Þriðjudagur 19.5.2015 - 23:09 - FB ummæli ()

Hver laug?

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar og varaformaður Strætó bs. sagði í ræðustól í borgarstjórn þann 20. janúar síðastliðinn þegar málefni ferðaþjónustu fatlaðra voru til umræðu:

Öllum sem sagt var upp í þjónustuveri ferðaþjónustunnar var boðið starf hjá Strætó og það er ekki rétt sem kom fram í fjölmiðlum að ekki hafi verið í boði að taka hálft starf. Ég hef fengið það staðfest að það var í boði”

En nú liggur fyrir að sú staðfesting var ekki rétt.  Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar segir orðrétt á bls. 42
“Starfsfólk þjónustuversins spurði hvort ekki væri hægt að flytja þau til í starfi en því var neitað. Eftirá fengu þau þá skýringu að Strætó hefði orðið að segja þeim upp svo starfsfólk annarra þjónustuvera hefði sömu möguleika á að sækja um vinnu. Einnig spurðu þau ítrekað hvort þau ættu möguleika á hlutastarfi eftir breytingar og því var neitað, þrátt fyrir að viðkomandi stjórnanda væri fullkunnugt um að þau gætu ekki, fötlunar sinnar vegna, sinnt fullu starfi.”

Spurningin sem situr eftir er hver laug að varaformanni stjórnar Strætó bs um að þeim fötluðum einstaklingum sem hafði verið sagt upp, hefði verið boðin áframhaldandi vinna og í lægra starfshlutfalli en 100%?

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , ,

Þriðjudagur 19.5.2015 - 10:56 - FB ummæli ()

Áfellisdómur yfir verkum kjörinna fulltrúa.

Í skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um ferðaþjónustu fatlaðra sem birt var í gær segir skýrt að kjörnir fulltrúar hafi ekki staðið vaktina með spurningum á vettvangi fagráða um framgang verkefnisins. Jafnframt segir að eftirlit velferðarráða og velferðarsviða sveitarfélaganna á innleiðingartímanum hafi brugðist að mati endurskoðunarinnar. Frétt RÚV

Þetta er áfellisdómur yfir verkum kjörinna fulltrúa.

Núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur, fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata eru örugglega algerlega ósammála þessari staðhæfingu minni.  Þeir telja það einfaldlega ekki sína ábyrgð að hafa afskipti af einstaka verkefnum Strætó bs. Sú afstaða þeirra kom bersýnilega fram í bókun sem þeir gerðu í borgarráði þegar þeir sögðust ekki sjá hvernig afskipti af ráðningarsamningi (í þessu tilviki fyrrverandi framkvæmdastjóra) geti verið hluti af verkefnum borgarráðs og að málið sé alfarið í höndum Strætó bs. 28. liður í fundargerð borgarráðs

Þannig lítur meirihlutinn á þetta, fríar sig ábyrgð og telur að verkefni fagráðanna, þar með talið borgarráðs, (sem er í raun framkvæmdastjórn sveitafélagsins) ,sé ekki að hlutast til um eða hafa afskipti af einstökum verkefnum stjórnar Strætó bs.  Alls ekki spyrja spurninga, alls ekki óþægilegra spurninga, ekki koma með tillögur. Ekki benda á mig.

Framsókn og flugvallarvinir líta einfaldlega svo á, að það séu engin málefni undanþegin afskiptum borgarráðs. Því geta kjörnir fulltrúar einfaldlega beint tilmælum til stjórna byggðasamlaga og dótturfélaga um “ad hoc málefni” er varða stjórnsýslu og stjórnun, enda ber borgarráð skv. 35. gr. sveitastjórnarlaga, ábyrgð á stjórnsýslu sveitarfélagsins í rúmum skilningi þess hugtaks.  Þessi afstaða okkar kom skýrt fram í bókun í borgarráði í haust. 28. liður í bókun borgarráðs

Í ljósi alls þessa er rétt að benda á að enn er óafgreidd tillaga Framsóknar og flugvallarvina í borgararráði frá 12. febrúar 2015 um að Reykjavíkurborg skipti út sínum stjórnarmanni og varamanni hans úr byggðasamlaginu.  37. liður fundargerðar borgarráðs

Svona er stjórnsýslan í Reykjavíkurborg í dag.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.12.2014 - 20:49 - FB ummæli ()

Lóðaskortur í Reykjavíkurborg

Þann 9. október, fyrir tveimur mánuðum síðan, lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram eftirfarandi fyrirspurn í borgarráði:

“Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Upplýsinga er óskað um hvaða lóðir eru í eigu Reykjavíkurborgar vestan Elliðaáa, sem eru byggingarhæfar nú, eða á næstu 6 mánuðum, sem ekki hefur verið ráðstafað til byggingaraðila.”, sbr. fundargerð 9. okt. 2014

Þessarri fyrirspurn hefur ekki ennþá verið svarað, en samt hefur nú verið samþykkt í borgarráði viljayfirlýsingar á milli a) borgarinnar og Búseta, (fundargerð 4. des 2014.) b)borgarinnar og Félagsstofunar stúdenta og borgarinnar og c) Byggingarfélagsnámsmanna fundargerð 27. nóv 2014. um úthlutun á ákveðnum lóðum í eigu borgarinnar til þessarra aðila.

Gagnrýnt hefur verið að jafnræðis sé ekki gætt í “velviljuðum” lóðarúthlutunum til eins húsnæðissamvinnufélags umfram önnur, sbr. bókanir Framsóknar og flugallarvina við afgreiðslu viljayfirlýsinganna þann 4. desember 2014.

Ef fleiri húsnæðissamvinnufélög fara þess á leit við borgina, að fá vilyrði fyrir lóðum, hvaða lóðir verða þeim þá boðnar? Miðað við þögnina sem ríkir vegna þessarar fyrirspurnar hlýtur staðan að vera sú að borgin á engar lóðir á þessu svæði til úthlutunar.

Er þetta réttláta samfélagið sem við viljum byggja upp, þegar einu félagi er hyglt á kostnað annarra?

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , ,

Föstudagur 28.11.2014 - 14:37 - FB ummæli ()

Brestir í meirihlutasamstarfinu?

Það hefur óneitanlega vakið athygli mína að borgarfulltrúar meirihlutans hafa ávallt kosið eftir línunni og hvergi hefur mátt sjá nokkra misbresti í atkvæðagreiðslunum.  Foringjanum hefur verið hlýtt í hvívetna.  Nú brást foringjanum hins vegar að halda hjörð sinni saman, því þau undur og stórmerki gerðust í umhverfis- og skipulagsráði á miðvikudaginn sl, sbr. þessa fundargerð: Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. nóvember 2014, að fulltrúi Vinstri grænna neitaði að dansa með og greiddi einn atkvæði gegn tillögu Korputorgs ehf. um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Blikastaðaveg 2-8 um byggingarreit fyrir sjálfsafgreiðslu eldsneytisstöðvar á lóðinni.

Það var greinilega nauðsynlegt að meirihlutinn tæki bæði Pírata og Vinstri græna með sér um borð.

 

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , ,

Mánudagur 10.11.2014 - 22:10 - FB ummæli ()

Stjórn Strætó bs.

Í 5. gr. stofnsamnings um Strætó bs.(byggðasamlag) sem undirritaður var og samþykktur þann 7. maí 2001, kemur fram að formaður stjórnar skuli vera fulltrúi fjölmennasta sveitafélagsins. Það er engum blöðum um það að flétta að Reykjavík er fjölmennasta sveitafélagið sem að samningnum stendur.

Kristín Soffía Jónsdóttir úr Samfylkingunni f.h. Reykjavíkur, á samkvæmt ofanrituðu að vera formaður stjórnar Strætó bs, en í tilkynningu til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra dagsettri 9. júlí 2014 kemur fram að Bryndís Haraldsdóttir úr Mosfellsbæ, Sjálfstæðisflokki, sé formaður stjórnar.
Slíkt er andstætt lögum félagsins.

Er þetta samkomulag Samfylkingar og Sjálfstæðismanna í sveitastjórnum á höfuðborgarsvæðinu?

Hvernig fær þetta staðist?

Ekki er óeðlilegt að spurt sé hvort að öll stjórn byggðasamlagsins Strætó sé í molum, ef þeim tekst ekki einu sinni að skipa stjórnina lögum samkvæmt.

Uppfært:
http://ssh.is/images/stories/Byggdasamlog/Eigendastefna%20Strætó_til%20undirritunar.pdf

1.  Ekki hefur verið breytt samþykktum byggðasamlagsins, þrátt fyrir að eigendastefna hafi verið sett fram árið 2013.

2.  Stjórn strætó bs. óskaði eftir því 5. júlí 2010 að sem fyrst yrði hugað að breytingum á stofnsamþykktum byggðasamlagsins á vettvangi SSH, þar sem tekið verði á verkaskiptingu og samstarfi sveitafélaga innan Strætó bs. til framtíðar.  Þeirri vinnu átti að ljúka innan árs, sbr. http://www.straeto.is/um-straeto/fundargerdir/nr/415

3.  Þann 20. janúar 2011 var lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, frá 13. janúar 2011, þar sem borgarráð samþykkti að skipa að nýju þverpólitískan starfshóp borgarfulltrúa til að halda utan um stefnu og áherslur Reykjavíkurborgar í endurskoðun eigenda á eigendasamkomulaginu og stofnsamþykkt Strætó bs.
Var tillagan samþykkt en skipan í starfshópin frestað, sbr.

http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-725?_ga=1.105963008.281546579.1415623255

4.  Árið 2013 er síðan sett fram eigendastefna Strætó bs., en þar eru engar breytingar gerðar á því hvernig formaður stjórnar skuli skipaður.

5.  Það sem kemur fram á heimasíðu straeto.is er einfaldlega rangt miðað við öll fyrirliggjandi gögn, sem hægt er að nálgast hjá fyrirtækjaskrár RSK og skv. fundargerðum Strætó bs., borgarráðs, borgarstjórnar og SSH.

 

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Laugardagur 8.11.2014 - 21:55 - FB ummæli ()

Samfylkingarforystan þögnuð?

Frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík talar niður til þess hluta þjóðarinnar sem býr ekki á höfuðborgarsvæðinu. Frambjóðandinn talar um frekjuna í hyskinu af landsbyggðinni. Þetta hyski heimti að fá að stjórna nærumhverfi þeirra sem búi á höfuðborgarsvæðinu.

Hverju svarar forysta Samfylkingarinnar þegar svona er talað til kjósenda hennar á landsbyggðinni?

Er forystan sammála frambjóðandanum?

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Föstudagur 7.11.2014 - 18:05 - FB ummæli ()

Framsókn og flugvöllurinn – flokkurinn minn

Ég er stolt af því að tilheyra einum elsta stjórnmálaflokki Íslands, að vinna með fólki sem er málsvari allskonar radda í öllu þjóðfélaginu, í öllum landshlutum. Fólki sem er víðsýnt og leggur áherslu á blandað hagkerfi einkareksturs, samvinnureksturs og opinbers reksturs á sem skynsamlegstan máta, því það trúir því að slík hugsun tryggi hagsæld í landinu.

Í ályktun flokksþings Framsóknarmanna frá því í febrúar 2013, er skýrt tekið á afstöðu okkar í flugvallarmálinu, en þar segir:

“Flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.”

 Flugvöllurinn, sem stefnumál okkar Framsóknarmanna er ekki nýtilfundið. Framsóknarmenn eru algerlega sammála um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar og hefur aldrei verið ágreiningur uppi í starfi flokksins um mikilvægi hans eða ályktanir tengdar honum.
Ályktanir flokksþings Framsóknar 2013 (bls. 23)

Það var því sérstakt gleðiefni að í síðustu borgarstjórnarkosningum skyldi Framsóknarflokkurinn bjóða fram líka sem flugvallarvinir, því þannig styrktum við ennfrekar vilja grasrótar Framsóknarflokksins.

Andstæðingar okkar reyndu að telja kjósendum trú um að flugvöllurinn væri ekki kosningamál. Líklega gráta það margir núna að hafa tekið það trúanlegt og nudda nú rykagnirar úr augum sér því augljóslega sjá þeir nú hversu einbeittur, Framsóknarflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur og  á Alþingi, er í að fylgja okkar málum eftir, en svæfum þau ekki í nefndum og skýrslugerðum ár eftir ár.

Þannig að við þá, sem væna okkur um vinsældarkeppni um almannahylli í flugvallarmálinu, segi ég að líta sér nær.

 

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 4.11.2014 - 17:49 - FB ummæli ()

Snúinn bransi

Í borgarstjórn gleðst formaður borgarráðs, S. Björn Blöndal, yfir hækkandi fasteignaverði í Reykjavík og  segir að kaup og sala fasteigna sé snúinn bransi.  Einhverjir kunna að taka undir með honum.  Mér hefur reyndar fundist formaður borgarráðs hafa átt frekar auðvelt með að átta sig á hlutunum og því er miður að þessi tegund viðskipta vefjist fyrir honum.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að nýr meirihluti tók við völdum hafa þónokkur mál komið inn á borð borgarráðs, þar sem fjallað er um ráðstöfun eigna Reykjavíkurborgar.  Í flestum tilvikum er verið að selja eignir til að fá peninga í kassann, vonandi til að takast á við grunnþjónustu þá sem sveitarfélaginu, höfuðborginni er ætlað að sinna, velferðarþjónustu og skólamál, en ekki til að reka endalausar skemmtanir fyrir borgarbúa, þrátt fyrir að eflaust finnist mörgum stuð í skemmtilegheitunum. En það kemur að skuldadögum.

Ekki er aðeins verið að selja fasteignir borgarinnar, heldur er verið að falla frá forkaupsrétti á fasteignum og gera leigusamninga þar sem þarf að ákveða leiguverð.

Það veldur furðu, þó ekki sé dýpra í árinni tekið, hvernig staðið er að viðskiptum með fasteignir á vegum borgarinnar og er ljóst að mikilvægt er að setja samræmdar og gagnsæjar verklagsreglur hið allra fyrsta til að borgarbúar þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um að hæsta verð og bestu greiðsuskilmálar séu hverju sinni í viðskiptunum. Tillögu um það hafa framsókn og flugvallavinir lagt fram.

Fyrsta dæmið er sala á 3 fasteignum í útleigu 800 fm, auk byggingarmagns sem er um 900 fm á besta stað í bænum.  Ákveðið er að fá verðmöt, frá tveimur fasteignasölum.  Á þeim var tæplega 20% munur, sem flestir myndu telja ósættanlega mun þegar ráðstafa ætti eign.  Á þessum verðmötum var rúmlega 80 milljón króna munur og hefðu dugað sem eigið fé í 40 íbúðir sem Félagsbústaðir gætu keypt ef meðalverðið er 20.000.000.- miðað við 90% lán og 10% eigið fé.

Ákveðið var að Reykjavíkurborg myndi óska eftir tilboðum.  Tilboð bárust, en hæsta þótti of lágt.  Ákveðið að láta sömu fasteignasala og gert höfðu verðmötin selja fasteignirnar.  Þá kom tilboð sem var 100.000.000.- hærra heldur en hæsta tilboðið sem hafði borist mánuði áður.  Ekki var gert gagntilboð af hálfu borgarinnar.  Eignirnar voru ekki auglýstar hjá fasteignasölunum sem höfðu þær í sölumeðferð, samt reyndi formaður borgarráðs að telja borgarfulltrúm trú um að það að verðmötin sem lægju fyrir hefðu ekki verið ákvörðunarverð um kaupin, heldur hefði markaðurinn ráðið verðinu.  Til þess að eðlileg verðmyndun sé á markaðnum verða leikmenn á honum að vita að eign er til sölu, þ.e.a.s. opið sölu- og tilboðsferli.  Borgarstjóri sagði reyndar bæði í ræðustól og í sjónvarpinu að söluverðið hefði verið nálægt fyrirliggjandi verðmötum.  Það sem láðist að nefna var að verðmötin voru 15 mánaða gömul.  Fróðleg verður að vita á hvaða verði þessi fasteign fer: http://fasteignir.visir.is/property/132367

Vert er að geta þessa að Íbúðalánasjóður telur 6 mánaða gömul verðmöt vera of gömul til að geta lagt þau til grundvallar, í ljósi mikillar hækkunar fasteignaverðs á árinu 2014.  Einmitt.

Þá skrifar hótelrekandi Reykjavíkurborg og óskar eftir að fá kaupa eign.  Þá fer borgin í að afla tveggja verðmata, sem enn og aftur munar 20% á.  Þá er fundið út meðaltal þeirra tveggja og hótelrekandanum sagt verðið og síðan í framhaldinu er gengið frá kauptilboði og það lagt fyrir borgarráð.  Það er hreint með ólíkindum að hótelrekandanum sé ekki sagt að gera tilboð og í framhaldinu gæti borgin aflað verðmata til að sjá hversu nálægt eða ekki framkomið tilboð er þeim verðhugmyndum sem borgin er með.  Í framhaldinu myndi borgin gera gagntilboð til að hámárka verðið.

Vera kann að þörf sé á tónlistarmenntuðum einstaklingum í borgarstjórn, einn slíkur vinnur við fasteignafjárfestingar hjá fjárfestingarsjóði og virðist honum fara það verk vel úr hendi. Kannski væri hægt að fá hann í “sér-verkefni”.

 

En að öllu gamni slepptu þá eru þetta óásættanleg vinnubrögð og verður að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur.

 

 

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , ,

Sunnudagur 28.9.2014 - 15:15 - FB ummæli ()

Dagur byggir í Bryggjuhverfinu

Nú hefur verið samþykkt af borgarráði að setja í auglýsingu deiliskipulag fyrir nýjan hluta af Bryggjuhverfinu.  http://reykjavik.is/frettir/annar-afangi-bryggjuhverfis-ad-fara-i-gang

Þar eiga að rísa 185 íbúðir.

Byggingarverktakinn er sá sami og í Stakkholti. http://stakkholt.is.  Þar eru 80 fm íbúðir á yfir 32 milljónir.  Ekki beint ódýrustu íbúðirnar í bænum enda sagði aðeins í stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar fyrir kosningar: „Við ætlum að tryggja að íbúðirnar henti barnafjölskyldum í herbergjafjölda og stærð. „Það var aldrei sagt að barnafjölskyldur hefðu efni á því að kaupa eignirnar.

Ég hef velt því upp og gerði fyrirspurn um það á síðasta borgarráðsfundi, hvort að ekki sé rétt að Félagsbústaðir kaupi strax á teikniborðinu amk 10% af þessum eignum.  Þá myndi þá amk fjölga eignum í eignasafni Félagsbústaða um 18 íbúðir fram til ársins 2017.

Eru það ekki eðlileg viðskipti?

Meirihlutinn er að hverfa frá fyrra deiliskipulagi sem kvað á um stórar og fáar íbúðir og verktakanum er gefið færi á því nú að hafa ibúðirnar fleiri og smærri og mun seljanlegri, amk eins og fasteignamarkaðurinn er í dag.  Er þá nokkuð óeðlilegt að samfara því að unnið er að því að gera hlutina þægilegri fyrir verktakann og arðsamari og Félagsbústöðum séu tryggðar íbúðir.

Ef þetta er ekki gert, hvernig ætlar Dagur og meirihlutinn að saxa niður biðlista 850 fjölskyldna eftir íbúðum?

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 13.9.2014 - 16:54 - FB ummæli ()

Íbúa(ó)lýðræði

Ég man vel þegar ég vandi komur mínar í Miðtúnið hér í borg á árum áður og húsráðandi sagði mér í hvert skipti frá fyrirhugðum breytingum á byggðinni í kring og þá sérstaklega Borgartúninu.  Ekki náði ímyndunarafl mitt að mynda í huganum þá ásýnd sem nú er á þessu svæði.  Byggingar í Borgartúni, Sóltúni og Mánatúni hafa risið upp að ógleymdu Höfðatorgi.  Svæðið hýsir í dag mörg af stærstu fyrirtækum borgarinnar, stofnanir, verslanir, þjónustu og íbúðir.  Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu eftirsótt þetta svæði er orðið.

Samstarfssáttmáli meirihlutans hefur að geyma fallegar yfirlýsingar um aukið gagnsæi og íbúalýðræði, sem eigi að auka traust (á meirihlutanum), bæta upplýsingagjöf og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku.  En yfirlýsingar hafa ekkert að segja ef ekki fylgja þeim efndir.

Breyta á deiliskipulagi fyrir Borgartún 28 og 28a.  Þegar það var auglýst bárust fjölmargar athugasemdir frá nágrönnum m.a. úr Borgartúni og Sóltúni.

Þarna hefði verið kjörið tækifæri fyrir nýjan meirihluta að staðfesta í verki yfirlýsingar sínar þess efnis að þeir vilji hlusta á fólkið í borginni.  En það var ekki alveg svo og því fór að Framsókn og flugvallarvinir auk Sjálfstæðismanna lögðu til að umhverfis – og skipulagssvið myndi halda opinn upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinga á deiliskipulagi á lóðinni og það deiliskipulag yrði ekki afgreitt fyrr en að loknum þeim fundi.  Þeirri tillögu var hafnað og ákvörðunin um afgreiðslu deiliskipulagsins samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði og hjá borgarráði.

Slíkar afgreiðslur verða ekki túlkaðar með öðru hætti en þeim að meirihlutinn vilji ekki halda upplýsinga- og samráðsfundi.  Þá er tekin ákvörðun þar sem virt er að vettugi vilji nágrannanna, íbúanna í borginni. Slík vinnubrögð ganga í berhögg við fagurlega orðaðar yfirlýsingar samstarfssáttmála meirihlutans.

Þar sem ágreiningur var um málið í borgarrráði, þá fer það fyrir borgarstjórnarfund á þriðjudaginn 16. september og það verður áhugavert hvort að meirihlutinn sé tilbúinn til að þess að hverfa frá fyrri stjórnunarháttum, snúa við blaðinu og raunverulega fara að hlusta á íbúa borgarinnar.

Góða helgi.

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur