lófa lagið að draga upp úr hattinum kosningaloforð sem að ekki er hægt að framkvæma því að lög heimila það ekki.  Miklabraut í stokk strax er eitt af þeim verkefnum, því hún er háð umhverfismati sem aldrei næst í gegn.

Dagur hvar eru Reykjavíkurhúsin?

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.5.2018 - 12:29 - FB ummæli ()

Launakjör borgarfulltrúa – svar óskast fyrir kosningar!

Það er óneitanlega furðulegt, að það taki hátt í tvo mánuði að svara fyrirspurn minni um launakjör borgarfulltrúa.  Ég hefði haldið að um einfalda keyrslu úr bókhaldskerfi borgarinnar væri að ræða. Þegar dráttur er á svörum, þá spyr ég mig hvað valdi?

Við eigum rétt á að fá upplýsingar.
Um það erum við sammála.

20. mars sl. óskaði ég eftir upplýsingum um heildarlaunakostnað ásamt launatengdum gjöldum hvers stjórnmálaflokks á þessu kjörtímabili.

Ég vil fá svarið sundurliðað fyrir árin 2015,2016 og 2017.

Ég vil líka fá að vita um bitlingana, sbr. „Þá skal sundurliðað hversu margir einstaklingar þiggja launagreiðslur fyrir pólitíska setu sína í nefndum og ráðum sundurliðað eftir stjórnmálaflokkum“

Ég vil fá launakjör borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og annarra flokkstengdra aðila upp á borðið.

Þetta vil ég fá svar við fyrir kosningarnar 26. maí 2018.

https://reykjavik.is/fundargerd/borgarstjorn-20032018

Höfundur er borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík sem býður fram í komandi borgarstjórnarkosningum.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , ,

Mánudagur 30.4.2018 - 10:57 - FB ummæli ()

Höfðinu stungið í sandinn

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla í Reykjavík, hefur náð frábærum árangri í starfi og nýtur virðingar meðal skólastjórnenda, kennara og foreldra.

Á forsíðu Morgunblaðsins sl. miðvikudag er greint frá því að Jón Pétur hafi ákveðið að hætta eftir tuttugu ára farsælt starf í skólanum. Í viðtali Morgunblaðsins við Jón Pétur kveður hann skort á faglegu samtali og skeytingarleysi skólayfirvalda í Reykjavík í garð skólanna eiga þátt í því að hann ákvað að hætta.

Ekki krafist grunnþekkingar

Gagnrýni Jóns Péturs beinist meðal annars að því að í aðalnámskrá og menntastefnu Reykjavíkurborgar sé ekki minnst á hugtakið þekkingu: Það er ekki talað um ákveðna grunnþekkingu í þessum plöggum, þannig að skólum er í sjálfsvald sett hvað þeir kenna og fyrir vikið koma námsbækurnar til með að stýra meira og minna því sem er kennt. Og Jón Pétur heldur áfram: Í staðinn er alltaf verið að hamra á hugtökum eins og sköpun, gagnrýnni hugsun og frumkvæði en þau lifa ekki í tómarúmi. Til að vera með gagnrýna hugsun þarf að skilja hvað er verið að fjalla um og til þess þarf þekkingu. Jón Pétur kveðst hafa reynt að ræða þetta við Helga Grímsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, og Skúla Helgason, formann skóla- og frístundaráðs, og spurt hvort þeir héldu að hæfni byggðist ekki á undirliggjandi þekkingu. Hann hafi hins vegar afar fá svör fengið og engin frá pólitíkinni.

Misskilningur og ofurtrú

Þessi lýsing Jóns Péturs á samskiptum sínum við skólayfirvöld kemur heim og saman við þau svör sem hann fékk frá Skúla Helgasyni á borgarafundi um skólamál sem fram fór 12. apríl sl. Á fundinum vék Jón Pétur að tregðu skólayfirvalda til að líta til niðurstaðna PISA-kannana, en borgin hefur sem kunnugt er þverskallast við að gera opinberlega grein fyrir niðurstöðum þeirra. Kvaðst Jón Pétur hafa þurft að ýta á að borgin aflaði upplýsinga um niðurstöðurnar og sjálfur þurft að fara til Menntamálastofnunar í því skyni. Svar Skúla var að þetta væri „misskilningur“ hjá Jóni Pétri.

Jón Pétur benti á að niðurstöðurnar væru nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til að þeir gætu áttað sig á því hvað væri gert vel og hvað mætti gera betur. Því miður væri rætt um niðurstöður PISA-kannana eins og „dægurmál“ í menntastefnu borgarinnar. Skúli kannaðist heldur ekki við þetta. Á fundi borgarstjórnar 8. mars 2017 töldu Dagur B. Eggertsson og Skúli engu að síður tilefni til að bóka að ástæðulaust væri að hafa „ofurtrú“ á gildi PISA-kannana. Engu virtist skipta þótt skólastjórnendur bentu á að 20% nemenda gætu ekki lesið sér til gagns.

Skólastjórnendur grátbiðja um samtal

Viðbrögð skólayfirvalda við óskum skólastjórnenda eru þyngri en tárum taki. Það er ábyrgðarhluti að semja menntastefnu sem gerir ekki kröfu um grunnþekkingu. Það er ábyrgðarhluti að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir faglegu samtali um slíka menntastefnu. Það er ábyrgðarhluti að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir samtali til að finna betri lausnir á þeim viðfangsefnum sem eru til komin vegna stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Og það er kjarkleysi að hlusta ekki þegar skólastjórnendur óska eftir samtali til að ræða agavandamál í skólum og notkun nemenda á snjallsímum í skólastofum.

Skoðum hvað má gera betur

Það er hlutverk skólayfirvalda að hlusta á ábendingar skólastjórnenda og kennara og finna lausnir með þeim. Það er hins vegar ekki hlutverk skólayfirvalda að koma í veg fyrir að upplýsingar um árangur í einstökum greinum, sundurgreindar eftir skólum, séu birtar opinberlega. Hlustum á skólastjórnendur. Skoðum hvað er gert vel og hvað má gera betur. Tíminn sem börnin eru í skólanum kemur aldrei aftur. Það er ábyrgðarhluti að láta árin líða án þess að nokkuð sé að gert.

(grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. apríl 2018)

 

Höfundur er oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík og borgarfulltrúi 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , ,

Miðvikudagur 25.4.2018 - 16:13 - FB ummæli ()

Á Reykjavíkurborg að banna snjallsíma í grunnskólum?

Fjölmargar vísbendingar eru um að snjallsímar geti haft neikvæð áhrif á athygli, þroska og andlega heilsu barna og ungmenna. Niðurstöður rannsókna staðfesta að þeir nemendur sem hafa aðgang að síma í skólastofunni telja almennt að það efni sem þeir geta nálgast í símanum sé áhugaverðara en námsefnið, að þeir eiga erfiðara með að halda athyglinni á því sem kennarinn segir, að þeir eyða minna tíma en áður í að vinna með námsefnið, að þeir fá lægri einkunnir og að þeir eru óánægðari með frammistöðu kennarans en þeir sem fá ekki að hafa símann með sér. Eru þessi áhrif einkum tengd við notkun nemenda á samfélagsmiðlum.

Ávani og kvíði

Snjallsímar eru ávanabindnandi. Öppin í þeim eru hönnuð með það að markmiðið að notandinn verði háður þeim. Íslenskar rannsóknir hafa leitt líkur að því helstu ástæður kvíðaaukningar megi tengja við hraðari lifnaðarhætti og snjalltækjavæðingu síðustu ára.

Einelti

Einelti hefur að miklu leyti færst frá persónulegum samskiptum yfir í samskipti í netheimil. Það vita allir sem koma nálægt uppeldi barna. Snjallsímabann í grunnskólum er í senn geðheilbrigðismál, lýðheilsumál og menntamál.

Það er því hlutverk Reykjavíkurborgar að styðja við skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra með því að banna snjallsíma í grunnskólum borgarinnar, á öllum tímum sem og í frístundastarfi. Með því leyfum við börnunum að njóta vafans.

Höfundur er borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar í Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.

Grein þessi birtist fyrst í Breiðholtsblaðinu 25. apríl 2018.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 17.4.2018 - 17:25 - FB ummæli ()

Breytt vaktafyrirkomulag og aukin lífsgæði

Á borgarstjórnarfundi í dag, þriðjudaginn 17. apríl 2018, var tekin fyrir tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa, þar sem skorað var á borgarstjóra að eiga frumkvæði að samtali milli Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðherra, forstjóra Landsspítala og stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks, um að kanna hvort breyta megi vaktafyrirkomulagi á Landspítalanum til að stytta ferðatíma heilbrigðisstarfsfólks til og frá vinnu.  Með breyttu vaktafyrirkomulagi mætti jafnframt stytta ferðatíma annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu á háannatíma.

Þessari tillögu var vísað til umhverfis – og skipulagsráðs.

Alkunna er að gatnakerfi borgarinnar ræður ekki lengur við álagið á háannatímum með þeim afleiðingum að miklar tafir verða á umferð.  Landspítali er stærsti vinnustaður landsins en þar starfa á sjötta þúsund starfsmenn.  Vaktafyrirkomulag á sjúkrahúsinu er með þeim hætti að upphaf og lok dagvakta er á háannatímum.  Dagvaktir eru frá kl. 8.00 til 16.00, kvöldvaktir frá kl. 15.30 til 23.30 og næturvaktir frá kl. 23.15 til 8.00.  Þetta veldur því að heilbrigðisstarfsfólk er mun lengur að komast til og frá vinnu en ella.  Í dag þarf starfsfólk sjúkrahússins sem býr í efri byggðum borgarinnar að leggja af stað á bilinu 7.15-7.30 til að vera öruggt um að vera mætt til vinnu kl. 8.00.  Það hefur ekki möguleika á því að byrja að vinna fyrr og eyðir þess vegna dýrmætum tíma í að ferðast til og frá vinnu.

Erlendis þekkist að vaktafyrirkomulag á sjúkrahúsum sé með öðrum hætti. Í Noregi er t.d. vaktafyrirkomulag þannig að morgunvaktir eru frá kl. 7.00 til 14.30, kvöldvaktir frá kl. 14.30 til 22.00 og næturvaktir frá kl. 22.00 til 07.00. Með því að breyta vaktafyrirkomulaginu væri unnt að létta álagi á gatnakerfi borgarinnar á álagstímum og auka lífsgæði heilbrigðisstarfsfólks og annarra borgarbúa.

Þessi mál ásamt öðrum voru rædd í Harmageddon í dag. http://www.visir.is/section/media98&fileid=CLP62373

Þegar niðurstaða þessa samtals liggur fyrir, þá væri ráðlegt að eiga sambærilegt samtal við fulltrúa Háskólanna, nemenda og kennara þar með það að markmiðið að laga flæðisvanda í borginni á háannatíma.

Ákvörðun um að breyta vaktafyrirkomulaginu er hins vegar ekki einfalt verkefni og kallar á samtal milli margra aðila.  Góðir hlutir gerast hægt, en ekkert gerist hins vegar nema lagt sé af stað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 12.4.2018 - 20:57 - FB ummæli ()

Af borgarafundi um skólamál

Á undanförnum árum hefur verið unnið frábært starf í Réttarholtsskóla í Reykjavík, fyrst undir forystu Hilmars Hilmarssonar skólastjóra og síðan Jóns Péturs Zimsen sem tók við af honum. Á borgarafundi um skólamál, sem fram fór í kvöld, gagnrýndi Jón Pétur skólayfirvöld í Reykjavík og benti á tregðu þeirra til að líta til niðurstaðna PISA-kannana.  Kvaðst Jón Pétur hafa þurft að ýta á að borgin aflaði upplýsinga um niðurstöðurnar og hafa sjálfur þurft að fara til Menntamálastofnunar. Svar Skúla Helgasonar, formanns skóla- og frístundaráðs borgarinnar, var að þetta væri „misskilningur“ hjá Jóni Pétri.

 

Jón Pétur benti á að niðurstöðurnar væru nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til að þeir geti áttað sig á því hvað er gert vel og hvað má gera betur.  Í stefnu Reykjavíkurborgar í menntamálum væri því miður rætt um niðurstöður PISA-kannana eins og „dægurmál“.  Viðbrögð Skúla voru að fara í vörn.

 

Það er alkunna að Jón Pétur nýtur mikillar virðingar meðal skólastjórnenda, kennara og foreldra.  Það er dapurlegt þegar formaður skóla- og frístundaráðs svarar málefnalegri gagnrýni skólastjórans líkt og hann sé á framboðsfundi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur