Sunnudagur 07.10.2018 - 22:05 - Rita ummæli

ÞRJÚ, FIMM, SJÖ, NÍU, OG ELLEFU…

Eldri bróðir minn starfaði á sínum yngri árum meðal annars sem dyravörður í Regnboganum sem var kvikmyndahús og er nú þar sem Bíó Paradís er til húsa. Dyraverðir í kvikmyndahúsum voru reffilegir menn, jafnvel sumir í júníformi. Þeir tóku afrifu miðana og vísuðu fólki til sætis. Þeir höfðu vasaljós til að lýsa yfir salinn í leit að lausum sætum fyrir þá sem komu of seint, sýningin hafin, og tróðu sér svo meðfram sætaröðinni. Var það gjarnan mikil truflun og fengu þeir kvikmyndagestir illt auga frá öðrum gestum sýningarinnar.

Gjarnan um helgar þótti mér gaman að hjálpa til við gæsluna og stóð stoltur í anddyrinu og fylgdist með bróður mínum vinna verk sitt með miklum sóma og af ábyrgð. Eitthvað var um að krakkagrey reyndu að fara á kvikmyndir sem bannaðar voru yngri en 16. ára. Man ég eftir einum ólátabelg úr hverfinu mínu reyna það en bróðir minn stöðvaði hann. Er ekki laust við að hlakkað hafi í mér að sjá hann stara á mig með mikilli öfund – hinumegin við gluggann og í öruggum höndum dyravarðarins.

Ég var svo heppinn þegar bróðir minn var í hurðinni, að fara á alla sýningartíma dagsins – þrjú, fimm, sjö, níu, og ellefu. Fékk ég nóg af poppkorni og gosdrykki. Ég var greifi í sölum Regnbogans. Þegar leið á kvöldið fór ég heim með bróður mínum, sæll og uppfullur af poppkorni. Í einhver skipti fengu mínir bestu vinir að upplifa þennan einstaka munað og forréttindi. Fréttist það fljótt og þótti mikið. Ólátabelgurinn komst svo að því einnig og framvegis hnussaði hann til mín er við mættust, eða þar til hann varð sextán ára.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar